Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.10.2024 20:05:48

nr. 1131/2020 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=1131.2020.0)
Ξ Valmynd

Reglur ríkisskattstjóra

nr. 1131/2020, um um opinbera birtingu stjórnsýsluviðurlaga samkvæmt lögum nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lögum nr. 64/2019, um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna.

1. gr.

 Birting stjórnsýsluviðurlaga.
 

Samkvæmt 53. gr. laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðju­verka, og 25. gr. laga nr. 64/2019, um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir á grundvelli laga um fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna, skal birta opinberlega á vefsíðu Skattsins öll stjórnsýsluviðurlög, sem ákveðin eru í samræmi við 46.-47. gr. og 50. gr. laga nr. 140/2018 og 20. og 21. gr. laga nr. 64/2019. Með stjórnsýsluviðurlögum sam­kvæmt tilvitnuðum ákvæðum er átt við; stjórnvaldssektir, sáttir og brottvikningu stjórnar og fram­kvæmda­stjóra samkvæmt lögum nr. 140/2018 og stjórnvaldssektir og sáttir samkvæmt lögum nr. 64/2019.

 
2. gr.
 
Tilgangur birtingar.
 

(1) Tilgangur með birtingu á ákvörðunum sem lúta að viðurlögum samkvæmt lögunum er tvíþættur. Annars vegar að veita brotlegum aðila aukið aðhald og hins vegar að hafa almenn varnaðaráhrif þar sem í birtingu koma fram upplýsingar um brot, eðli þess og tegund ásamt nöfnum þeirra sem gerst hafa brotlegir og hefur birting þannig m.a. áhrif á orðspor og trúverðugleika þeirra sem gerst hafa brotlegir. Enn fremur varpar birting ljósi á stjórnsýsluframkvæmd og er til þess fallin að auka gagn­sæi í málsmeðferð á þessu sviði.
 
(2) Þess er vænst að þeir aðilar sem lúta eftirliti ríkisskattstjóra yfirfari starfshætti sína með hliðsjón af birtum ákvörðunum í málum eftir því sem við á.

  
3. gr.
 
Mat á birtingu.
 

Ákvarðanir í málum þar sem viðurlögum, sbr. 2. málsl. 1. gr., þ.e. sektum, sáttum og brottvikningu stjórnar og framkvæmdastjóra, hefur verið beitt skulu birtar ef það er talið samræmast tilgangi 53. gr. laga nr. 140/2018 og 25. gr. laga nr. 64/2019 og þjóna almennum hagsmunum á þeim vett­vangi sem eftirlitsskyldir aðilar, skv. l–s-lið 2. gr. laga nr. 140/2018, starfa á.

 4. gr.
 
Efni birtingar.
 

Við birtingu ákvörðunar skal tilgreina að lágmarki eftirfarandi upplýsingar: 

  1. Tegund og eðli brots,
  2. nafn þess lögaðila eða einstaklings sem viðurlagaákvörðun beinist að og
  3. fjárhæð sektar.

5. gr.
 
Réttur til að koma að sjónarmiðum.
 

(1) Þegar ákvörðun stjórnsýsluviðurlaga, þ.e. stjórnvaldssekta, sátta og brottvikningu stjórna og framkvæmdastjóra, er boðuð skal samhliða kynna aðila fyrirhugaða birtingu þeirra viðurlaga og gefa honum kost á að koma á framfæri sjónarmiðum um hvort viðkomandi telji að takmarka beri birtinguna í heild eða að hluta, í samræmi við 2. mgr. 6. gr.
 
(2) Telji aðili að birting viðurlaga valdi tjóni sem ekki sé í eðlilegu samræmi við það brot sem um ræðir skal hlutaðeigandi aðili sýna fram á líklegt tjón sem birting kunni að valda. Við mat á and­mælum skal lagt mat á það hvort vegi þyngra, hagsmunir hlutaðeigandi aðila af því að ákvörðun um viðurlög verði ekki birt eða hagsmunir almennings og viðskiptalífsins af birtingu ákvörðunar.
 
(3) Sé fallist á sjónarmið aðila eru gerðar viðeigandi breytingar sem koma fram við sektarákvörðun.
 
(4) Sé ekki fallist á sjónarmið aðila skal sú ákvörðun rökstudd og birt þeim sem gerð er sekt sam­hliða birtingu ákvörðunar.

6. gr.
 
Tímasetning birtingar.
 

(1) Birting skal fara fram eins fljótt og unnt er eftir að brotlegum aðila hefur verið tilkynnt um ákvörðun um viðurlög.
 
(2) Heimilt er að fresta birtingu ef talið er að það tjón sem birting myndi valda hlutaðeigandi aðila sé ekki í eðlilegu samræmi við það brot sem um ræðir eða birtingin telst stefna rannsóknarhagsmunum í hættu. Við slíkar aðstæður getur embættið valið um eftirfarandi leiðir: 

  1. Fresta birtingu þar til umræddar aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi, eða
  2. birta upplýsingar um beitingu viðurlaga en fresta nafngreiningu á meðan aðstæður sem undanþiggja slíka birtingu eru taldar til staðar.

 7. gr.
 
Tímalengd birtingar.

(1) Upplýsingar, sem eru birtar samkvæmt 53. gr. laga nr. 140/2018 og 25. gr. laga nr. 64/2019, skulu vera aðgengilegar á vefsíðu Skattsins í að lágmarki fimm ár.
 
(2) Afmá skal persónugreinanlegar upplýsingar síðar ef birting þeirra til frambúðar þykir ekki sam­ræmast persónuverndarlögum. 

 8. gr.
 
Málskotsréttur.
 

Aðila sem sætir viðurlögum af hálfu ríkisskattstjóra á grundvelli laga nr. 140/2018 og laga nr. 64/2019 er heimilt að höfða mál til ógildingar á þeirri ákvörðun fyrir dómstólum. Hafi aðili borið ákvörðun ríkisskattstjóra undir dómstóla skal tilgreina á vefsíðu embættisins að höfðað hafi verið mál til ógildingar ákvörðuninni og upplýsingar um niðurstöðu dómsmálsins þegar hún liggur fyrir. 

 9. gr.
 
Gildistaka.
 

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 53. gr. laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og 25. gr. laga nr. 64/2019, um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna, öðlast gildi við birtingu.

Fara efst á síðuna ⇑