Skattalagasafn ríkisskattstjóra 3.12.2024 18:08:14

nr. 834/2003, kafli 7 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=834.2003.7)
Ξ Valmynd

VII. KAFLI
Matsreglur.

Ákvæði um mat á fastafjármunum.
49. gr.

     Eignir samkvæmt. liðum 9, 10 og 11 skulu metnar á kostnaðarverði, enda sé það í samræmi við góða reikningsskilavenju. Ef raunvirði eigna samkvæmt 1. málslið er verulega hærra en kostnaðarverð af ástæðum sem taldar eru varanlegar er heimilt að hækka bókfært verð þeirra í ársreikningi og skal matsbreytingin færð undir eiginfjárlið 8.3, „Endurmatsreikningur“. Afskriftir skulu reiknast af kostnaðarverði. Séu þessir fjármunir endurmetnir samkvæmt 2. ml. reiknast afskriftir af endurmetnu verði þeirra. Við útreikning á kostnaðarverði samkvæmt 1. og 2. ml. skal taka tillit til framreiknings vegna áhrifa verðlagsbreytinga fram til ársins 2001.

50. gr.

(1) Kostnaðarverð rekstrarfjármuna og rekstrarleigueigna með takmarkaðan nýtingartíma skal afskrifa á kerfisbundinn hátt, þannig að afskriftin svari verðrýrnun eignarinnar.

(2) Heimilt er að gjaldfæra á kaupári rekstrarfjármuni sem eru endurnýjaðir reglulega, enda sé heildarverðmæti þeirra óverulegt fyrir fyrirtækið.

51. gr.

(1) Óefnislegar eignir, svo sem viðskiptavild, eignfærðan langtímakostnað og þróunarkostnað, skal afskrifa á allt að 5 árum.

(2) Afskriftatímann má þó lengja fram yfir fimm ár enda sé hann ekki lengri en nýtingartími viðkomandi eignar. Gera skal grein fyrir ástæðum þessa í skýringum.

52. gr.

(1) Ef raunvirði rekstrarfjármuna, rekstrarleigueigna og óefnislegra eigna er lægra en bókfært verð þeirra samkvæmt 49.-51. gr. og ástæður þess verða ekki taldar skammvinnar ber að lækka bókfært verð til samræmis við hið lægra verðgildi.

(2) Ef forsendur verðlækkunar, skv. 1 mgr. þessarar greinar, eiga ekki lengur við ber að hækka bókfært verð til fyrra verðgildis.

(3) Niðurfærslu samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar skal færa á rekstrarlið 14.2, „Óregluleg gjöld“. Uppfærslu samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar skal færa á rekstrarlið 14.1, „Óreglulegar tekjur“.

53. gr.

(1) Einungis er heimilt að telja verðbréf sem fjárfestingarverðbréf ef fyrirtækið hefur með formlegum hætti tekið ákvörðun um að eiga verðbréfið til lengri tíma. Með lengri tíma er almennt átt við eitt ár eða fleiri.

(2) Skuldabréf verður að vera markaðsbréf til að það geti talist fjárfestingarverðbréf.

(3) Fjárfestingarverðbréf skulu sýnd í efnahagsreikningi með eftirfarandi hætti:

- Hlutabréf skal færa á markaðsverði eða upprunalegu kaupverði endurmetnu fyrir áhrifum gengisþróunar sé um að ræða verðbréf í erlendri mynt, - eftir því hvort verðið er lægra á uppgjörsdegi. Við útreikning á kaupverði samkvæmt 1. ml. skal taka tillit til framreiknings vegna áhrifa verðlagsbreytinga fram til ársins 2001.
- hlutdeildarskírteini skal færa á markaðsverði á uppgjörsdegi, og
- skuldabréf skal færa með áföllnum verðbótum og gengismun á reikningsskiladegi. Verðbætur skal miða við viðeigandi vísitölu næsta mánaðar á eftir uppgjörsmánuði, en gengistryggð skuldabréf skal færa við kaupgengi viðeigandi gjaldmiðils í lok reikningsskilatímabils. Afföllum og gengisauka af keyptum skuldabréfum skal dreift miðað við ávöxtunarkröfu á kaupdegi.

(4) Við útreikning á afföllum og gengisauka skuldabréfs skal miða við ávöxtunarkröfu á kaupdegi. Þó skal við mat á verðbréfi, sem ákveðið er að flokka sem fjárfestingarverðbréf og þá þegar er í eigu fyrirtækis, miða við þá ávöxtunarkröfu sem er í gildi á ákvörðunartíma, enda sé markaðsverð samsvarandi bréfs þá lægra en upphaflegt kaupverð bréfsins. Sé markaðsverðið hærra skal miða matið við upphaflegt kaupverð bréfsins og ávöxtunarkröfu sem þá var í gildi.

(5) Ef raunvirði fjárfestingarverðbréfs er lægra en bókfært verð þess samkvæmt ákvæðum þessarar greinar og ástæður þess verða ekki taldar skammvinnar, t.d. vegna skerts greiðsluþols greiðanda fjárfestingarskuldabréfs, ber að lækka bókfært verð þess til samræmis við hið lægra verðgildi. Ákvæði þetta á einnig við þegar um er að ræða verðlækkun vegna almennra vaxtahækkana og eign fyrirtækis í fjárfestingarverðbréfum er ekki fjármögnuð með sambærilegri vaxtabindingu.

54. gr.

     Hlutir móðurfélags í dótturfyrirtækjum og hlutdeildarfyrirtækjum skulu metnir til samræmis við innra virði samkvæmt reikningsskilum hlutaðeigandi dóttur- eða hlutdeildarfyrirtækis. Ákvæði þetta nær þó ekki til dótturfyrirtækja og hlutdeildar-fyrirtækja sem eru fullnustu- eða rekstrarfélög.

Ákvæði um mat á verðbréfum sem teljast vera veltuverðbréf.
55. gr.

     Skráð veltuverðbréf sbr. 2. gr. skulu bókfærð á opinberu gengi á uppgjörsdegi. Sé raunvirði verðbréfaeignar fyrirtækis talið vera lægra en skráð markaðsverð eða meðalverð sömu bréfa t.d. vegna þess að lítil eða engin viðskipti hafa verið með slík verðbréf um tíma, ber að færa verðbréfin niður til raunvirðis. Tilgreina skal í skýringum mun markaðsverðs og bókfærðs verðs.

56. gr.

(1) Veltuverðbréf, sem ekki er skráð verðbréf sbr. 2. gr., skal bókfæra á kaupverði. Afföllum og gengisauka skal dreift miðað við ávöxtunarkröfu á kaupdegi.

(2) Ef raunverð óskráðra verðbréfa er lægra á uppgjörsdegi en bókfært verð samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar skulu verðbréfin færð niður í hið lægra verðgildi.

(3) Hækki raunverð óskráðra verðbréfa, sem færð hafa verið niður í samræmi við ákvæði 2. mgr. þessarar greinar, má tekjufæra hækkunina. Þessi verðbréf má þó hæst bókfæra á kaupverði, sbr. ákvæði 1. mgr.

(4) Heimilt er að reikna kaupverð samkynja óskráðra verðbréfa á grundvelli meðaltals útreikninga eða á grundvelli „fyrst inn fyrst út aðferðar“ (FIFO).

(5) Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um óskráð verðbréf sem bókfærð eru á eignalið 2, „Ríkisvíxlar og aðrir víxlar endurseljanlegir í seðlabanka“.

Ákvæði um mat á útlánum o.fl.
57. gr.

(1) Meta skal útlán og aðrar skuldbindingar lánþega með hliðsjón af tapshættu og færa í afskriftareikning nauðsynlegar fjárhæðir með hliðsjón af niðurstöðu slíks mats. Afskriftareikningur útlána skal myndaður með sérstökum og almennum framlögum, og skal afskriftareikningurinn færast til frádráttar viðeigandi efnahagslið.

(2) Með sérstökum framlögum í afskriftareikning útlána er átt við framlög til að mæta töpum á skuldbindingum þeirra lánþega sem metnir eru í sérstakri tapshættu vegna verulegra eða langvarandi vanskila, greiðslustöðvunar, gjaldþrots eða annarra aðstæðna, svo sem vegna þess að gjaldþol, eða greiðslugeta hefur rýrnað umtalsvert. Við mat á sérstakri afskriftaþörf vegna skuldbindinga í tapshættu skal miða við núvirt áætlað greiðsluflæði, eða markaðsvirði ef við á, að teknu tilliti til áætlaðs verðmætis tryggingaandlaga.

(3) Með almennum framlögum í afskriftareikning útlána er átt við framlög til að mæta töpum sem talin eru líkleg miðað við aðstæður á uppgjörsdegi vegna skuldbindinga annarra lánþega en þeirra sem sérstök framlög eru færð hjá. Almenn framlög skulu metin eftir flokkun skuldbindinga á einstaklinga og einstakar atvinnugreinar.

(4) Nánari ákvæði um afskriftaframlög útlána, fullnustueignir o.fl. eru í viðauka I með reglum þessum.

58. gr.

(1) Afskriftareikningur, sem myndaður er vegna liða utan efnahagsreiknings, færist með þeim hætti sem lýst er í síðustu málsgreinum 32. og 33. gr.

(2) Framlög í afskriftareikninga vegna útlána og annarra skuldbindinga skal gjaldfæra á rekstrarlið 11, „Framlög í afskriftareikning útlána o.fl.“.

59. gr.

(1) Eignir og skuldir og aðrar skuldbindingar, sem miðast við gengi erlends gjaldeyris, skal færa á opinberu viðmiðunargengi á uppgjörsdegi.

(2) Óuppgerð núviðskipti með gjaldeyri skulu metin og bókfærð miðað við opinbert viðmiðunargengi á uppgjörsdegi.

(3) Óuppgerð framvirk viðskipti með gjaldeyri skulu umreiknast miðað við opinbert viðmiðunargengi á uppgjörsdegi.

(4) Í skýringum í ársreikningi skal tilgreina heildarfjárhæðir eigna og skulda sem tengdar eru erlendum gjaldmiðli umreiknaðar í íslenskar krónur.

Ákvæði um mat á lífeyrisskuldbindingum.
60. gr.

     Mat og framsetning lífeyrisskuldbindinga skal vera með þeim hætti sem nánar er kveðið á um í viðauka II með reglum þessum.

Fara efst á síðuna ⇑