Skattalagasafn ríkisskattstjóra 10.9.2024 23:56:17

nr. 460/2005 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=460.2005.0)
Ξ Valmynd

Auglýsing
nr. 460/2005, um meðhöndlun leigusamninga í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga.

1. gr.
Grundvöllur færslu leigusamninga.

     Leigusamninga skal meðhöndla í reikningsskilum sveitarfélaga í samræmi við lög um ársreikninga, nr. 144/1994*1), og samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastaðli, IAS staðli 17.

*1)lög nr. 3/2006.

2. gr.
Orðskýringar.

     Merking eftirfarandi orða er sem hér segir í þessari auglýsingu, í samræmi við alþjóðlegan reikningsskilastaðal, IAS staðal 17:

  1. Leigusamningur:
    Samningur þar sem leigusali lætur af hendi til leigutaka afnotarétt af eign í umsaminn tíma í skiptum fyrir greiðslu eða raðgreiðslur.
  2. Lágmarksleigugreiðslur:
    Greiðslur á leigutímanum sem leigutaka er skylt að greiða eða hann kann að verða krafinn um, að undanskilinni skilyrtri leigu, þjónustukostnaði og sköttum sem leigusali greiðir og leigutaki skal endurgreiða honum.
  3. Vaxtakjör á nýju fjármagni:
    Sú vaxtaprósenta, við upphaf samningstímans, sem leigutakinn þyrfti að greiða ef hann tæki að láni nægilegt fjármagn til að kaupa eignina á sambærilegu tímabili og með sambærilegu veði.
     

3. gr.
Flokkun leigusamninga.

(1) Í alþjóðlegum reikningsskilastaðli, IAS staðli 17, er leigusamningum skipt í fjármögnunarleigusamninga (oft einnig nefndir eignarleigusamningar) og rekstrarleigusamninga. Flokkun leigusamninga ræðst af því hvernig áhættu og ávinningi sem fylgir eignarhaldi eignarinnar er skipt milli leigutaka og leigusala. Leigusamningur er flokkaður sem fjármögnunarleiga ef með honum er að verulegu leyti yfirfærð öll áhætta og ávinningur sem fylgir eignarhaldi. Leigusamningur er flokkaður sem rekstrarleiga ef með honum er ekki yfirfærð að verulegu leyti öll áhætta og ávinningur sem fylgir eignarhaldi.

(2) Að jafnaði er litið á samning sem fjármögnunarleigusamning ef einu eða fleirum af eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

  1. Ákvæði í leigusamningnum kveður á um að eignarréttur flytjist til leigutaka í lok leigutímans.
  2. Leigutaki á kauprétt á eigninni í lok leigutímans á verði sem vænta má að sé undir gangvirði þegar kauprétturinn er nýttur.
  3. Leigutíminn nær yfir meginhluta af áætluðum endingartíma eignarinnar, jafnvel þótt eignarréttur flytjist ekki til leigutaka.
  4. Núvirði lágmarksleigugreiðslu svarar sem næst til markaðsvirðis hinnar leigðu eignar.
  5. Leigða eignin er í eðli sínu sérhæfð þannig að aðeins leigutakinn getur notað hana án mikilla breytinga.
  6. Leigða eignin er svo sérhæfð að það er ekki auðvelt að finna staðgengil fyrir hana.

(3) Sé engu ofangreindra skilyrða fullnægt er að jafnaði litið svo á að leigusamningurinn sé rekstrarleigusamningur.
 

4. gr.
Bókun fjármögnunarleigusamninga hjá leigutaka.

     Leigutaki skal færa fjármögnunarleigu sem eignir og skuldir í efnahagsreikning sinn með fjárhæðum sem eru jafnvirði gangvirðis leigðu eignarinnar í upphafi samningstímans eða, ef þær eru lægri, með núvirði lágmarksleigu.
 

5. gr.
Bókun rekstrarleigusamninga hjá leigutaka.

(1) Rekstrarleigu skal gjaldfæra í rekstrarreikningi með línulegri aðferð á leigutímanum, nema önnur aðferð gefi betri mynd af ávinningi leigutaka.

(2) Í samræmi við 3. mgr. 42. gr. laga um ársreikninga, nr. 144/1994*1), skal í skýringum með ársreikningi tilgreina sérstaklega skuldbindingar vegna rekstrarleigusamninga sem nema verulegum fjárhæðum.

(3) Að lágmarki skal veita upplýsingar um hvers konar eignir verið er að leigja og heildarlágmarksleigu í framtíðinni, sundurliðað þannig að fram komi heildarlágmarksleiga innan eins árs, eftir eitt ár en innan fimm ára og eftir fimm ár.

(4) Samtala skuldbindinga vegna rekstrarleigusamninga skal jafnframt sýnd fyrir neðan samtölu eigin fjár og skulda í efnahagsreikningi.

*1)Nú 4. mgr. 52. gr. laga nr. 3/2006.

6. gr.
Núvirðing.

     Í núvirðisútreikningi skal nota vaxtakjör á nýju fjármagni þegar samningur er gerður.
 

7. gr.
Önnur ákvæði.

     Um þau atriði sem ekki er kveðið á um í auglýsingu þessari skal fara að alþjóðlegum reikningsskilastaðli, IAS staðli 17.
 

8. gr.
Gildistaka.

     Auglýsing þessi, sem sett er á grundvelli 18. gr. reglugerðar nr. 944/2000, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
 

Fara efst á síðuna ⇑