Skattalagasafn ríkisskattstjóra 3.12.2024 16:59:16

Reglugerð nr. 851/2002, kafli 1 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=851.2002.1)
Ξ Valmynd

I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.
Markmið.

     Markmið reglugerðar þessarar er að veita almenningi, félagasamtökum og stjórnvöldum upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í starfsemi sem haft getur í för með sér mengun. Ennfremur er það markmið reglugerðarinnar að hvetja rekstraraðila til að fylgjast vel með helstu umhverfisþáttum starfseminnar og leitast við að tryggja að þróun starfseminnar sé jákvæð fyrir umhverfið.
 

2. gr.
Gildissvið.

     Reglugerð þessi gildir um færslu græns bókhalds og skýrslur um grænt bókhald fyrir starfsleyfisskylda starfsemi sem tilgreind er á lista í viðauka með reglugerð þessari.
 

3. gr.
Skilgreiningar.

     Í reglugerð þessari merkir:
Grænt bókhald: Efnisbókhald þar sem fram koma upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi, aðallega í formi tölulegra upplýsinga.
Skýrsla um grænt bókhald: Niðurstöður græns bókhalds fyrir hvert bókhaldstímabil þess.
Útgefandi starfsleyfis: Heilbrigðisnefnd eða Umhverfisstofnun.
Hráefni: Allt efni, bæði lífrænt og ólífrænt, sem notað er við framleiðslu varnings eða frekari vinnslu á afurðum úr náttúrunni.
Úrgangur: Efni hvort sem það er í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og er losað frá starfsleyfisskyldu fyrirtæki.
Spilliefni: Úrgangur sem merktur er með stjörnu * í I. viðauka með reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang og einnig annar úrgangur sem hefur einn eða fleiri eiginleika sem tilteknir eru í III. viðauka með tilvitnaðri reglugerð.
Viðtaki: Svæði sem tekur við mengun og þynnir hana eða eyðir.
Viðurkennd umhverfisstjórnunarkerfi: Vottuð umhverfismálakerfi ESB (EMAS) eða ISO 14001.
 

4. gr.
Bókhaldsaðilar.

(1) Færa skal grænt bókhald fyrir atvinnustarfsemi sem háð er starfsleyfi samkvæmt 5. gr. a laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum og nánar greinir í fylgiskjali með reglugerð þessari.

(2) Þeir aðilar sem tilgreindir eru á fylgiskjali með reglugerð þessari, en reka atvinnustarfsemi sem er minni að umfangi en þar greinir er heimilt að skila útgefanda starfsleyfis skýrslu um grænt bókhald og óska eftir birtingu þess. Um slíkar skýrslur fer samkvæmt reglugerð þessari.
 

5. gr.
Framkvæmd.

(1) Umhverfisstofnun annast framkvæmd reglugerðar þessarar. Umhverfisstofnun annast gerð skriflegra leiðbeininga um færslu græns bókhalds í samvinnu við hagsmunaaðila og skal veita upplýsingar til almennings og hagsmunaaðila um grænt bókhald ef óskað er eftir. Ennfremur annast Umhverfisstofnun birtingu skýrslna um grænt bókhald. Birting skýrslna um grænt bókhald felur ekki í sér viðurkenningu Umhverfisstofnunar á þeim upplýsingum sem þar koma fram.

(2) Útgefandi starfsleyfis skal kanna hvort skýrslan um grænt bókhald fullnægi kröfum. sem fram koma í 6.-8. gr.
 

Fara efst á síðuna ⇑