Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 12:15:17

Reglugerð nr. 283/2005, kafli 3 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=283.2005.3)
Ξ Valmynd

III. KAFLI
Leyfi til litunar og samþykkt búnaðar.

6. gr.
Leyfi til litunar.

(1) Þeim einum sem fengið hafa tilskilin leyfi frá ríkisskattstjóra er heimilt að meðhöndla olíu sem gjaldskyld er skv. 3. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., og bæta litar- og merkiefnum í gas- og dísilolíu vegna sölu eða afhendingar án gjalds.

(2) Með umsókn til ríkisskattstjóra, skv. 1. mgr., skal fylgja staðfesting Löggildingarstofu á að búnaður hafi verið viðurkenndur af þar til bærum aðila og uppfylli skilyrði reglugerðar þessarar.

(3) Hafi breytingar eða viðbætur við viðurkenndan búnað áhrif á virkni litunarbúnaðarins skal lýsa þeim í umsókn og þurfa þær að hljóta staðfestingu frá Löggildingarstofu.
 

7. gr.
Kröfur til litunarbúnaðar.

(1) Litunarbúnaður, hvort sem um er að ræða litun frá tankbíl, litun í birgðastöð eða annars konar litun, skal hafa hlotið viðurkenningu frá lögbærum yfirvöldum í því landi þar sem litunarbúnaður er framleiddur. Löggildingarstofa staðfestir að litunarbúnaður hafi hlotið viðurkenningu frá þar til bærum aðila.

(2) Litunarbúnaðurinn skal vera samsettur af blöndunarbúnaði og stýribúnaði, nema ríkisskattstjóri heimili annað vegna sérstakra aðstæðna. Með beiðni um staðfestingu frá Löggildingarstofu, sbr. 6. gr., skal fylgja lýsing á litunarbúnaði. Með beiðni um staðfestingu frá Löggildingarstofu skal jafnframt leggja fram gæðahandbók vegna viðhalds á litunarbúnaðinum þar sem fram kemur hvernig staðið verður að viðhaldi og eftirliti með búnaðinum.
 

8. gr.
Uppsetning og prófun á litunarbúnaði.

     Litunarbúnað skal prófa áður en hann er tekinn í notkun og uppsetning hans skal vottuð af faggiltri prófunarstofu. Á vegum Löggildingarstofu skal litunarbúnaður prófaður með reglulegu millibili, a.m.k. á tveggja ára fresti.
 

9. gr.
Sérreglur um litun frá tankbíl.

(1) Auk ákvæða 7. og 8. gr. gilda eftirfarandi reglur um litun frá tankbíl.

(2) Litunarbúnað á tankbílum skal setja upp í grunnkerfi bifreiðarinnar. Beintengja skal blöndunarbúnaðinn í dælubúnað fyrir litaða olíu, sem þannig sprautar litunarefni í olíuna. Dæla, skynjarar fyrir ventilloka o.fl. skal vera innbyggt í lokað hólf eða rými með dyralæsingu. Ef sami dælubúnaður er notaður til að afhenda bæði litaða og ólitaða olíu er skylt að koma á fót kerfi sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 11. gr.
 

10. gr.
Aðgengi að litunarbúnaði.

(1) Eingöngu má veita ábyrgum starfsmanni leyfishafa sem ekki vinnur við afhendingu á olíu, aðgang að stýrikerfi litunarbúnaðarins.

(2) Stýrikerfi litunarbúnaðar skal innsigla. Ríkisskattstjóri setur reglur um innsiglun á stýrikerfi litunarbúnaðar.
 

Fara efst á síðuna ⇑