Skattalagasafn ríkisskattstjóra 29.3.2024 00:34:12

Reglugerð nr. 283/2005, kafli 5 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=283.2005.5)
Ξ Valmynd

V. KAFLI
Bókhald.

13. gr.
Bókhald.

(1) Leyfishafar sem stunda framleiðslu eða aðvinnslu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., skulu aðgreina í bókhaldi sínu kaup á olíu sem notuð er til framleiðslu eða aðvinnslu gjaldskyldrar olíu, kaup á olíu til annarrar framleiðslu og kaup á olíu sem afhent er öðrum. Jafnframt skulu þeir halda bókhald yfir aðfengna olíu, gjaldskylda sem gjaldfrjálsa, eigin notkun slíkrar olíu og afhendingu hennar. Að auki skulu þeir halda bókhald yfir aðfengið litar- og/eða merkiefni og notkun á því.

(2) Aðrir leyfishafar skulu halda bókhald yfir aðfengna olíu, gjaldskylda sem gjaldfrjálsa, eigin notkun hennar og sölu eða afhendingu. Að auki skulu þeir halda bókhald yfir aðfengið litar- og/eða merkiefni og notkun á því.

(3) Leyfishafar skulu haga bókhaldi sínu þannig að gert sé uppgjör fyrir hverja birgðageymslu fyrir sig, þar sem fram kemur notkun á litunarefni og það magn af litaðri olíu sem framleitt er í hverri birgðageymslu.

(4) Um varðveislu bókhaldsgagna, þar með talinna skýrslna frá prófunarstofu um litaða olíu og litunarbúnað, gilda ákvæði bókhaldslaga.
 

14. gr.
Afhending olíu og uppgjör yfir notkun litarefnis.

(1) Leyfishafar sem afhenda bæði litaða og ólitaða olíu úr tankbíl eins og lýst er í 2. mgr. 9. gr., skulu halda skýrslur yfir afhendingu á litaðri og ólitaðri olíu hvers tankbíls fyrir sig. Skráning skal fara fram á skolun þegar skipt er yfir í afhendingu á ólitaðri olíu frá litaðri olíu og öfugt. Leyfishafar skulu gera sérstakt uppgjör fyrir hvern litunarbúnað sem er í tankbíl, þar sem kemur fram notkun litunarefnis og magn litaðrar olíu, sem er afhent eða framleidd í hverjum litunarbúnaði. Ef afhending á bæði litaðri og ólitaðri olíu á sér stað í gegnum sama dælubúnað, skal haga skýrsluhaldi þannig að skráning fari fram á skolun.

(2) Þegar litun á sér stað með öðrum hætti en með litunarbúnaði frá tankbíl, geta leyfishafar valið um hvort þeir haldi reikninga fyrir hvern geymslustað þar sem litað er, í staðinn fyrir hvern litunarbúnað fyrir sig. Um hver mánaðarmót skal fara fram uppgjör yfir notkun litarefnis og magn framleiddrar litaðrar olíu. Leyfishöfum ber án tafar að tilkynna ríkisskattstjóra ef verulegt misræmi kemur fram í uppgjöri. Heimild þessi til að halda sameiginlegt reikningshald er háð því skilyrði að leyfishafar taki sýni annan hvern mánuð frá hverju litunarbúnaðarkerfi og sendi til rannsóknar hjá löggiltri rannsóknarstofu.

(3) Í lok hvers mánaðar skulu leyfishafar gera uppgjör á notkun á litarefnum og magni litaðrar olíu fyrir hverja birgðageymslu og litunarbúnað í tankbílum. Leyfishöfum ber að tilkynna ríkisskattstjóra ef misræmi kemur fram í uppgjöri, sbr. 3. mgr. 4. gr.
 

15. gr.
Útgáfa reikninga.

(1) Við sölu eða afhendingu olíu skal gefa út sölureikning þar sem eftirfarandi upplýsingar koma fram:

  1. útgáfudagur,
  2. útgáfustaður,
  3. afhendingarstaður ef annar en útgáfustaður,
  4. nafn og kennitala seljanda (birgðasala),
  5. nafn og kennitala kaupanda (móttakanda),
  6. magn, einingarverð og heildarverð gjaldskyldrar olíu.
     

(2) Auk upplýsinganna sem tilgreindar eru í 1. mgr. skal á sölureikningi koma fram hvort olíugjald er lagt á og hver fjárhæð olíugjalds er.

(3) Við litun frá tankbíl skal sölureikningur eða afgreiðsluseðill innihalda upplýsingar um hvaða litunarbúnaður var notaður við litunina.

(4) Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er gjaldskyldum aðilum heimilt að gefa út sölureikning í lok hvers mánaðar vegna afhendingar á olíu til kaupanda sem innt var af hendi frá upphafi til loka þess mánaðar, enda fái kaupandi afgreiðsluseðil í stað reiknings. Á afgreiðsluseðli skal koma fram magn seldrar olíu, bæði litaðrar og ólitaðrar. Seljandi skal varðveita afrit afgreiðsluseðils með viðkomandi sölureikningi.
 

16. gr.

(1) Reikningar skulu færðir með almennu bókhaldi leyfishafa.

(2) Ef ekki er unnt að færa reikninga með almennu bókhaldi skal halda sérstakt bókhald, sem samræmt skal skráningum í almenna bókhaldið.
 

Fara efst á síðuna ⇑