Skattalagasafn ríkisskattstjóra 3.12.2024 17:22:59

Reglugerð nr. 1124/2005, kafli 4 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=1124.2005.4)
Ξ Valmynd

IV. KAFLI
Endurgreiðslur og undanþágur.

8. gr.
Undanþága frá úrvinnslugjaldi vegna útflutnings.

(1) Pappa-, pappírs- og plastumbúðir í eftirtöldum tollskrárnúmerum eru undanþegnar úrvinnslugjaldi að því skilyrði uppfylltu að viðkomandi vara verði sannanlega flutt úr landi og komi ekki til úrvinnslu hér á landi:

 3923.1001  3923.3000  4819.1001  4819.3001  4819.5009
 3923.1009  3923.4000  4819.1009  4819.3009  4819.6000
 3923.2101  3923.5000  4819.2011  4819.4001  4822.1000
 3923.2109  3923.9001  4819.2019  4819.4009  4822.9000
 3923.2901  3923.9002  4819.2091  4819.5001  4823.9004
 3923.2909  3923.9009  4819.2099  4819.5002  4823.9006

(2) Umsókn um undanþágu frá úrvinnslugjaldi skv. 1. mgr. skal beint til tollstjóra í því tollumdæmi þar sem varan kemur til tollafgreiðslu og skal hún sett fram í aðflutningsskýrslu, eyðublað E1, með því að rita viðeigandi undanþágutilvísun í reit 14 í skýrslunni. Með þessum hætti er innflytjandi að lýsa því yfir að hann sæki um undanþágu frá úrvinnslugjaldi af tiltekinni vöru í vörusendingu samkvæmt þeim heimildum sem undanþágutilvísun nær til. Jafnframt felur slík umsókn í sér yfirlýsingu um að innflytjandi skuldbindi sig til að hlíta öllum þeim fyrirmælum, skilyrðum og takmörkunum sem er að finna í nefndum heimildum fyrir undanþágu gjaldsins og ráðstöfun vörunnar.
 

9. gr.
Endurgreiðsla úrvinnslugjalds vegna útflutnings.

(1) Sé gjaldskyld vara sannanlega flutt úr landi og komi ekki til úrvinnslu hér á landi skal endurgreiða gjaldskyldum aðila, eða þeim sem keypt hefur vöruna af honum, úrvinnslugjald sem greitt hefur verið af viðkomandi vöru.

(2) Aðili sem óskar endurgreiðslu skv. 1. mgr. skal sækja um endurgreiðslu í sérstakri skýrslu til skattstjóra, sem vera skal í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Tilgreina skal í skýrslunni um magn vöru og fjárhæð þess úrvinnslugjalds sem sannanlega hefur verið greitt af viðkomandi vöru. Skýrslu skal skilað eigi síðar en 15 dögum fyrir gjalddaga úrvinnslugjalds.

(3) Fjárhæð sem sótt er um endurgreiðslu á hverju sinni skal vera að lágmarki 10.000 kr.

(4) Fallist skattstjóri á skýrsluna án frekari skýringa skal endurgreiðsla fara fram eigi síðar en 15 dögum eftir gjalddaga, enda hafi úrvinnslugjald vegna viðkomandi tímabils verið greitt.
 

10. gr.
Endurgreiðsla úrvinnslugjalds vegna endurnýtingar á eigin úrgangi.

     Úrvinnslusjóði er heimilt að semja við rekstraraðila um endurgreiðslu úrvinnslugjalds vegna endurnýtingar á eigin úrgangi rekstraraðila enda liggi fyrir samningur við viðurkenndan endurnýtingar- eða förgunaraðila um móttöku úrgangsins. Endurgreiðslan skal fara fram þegar fyrir liggur staðfesting um endurnýtingu eða förgun úrgangs.
 

11. gr.
Vara sannanlega flutt úr landi.

(1) Framleiðendur og innflytjendur skulu gefa upp við útgáfu á reikningi með skýrum hætti ef umbúðir eru undanþegnar úrvinnslugjaldi. Kaupandi umbúða staðfestir að keyptar umbúðir fari til útflutnings með móttökukvittun á viðkomandi reikningi án athugasemda. Endanleg yfirlýsing kaupenda er staðfest við greiðslu reiknings. Telst kaupandi því ábyrgur fyrir því að umbúðir keyptar án úrvinnslugjalds fari til útflutnings gagnvart innheimtumönnum ríkisjóðs.

(2) Innlendir framleiðendur greiða ekki úrvinnslugjald vegna gjaldskyldra umbúða sem fara til notkunar utan um framleiðslu sem flutt er úr landi, sbr. 1. mgr. 8. gr.
 

Fara efst á síðuna ⇑