Úr reglum
nr. 530/2003, um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja.*1)
*1)Sbr. reglur nr. 1013/2005.
Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
(1) Reglur þessar gilda um eftirtalda aðila:
-
Fjármálafyrirtæki sem fengið hafa starfsleyfi samkvæmt 1.-3. og 5.-7 tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, þ. e. viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir og rekstrarfélög verðbréfasjóða.
-
Samstæður þar sem móðurfyrirtæki er eitthvert þeirra fyrirtækja sem nefnt er í 1. tölul.
(2) Þeir aðilar sem taldir eru upp í 1. mgr. þessarar greinar nefnast fyrirtæki í eftirfarandi greinum.
2. gr.
Í þessum reglum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
Baktryggð staða (e. hedge position): Staða í fjármálagerningum sem fyrirtækið hefur tekið til að tryggja sig gegn markaðsáhættu eigna- og skuldaliða eða stöðu í afleiðum.
Binditímaaðferð (e. Maturity based method): Aðferð til að reikna vaxtaáhættu fyrirtækis sem tekur mið af binditíma þeirra markaðsskuldabréfa sem eru í veltubók fyrirtækis. Binditími í þessu samhengi er binditími vaxtaprósentu og telst hann vera sá sami og eftirstöðvatími bréfsins þegar um er að ræða skuldabréf með föstum vöxtum. Ef um er að ræða ákvæði í skuldabréfi um að vextir geti tekið breytingum fyrir lokagjalddaga þá skal miða við þann tíma sem er til þess dags að vextir verða ákvarðaðir að nýju. Sjá einnig rauntímaaðferð.
Birgðafjármögnun: Stöður þar sem áþreifanlegar birgðir hafa verið seldar framvirkt og kostnaður við fjármögnunina hefur verið frystur fram að dagsetningu framvirku sölunnar.
Breytanlegt verðbréf (e. convertible security): Verðbréf sem að vali eiganda er hægt að skipta fyrir annað verðbréf, oftast hlutabréf útgefanda.
Delta stuðull valréttarsamnings: Með delta stuðli valréttarsamnings er átt við áætlaða breytingu á virði valréttarsamnings sem hlutfall af minniháttar verðbreytingum á þeim undirliggjandi fjármálagerningum sem liggja til grundvallar valréttarsamningnum. Delta stuðull segir til um líkindi þess að valréttarsamningur hafi verðgildi á innlausnardegi.
Deltavirði valréttaramninga: Deltavirði valréttarsamnings jafngildir fjárhæð undirliggjandi fjármálagernings sem kaupréttur vísar til, margfaldað með delta stuðli valréttarsamningsins.
Eftirstöðvatími: Með eftirstöðvartíma er átt við þann tíma sem eftir er til gjalddaga skuldaskjals.
Fjárfestingarverðbréf: Markaðsskuldabréf og hlutabréf sem fyrirtæki hefur með formlegum hætti tekið ákvörðun um að eiga til lengri tíma, skemmst eitt ár. Til slíkra bréfa teljast ekki hlutir í hlutdeildarfyrirtækjum eða tengdum fyrirtækjum. Sjá einnig veltuverðbréf.
Fjármálagerningur:
-
Verðbréf, þ.e. hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum, svo sem hlutabréf, skuldabréf, áskriftarréttindi, skiptanleg verðbréf og breytanleg verðbréf.
-
Afleiða, þ.e. samningur þar sem uppgjörsákvæði byggist á breytingu einhvers þáttar á tilteknu tímabili, svo sem vaxta, gengis gjaldmiðla, verðbréfaverðs, verðbréfavísitölu eða hrávöruverðs. Með afleiðu er m.a. átt við:
-
framvirkan óframseljanlegan fjármálagerning, þ.e. samning sem kveður á um skyldu samningsaðila til að kaupa eða selja tiltekna eign fyrir ákveðið verð á fyrir fram ákveðnum tíma,
-
framtíðarsamning, þ.e. staðlaðan og framseljanlegan samning sem kveður á um skyldu samningsaðila til að kaupa eða selja tiltekna eign fyrir ákveðið verð á fyrir fram ákveðnum tíma,
-
skiptasamning, þ.e. samning sem kveður á um að hvor samningsaðila greiði hinum fjárhæð sem tekur mið af breytingum á hvoru viðmiðinu fyrir sig á samningstímanum,
-
valréttarsamning, þ.e. samning sem veitir öðrum samningsaðila, kaupanda, rétt en ekki skyldu til að kaupa (kaupréttur) eða selja (söluréttur) tiltekna eign (andlag samnings) á fyrir fram ákveðnu verði (valréttargengi) á tilteknu tímamarki (lokadagur) eða innan tiltekinna tímamarka (gildistími valréttar). Sem endurgjald fyrir þennan rétt fær hinn samningsaðilinn, útgefandinn, ákveðið gjald sem segir til um markaðsvirði valréttarins við upphaf samningstímans.
-
-
Hlutdeildarskírteini.
-
Peningamarkaðsskjal.
-
Framseljanleg veðréttindi í fasteignum og lausafé.
Fjölnota atvinnuhúsnæði (e. multi-purpose commercial building): Með fjölnota atvinnuhúsnæði er fyrst og fremst átt við ýmis konar verslunar- og skrifstofuhúsnæði og annað þjónustuhúsnæði sem auðvelt er að breyta. Skilyrði er að um fullbúið húsnæði sé að ræða. Sérhæft iðnaðarhúsnæði, fiskvinnsluhús, gistihús og skólabyggingar eru dæmi um húsnæði sem ekki fellur undir skilgreiningu á fjölnota atvinnuhúsnæði.
Fjölþjóða þróunarbankar (e. multilateral development banks): Með fjölþjóða þróunarbönkum í reglum þessum er átt við Alþjóðabankann, Alþjóðalánastofnunina, Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu, Fjárfestingarsjóð Evrópu, Fjárfestingarlánastofnun Ameríkuríkja, [Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnun]*1) Norræna fjárfestingarbankann, Þróunarbanka Afríku, Þróunarbanka Ameríkuríkja, Þróunarbanka Asíu, Þróunarbanka Mið-Ameríkuríkja og Viðreisnarsjóð Evrópuráðsins.
Framvirk viðskipti (e. forward transactions): Viðskipti sem gerð eru upp þremur virkum dögum eftir upphafsdag þeirra eða síðar. Sjá einnig núviðskipti.
Framvirkur vaxtasamningur (e. FRA - forward rate agreement): Samningur sem kveður á um vaxtaviðmiðun yfir ákveðið tímabil og reiknast vextir af fyrirfram ákveðinni grundvallarfjárhæð, sem ekki kemur til greiðslu á. Samningurinn er gerður upp í lok samningstímans á fyrirfram ákveðnum uppgjörsdegi.
Fullgildur liður (e. qualifying item): Gnóttstaða eða skortstaða í þeim liðum sem falla undir 2. tölul. 12. gr. Auk þess getur Fjármálaeftirlitið heimilað að önnur skuldaskjöl teljist til fullgildra liða. Forsenda þess að skuldaskjöl geti talist til fullgildra liða er að skjalið sé skráð á viðurkenndum verðbréfamarkaði, sé auðseljanlegt og mótaðilaáhætta þess sé sambærilegt eða lægra en þeirra eigna sem falla undir 2. tölul. 12. gr. þessara reglna.
Fyrirtæki tengt fjármálasviði: Fyrirtæki sem ekki er lánastofnun og starfar einkum að öflun eignarhluta eða stundar einhverja eða alla þá starfsemi sem um getur í 2.-12. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
Gjaldmiðlaskiptasamningur (e. currency swap): Samningur sem kveður á um að samningsaðilar skipti á höfuðstólum tveggja mynta á ákveðnu gengi í framtíðinni. Skipst er á höfuðstól í lokin, en oft einnig í upphafi samnings.
Gnóttstaða (e. long position): Staða í fjármálaskjölum sem gefur eða getur í framtíðinni gefið fyrirtæki rétt eða skyldað það til að taka á móti greiðslu í peningum, verðbréfum eða öðrum eignum. Sölu- og kaupréttur telst vera hluti af gnóttstöðu. Sjá einnig skortstaða.
Grundvallarfjárhæð afleiðusamnings (e. notional principal/ notional position): Sú fjárhæð, það verðbréf eða sú ímyndaða staða sem lögð er til grundvallar í afleiðusamningi.
Hlutabréf: Eignarhlutur í hlutafélagi. Í skilningi þessara reglna skal ennfremur telja til hlutabréfa þann hluta afleiðusamninga í veltubók fyrirtækis sem tengdur er hlutabréfum, gengi hlutabréfa eða þróun hlutabréfavísitölu.
Hrein gjaldeyrisstaða fyrirtækis (e. An institution’s overall net foreign exchange position): Hærri fjárhæðin af tveimur, samanlögð opin gjaldeyrisstaða í þeim gjaldmiðlum þar sem um nettó gnóttstöðu er að ræða eða samanlögð opin gjaldeyrisstaða þeirra gjaldmiðla þar sem um nettó skortstöðu er að ræða.
Kaupréttur (e. call option): Réttur til að kaupa vöru, verðbréf eða gjaldeyri á fyrirfram ákveðnu verði, annað hvort á ákveðnum degi eða fyrir ákveðinn dag. Slíkur samningur er bindandi fyrir þann sem selur slíkan samning en kaupandi getur valið hvort hann nýtir sér réttinn eða ekki. Sjá einnig valréttur og söluréttur.
Lánastofnun: Fyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 1.-4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr.161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Liðir utan veltubókar (e. Banking book): Allir þeir liðir innan og utan efnahagsreiknings fyrirtækis sem ekki teljast til veltubókar.
Markaðsáhætta (e. market risk): Áhætta fyrirtækis á fjárhagslegu tapi vegna liða innan og utan efnahagsreiknings vegna breytinga á markaðsvirði þessara liða, þar á meðal breytingar á vöxtum, gengi gjaldmiðla eða virði hlutabréfa.
Markaðsverðbréf: Framseljanlegt verðbréf (skuldabréf, hlutabréf eða hlutdeildarskírteini) sem boðið er einstaklingum og/eða lögaðilum til kaups með útboði þar sem öll helstu einkenni bréfa í hverjum flokki eru hin sömu, þar á meðal nafn útgefanda (skuldara), fyrsti vaxtadagur og endurgreiðslu-, vaxta- og uppsagnarákvæði eftir því sem við á. Sjá einnig fjárfestingarverðbréf og veltuverðbréf.
Móðurfyrirtæki: Fyrirtæki skilgreint í 1. mgr. 97. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyritæki.
Mótaðilaáhætta (e. Counterparty risk): Sú hætta sem er á því að gagnaðili fjármálasamnings uppfylli ekki ákvæði hans. Ein tegund mótaðilaáhættu er afhendingaráhætta en það er sú áhætta að mótaðili afhendi ekki verðbréf í samræmi við ákvæði fjármálasamnings. Önnur tegund mótaðilaáhættu er uppgjörsáhætta en það er sú áhætta að mótaðili t.d. afleiðusamnings standi ekki við samninginn á uppgjörsdegi. Þriðja tegund mótaðilaáhættu er útlánaáhætta. Sjá einnig útlánaígildi.
Nettóstaða : Með nettóstöðu verðbréfa er átt við mismuninn milli gnóttstöðu og skortstöðu í samskonar verðbréfum.
Nústaða (e. spot position): Staða í fjármálaskjölum sem gerð verður upp eigi síðar en tveimur virkum dögum frá viðmiðunardegi.
Núviðskipti (e. spot transaction): Viðskipti sem gerð eru upp eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir upphafsdag þeirra. Sjá einnig framvirk viðskipti.
Opinber aðili: Ríki eða sveitarfélag á Íslandi eða samsvarandi aðili í öðrum löndum.
Opinber fyrirtæki og stofnanir: Með opinberum fyrirtækjum og stofnunum í reglum þessum er átt við fyrirtæki og stofnanir sem eru að öllu leyti í eigu ríkis eða sveitarfélaga eða samsvarandi stjórnvalda í öðrum löndum eða eru undir stjórn áðurnefndra aðila og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Opinber fyrirtæki eða stofnanir sem rekin eru í samkeppni við önnur atvinnufyrirtæki eru undanskilin. Í viðauka II eru talin upp þau fyrirtæki og stofnanir á Íslandi sem þessi skilgreining á við um.
Opinbert viðmiðunargengi: Opinbert viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands eins og það er skráð á uppgjördegi.
Opin gjaldeyrisstaða í gjaldmiðli (e. Net open position in a currency): Mismunur gnóttstöðu og skortstöðu í viðkomandi gjaldmiðli. Sjá einnig hrein gjaldeyrisstaða.
Rauntímaaðferð (e. duration based method): Aðferð til að reikna út vaxtaáhættu fyrirtækis. Aðferðin tekur mið af reiknuðum rauntíma skuldabréfs/fjármálasamnings, í stað afborgunartíma. Rauntími skuldabréfs er veginn meðal afborgunartími þess og er þá tekið tillit til allra greiðslna af skuldabréfinu, bæði vaxta og afborgana, eftir að þær hafa verið núvirtar með reiknaðri ávöxtun skuldabréfsins. Hin reiknaða ávöxtun skuldabréfsins skal taka mið af markaðsvirði bréfsins á uppgjörsdegi. Leiðréttur rauntími skuldabréfs (e. modified duration) er reiknaður rauntími skuldabréfsins deilt með einum plús hin reiknaða ávöxtunarkrafa. Sjá einnig binditímaaðferð.
Raunveruleg sölu- og endurkaupaviðskipti: Sölu- og endurkaupaviðskipti þar sem afsalshafi hefur skuldbundið sig til að skila eignunum aftur. Sjá einnig sala með endurkauparétti.
Sala með endurkauparétti: Sölu- og endurkaupaviðskipti þar sem afsalshafi á rétt á en hefur ekki skuldbundið sig til að skila eignunum aftur. Sjá einnig raunveruleg sölu- og endurkaupaviðskipti.
Samningsbundin skuldajöfnun (e. contractual netting): Samningur milli tveggja eða fleiri aðila sem eiga eina eða fleiri kröfur hver á annan um að í stað þess að gera upp hverja kröfu sérstaklega, skuli láta kröfurnar jafnast hverja á móti annarri og aðeins nettómismunur (jaðargreiðsla) komi til uppgjörs og greiðslu.
Samstæða, samstæðufyrirtæki: Móðurfyrirtæki og dótturfyrirtæki þess.
Skipulegur verðbréfamarkaður: Markaður með verðbréf samkvæmt skilgreiningu laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.
Skortstaða (e. short position): Staða í fjármálaskjölum sem skyldar eða getur í framtíðinni skyldað fyrirtækið, eða gefið því rétt, til að láta af hendi greiðslu í peningum, verðbréfum eða öðrum eignum. Sölu og kaupréttur sem fyrirtækið á eða hefur gert samning um telst vera hluti af skortstöðu. Sjá einnig gnóttstaða og nettóstaða.
Skortsala (e. short sale): Sala á verðbréfum eða öðrum eignum sem ekki eru í eigu seljanda á þeim tíma þegar salan fer fram.
Skráð verðbréf: Verðbréf sem hefur verið skráð á skipulegum verðbréfamarkaði. Sjá einnig skipulegur verðbréfamarkaður.
Skuldaskjal (e. debt instruments): Fjármálagerningur sem felur í sér loforð um greiðslu.
Staðlaður framvirkur samningur (e. futures contract/ interest rate future): Staðlaður afleiðusamningur sem verslað er með á skipulögðum markaði, er tryggður og sem gefur handhafa rétt til að kaupa eða selja tiltekinn fjármálagerning á fyrirfram ákveðnum degi og á fyrirfram ákveðnu verði. Breyting á markaðsvirði samnings er gerð upp á hverjum degi og/eða samningur tryggður á annan hátt af skipulegum verðbréfamarkaði, viðskiptavaka eða greiðslujöfnunarstöð.
Stór áhættuskuldbinding: Skuldbindingar sem reglur Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum ná til.
Stöðuáhætta (e. position risk): Hætta sem tengd er stöðu fyrirtækis í tilteknum fjármálagerningi og sem er tilkomin vegna hugsanlegra breytinga á verði viðkomandi gernings. Með sérstakri stöðuáhættu er átt við hættu á breytingum á verði gerningsins, vegna aðstæðna sem tengjast útgefanda þess, eða útgefanda grundvallargernings þegar um er að ræða afleiðusamning. Með almennri stöðuáhættu er átt við hættu á breytingum á verði fjármálagernings, vegna aðstæðna sem eru óháðar útgefanda þess, eða útgefanda grundvallargernings þegar um afleiðusamning er að ræða.
Sölu- og endurkaupaviðskipti: Viðskipti sem fela í sér framsal fyrirtækis eða viðskiptavinar (framseljanda) til annars fyrirtækis eða viðskiptavinar (afsalshafa) á eignum, t.d. víxlum, skuldabréfum eða öðrum framseljanlegum verðbréfum, með samningi um að sömu eignir verði síðar framseldar aftur til framseljanda á tilteknu verði. Sjá einnig raunveruleg sölu- og endurkaupaviðskipti og sala með endurkauparétti.
Söluréttur (e. put option): Réttur til að selja vöru, verðbréf eða gjaldeyri á fyrirfram ákveðnu verði, annað hvort á ákveðnum degi eða fyrir ákveðinn dag. Slíkur samningur er bindandi fyrir þann sem selur slíkan samning en kaupandi getur valið hvort hann nýtir sér réttinn eða ekki. Sjá einnig valréttur og kaupréttur
Útlánaígildi (e. credit equivalent): Liðir utan efnahagsreiknings sem reiknaðir hafa verið til ígildis útlána. Mótaðilaáhætta fyrirtækis vegna liða utan efnahagsreiknings er reiknað af útlánaígildi þessara liða.
Valréttur/valréttarsamningur (e. option): Kaupréttur eða söluréttur.
Vaxta- og gjaldmiðlasamningur (e. cross currency swap): Samningur sem kveður á um bæði vaxta- og gjaldmiðlaskipti, þ.e. að samningsaðilar skiptist á höfuðstól tveggja mynta á ákveðnu gengi í framtíðinni ásamt vaxtagreiðslum yfir ákveðið tímabil. Skipst er á höfuðstól í lokin, en einnig oft í upphafi samnings.
Vaxtaskiptasamningur (e. interest rate swap / single currency swap): Samningur sem kveður á um að samningsaðilar skiptist á vaxtagreiðslum m.t.t. þróunar vaxta í tilteknum gjaldmiðli. Ekki er skipst á grundvallarfjárhæðinni, heldur aðeins á vaxtamuninum sem reiknaður er af grundvallarfjárhæð samningsins. Til eru þrjár megintegundir vaxtaskiptasamninga þ.e.
- samningur sem byggir á mismun á þróun breytilegra vaxta í einum gjaldmiðli, t.d. mismun á þróun ríkisvíxlavaxta og millibankavaxta.
- samningur sem byggir á mismun fastra vaxta og þróun breytilegra vaxta í einum gjaldmiðli,
- vaxtaskiptasamningur milli gjaldmiðla.
Vaxtaskiptasamningur milli gjaldmiðla (e. cross currency interest rate swap): Vaxtaskiptasamningur sem kveður á um að samningsaðilar skiptist á vaxtagreiðslum m.t.t. þróunar vaxta sem eru í a.m.k. tveimur mismunandi gjaldmiðlum. Ekki er skipst á grundvallarfjárhæðinni, heldur aðeins á vaxtamuninum sem reiknaður er af grundvallarfjárhæð samningsins.
Veltubók (e. trading book): Til veltubókar teljast fjármálagerningar og hrávara sem fjármálafyrirtæki hefur eignast eða heldur eftir með endursölu í huga og/eða í því skyni að hagnast á skammtímabreytingum á markaðsvirði þessara skjala eða öðrum verð- eða vaxtabreytingum. Jafnframt teljast til veltubókar stöður í fjármálagerningum og hrávörum sem verða til við samtímis skipti á höfuðstólsfjárhæðum, svo og fjármálasamningar sem fjármálafyrirtæki er aðili að í því skyni að baktryggja aðra þætti veltubókar. Til veltubókar teljast ennfremur áhættuþættir tengdir óuppgerðum og ófrágengnum viðskiptum og afleiðusamningum sem verslað er með utan verðbréfamarkaðar, svo og áhættuþættir er tengjast skuldbindingum fjármálafyrirtækis sem myndast vegna viðskipta með fjármálagerninga og hrávörur í veltubók.
Veltuverðbréf: Markaðsverðbréf sem er ekki aflað í þeim tilgangi að halda því til varanlegrar eignar. Sjá einnig fjárfestingarverðbréf.
Verðbréfa- eða hrávörulánveiting og verðbréfa- eða hrávörulántaka. (e. securities or commodities lending/ securities or commodities borrowing): Öll viðskipti sem felast í því að fyrirtæki eða mótaðili þess framselur verðbréf eða hrávörusamninga gegn hæfilegri tryggingu með því skilyrði að lántakandinn skili aftur jafngildum verðbréfum eða hrávörusamningum síðar eða þegar framseljandi krefst þess. Um er að ræða verðbréfa- eða hrávörulánveitingu fyrir fyrirtækið sem framselur verðbréfin eða hrávörusamningana og verðbréfa- eða hrávörulántöku fyrir fyrirtækið sem verðbréfin eða hrávörusamningarnir eru framseld til.
*1)Sbr. 1. gr. reglna nr. 1013/2005.
- - - - - - -
Ákvæði um nettóstöðu.
24. gr.
(1) Með nettóstöðu verðbréfa er átt við mismun á gnóttstöðu og skortstöðu í samskonar verðbréfum. Í þessu sambandi skal flokka þá afleiðusamninga fyrirtækis sem teljast til veltubókar á sama hátt og verðbréf í efnahagsreikningi og skal reikna gnóttstöður og skortstöður í grundvallarverðbréfi afleiðusamnings, eða í ímynduðu verðbréfi, í samræmi við ákvæði viðauka IV. Ennfremur skal taka tillit til endurhverfra viðskipta við útreikninga á nettóstöðum skuldaskjala og hlutabréfa í samræmi við fyrrnefndan viðauka.
(2) Auk þess áhættugrunns sem er til kominn vegna stöðuáhættu afleiðusamninga í veltubók, sem reiknuð er í samræmi við ákvæði þessa kafla, skal reikna áhættugrunn vegna mótaðilaáhættu þessara afleiðusamninga í samræmi við ákvæði 6. kafla, nema um sé að ræða staðlaða afleiðusamninga sem verslað er með á skipulegum verðbréfamarkaði og annarra samninga sem tryggðir eru með daglegum uppgjörum sem eru viðurkennd af Fjármálaeftirlitinu. Ennfremur skal reikna áhættugrunn vegna endurhverfra viðskipta í samræmi við ákvæði 6. kafla.
(3) Nettóstöðu í skjölum sem eru í erlendum gjaldmiðli skal reikna yfir í íslenskar krónur á opinberu viðmiðunargengi áður en frekari útreikningar á áhættugrunni eiga sér stað.
- - - - - - -
- Með stöðu í keyptum samningi skal fara sem samsetningu á annars vegar láni sem fellur í gjalddaga á uppgjörsdegi samningsins og hins vegar eignalið með sama gjalddaga og grundvallarfjárhæð umrædds afleiðusamnings.
- Með stöðu í seldum samningi skal fara sem samsetningu á annars vegar eignalið með sama gjalddaga og afleiðusamningurinn og hins vegar skuld með sama gjalddaga og grundvallarfjárhæð umrædds afleiðusamnings.