Skattalagasafn ríkisskattstjóra 27.4.2024 02:35:53

Reglugerð nr. 627/2005, kafli 5 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=627.2005.5)
Ξ Valmynd

V. KAFLI
Gjalddagar, álagning og áætlun.

12. gr.

(1) Gjalddagi kílómetragjalds fyrir álestrartímabilið 1. desember til 15. desember er 1. janúar þar á eftir og gjalddagi kílómetragjalds fyrir álestrartímabilið 1. júní til 15. júní er 1. júlí þar á eftir.

(2) Við eigendaskipti ökutækis er gjalddagi og álestrardagur sá sami, sbr. 2. mgr. 11. gr.

(3) Eindagar skattsins eru 15. febrúar og 15. ágúst.
 

13. gr.

(1) Ríkisskattstjóri ákvarðar að loknu hverju álestrartímabili kílómetragjald ökutækja, sem færð hafa verið til álestrar, vegna aksturs þeirra frá síðasta álestrartímabili þar á undan til álestrardags. Ríkisskattstjóri skal jafnframt, sé lesið af ökumæli ökutækis utan álestrartímabils, ákvarða kílómetragjald vegna aksturs frá síðasta álestri til álestrardags.

(2) Ef eigandi eða umráðamaður ökutækis lætur ekki lesa af ökumæli þess á álestrartímabili, skal ríkisskattstjóri áætla kílómetragjald. Áætlun skal svara til þess að ökutækinu hafi verið ekið 8.000 km á mánuði, nema fyrirliggjandi gögn bendi til þess að akstur kunni að hafa verið meiri. Ríkisskattstjóri skal tilkynna innheimtumanni og gjaldanda um áætlanir sem gerðar hafa verið. Komi eigandi eða umráðamaður með ökutæki til álestrar utan álestrartímabils skal álestur tekinn sem kæra og sendur ríkisskattstjóra til ákvörðunar. Komi eigandi eða umráðamaður, sem sætt hefur áætlun á fyrri gjaldtímabilum, með ökutæki til álestrar á álestrartímabili tímabils sem ekki hefur verið áætlað fyrir, skal álagning miðast við að allur aksturinn hafi átt sér stað á því.
 

14. gr.

(1) Komi í ljós eftir ákvörðun kílómetragjalds að ökutæki hafi heimildarlaust verið í umferð án þess að vera búið ökumæli, akstur hafi verið ranglega færður eða ekki færður í akstursbók, ökumælir hafi verið óvirkur, innsigli verið rofið eða mælir talið of lítið, eða telji ríkisskattstjóri að öðru leyti að kílómetragjald hafi ekki verið réttilega ákvarðað skal hann tilkynna eiganda eða umráðamanni ökutækisins skriflega um fyrirhugaða endurákvörðun vegna vantalins aksturs og skora á hann að láta í té skýringar og gögn innan a.m.k. 15 daga. Berist ríkisskattstjóra fullnægjandi skýringar eða gögn innan þess tíma endurákvarðar hann skatt á grundvelli fyrirliggjandi gagna, en að öðrum kosti endurákvarðar hann skatt skv. 2. mgr.

(2) Endurákvörðun vegna vantalins aksturs skal miðast við 2.000 km akstur fyrir hverja byrjaða viku sem talið verður að akstur hafi verið vantalinn, nema fyrirliggjandi gögn bendi til þess að akstur kunni að hafa verið meiri. Ríkisskattstjóri skal að jafnaði innan tveggja mánaða frá lokum þess frests sem hann hefur veitt aðila til að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðunina og tilkynna hana í ábyrgðarbréfi.

(3) Verði talið að akstur á því tímabili sem endurákvörðun nær til hafi að einhverju leyti komið fram á kílómetrastöðu ökumælis skal sá akstur koma til frádráttar við endurákvörðun.
 

15. gr.

(1) Berist ríkisskattstjóra tilkynning eftirlitsmanna um að heildarþyngd ökutækis með farmi hafi mælst vera meiri en sem nemur gjaldþyngd þess, skal hann tilkynna eiganda eða umráðamanni ökutækisins skriflega um fyrirhugaða endurákvörðun vegna vanreiknaðrar gjaldþyngdar og skora á hann að láta í té skýringar og gögn innan a.m.k. fimmtán daga. Berist ríkisskattstjóra ekki fullnægjandi skýringar eða gögn eiganda eða umráðamanns innan tilskilins frests, endurákvarðar ríkisskattstjóri skatt vegna vanreiknaðrar gjaldþyngdar.

(2) Endurákvörðun vegna of lágrar gjaldþyngdar, sbr. 1. mgr., skal nema sem svarar til mismunar á kílómetragjaldi gjaldþyngdar og þeirrar þyngdar er mælist við eftirlit. Endurákvörðun skal ná til alls aksturs ökutækisins á síðustu sextíu dögum áður en mæling fer fram.

(3) Hafi gjaldþyngd ökutækis verið rangt skráð í álestrarskrá ökutækja er heimilt að endurákvarða þungaskatt miðað við rétta gjaldþyngd vegna aksturs ökutækisins frá því er gjaldþyngd var skráð.
 

16. gr.

     Heimild til endurákvörðunar skatts skv. 14. og 15. gr. nær til kílómetragjalds síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári er endurákvörðun fer fram. Verði skattskyldum aðila eigi um það kennt að kílómetragjald var vanálagt og/eða hafi hann látið í té við álagningu eða álestur fullnægjandi upplýsingar og/eða gögn sem byggja mátti rétta álagningu á, er þó eigi heimilt að endurákvarða honum skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram á.
 

Fara efst á síðuna ⇑