Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.9.2024 09:10:05

Reglugerð nr. 1124/2005, kafli 3 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=1124.2005.3)
Ξ Valmynd

III. KAFLI
Álagning gjalds, uppgjörstímabil, gjalddagar, greiðslufrestur, skýrslur, álag og dráttarvextir.

5. gr.
Álagning gjalds.

(1) Tollstjórar skulu annast álagningu og innheimtu gjalds af gjaldskyldum innfluttum vörum og skal það innheimt með aðflutningsgjöldum. Skattstjórar annast álagningu gjalds vegna innlendrar framleiðslu sem tollstjórar innheimta.

(2) Ríkisskattstjóri annast álagningu úrvinnslugjalds af ökutækjum.
 

6. gr.
Uppgjörstímabil, gjalddagar og greiðslufrestur.

(1) Hvert uppgjörstímabil vegna innlendrar framleiðslu á gjaldskyldum vörum, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr., er tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember. Gjalddagi hvers uppgjörstímabils er 28. dagur annars mánaðar eftir lok þess.

(2) Innlendir framleiðendur skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs úrvinnslugjald af gjaldskyldum vörum sem voru seldar eða afhentar á tímabilinu. Innlendum framleiðendum sem keypt hafa aðföng til gjaldskyldrar framleiðslu og greitt af þeim úrvinnslugjald er heimilt að draga það frá við endanleg skil gjaldsins.

(3) Hvert uppgjörstímabil vegna innfluttrar vöru, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr., er tveir mánuðir eins og tilgreint er í 1. mgr. Gjalddagi hvers tímabils er 28. dagur annars mánaðar eftir lok þess.

(4) Innflytjendur sem flytja vörur til landsins til endursölu skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs úrvinnslugjald af gjaldskyldum vörum sem voru tollafgreiddar á uppgjörstímabilinu, sbr. þó ákvæði 8. gr.

(5) Innflytjendur sem flytja gjaldskylda vöru til landsins til eigin nota, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr., skulu greiða úrvinnslugjald við tollafgreiðslu, sbr. þó ákvæði 8. gr. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist gjalddagi á næsta virkan dag á eftir. Um greiðslufrest úrvinnslugjalds vegna innfluttrar vöru fer að öðru leyti samkvæmt reglugerð nr. 390/1999, um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum, með síðari breytingum*1).

*1)Nú reglugerð nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru.

7. gr.
Skýrslur, álag og dráttarvextir.

(1) Gjaldskyldir aðilar skv. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils skila innheimtumanni ríkissjóðs skýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður vegna vara sem greiða ber gjald af á uppgjörstímabilinu. Skattstjóri skal áætla gjald af viðskiptum þeirra aðila sem skila ekki skýrslu innan tilskilins tíma, senda enga skýrslu eða ef skýrslu eða fylgigögnum er ábótavant. Skattstjóri skal tilkynna innheimtumanni og gjaldskyldum aðila um áætlanir og leiðréttingar sem gerðar hafa verið. Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

(2) Sé gjald ekki greitt á tilskildum tíma skal gjaldskyldur aðili, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr., sæta álagi til viðbótar því gjaldi sem honum ber að standa skil á. Sama gildir ef skýrslu hefur ekki verið skilað eða henni er ábótavant og gjald því áætlað nema aðili hafi greitt fyrir gjalddaga gjaldsins upphæð er til áætlunar svarar eða gefið fyrir lok kærufrests fullnægjandi skýringu á vafaatriðum. Álag skal vera 1% af þeirri upphæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.

(3) Sé gjald ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal gjaldandi greiða dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
 

Fara efst á síðuna ⇑