Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 09:42:11

nr. 1505/2021 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=1505.2021.0)
Ξ Valmynd

 

Auglýsing
nr. 1505/2021, um viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um ákvörðun á lækkun á skattstofnum (ívilnun) við álagningu opinberra gjalda 2022.

Við tilteknar aðstæður er heimilt að óska eftir lækkun á skattstofnum einstaklinga samkvæmt 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Óska þarf eftir lækkun (ívilnun) í skattframtali. Fylla þarf út þar til gerða umsókn (RSK 3.05) á þann hátt sem hún gerir ráð fyrir. Gera þarf grein fyrir ástæðum umsóknar og aðstæðum, sýna fram á útlagðan kostnað á viðkomandi ári og leggja fram önnur gögn eftir því sem við á. Sé umsókn ekki útfyllt samkvæmt því sem form hennar gerir ráð fyrir eða hún er á annan hátt ófullnægjandi þannig að nauðsynlegar upplýsingar komi ekki fram, gögn fylgja ekki eða eru ófullnægjandi er umsókninni synjað að svo stöddu.

Heimild ríkisskattstjóra til lækkunar á skattstofnum getur einkum átt við vegna sérstakra áfalla, svo sem slysa eða veikinda, sérstakra útgjalda vegna þungrar framfærslu, en einnig ef maður verður fyrir verulegu óbættu eignatjóni, tapar kröfum eða á hann falla ábyrgðir sem ekki stafa af atvinnu­rekstri.

Um ákvörðun á ívilnun við álagningu opinberra gjalda á árinu 2022 gilda eftirfarandi reglur. Komi eitthvað það fram af hálfu umsækjanda sem t.d. sýnir fram á einhverja sérstöðu í viðkomandi máli þá er það skoðað sérstaklega.

A.   Ef ellihrörleiki, veikindi, slys eða mannslát hafa skert gjaldþol manns verulega (samanber 1. tölul. 65. gr. tekjuskattslaga).
Lækkun kemur til álita ef veikindi, slys, ellihrörleiki eða mannslát hafa í för með sér verulega skert gjaldþol hjá einstaklingi. Fyrst og fremst er litið til þess að til hafi fallið kostnaður sem einstaklingurinn hefur greitt sjálfur og er umfram það sem telst venjulegur almennur kostnaður, t.d. vegna lyfja og læknishjálpar. Ívilnun kemur því almennt ekki til greina nema kostnaður sé umfram það sem venjulegt telst.
 
Venjulegur almennur kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu hvers og eins einstaklings tekur mið af reglum um greiðsluþátttöku ríkisins, sbr. upplýsingar sem fram koma á vef Sjúkratrygginga Íslands þar um hverju sinni (sjukra.is). Er í því sambandi miðað við kostnað einstaklings fyrir læknis­þjónustu, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, talþjálfun, rannsóknir, geisla- og myndgreiningar, með­ferð húðsjúkdóma og þjónustu sálfræðinga sem starfa samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Á sama hátt er miðað við að venjulegur almennur kostnaður vegna lyfjakaupa sé sá kostn­aður sem einstaklingi er að hámarki gert að greiða samkvæmt greiðsluþátttökukerfi ríkisins, sbr. upplýsingar á vef Sjúkratrygginga Íslands þar um hverju sinni (sjukra.is). Sértækur kostnaður er sá kostnaður sem fellur ekki undir greiðsluþátttöku ríkisins, t.d. ákveðinn lyfjakostnaður, eða kostnaður sem fellur ekki undir framangreinda skilgreiningu á því sem telst venjulegur heilbrigðis­kostnaður, eins og t.d. kostnaður við heyrnartæki og tannviðgerðir vegna sjúkdóma.
 
Skert gjaldþol er að jafnaði reiknað út frá birtum dæmigerðum neysluviðmiðum félagsmála­ráðuneytisins 2019 að teknu tilliti til verðlagsbreytinga miðað við birt gildi vísitölu framfærslu­kostnaðar og vísitölu neysluverðs í október 2021. Telji umsækjandi að gjaldþol hans hafi skerst umfram það sem útreikningur samkvæmt reglunum sýnir ber honum að rökstyðja það sérstaklega og leggja fram skýringar og eftir atvikum gögn.

1. Vegna mannsláts (samanber 1. tölul. 65. gr. tekjuskattslaga).
Við mat á ívilnun er einkum litið til útfararkostnaðar og eins ef til fellur annar kostnaður vegna andlátsins, sem telst verulegur.
 
Sé kostnaður 1.100.000 kr. eða lægri, þarf ekki að tilgreina sundurliðaðar fjárhæðir. Ef óskað er eftir hærri ívilnun þarf að gera sundurliðaða grein fyrir þeim kostnaði sem til féll. Ívilnun verður ekki hærri en 1.600.000 kr. nema í sérstökum undantekningartilvikum.

2. Vegna veikinda, slysa, eða ellihrörleika (samkvæmt 1. tölul. 65. gr. tekjuskattslaga).
Komi lækkun til álita er reiknaður saman sá kostnaður sem heimilt er að horfa til og ein­staklingurinn hefur greitt sjálfur og reynist umfram það sem telst venjulegur kostnaður, t.d. vegna lyfja og læknishjálpar. Almennur venjulegur kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja telst að jafnaði geta numið samtals 140.000 kr. á ári hjá hverjum og einum en 95.000 kr. í tilviki aldraðra og öryrkja. Að auki er tekið tillit til sértæks heilbrigðiskostnaðar sem ekki er inni í greiðslu­þátttökukerfi ríkisins að neinu leyti eða einungis að hluta til, s.s. vegna kostnaðar við tiltekin lyf og heyrnartæki, og greiddur er af viðkomandi einstaklingi. Kostnaður telst almennt ekki verulegur fyrr en heildar­fjárhæð hans nær tvöföldum almennum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja á viðkomandi ári. Þannig fundin lækkun skerðist í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn vegna viðkomandi tekjuárs að viðbættum fjármagnstekjum og að frádregnum álögðum opinberum gjöldum, eða áætluðum opin­berum gjöldum þegar umsókn er afgreidd við álagningu viðkomandi tekjuárs.
 
Almennt er miðað við að ívilnunarfjárhæð skerðist sé samanlagður tekjuskattsstofn hjóna og sambúðarfólks að frádregnum opinberum gjöldum umfram u.þ.b. 1,9 falt dæmigert neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins 2019, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga miðað við birt gildi vísitölu framfærslukostnaðar og vísitölu neysluverðs í október 2021 fyrir hjón en falli alveg niður við 3,2 falt neysluviðmið fyrir hjón og er því að jafnaði engin ívilnun veitt þegar því marki er náð. Hjá ein­hleypum einstaklingi og einstæðu foreldri gerist þetta með sams konar hætti miðað við viðeigandi neyslu­viðmið. Hafi umsækjandi í lok tekjuárs á sínu framfæri börn sem eru yngri en 18 ára, eru lægri viðmiðunarmörkin hækkuð, hjá hjónum um 15% fyrir fyrsta barn og 7% fyrir hvert barn umfram eitt, en að hámarki 40% samtals og hjá einstæðu foreldri um 20% fyrir fyrsta barn og 10% fyrir hvert barn umfram eitt, en að hámarki 50% samtals.
 
Einnig er tekið tillit til hreinnar peningalegrar eignar umsækjenda, þ.e. peningalegar eignir (inn­stæður í innlendum bönkum og sparisjóðum, innstæður í erlendum bönkum, innlend og erlend verðbréf og kröfur) að frádregnum öðrum skuldum (reitur 5.5 í skattframtali, t.d. skuld við LÍN, ökutækjalán, yfirdráttarskuldir, skuldir við greiðslukortafyrirtæki, skuldir opinberra gjalda o.fl.). Sé greind hrein eign hjóna 17.350.000 kr. eða lægri reiknast engin skerðing, en nemi þannig reiknuð eign umfram skuldir 34.700.000 kr. eða hærri fjárhæð skerðist ívilnunarfjárhæðin að fullu og engin ívilnun að jafnaði veitt. Hjá einstaklingi og einstæðu foreldri gerist þetta á bilinu 12.000.000 – 24.000.000 kr.
 
Útreiknuð lækkun samkvæmt framangreindum viðmiðunum verður að nema að lágmarki 55.000 kr. annars kemur ívilnun ekki til álita. Sé veitt ívilnun er útreiknuð lækkun á tekjuskattsstofni hækkuð eða lækkuð í næsta hálfa tugþúsund.

B.   Ef á framfæri manns er barn sem haldið er langvinnum sjúkdómum eða er fatlað (saman­ber 2. tölul. 65. gr. tekjuskattslaga).
Við mat á ívilnun samkvæmt þessum tölulið er fyrst og fremst litið til þess aukna framfærslu­kostnaðar umfram mótteknar bætur eða lífeyri sem sýnt er fram á að leiði af langvarandi sjúkdómi eða fötlun barns sem er á framfæri foreldra/forráðamanna. Ívilna skal þeim sem fer með forræði barnsins við þessar aðstæður óháð því hvernig gjaldþoli framfærenda er farið. Ef um sameiginlega forsjá er að ræða og fyrir liggur ótvírætt að kostnaður er greiddur af báðum forsjáraðilum þá er ívilnunarfjárhæð skipt að jöfnu á milli þeirra.
 
Horft er til sömu viðmiðana um það hvað telst venjulegur og verulegur kostnaður og gert er varðandi veikindi, sbr. lið A2 að framan, en miðað við fjárhæðir vegna barna samkvæmt greiðslu­þátttöku­kerfi ríkisins, þ.e. sömu fjárhæðir og gilda um aldraða og öryrkja.
 
Sé veitt ívilnun er útreiknuð lækkun á tekjuskattsstofni hækkuð eða lækkuð í næsta hálfa tug­þúsund.

C.   Ef maður hefur foreldra eða aðra vandamenn sannanlega á framfæri sínu (samanber 3. tölul. 65. gr. tekjuskattslaga).
Við ákvörðun á ívilnun vegna framfærslu vandamanna er fyrst litið til tekna þess sem fram­færslu nýtur. Taka skal tillit til allra tekna, bóta og styrkja sem falla til vandamannsins, svo og eigna sem staðið geta undir framfærslu hans. Þá skal ennfremur líta til þess hvort sýnt hafi verið fram á aukinn framfærslukostnað á sama hátt og varðandi lið B varðandi langveik og/eða fötluð börn.
 
Að því gefnu að forsendur séu til að ívilna vegna framfærslu vandamanns skal taka mið af framfærslukostnaði samkvæmt dæmigerðum neysluviðmiðunum félagsmálaráðuneytisins 2019, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga miðað við birt gildi vísitölu framfærslukostnaðar og vísitölu neyslu­verðs í október 2021 og þess aukakostnaðar sem um er að ræða vegna veikinda eða annarra sérstakra atvika sem ekki er greiddur af öðrum. Almennt skal miða við að ákvarða ívilnunarfjárhæð að hámarki miðað við helming þess sem umsækjandi leggur til framfærslu vandamannsins að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og tekna.
 
Sé veitt ívilnun er útreiknuð lækkun á tekjuskattsstofni hækkuð eða lækkuð í næsta hálfa tug­þúsund.

D. Eignatjón (samanber 5. tölul. 65. gr. tekjuskattslaga).
Hér undir fellur verulegt eignatjón sem einstaklingur fær ekki bætt úr hendi annarra aðila. Ívilnun kemur ekki til álita ef mögulegt er að fá tjónið bætt úr hendi annars aðila. Tjón telst almennt ekki verulegt nema það nemi 850.000 kr. eða hærri fjárhæð.
 
Komi lækkun til álita miðað við eðli þess tjóns sem um ræðir er lagt mat á fjárhæð til lækkunar á skattstofnum. Við mat á því hvað telst verulegt fjárhagslegt tjón umsækjanda er horft til hreinnar eignar hans. Útreiknuð fjárhæð tjóns til lækkunar skerðist í jöfnu hlutfalli við hreina eign umsækj­anda, þ.e. eignir alls að frádregnum skuldum. Sé samanlögð hrein eign hjóna 28.150.000 kr. eða lægri er engin skerðing, en nemi eignin 87.700.000 kr. eða hærri fjárhæð skerðist ívilnunar­fjárhæðin að fullu og að jafnaði engin ívilnun veitt. Hjá einstaklingi og einstæðu foreldri miðast viðmiðunar­fjárhæðir við hreina eign á bilinu 18.400.000 – 58.500.000 kr.
 
Hámarkslækkun skattstofna er að jafnaði miðuð við helming viðkomandi fjártjóns en hvert tilvik er metið fyrir sig.
 
Útreiknuð lækkun samkvæmt framangreindum viðmiðunum verður að nema að lágmarki 55.000 kr. annars kemur ívilnun ekki til álita. Sé veitt ívilnun er útreiknuð lækkun á tekjuskattsstofni hækkuð eða lækkuð í næsta hálfa tugþúsund.

E. Tapaðar kröfur (samanber 6. tölul. 65. gr. tekjuskattslaga).
Lækkun kemur til álita hafi gjaldþol manns skerst verulega vegna tapa á útistandandi kröfum sem ekki tengjast atvinnurekstri hans. Sama gildir m.a. um ábyrgðir sem fallið hafa á mann til greiðslu án möguleika á endurkröfu. Við mat á ívilnun er litið til fjártjóns umsækjanda vegna taps á útistandandi kröfum og hvort og hvernig það hefur skert gjaldþol hans verulega og er þá litið heildstætt til tekna, eigna og heildarfjárhæðar tapaðra krafna. Ekki er veitt lækkun vegna taps á hluta­bréfum eða lánum sem tengjast atvinnurekstri. Sama á við um verðbréfaeign og hlutdeild í t.d. peningamarkaðssjóðum. Með atvinnurekstri í þessu sambandi er átt við atvinnurekstur sem einstak­lingur hefur með höndum og eignarhlut í lögaðila sé hann verulegur. Eignarhlutur telst almennt verulegur ef hann er 20% eða meiri, enda sé ekki um að ræða lögaðila sem er að öðru leyti í eigu fjölskyldu eða samstarfsmanna.
 
Komi lækkun til álita er metið það tap sem heimilt er að horfa til. Sú fjárhæð skerðist almennt í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn og fjármagnstekjur umsækjenda, að frádregnum reiknuðum opinberum gjöldum. Séu samanlagðar tekjur hjóna þannig reiknaðar 7.050.000 kr. eða lægri er engin skerðing, en nái þær 14.100.000 kr. skerðist ívilnunarfjárhæðin alla jafna að fullu og engin ívilnun yrði veitt. Hjá einstaklingi og einstæðu foreldri eru viðmiðunarfjárhæðir 4.900.000 – 9.200.000 kr.
 
Einnig er með sama hætti tekið tillit til hreinnar peningalegrar eignar umsækjenda, þ.e. peninga­legar eignir (innstæður í innlendum bönkum og sparisjóðum, innstæður í erlendum bönkum, innlend og erlend verðbréf og kröfur) að frádregnum öðrum skuldum (reitur 5.5 í skattframtali, t.d. skuld við LÍN, ökutækjalán, yfirdráttarskuldir, skuldir við greiðslukortafyrirtæki, skuldir opinberra gjalda o.fl.). Sé greind hrein eign hjóna 8.700.000 kr. eða lægri reiknast engin skerðing, en nemi eignin 26.500.000 kr. eða hærri fjárhæð skerðist ívilnunarfjárhæðin alla jafna að fullu og engin ívilnun yrði veitt. Hjá einstaklingi og einstæðu foreldri gerist þetta á bilinu 6.000.000 – 17.500.000 kr.
 
Framangreindar skerðingarreglur eiga almennt við um fjártjón allt að 2.200.000 kr. Sé fjártjón yfir 2.200.000 kr. eiga reglurnar um skerðingu við allt að þeirri fjárhæð en síðan er horft til allt að helmings þeirrar fjárhæðar sem umfram er 2.200.000 kr. við ákvörðun á lækkun skattstofna. Tjón af þessum toga telst almennt ekki verulegt nema það nemi 700.000 kr. eða hærri fjárhæð.
 
Hámarkslækkun skattstofna er að jafnaði miðuð við helming fjártjónsins en hvert tilvik er metið heildstætt fyrir sig.
 
Útreiknuð lækkun samkvæmt framgreindum viðmiðunum verður að nema að lágmarki 55.000 kr. annars kemur ívilnun ekki til álita. Sé veitt ívilnun er útreiknuð lækkun á tekjuskattsstofni hækkuð eða lækkuð í næsta hálfa tugþúsund.

 

Fara efst á síðuna ⇑