Skattalagasafn ríkisskattstjóra 3.12.2024 17:42:46

Reglugerð nr. 1124/2005, kafli 5 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=1124.2005.5)
Ξ Valmynd

V. KAFLI
Úrvinnslugjald á ökutæki.

12. gr.
Úrvinnslugjald á ökutæki.

(1) Skráður eigandi gjaldskylds ökutækis skal á hverju gjaldtímabili greiða úrvinnslugjald fyrir hvert gjaldskylt ökutæki sitt skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Gjalddagar úrvinnslugjalds eru 1. janúar ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. janúar – 30. júní og 1. júlí ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. júlí – 31. desember. Gjaldið skal innheimt með bifreiðagjaldi og fer um greiðsluskyldu, gjalddaga, eindaga, álagningu, innheimtu gjaldsins og kæruheimild samkvæmt lögum um bifreiðagjald.

(2) Bifreiðar sem eru undanþegnar bifreiðagjaldi skv. 4. gr. laga um bifreiðagjald eru gjaldskyldar og er gjaldtímabil vegna þeirra samkvæmt málsgrein þessari 1. janúar – 31. desember og skal skráður eigandi gjaldskylds ökutækis á gjaldtímabilinu greiða úrvinnslugjald fyrir hvert gjaldskylt ökutæki sitt. Gjalddagi úrvinnslugjalds á bifreiðar samkvæmt málsgrein þessari er 1. júlí ár hvert. Um innheimtu gjaldsins að öðru leyti gildir 1. mgr.

(3) Gjaldskylda fellur niður frá og með upphafi fyrsta gjaldtímabils eftir að greitt hefur verið úrvinnslugjald af ökutækinu í full 15 ár og fyrir bifreiðar sem eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs.
 

13. gr.
Skil á ökutæki til úrvinnslu.

(1) Skráður eigandi eða sá sem hefur skriflegt umboð hans skal skila ökutæki til úrvinnslu til söfnunar- eða móttökustöðvar sem hefur heimild til að taka á móti ökutækjum til úrvinnslu samkvæmt starfsleyfi frá viðkomandi heilbrigðisnefnd.

(2) Við skil á ökutæki til úrvinnslu skal verksmiðjunúmer ökutækis vera auðþekkjanlegt og skal a.m.k. vera til staðar yfirbygging og grind ökutækisins.
 

14. gr.
Skilavottorð.

     Við skil á ökutæki til úrvinnslu skal hlutaðeigandi söfnunar- eða móttökustöð gefa út skilavottorð á eyðublaði er Úrvinnslusjóður leggur til og afhenda þeim sem skilar ökutækinu. Í skilavottorði skal koma fram að tekið hafi verið á móti ökutæki til úrvinnslu og að heimilt sé að afskrá ökutækið til úrvinnslu. Þegar skilavottorð hefur verið gefið út er söfnunar- og móttökustöð heimilt að ráðstafa viðkomandi ökutæki til úrvinnslu. Hvíli veð á ökutækinu við skil þess ber Úrvinnslusjóður eða viðkomandi söfnunar- eða móttökustöð ekki ábyrgð á þeirri kröfu sem að baki því stendur.
 

15. gr.
Afskráning og greiðsla skilagjalds.

(1) Sé óskað eftir greiðslu skilagjalds skal skráður eigandi eða sá sem hefur skriflegt umboð hans skrifa undir beiðni um afskráningu ökutækis hjá viðkomandi skoðunarstofu eða Umferðarstofu, ásamt því að leggja fram skilavottorð. Að öðru leyti fer um afskráningu samkvæmt reglugerð um skráningu ökutækja.

(2) Sé afskráningarbeiðni samþykkt með athugasemdinni „Til úrvinnslu" skal viðkomandi skoðunarstofa eða Umferðarstofa greiða skráðum eiganda skilagjald eða leggja það inn á reikning hans. Einnig er hægt að senda afskráningarbeiðni ásamt skilavottorði til Umferðarstofu og fá skilagjald greitt hjá viðkomandi tollstjóra/sýslumanni.

(3) Greiða skal skilagjald hverjum þeim sem afhendir gjaldskylt ökutæki til móttökustöðvar til endurnýtingar eða endanlegrar förgunar, enda hafi ökutækið verið afskráð og úrvinnslugjald greitt a.m.k. einu sinni af viðkomandi ökutæki. Í þeim tilvikum sem skráður eigandi á vangreidd opinber gjöld vegna úrvinnslugjalds, bifreiðagjalds og/eða þungaskatts skulu þau dragast frá við greiðslu skilagjalds.
 

Fara efst á síðuna ⇑