Skattalagasafn ríkisskattstjóra 3.12.2024 16:37:59

nr. 212/1996 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=212.1996.0)
Ξ Valmynd

Reglur
nr. 212/1996, um skilyrði fyrir ívilnun samkvæmt 66. og 80. gr. laga nr. 75/1981,
um tekjuskatt og eignarskatt. *1)

Í 1. mgr. 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), eru ákvæði um hvenær skattstjóri*6) skuli lækka tekjuskattsstofn. Í 2. mgr. 80. gr.*3) sömu laga eru ákvæði um að skattstjóra*6) sé heimilt að lækka eignarskattsstofn manns þegar svo standi á sem fram kemur í 1. tölul. 1. mgr. 66. gr.*2)
Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 66. gr.*2) hefur ríkisskattstjóri sett svohljóðandi reglur um skilyrði fyrir ívilnun:

Umsókn um lækkun.

Hjá skattstjórum skulu liggja frammi umsóknareyðublöð fyrir umsókn um ívilnun samkvæmt 66. gr. og 80. gr.*1) Á þeim skal koma greinilega fram hvaða gögn þurfa að fylgja umsókn. Maður sem sækir um ívilnun þarf að leggja fram fullnægjandi upplýsingar á þar til gerðum eyðublöðum eða á annan hátt. Ákvörðun skattstjóra*6) um ívilnun samkvæmt umsókn með skattframtali er kæranleg til skattstjóra. Kæruúrskurði skattstjóra varðandi ívilnun má áfrýja til ríkisskattstjóra.
Skattstjóri*6) skal taka umsóknir um lækkun skv. 66. og 80. gr.*1) til umfjöllunar þótt þær berist eftir lok kærufrests.

Lækkun skv. 1. tölul. - Ellihrörleiki, veikindi, slys eða mannslát.

Skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið eru að ellihrörleiki, veikindi, slys eða mannslát hafi haft í för með sér skert gjaldþol. Með skertu gjaldþoli er átt við að greiðslugeta manns sé skert vegna þess að hann hafi orðið fyrir verulegum kostnaði umfram bætur og styrki sem hann hefur fengið vegna framangreindra tilvika. Með kostnaði vegna ellihrörleika, veikinda eða slysa í þessu sambandi er átt við dvalarkostnað á stofnunum, lyfja- og lækniskostnað, kostnað vegna ferða, ýmiss konar sérútbúnaðar vegna fötlunar o.s.frv. Sýnt skal fram á að um óhjákvæmilegan kostnað sé að ræða og fyrir þurfa liggja gögn til staðfestingar á honum. Þó skal skattstjóri*6) veita ívilnun án umsóknar fái gjaldþegn dvalarheimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins.
Með kostnaði vegna andláts er átt við útfararkostnað ef hinn látni hefur látið eftir sig maka eða skylduómaga. Með útfararkostnaði er átt við venjulegan kostnað vegna útfarar.

Lækkun skv. 2. tölul. - Veikindi eða fötlun barns sem haldið er langvinnum sjúkdómum.

Skilyrði fyrir lækkun skv. þessum tölulið er að maður hafi veruleg útgjöld umfram venjulegan framfærslukostnað vegna barns sem haldið er langvinnum sjúkdómum eða er fatlað. Með verulegum útgjöldum er átt við þann kostnað sem er umfram fengnar bætur, styrki og lífeyri sem greiddur er vegna kostnaðar sem af þessum tilvikum leiðir. Með kostnaði í þessu sambandi er átt við dvalarkostnað á stofnunum, lyfja- og lækniskostnað, kostnað vegna ferða, ýmiss konar sérútbúnaðar vegna fötlunar o.s.frv. Sýna þarf fram á að um óhjákvæmilegan kostnað sé að ræða og leggja fram gögn til staðfestingar á honum.

Lækkun skv. 3. tölul. - Framfærsla foreldra eða annarra vandamanna.

Skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið eru sannanleg útgjöld vegna framfærslu foreldra eða annarra vandamanna. Gera þarf grein fyrir í hverju útgjöldin eru fólgin og jafnframt að sýna fram á að framfærslufé foreldris eða vandamanns, þ.e. tekjur, bætur og styrkir standi ekki undir nauðsynlegum útgjöldum vegna framfærslunnar.
Skilyrði fyrir lækkun vegna barna eldri en 16 ára sem maður hefur á framfæri sínu eru að barnið sé það tekjulágt vegna atvinnuleysis eða af öðrum ástæðum að því sé ókleift að standa undir eigin framfærslu. Miðað er við fjárhæð barnalífeyris sem hámarksívilnun og hafi barnið tekjur skerðist ívilnunin sem nemur þriðjungi af tekjum þess.

Lækkun skv. 4. tölul. - Menntunarkostnaðar*4) barna 16 ára og eldri.

Skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið er að barnið sé orðið 16 ára og stundi nám a.m.k. 3 mánuði á árinu. Hér er fyrst og fremst átt við börn á aldrinum 16-21 árs sem stunda nám að loknu grunnskólanámi þ.e. nám í mennta- eða fjölbrautaskólum, iðnnám o.þ.h. Veiti námið rétt til námslána kemur ívilnun ekki til álita. Hámarksívilnun er kr. 142.333*5) vegna náms sem stundað er hér á landi. Ef sótt er um hærri ívilnun vegna náms sem stundað er erlendis þarf að sýna fram á verulegan kostnað vegna námsins sem telja verður umfram venjulegan námskostnað, svo sem há skólagjöld, fargjöld o.þ.h. Ívilnun getur þó aldrei orðið hærri en tvöföld sú ívilnun sem veitt er vegna náms hér á landi. Hafi námsmaðurinn tekjur skerðist ívilnunin sem nemur þriðjungi af tekjum hans.

Lækkun skv. 5. tölul. - Verulegt eignatjón sem ekki hefur fengist bætt.

Skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið er að um sé að ræða verulegt eignatjón sem ekki hafi fengist bætt úr hendi annars aðila. Með verulegu eignatjóni er hér átt við að fjárhagslegar afleiðingar tjóns sem verður á eignum manns skerði gjaldþol hans. Ívilnun kemur ekki til álita ef mögulegt er að fá tjónið bætt úr hendi annars aðila.

Lækkun skv. 6. tölul. - Töp á útistandandi kröfum sem ekki stafa frá atvinnurekstri.

Skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið er að gjaldþol manns sé verulega skert vegna tapa á útistandandi kröfum sem ekki stafa af atvinnurekstri hans. Með atvinnurekstri í þessu sambandi er átt við atvinnurekstur sem einstaklingur hefur með höndum og eignaraðild í sameignarfélagi eða hlutafélagi. Það telst þó ekki atvinnurekstur ef eignarhluti í hlutafélagi er óverulegur og aðild og tengsl manns við félagið eru þannig að ekki sé ástæða til að líta þannig á að um atvinnurekstur sé að ræða. Sé eignarhluti minni en 20% telst hann óverulegur í þessu sambandi. Skuld telst töpuð þegar sýnt hefur verið fram á fullnægjandi hátt að hún fáist ekki greidd.

*1)Sbr. nú 65. og 79. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. *2)Sbr. nú 65. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. *3)Nú 79. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. *4)Svo birt í Stj.tíð. en á að vera "menntunarkostnaður". *5)Hámarksívilnun vegna tekjuársins 2011 er kr. 317.000. Þegar tekjur námsmanns á því ári eru orðnar kr. 951.000 fellur réttur til ívilnunar hjá framfæranda niður. 6)Nú ríkisskattstjóri.

Fara efst á síðuna ⇑