Skattalagasafn ríkisskattstjóra 3.12.2024 17:15:52

Reglugerð nr. 1124/2005 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=1124.2005)
Ξ Valmynd

Reglugerð
nr. 1124/2005, um úrvinnslugjald.*1)

*1)Sbr. reglugerð nr. 316/2007.
Samkvæmt lögum nr. 136/2009, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og fleiri lögum, tók ríkisskattstjóri við allri skattframkvæmd skattstjóra, þ.e. sjálfstæð embætti skattstjóra voru sameinuð undir stjórn ríkisskattstjóra. Breytingarnar öðluðust gildi 1. janúar 2010.

Samkvæmt lögum nr. 123/2014, um breytingu á lögum um yfirskattanefnd, nr. 30/1992 o.fl., skal yfirskattanefnd úrskurða í kærumálum vegna þeirra ákvarðana tollstjóra sem greinir í 118. gr. tollalaga, sbr. breytingar á 2. mgr. 13. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald. Breytingarnar öðluðust gildi 1. janúar 2015.

I. KAFLI
Gjaldskyldar vörur.

1. gr.
Gjaldskyldar vörur.

(1) Greiða skal í ríkissjóð úrvinnslugjald af innfluttum vörum og vörum sem framleiddar eru innanlands.

(2) Úrvinnslugjald skal leggja á vöruflokka, á nýjar og notaðar vörur, eins og nánar er kveðið á um í viðaukum með lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald að undanskildu tollskrárnúmeri 2710.1920. Við flokkun til gjaldskyldu skal fylgt flokkunarreglum tollalaga nr. 55/1987*1).

(3) Greiða skal úrvinnslugjald af ökutækjum eins og nánar er mælt fyrir um í IV. kafla reglugerðar þessarar.

(4) Greiða skal úrvinnslugjald af pappa-, pappírs- og plastumbúðum eins og nánar er kveðið á um í VI. kafla reglugerðar þessarar.

(5) Skattstjórar og innlendir framleiðendur vöru geta óskað eftir ákvörðun tollstjóra um tollflokkun framleiðsluvöru samkvæmt ákvæðum 142. gr. tollalaga*2). Skattstjóri og framleiðandi geta skotið ákvörðun tollstjóra um tollflokkun vöru til ríkistollanefndar, sbr. 101. gr. tollalaga*3). Ákvörðun tollyfirvalda um tollflokkun er bindandi fyrir framleiðanda og skattyfirvöld.

*1)Sjá nú tollalög nr. 88/2005. *2)Nú 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. *3)Nú 118. gr. tollalaga nr. 88/2005.

2. gr.
Gjaldstofn.

(1) Gjaldstofn úrvinnslugjalds skal miðast við stykkjatölu eða þyngd í kílógrömmum hinnar gjaldskyldu vöru ásamt söluumbúðum, þ.e. nettóþyngd. Ef gjaldskyld vara er hluti af annarri vöru miðast gjaldstofn við heildarþyngd gjaldskyldu vörunnar.

(2) Gjaldstofn úrvinnslugjalds af pappa-, pappírs- og plastumbúðum skal miðast við þyngd umbúða í kílógrömmum hvort sem þær eru einar sér eða utan um vöru.
 

II. KAFLI
Gjaldskyldir aðilar og skráning.

3. gr.
Gjaldskyldir aðilar.

(1) Skylda til að greiða úrvinnslugjald samkvæmt reglugerð þessari hvílir á eftirtöldum aðilum:

  1. Öllum sem flytja til landsins gjaldskyldar vörur, samkvæmt lögum um úrvinnslugjald, til endursölu.

  2. Öllum sem flytja til landsins gjaldskyldar vörur, samkvæmt lögum um úrvinnslugjald, til eigin nota.

  3. Öllum sem framleiða gjaldskyldar vörur, samkvæmt lögum um úrvinnslugjald, innanlands.

(2) Gjaldskyldan tekur til allra framleiðenda og innflytjenda, svo sem einstaklinga, félaga, sjóða og stofnana, sveitarfélaga og stofnana þeirra, ríkissjóðs, ríkisstofnana, erlendra verktaka og annarra aðila sem flytja inn eða framleiða umræddar vörur.

(3) Sá sem setur vöru í gjaldskyldar umbúðir sem greitt hefur verið úrvinnslugjald af er ekki gjaldskyldur aðili, samkvæmt reglugerð þessari. [---]1)

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 316/2007.

4. gr.
Tilkynningarskylda og skráning vegna innlendrar framleiðslu.

     Aðilar sem eru gjaldskyldir skv. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr., skulu ótilkvaddir og eigi síðar en 15 dögum áður en úrvinnslugjaldsskyld starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá skattstjóra þar sem aðili hefur lögheimili. Skráning hjá skattstjóra er forsenda fyrir greiðslufresti, skv. 4. mgr. 6. gr. Breytingar sem verða á starfsemi eftir að skráning hefur farið fram skal tilkynna skattstjóra eigi síðar en 15 dögum eftir að breyting varð.
 

III. KAFLI
Álagning gjalds, uppgjörstímabil, gjalddagar, greiðslufrestur, skýrslur, álag og dráttarvextir.

5. gr.
Álagning gjalds.

(1) Tollstjórar skulu annast álagningu og innheimtu gjalds af gjaldskyldum innfluttum vörum og skal það innheimt með aðflutningsgjöldum. Skattstjórar annast álagningu gjalds vegna innlendrar framleiðslu sem tollstjórar innheimta.

(2) Ríkisskattstjóri annast álagningu úrvinnslugjalds af ökutækjum.
 

6. gr.
Uppgjörstímabil, gjalddagar og greiðslufrestur.

(1) Hvert uppgjörstímabil vegna innlendrar framleiðslu á gjaldskyldum vörum, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr., er tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember. Gjalddagi hvers uppgjörstímabils er 28. dagur annars mánaðar eftir lok þess.

(2) Innlendir framleiðendur skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs úrvinnslugjald af gjaldskyldum vörum sem voru seldar eða afhentar á tímabilinu. Innlendum framleiðendum sem keypt hafa aðföng til gjaldskyldrar framleiðslu og greitt af þeim úrvinnslugjald er heimilt að draga það frá við endanleg skil gjaldsins.

(3) Hvert uppgjörstímabil vegna innfluttrar vöru, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr., er tveir mánuðir eins og tilgreint er í 1. mgr. Gjalddagi hvers tímabils er 28. dagur annars mánaðar eftir lok þess.

(4) Innflytjendur sem flytja vörur til landsins til endursölu skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs úrvinnslugjald af gjaldskyldum vörum sem voru tollafgreiddar á uppgjörstímabilinu, sbr. þó ákvæði 8. gr.

(5) Innflytjendur sem flytja gjaldskylda vöru til landsins til eigin nota, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr., skulu greiða úrvinnslugjald við tollafgreiðslu, sbr. þó ákvæði 8. gr. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist gjalddagi á næsta virkan dag á eftir. Um greiðslufrest úrvinnslugjalds vegna innfluttrar vöru fer að öðru leyti samkvæmt reglugerð nr. 390/1999, um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum, með síðari breytingum*1).

*1)Nú reglugerð nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru.

7. gr.
Skýrslur, álag og dráttarvextir.

(1) Gjaldskyldir aðilar skv. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils skila innheimtumanni ríkissjóðs skýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður vegna vara sem greiða ber gjald af á uppgjörstímabilinu. Skattstjóri skal áætla gjald af viðskiptum þeirra aðila sem skila ekki skýrslu innan tilskilins tíma, senda enga skýrslu eða ef skýrslu eða fylgigögnum er ábótavant. Skattstjóri skal tilkynna innheimtumanni og gjaldskyldum aðila um áætlanir og leiðréttingar sem gerðar hafa verið. Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

(2) Sé gjald ekki greitt á tilskildum tíma skal gjaldskyldur aðili, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr., sæta álagi til viðbótar því gjaldi sem honum ber að standa skil á. Sama gildir ef skýrslu hefur ekki verið skilað eða henni er ábótavant og gjald því áætlað nema aðili hafi greitt fyrir gjalddaga gjaldsins upphæð er til áætlunar svarar eða gefið fyrir lok kærufrests fullnægjandi skýringu á vafaatriðum. Álag skal vera 1% af þeirri upphæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.

(3) Sé gjald ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal gjaldandi greiða dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
 

IV. KAFLI
Endurgreiðslur og undanþágur.

8. gr.
Undanþága frá úrvinnslugjaldi vegna útflutnings.

(1) Pappa-, pappírs- og plastumbúðir í eftirtöldum tollskrárnúmerum eru undanþegnar úrvinnslugjaldi að því skilyrði uppfylltu að viðkomandi vara verði sannanlega flutt úr landi og komi ekki til úrvinnslu hér á landi:

 3923.1001  3923.3000  4819.1001  4819.3001  4819.5009
 3923.1009  3923.4000  4819.1009  4819.3009  4819.6000
 3923.2101  3923.5000  4819.2011  4819.4001  4822.1000
 3923.2109  3923.9001  4819.2019  4819.4009  4822.9000
 3923.2901  3923.9002  4819.2091  4819.5001  4823.9004
 3923.2909  3923.9009  4819.2099  4819.5002  4823.9006

(2) Umsókn um undanþágu frá úrvinnslugjaldi skv. 1. mgr. skal beint til tollstjóra í því tollumdæmi þar sem varan kemur til tollafgreiðslu og skal hún sett fram í aðflutningsskýrslu, eyðublað E1, með því að rita viðeigandi undanþágutilvísun í reit 14 í skýrslunni. Með þessum hætti er innflytjandi að lýsa því yfir að hann sæki um undanþágu frá úrvinnslugjaldi af tiltekinni vöru í vörusendingu samkvæmt þeim heimildum sem undanþágutilvísun nær til. Jafnframt felur slík umsókn í sér yfirlýsingu um að innflytjandi skuldbindi sig til að hlíta öllum þeim fyrirmælum, skilyrðum og takmörkunum sem er að finna í nefndum heimildum fyrir undanþágu gjaldsins og ráðstöfun vörunnar.
 

9. gr.
Endurgreiðsla úrvinnslugjalds vegna útflutnings.

(1) Sé gjaldskyld vara sannanlega flutt úr landi og komi ekki til úrvinnslu hér á landi skal endurgreiða gjaldskyldum aðila, eða þeim sem keypt hefur vöruna af honum, úrvinnslugjald sem greitt hefur verið af viðkomandi vöru.

(2) Aðili sem óskar endurgreiðslu skv. 1. mgr. skal sækja um endurgreiðslu í sérstakri skýrslu til skattstjóra, sem vera skal í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Tilgreina skal í skýrslunni um magn vöru og fjárhæð þess úrvinnslugjalds sem sannanlega hefur verið greitt af viðkomandi vöru. Skýrslu skal skilað eigi síðar en 15 dögum fyrir gjalddaga úrvinnslugjalds.

(3) Fjárhæð sem sótt er um endurgreiðslu á hverju sinni skal vera að lágmarki 10.000 kr.

(4) Fallist skattstjóri á skýrsluna án frekari skýringa skal endurgreiðsla fara fram eigi síðar en 15 dögum eftir gjalddaga, enda hafi úrvinnslugjald vegna viðkomandi tímabils verið greitt.
 

10. gr.
Endurgreiðsla úrvinnslugjalds vegna endurnýtingar á eigin úrgangi.

     Úrvinnslusjóði er heimilt að semja við rekstraraðila um endurgreiðslu úrvinnslugjalds vegna endurnýtingar á eigin úrgangi rekstraraðila enda liggi fyrir samningur við viðurkenndan endurnýtingar- eða förgunaraðila um móttöku úrgangsins. Endurgreiðslan skal fara fram þegar fyrir liggur staðfesting um endurnýtingu eða förgun úrgangs.
 

11. gr.
Vara sannanlega flutt úr landi.

(1) Framleiðendur og innflytjendur skulu gefa upp við útgáfu á reikningi með skýrum hætti ef umbúðir eru undanþegnar úrvinnslugjaldi. Kaupandi umbúða staðfestir að keyptar umbúðir fari til útflutnings með móttökukvittun á viðkomandi reikningi án athugasemda. Endanleg yfirlýsing kaupenda er staðfest við greiðslu reiknings. Telst kaupandi því ábyrgur fyrir því að umbúðir keyptar án úrvinnslugjalds fari til útflutnings gagnvart innheimtumönnum ríkisjóðs.

(2) Innlendir framleiðendur greiða ekki úrvinnslugjald vegna gjaldskyldra umbúða sem fara til notkunar utan um framleiðslu sem flutt er úr landi, sbr. 1. mgr. 8. gr.
 

V. KAFLI
Úrvinnslugjald á ökutæki.

12. gr.
Úrvinnslugjald á ökutæki.

(1) Skráður eigandi gjaldskylds ökutækis skal á hverju gjaldtímabili greiða úrvinnslugjald fyrir hvert gjaldskylt ökutæki sitt skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Gjalddagar úrvinnslugjalds eru 1. janúar ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. janúar – 30. júní og 1. júlí ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. júlí – 31. desember. Gjaldið skal innheimt með bifreiðagjaldi og fer um greiðsluskyldu, gjalddaga, eindaga, álagningu, innheimtu gjaldsins og kæruheimild samkvæmt lögum um bifreiðagjald.

(2) Bifreiðar sem eru undanþegnar bifreiðagjaldi skv. 4. gr. laga um bifreiðagjald eru gjaldskyldar og er gjaldtímabil vegna þeirra samkvæmt málsgrein þessari 1. janúar – 31. desember og skal skráður eigandi gjaldskylds ökutækis á gjaldtímabilinu greiða úrvinnslugjald fyrir hvert gjaldskylt ökutæki sitt. Gjalddagi úrvinnslugjalds á bifreiðar samkvæmt málsgrein þessari er 1. júlí ár hvert. Um innheimtu gjaldsins að öðru leyti gildir 1. mgr.

(3) Gjaldskylda fellur niður frá og með upphafi fyrsta gjaldtímabils eftir að greitt hefur verið úrvinnslugjald af ökutækinu í full 15 ár og fyrir bifreiðar sem eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs.
 

13. gr.
Skil á ökutæki til úrvinnslu.

(1) Skráður eigandi eða sá sem hefur skriflegt umboð hans skal skila ökutæki til úrvinnslu til söfnunar- eða móttökustöðvar sem hefur heimild til að taka á móti ökutækjum til úrvinnslu samkvæmt starfsleyfi frá viðkomandi heilbrigðisnefnd.

(2) Við skil á ökutæki til úrvinnslu skal verksmiðjunúmer ökutækis vera auðþekkjanlegt og skal a.m.k. vera til staðar yfirbygging og grind ökutækisins.
 

14. gr.
Skilavottorð.

     Við skil á ökutæki til úrvinnslu skal hlutaðeigandi söfnunar- eða móttökustöð gefa út skilavottorð á eyðublaði er Úrvinnslusjóður leggur til og afhenda þeim sem skilar ökutækinu. Í skilavottorði skal koma fram að tekið hafi verið á móti ökutæki til úrvinnslu og að heimilt sé að afskrá ökutækið til úrvinnslu. Þegar skilavottorð hefur verið gefið út er söfnunar- og móttökustöð heimilt að ráðstafa viðkomandi ökutæki til úrvinnslu. Hvíli veð á ökutækinu við skil þess ber Úrvinnslusjóður eða viðkomandi söfnunar- eða móttökustöð ekki ábyrgð á þeirri kröfu sem að baki því stendur.
 

15. gr.
Afskráning og greiðsla skilagjalds.

(1) Sé óskað eftir greiðslu skilagjalds skal skráður eigandi eða sá sem hefur skriflegt umboð hans skrifa undir beiðni um afskráningu ökutækis hjá viðkomandi skoðunarstofu eða Umferðarstofu, ásamt því að leggja fram skilavottorð. Að öðru leyti fer um afskráningu samkvæmt reglugerð um skráningu ökutækja.

(2) Sé afskráningarbeiðni samþykkt með athugasemdinni „Til úrvinnslu" skal viðkomandi skoðunarstofa eða Umferðarstofa greiða skráðum eiganda skilagjald eða leggja það inn á reikning hans. Einnig er hægt að senda afskráningarbeiðni ásamt skilavottorði til Umferðarstofu og fá skilagjald greitt hjá viðkomandi tollstjóra/sýslumanni.

(3) Greiða skal skilagjald hverjum þeim sem afhendir gjaldskylt ökutæki til móttökustöðvar til endurnýtingar eða endanlegrar förgunar, enda hafi ökutækið verið afskráð og úrvinnslugjald greitt a.m.k. einu sinni af viðkomandi ökutæki. Í þeim tilvikum sem skráður eigandi á vangreidd opinber gjöld vegna úrvinnslugjalds, bifreiðagjalds og/eða þungaskatts skulu þau dragast frá við greiðslu skilagjalds.
 

VI. KAFLI
Úrvinnslugjald á pappa-, pappírs- og plastumbúðir.

16. gr.
Umbúðir.

(1) Umbúðir eru skv. reglugerð þessari allar vörur, af hvaða tegund sem er og úr hvaða efni sem er, sem eru notaðar við pökkun, verndun, meðhöndlun og afhendingu framleiðsluvöru, hvort sem þar er um að ræða hráefni eða fullunna vöru, til notanda eða neytanda. Nánar tiltekið eru umbúðir:

  1. söluumbúðir eða grunnumbúðir, þ.e. umbúðir sem eru þannig gerðar að á sölustað mynda þær sölueiningu fyrir notanda eða neytanda,

  2. safnumbúðir, þ.e. umbúðir sem eru þannig gerðar að á sölustað mynda þær safn tiltekins fjölda sölueininga, hvort sem þær eru seldar sem slíkar til notanda eða neytanda eða aðeins notaðar til að fylla í hillur á sölustað; hægt er að taka þær utan af vörunni án þess að það hafi áhrif á eiginleika hennar,

  3. flutningsumbúðir, þ.e. umbúðir þannig gerðar að þær auðvelda meðhöndlun og flutning nokkurra sölueininga eða safnumbúða til að koma í veg fyrir tjón við meðhöndlun og flutning; gámar til vöruflutninga á landleiðum, með skipum og flugvélum eru ekki taldir til flutningsumbúða.

(2) Við skilgreiningu á því hvað teljist umbúðir skal byggt á eftirfarandi viðmiðunum, sbr. og viðauka 1.

  1. Hlutir sem gegna jafnframt annars konar hlutverki en að vera umbúðir utan um vöru teljast ekki umbúðir ef hluturinn er óaðskiljanlegur hluti framleiðsluvörunnar og sé nauðsynlegur til að geyma, styðja eða varðveita vöruna á endingartíma hennar og allir þættir séu ætlaðir til notkunar, neyslu eða förgunar á sama tíma.

  2. Hlutir skulu teljast til umbúða að því tilskyldu að þeir þjóni hlutverki umbúða. Í fyrsta lagi ef þeir eru hannaðir og ætlaðir til áfyllingar við sölu, og í öðru lagi einnota hlutir, sem eru seldir, fylltir eða hannaðir og ætlaðir til áfyllingar við sölu.

  3. Efnisþættir umbúða og viðbótarþættir sem eru felldir inn í umbúðir teljast vera hluti af þeim umbúðum. Viðbótarþættir, sem eru hengdir beint á eða festir við framleiðsluvöru og þjóna hlutverki umbúða, teljast til umbúða nema þeir séu óaðskiljanlegur hluti vörunnar og allir þættir hennar séu ætlaðir til neyslu eða förgunar á sama tíma.
     

17. gr.
Úrvinnslugjald á pappa-, pappírs- og plastumbúðir.

(1) Úrvinnslugjald skal leggja á umbúðir gerðar úr pappa, pappír og plasti, sbr. þó viðauka I og III í lögum nr. 162/2002 um úrvinnslugjald. Gjaldið skal lagt á annars vegar umbúðir sem fluttar eru til landsins einar sér eða utan um vöru og hins vegar umbúðir sem framleiddar eru hér á landi. Úrvinnslugjald skal lagt á samkvæmt upplýsingum gjaldskylds aðila um þyngd, tegund og samsetningu umbúða, sbr. þó 2. mgr. Þetta á einnig við um samsettar umbúðir.

(2) Gjaldskyldur aðili skal við tollafgreiðslu gefa upp þyngd umbúða í vörusendingu til tollafgreiðslu samkvæmt staðfestum upplýsingum þar um. Með staðfestum upplýsingum er átt við staðfestingu frá framleiðanda á gerð og þyngd allra gjaldskyldra umbúða eða upplýsingar um þyngd gjaldskyldra umbúða samkvæmt vigtun hér á landi. Ef staðfestar upplýsingar um þyngd umbúða vöru fást ekki er gjaldskyldum aðila heimilt að greiða úrvinnslugjald í samræmi við reiknireglur sbr. XVI. viðauka laga um úrvinnslugjald.
 

VII. KAFLI
Starfsemi Úrvinnslusjóðs.

18. gr.
Skilun úrgangs.

     Sveitarstjórn skal leggja til og sjá um að rekin sé móttökustöð fyrir förgun úrgangs og söfnunarstöð. Framleiðendum úrgangs eða þeim sem hafa úrgang í vörslu sinni ber að skila úrgangi sem fellur til vegna gjaldskyldrar vöru til söfnunarstöðva. Þó skulu fyrirtæki skila úrgangi til móttökustöðva ef þær eru starfandi á viðkomandi svæði.
 

19. gr.
Aðgangur að upplýsingum.

     Innheimtumaður ríkissjóðs lætur Úrvinnslusjóði í té fyrir hvert uppgjörstímabil upplýsingar um álagt gjald, frádrátt vegna innlendrar framleiðslu, gjaldstofn úrvinnslugjalds og gjaldskyldar vörur sem fluttar eru úr landi samkvæmt tollskrárnúmerum.
 

20. gr.
Framkvæmd verkþátta.

(1) Úrvinnslusjóður skal að jafnaði bjóða út einstaka verkþætti til allt að fimm ára í senn. Takist útboð ekki eða ef ekki er grundvöllur til útboðs skal Úrvinnslusjóður gera verksamninga við aðila um úrvinnslu úrgangs. Í útboðum og verksamningum, skal kveða á um framvísun vottorða frá móttökustöð sem hefur gilt starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

(2) Úrvinnslusjóður skal standa undir hluta af rekstrarkostnaði varðandi meðferð flokkaðs úrgangs í söfnunarstöð, sem til er kominn vegna vara sem greitt hefur verið af úrvinnslugjald, samkvæmt reglum Úrvinnslusjóðs og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þá ber Úrvinnslusjóði að greiða fyrir flutning þessa úrgangs til móttöku- eða endurnýtingarstöðvar samkvæmt nánari reglum Úrvinnslusjóðs að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
 

VIII. KAFLI
Bókhald o.fl.

21. gr.
Tekjur Úrvinnslusjóðs.

     Tekjur af úrvinnslugjaldi samkvæmt reglugerð þessari skulu renna óskiptar til Úrvinnslusjóðs að undanþegnu umsýslugjaldi til ríkissjóðs sem nemur 0,5% af þeim tekjum.
 

22. gr.
Úrvinnslugjald sem stofn til virðisaukaskatts.

     Úrvinnslugjald myndar stofn til virðisaukaskatts.
 

23. gr.
Bókhald.

(1) Gjaldskyldir aðilar, sbr. 1. og 3. tölul. 1. mgr. 3. gr., skulu haga bókhaldi sínu þannig að skattyfirvöld geti á hverjum tíma gengið úr skugga um réttmæti skýrslna um úrvinnslugjald.

(2) Í bókhaldi gjaldskyldra aðila skv. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. skal færa sérstaka reikninga fyrir innkaup og sölu gjaldskyldrar vöru. Reikninga þessa má færa í lok hvers uppgjörstímabils, enda sé á grundvelli þeirra hægt að reikna með beinum hætti fjárhæðir úrvinnslugjalds. Þeir sem selja bæði gjaldskyldar og gjaldfrjálsar vörur skulu halda sölu gjaldskyldra vara greinilega aðgreindri í bókhaldi sínu. Loks skal aðgreina sölu og innkaup gjaldskyldrar starfsemi eftir gjaldtegund og gjaldflokkum.
 

24. gr.
Útgáfa sölureikninga.

(1) Gjaldskyldur aðili skv. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. skal færa sölu og aðra afhendingu á sölureikning þannig að magn, tegund og heildarverð vöru ásamt fjárhæð úrvinnslugjalds komi fram.

(2) Seljendum vöru, sem ekki er úrvinnslugjaldsskyld, er óheimilt að tilgreina úrvinnslugjald á sölureikningi. Geri þeir það skulu þeir skila gjaldinu í Úrvinnslusjóð, nema leiðréttingu verði komið við gagnvart kaupanda vörunnar. Sama gildir um gjaldskylda aðila sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. sem tilgreina á reikningum sínum of hátt úrvinnslugjald eða úrvinnslugjald af viðskiptum sem ekki eru gjaldskyld. Til sönnunar á leiðréttingu skal gefa út kreditreikning til kaupanda.
 

IX. KAFLI
Kærur, málsmeðferð o.fl.

25. gr.
Kæruheimild og kærufrestur.

(1) Heimilt er að kæra álagningu úrvinnslugjalds innan 30 daga frá gjalddaga gjaldsins. Kæru skal beint til þess tollstjóra, ríkisskattstjóra eða þess skattstjóra sem annaðist álagningu gjaldsins. Kæru skal fylgja skriflegur rökstuðningur. Innsend fullnægjandi skýrsla skal tekin sem kæra þegar um er að ræða áætlanir. Tollstjóri, ríkisskattstjóri eða skattstjóri skal kveða upp skriflegan rökstuddan úrskurð um kæruna og tilkynna hana í ábyrgðarbréfi innan 30 daga frá lokum kærufrests.

(2) Telji innflytjandi ákvörðun tollstjóra, er varðar undanþágu frá úrvinnslugjaldi samkvæmt reglugerð þessari, eigi rétta, getur hann óskað eftir úrskurði tollstjóra með því að senda honum skriflega kæru, studda nauðsynlegum rökum og gögnum, innan 60 daga frá því er ákvörðun tollstjóra lá fyrir. Um meðferð slíkrar kæru fer samkvæmt reglugerð nr. 797/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum, með síðari breytingum*2).

(3) Endurgreiðsla úrvinnslugjalds samkvæmt 9. gr. er kæranleg til skattstjóra í samræmi við 13. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, með síðari breytingum.

(4) Gjaldskyldur aðili og tollstjórinn í Reykjavík geta skotið úrskurði tollstjóra skv. 1. mgr. til ríkistollanefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurð. Um kærufresti og málsmeðferð fer eftir ákvæðum 101. gr. tollalaga, nr. 55/1987.*1)

(5) Gjaldskyldur aðili og ríkisskattstjóri geta skotið úrskurði skattstjóra skv. 1. mgr. til yfirskattanefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurð. Gjaldskyldur aðili getur skotið úrskurði ríkisskattstjóra skv. 1. mgr. til yfirskattanefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurð. Um kærufresti og málsmeðferð fer eftir ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

*1)Nú 118. gr. tollalaga nr. 88/2005*2)reglugerð nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi.
 

26. gr.
Lög um vörugjald.

     Að svo miklu leyti sem ekki er á annan veg kveðið á um í reglugerð þessari skulu ákvæði laga nr. 97/1987, um vörugjald, eiga við um álagningu, innheimtu, tilkynningarskyldu, kærur, eftirlit og aðra framkvæmd gjaldtöku samkvæmt reglugerðinni.
 

27. gr.
Gildistökuákvæði.

     Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 15. og 21. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald með síðari breytingum, að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið og öðlast gildi 1. janúar 2006. Einnig var höfð hliðsjón af tilskipun 2004/12/EB um breytingu á tilskipun 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 501/2003, um úrvinnslugjald.
 

Fara efst á síðuna ⇑