Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 09:41:28

nr. 358/1996 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=358.1996.0)
Ξ Valmynd

Reglur
nr. 358/1996, um birgðabókhald o.fl. vegna sérstakrar skráningar
skv. 11. gr. reglugerðar um vörugjald nr. 356/1996.*1)

*1)Nú samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 436/1998, um vörugjald.

1. gr.

(1) Aðilar sem flytja inn eða kaupa innanlands til heildsölu vörugjaldsskyldar vörur skv. lögum um vörugjald nr. 97/1987, með síðari breytingum, geta fengið sérstaka skráningu hjá skattstjóra*) sem heimilar uppgjör á vörugjaldi miðað við breytingar á birgðastöðu á uppgjörstímabili eða við sölu á magngjaldsskyldum vörum.

(2) Þeir sem óska eftir sérstakri skráningu skulu sækja um hana til skattstjóra*) í því umdæmi þar sem þeir eru heimilisfastir á eyðublaði í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. 

*)Nú ríkisskattstjóri, sbr. lög nr. 136/2009. 

 

2. gr.

(1) Í umsókn um sérstaka skráningu skv. reglum þessum skal m.a. gera grein fyrir birgðastöðu vörugjaldsskyldra vara á þeim degi sem henni er skilað til skattstjóra*) og tilgreina sérstaklega hvort vörurnar eða hluti þeirra hefur verið keyptur innanlands eða fluttur til landsins með eða án greiðslu vörugjalds. Ef aðili flytur til landsins eða kaupir innanlands vörugjaldsskyldar vörur bæði sem aðföng til framleiðslu og til endursölu skal hann gera grein fyrir hvaða vörur eru notaðar til framleiðslu og hverjar eru keyptar til endursölu. Jafnframt skal fylgja umsókn ítarleg lýsing á birgðabókhaldi umsækjanda. Aðili skal undirrita yfirlýsingu um að hann hafi kynnt sér ákvæði reglna þessara og uppfylli þau samkvæmt bestu vitund.

(2) Skattstjóri*) skal að undangenginni athugun á umsókn aðila gefa út staðfestingu um að skráning hafi átt sér stað. 

*)Nú ríkisskattstjóri, sbr. lög nr. 136/2009. 

 

3. gr.

(1) Aðili sem fengið hefur sérstaka skráningu skv. 2. gr. skal halda sérstakt birgðabókhald með þeim hætti að skattyfirvöld geti hvenær sem er og án fyrirvara kannað með talningu á birgðum og athugun á birgðabókhaldi hvort uppgjör og skil á vörugjaldi hafi verið réttilega gerð.

(2) Unnt skal vera að rekja sérhver innkaup frá innflutningsgögnum og innkaupareikningum til færslu í birgðabókhaldi.

(3) Aðgreina skal allar vörutegundir sem ekki eru samkynja og ekki bera sama vörugjald og tilgreina á birgðareikningi hverrar tegundar gjaldstofn og reiknað vörugjald.

(4) Koma skal fram á aðgengilegan hátt annars vegar gjaldskyld ráðstöfun birgða vegna sölu innanlands til óskráðra aðila, eigin úttektar og rýrnunar, og hins vegar gjaldfrjáls ráðstöfun vegna útflutnings, sölu til aðila sem fengið hafa skráningu skv. 5. gr. vörugjaldslaga og sölu án gjalds gegn framvísun vörugjaldsskírteina.
 

4. gr.

(1) Talning birgða skal framkvæmd fyrsta dag hvers uppgjörstímabils. Komi fram óútskýrð vöntun við birgðatalningu skal hún færð sem rýrnun á síðasta degi næsta uppgjörstímabils á undan.

(2) Til birgða næsta uppgjörstímabils skulu taldar allar vörur sem ekki hafa verið seldar eða afhentar til fullra umráða og ráðstöfunar annars aðila á liðnu uppgjörstímabili.

(3) Við birgðauppgjör vegna uppgjörstímabilsins desember-janúar skal greint á milli hvors mánaðar í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr.
 

5. gr.

(1) Hafi aðili sem sækir um sérstaka skráningu með höndum sölu á magngjaldsskyldum vörum gefur skattstjóri*3) út vörugjaldsskírteini honum til handa, enda verði hann eigi samtímis með skráningu sem miðar við uppgjör vörugjalds skv. birgðabókhaldi. Í slíkum tilvikum þarf aðili ekki að uppfylla ákvæði 2.- 4. gr. reglna þessara, heldur fer um meðferð gjaldsins, að öðru leyti, en kveðið er á um í reglum þessum, eftir ákvæðum 21. gr. vörugjaldsreglugerðar*1).

(2) Handhafar vörugjaldsskírteina skv. 1. mgr. skulu við sölu, rýrnun eða úttekt til eigin nota tilgreina vörugjald á sölureikningi, sbr. 17. gr. vörugjaldsreglugerðar*2) eða á sérstakt fylgiskjal ef um rýrnun er að ræða, og skila vörugjaldinu í ríkissjóð á gjalddaga viðkomandi uppgjörstímabils.

*1)Nú V. kafli reglugerðar nr. 436/1998, um vörugjald. *2)Nú 21. gr. reglugerðar nr. 436/1998, um vörugjald. *3)Nú ríkisskattstjóri, sbr. lög nr. 136/2009.

6. gr.

     Komi í ljós við athugun skattyfirvalda á bókhaldi aðila eða á annan hátt að hann uppfylli ekki ákvæði reglna þessara eða brjóti á annan hátt gegn ákvæðum laga um vörugjald nr. 97/1987, getur skattstjóri*) eða ríkisskattstjóri afturkallað vörugjaldsskírteini eða heimild til uppgjörs vörugjalds samkvæmt birgðabreytingum og eftir atvikum endurákvarðað vörugjald frá og með þeim tíma sem aðili telst hafa brotið gegn ákvæðum laganna. 

*)Nú ríkisskattstjóri, sbr. lög nr. 136/2009.
 

7. gr.

     Reglur þessar eru settar með stoð í 2. mgr. 5. gr. laga um vörugjald, nr. 97/1987, með síðari breytingum, sbr. 11. og 21. gr. reglugerðar um vörugjald nr. 356/1996.*1)

*1)Nú samkvæmt 2. mgr. 9. gr. og 4. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 436/1998, um vörugjald.

Fara efst á síðuna ⇑