Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 17:32:14

Reglugerð nr. 391/1998 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=391.1998)
Ξ Valmynd

Úr reglugerð
nr. 391/1998, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.*1)

*1)Sbr. reglugerðir nr. 742/1998 og 224/2001. 
 

I. KAFLI
Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til allra lífeyrissjóða eins og nánar er kveðið á um í reglugerð þessari og tekur til þeirra þátta í starfsemi þeirra sem fjallað er um í reglugerðinni. 

2. gr.
Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:

Lífeyrissjóður: Félag eða stofnun sem veitir viðtöku iðgjaldi til greiðslu lífeyris vegna elli til æviloka, örorku eða andláts samkvæmt nánari ákvæðum í I., II. og III. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og hefur starfsleyfi samkvæmt þeim lögum, starfar samkvæmt staðfestri reglugerð, sbr. lög nr. 55/1980, um starfskjör launþega og skyldutryggingu lífeyrisréttinda eða starfar samkvæmt sérlögum.

Sjóðfélagi: Einstaklingur sem greitt er fyrir, greiðir eða hefur greitt iðgjald til lífeyrissjóðs og á hjá honum réttindi.

Lágmarksiðgjald: Iðgjald sem nemur a.m.k. 10% af iðgjaldsstofni*1), sbr. 5. gr.

Skyldutrygging lífeyrisréttinda: Sú skylda að eiga aðild að lífeyrissjóði og til greiðslu iðgjalds til lífeyrissjóðs og eftir atvikum annarra aðila samkvæmt samningi um viðbótartrygginga¬vernd.

Lágmarkstryggingavernd: Sú tryggingavernd sem lífeyrissjóður veitir samkvæmt lögum eða samþykktum sínum miðað við 40 ára inngreiðslutíma iðgjalds.

Viðbótartryggingavernd: Sú tryggingavernd sem er umfram þá lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður skilgreinir og greitt er fyrir með greiðslu framlaga samkvæmt sérstökum samningi við þá aðila sem tilgreindir eru í 1.- 4. tölul. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.

*1)Með 3. gr. laga nr. 167/2006 var bætt við lög nr. 129/1997 ákvæði til bráðabirgða er hljóðar svo: ,,Nú er í gildandi kjarasamningi kveðið á um að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skuli vera 10% og skal þá heimilt að miða áfram við hlutafallstöluna 10% í 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laga þessara þar til nýr kjarasamningur öðlast gildi.”

II. KAFLI
Um skyldutryggingu, iðgjald og tryggingavernd.

3. gr.
Aðild að lífeyrissjóði.

(1) Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs.

(2) Um aðild að lífeyrissjóði fer eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein eða sérlögum ef við á. Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs eða séu ráðningarbundin starfskjör ekki byggð á kjarasamningi, velur viðkomandi sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa. Tiltaka skal aðild í skriflegum ráðningarsamningi.
 

4. gr.
Iðgjald.

Iðgjald til lífeyrissjóðs skal ekki vera lægra en 10% af iðgjaldsstofni*1) sbr. 5. gr. Heimilt er að hafa iðgjaldið hærra enda sé kveðið á um hærra iðgjald í sérlögum eða samið um það í kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti.

*1)Sjá 1. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
 

5. gr.
Iðgjaldsstofn.

(1) Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skv. 4. gr. skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu. Stofn til iðgjalds skal vera allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru skv. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1). Til gjaldstofns skal þó ekki telja hlunnindi sem greidd eru í fríðu, svo sem fatnað, fæði og húsnæði, eða greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, t.d. ökutækjastyrki, dagpeninga og fæðispeninga. Enn fremur skal ekki telja til gjaldstofns eftirlaun og lífeyri sem Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóður greiðir, bætur greiddar af Tryggingastofnun ríkisins, slysa- og sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga og bætur tryggingafélaga vegna atvinnutjóns af völdum slysa. Þá skal telja til iðgjaldsstofns atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysis-tryggingar. Iðgjaldsstofn manns vegna vinnu hans við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal vera jafnhár fjárhæð skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), sbr. 59. gr. þeirra laga*2).

(2) Lífeyrisiðgjaldi skal ráðstafa til lágmarkstryggingaverndar og eftir atvikum til viðbótartryggingaverndar.

*1)Nú laga nr. 90/2003, tekjuskatt. *2)Nú 58. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
 

V. KAFLI
Eftirlit með greiðslu lífeyrisiðgjalds.

23. gr.
Almennt.

Ríkisskattstjóri skal hafa með höndum eftirlit með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari. 

24. gr.
Upplýsingaskylda lífeyrissjóða.

(1) Lífeyrissjóðum er skylt, eigi síðar en 15. apríl ár hvert að tekjuári liðnu, að gera ríkisskattstjóra grein fyrir því iðgjaldi sem greitt hefur verið til sjóðsins fyrir hvern sjóðfélaga vegna næstliðins árs. Skal greinargerð vera á sérstakri sundurliðun.

(2) Á sundurliðun skal koma fram nafn sjóðfélaga og launagreiðanda hans, kennitölur, iðgjaldshluti sjóðfélagsins og iðgjaldshluti launagreiðanda hans.

(3) Sundurliðun skal vera í tölvutæku formi á rafrænum segulmiðli eða eftir beinlínusambandi lífeyrissjóðs og ríkisskattstjóra. 

25. gr.
Upplýsingaskylda launagreiðanda.

Launagreiðendur og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, svo og aðrir þeir sem inna af hendi iðgjaldsskyldar greiðslur, skulu, eigi síðar en 28. janúar að tekjuári liðnu, tilgreina á launamiðum, eða á annan hátt er ríkisskattstjóri ákveður, þá fjárhæð sem iðgjöld hvers manns miðuðust við ásamt heildariðgjaldi sem skilað hefur verið til lífeyrissjóðs. 

26. gr.
Upplýsingar á framtölum launamanna.

Hver sá, sem er skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og er framtalsskyldur skv. 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), skal í framtali sínu tilgreina þau iðgjöld til lífeyrissjóða sem hann hefur greitt á árinu og þá lífeyrissjóði sem hann hefur greitt til.

*1)Nú 90. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

27. gr.
Upplýsingar sem ríkisskattstjóri sendir lífeyrissjóðum.

Að tekjuári liðnu, og eigi síðar en 20. september ár hvert, skal ríkisskattstjóri senda hverjum og einum lífeyrissjóði yfirlit vegna vangreiddra iðgjalda þess manns sem er aðili að sjóðnum samkvæmt þeim upplýsingum sem embættið hefur fengið samkvæmt þessari grein. Á yfirlitinu skal koma fram iðgjaldsstofn, iðgjaldatímabil og greitt iðgjald hvers manns og mótframlag launagreiðanda. Sé enginn lífeyrissjóður tilgreindur á framtölum eða skilagreinum launagreiðanda og lífeyrissjóða, skal senda yfirlitið til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda sem skal þá innheimta iðgjaldið. 

[28. gr.]1)
[Hlutverk lífeyrissjóða í innheimtu vangoldinna iðgjalda.

(1) Lífeyrissjóðum ber að innheimta vangoldin iðgjöld vegna sjóðfélaga sinna á grundvelli upplýsinga frá ríkisskattstjóra samkvæmt 27. gr.

(2) Þegar lífeyrissjóði hafa borist upplýsingar frá ríkisskattstjóra um vangoldin iðgjöld skal hann yfirfara þær og tilkynna ríkisskattstjóra, án ástæðulausra tafar, um þá aðila sem sjóðnum er kunnugt um að eigi ekki aðild að sjóðnum.

(3) Ef ríkisskattstjóri hefur ekki upplýsingar um sjóðsaðild þeirra einstaklinga sem lífeyrissjóðir tilkynna um samkvæmt 2. mgr., skal hann senda Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda kröfurnar til innheimtu.]1)

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 224/2001.

[29. gr.]1)
[Framkvæmd innheimtu.

(1) Fyrirkomulag og framkvæmd innheimtu er á ábyrgð viðkomandi lífeyrissjóðs. Honum ber að hefja innheimtu án ástæðulausrar tafar og beita þeim úrræðum sem tæk eru að lögum með hliðsjón af þeim hagsmunum sem í húfi eru og halda innheimtuaðgerðum áfram með eðlilegum hraða til þess að tryggja örugga innheimtu vangoldinna iðgjalda.

(2) Ef almennar innheimtuaðgerðir duga ekki skal lífeyrissjóður leitast við að afla trygginga með fjárnámi hjá greiðsluskyldum aðila eða með öðrum hætti sem tryggir hagsmuni rétthafa. Í þeim tilvikum sem vænta má að trygging standi undir greiðslu vangoldins iðgjalds að hluta eða öllu leyti, skal ganga að tryggingunni ef aðrar leiðir til innheimtu skila ekki árangri. Í þeim tilvikum þegar skuldari vangoldinna iðgjalda er annar en rétthafi skal fara fram á gjaldþrotaskipti skuldara ef ástæða er til að ætla að það muni tryggja hagmuni rétthafa.]1)

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 224/2001.

[30. gr.]1)

(1) [Ríkisskattstjóri skal kalla eftir upplýsingum frá lífeyrissjóðum um framkvæmd innheimtu þeirra iðgjalda sem þeim ber að annast á grundvelli þeirra skráa sem ríkisskattstjóri sendir lífeyrissjóðunum samkvæmt 27. gr. Ríkisskattstjóri getur sett nánari reglur um með hvaða hætti og á hvaða formi upplýsingunum skal skilað. Lífeyrissjóður skal senda ríkisskattstjóra upplýsingarnar innan 10 virkra daga frá því að um þær er beðið.

(2) Ríkisskattstjóri skal senda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um innheimtu lífeyrissjóðanna á vangoldnum iðgjöldum.]1)

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 224/2001.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.

[31. gr.]*1)
Refsingar.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að einu ári, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt.

*1)Leiðir af 1. gr. reglugerðar nr. 224/2001.

Fara efst á síðuna ⇑