Skattalagasafn ríkisskattstjóra 20.4.2024 10:37:18

nr. 685/2001 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=685.2001)
Ξ Valmynd

Reglur
nr. 685/2001, um endurskoðun lífeyrissjóða.
 

I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.

     Reglur þessar eru skilgreining á meginatriðum góðrar endurskoðunarvenju hjá lífeyrissjóðum, sbr. 5. mgr. 42. gr. laga nr. 129/1997.
 

II. KAFLI
Markmið endurskoðunar ársreiknings.
2. gr.

     Endurskoðun ársreiknings lífeyrissjóðs skal framkvæmd í samræmi við góða endurskoðunarvenju og í samræmi við ákvæði þessara reglna. Markmið endurskoðunar er að komast að raun um hvort ársreikningur gefi glögga mynd af breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris á reikningsárinu og efnahag í lok þess og að ársreikningur sé saminn í samræmi við ákvæði laga og reglna sem gilda um starfsemina, samþykktir lífeyrissjóðsins og góða reikningsskilavenju og að fylgt hafi verið ákvæðum laga og reglna varðandi upplýsingaskyldu viðkomandi lífeyrissjóðs. Í þessu felst m.a. eftirfarandi:

  1. Hvort upplýsingar í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris og skýringum gefi glögga mynd af breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris í samræmi við lög, reglur, samþykktir og góða reikningsskilavenju.
  2. Hvort fjárfestingar, kröfur og aðrar eignir í efnahagsreikningi séu fyrir hendi, í eigu lífeyrissjóðs og séu færðar og metnar í samræmi við gildandi lög, reglur og góða reikningsskilavenju. Einnig að veðsetning og aðrar kvaðir á eignum komi fram í ársreikningi.
  3. Hvort skuldir og aðrar skuldbindingar, þ.m.t. trygginga- og ábyrgðarskuldbindingar, séu tilgreindar og metnar í efnahagsreikningi, eða utan efnahagsreiknings, í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju.
  4. Hvort yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, efnahagsreikningur og sjóðstreymi séu í samræmi við bókhald viðkomandi lífeyrissjóðs.
  5. Hvort einstakir liðir í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, efnahagsreikningi og sjóðstreymisyfirliti séu sundurliðaðir og flokkaðir í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju og allar nauðsynlegar upplýsingar komi fram í ársreikningi.

 

III. KAFLI
Hlutverk og staða endurskoðanda.
3. gr.

(1) Endurskoðandi má ekki vera háður stjórnendum lífeyrissjóðs, eiga sæti í stjórn hans eða vera starfsmaður. Endurskoðanda er ennfremur óheimilt að starfa í þágu lífeyrissjóðs að verkefnum sem skert geta óhæði hans gagnvart sjóðnum. Endurskoðanda er heimilt að annast innra eftirlit sem sjálfstætt starfandi eftirlitsaðili, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997, enda skerði það ekki óhæði hans sem endurskoðanda viðkomandi lífeyrissjóðs.

(2) Endurskoðandi lífeyrissjóðs má ekki vera skuldugur þeim lífeyrissjóði sem hann annast endurskoðun hjá, hvorki sem aðalskuldari né sem ábyrgðarmaður, nema hann sé félagi í viðkomandi sjóði og skuldbinding hans falli að þeim reglum sem almennt gilda um lán til sjóðfélaga. Hið sama gildir um maka hans.
 

4. gr.

     Endurskoðandi getur ekki samþykkt leiðsögn eða íhlutun stjórnanda lífeyrissjóðs eða þriðja aðila um framkvæmd endurskoðunar. Hann getur þannig ekki gert samkomulag sem kveður á um takmörkun endurskoðunar.
 

5. gr.

     Endurskoðanda lífeyrissjóðs er heimilt að nota aðstoðarmenn og sérfræðinga við einstaka þætti endurskoðunarvinnunnar enda séu þeir faglega hæfir til starfans. Endurskoðandi skal einnig, samkvæmt nánara samkomulagi við stjórn lífeyrissjóðs og í þeim mæli sem hann telur eðlilegt, byggja vinnu sína á athugunum og könnunum, sem endurskoðunardeild eða eftirlitsaðili lífeyrissjóðs, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997, framkvæmir, enda hafi hann gengið úr skugga um að sjálfstæði, óhæði og fagleg þekking starfsmanna endurskoðunardeildar eða eftirlitsaðila sé nægjanleg til þess að á vinnu þeirra sé byggjandi. Endurskoðandi skal ávallt yfirfara og framkvæma nauðsynlegar athuganir á gæðum og umfangi þeirrar vinnu endurskoðunardeildar eða eftirlitsaðila, sem hann hyggst byggja niðurstöður sínar á.
 

IV. KAFLI
Framkvæmd og umfang endurskoðunar.
6. gr.

     Endurskoðun skal framkvæma í samræmi við góða endurskoðunarvenju. Með þessu er átt við að endurskoðað sé með viðurkenndum aðferðum sem hæfir og samviskusamir endurskoðendur nota. Meginþættir í framkvæmd endurskoðunar eru sem hér segir:

  1. Könnun á bókhaldskerfum, þ.m.t. tengdum tölvukerfum, og bókhaldsskipulagi með tilliti til áreiðanleika þeirra bókhaldskerfa sem í notkun eru og með tilliti til innra eftirlits.
  2. Athuganir og söfnun gagna til að staðfesta réttmæti einstakra liða sem fram koma í ársreikningi. Sérstaklega skal kanna hvort framkvæmd iðgjaldaskráningar, skráningar og útreiknings lífeyrisréttinda, framkvæmd fjárfestingarstefnu, ávöxtun eigna og ráðstöfun fjár sé í samræmi við ákvæði laga, reglna og samþykkta.
  3. Endurskoðandi skal ennfremur afla yfirlýsinga stjórnenda um að allar eignir, skuldir, ábyrgðir, kvaðir og skuldbindingar komi fram í ársreikningi og að stjórnendum sé ekki kunnugt um áhættu eða atvik, fyrir eða eftir lok reikningsárs, sem tengjast fjárhagsstöðu lífeyrissjóðsins og kynnu síðar að leiða til umtalsverðrar skerðingar á þeirri fjárhagsstöðu sem fram kemur í ársreikningnum.
  4. Könnun á starfsemi lífeyrissjóðs, þróun hans og horfum, fyrst og fremst til að meta hættuna á rekstrarstöðvun á komandi ári.
     

7. gr

(1) Endurskoðanda ber að ganga úr skugga um að sú lýsing á bókhaldskerfum, þ.m.t. tengdum tölvukerfum, og innra eftirliti sem hann byggir mat sitt á við ákvörðun um umfang og aðferðir við endurskoðun ársreiknings sé áreiðanleg. Það skal meðal annars gert með dreifikönnunum á færslum á hinum ýmsu sviðum bókhaldskerfisins og reglulegum könnunum á einstökum þáttum innra eftirlits.

(2) Leiði kannanir í ljós að bókhaldskerfi og innra eftirlit tryggja með viðunandi hætti að bókhald sé í góðu horfi getur það leitt til þess að umfangsmikil könnun einstakra bókhaldsliða sé ekki nauðsynleg.
 

V. KAFLI
Mikilvægi og áhætta.
8. gr

(1) Við ákvörðun um framkvæmd og umfang athugana vegna endurskoðunar og áritunar á ársreikning, ber endurskoðanda að hafa í huga mikilvægi einstakra þátta og áhættu. Endurskoðandi skal haga könnun sinni þannig að megináhersla sé lögð á þá liði ársreiknings og þá þætti innra eftirlits, sem mestu máli skipta og þar sem hætta á verulegum skekkjum er mest.

(2) Hinir ýmsu liðir ársreiknings eru háðir mismikilli áhættu að því er skekkju varðar. Styrkur innra eftirlits hefur áhrif á áhættuna og þar með ákvarðanir um framkvæmd og umfang endurskoðunar. Endurskoðandi skal þó ávallt framkvæma sérstakar athuganir á raunvirði eigna lífeyrissjóðs og kanna sérstaklega þá áhættu sem kann að vera tengd skuldbindingum eða samningum sem lífeyrissjóðurinn hefur átt aðild að. Áhættudreifing fjárfestinga skal einnig könnuð sérstaklega.
 

9. gr

     Verði endurskoðandi var við verulega ágalla á rekstri lífeyrissjóðs eða atriði er varða innra eftirlit, iðgjaldainnheimtu, meðferð fjármuna, greiðslutryggingar útlána eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu lífeyrissjóðsins, svo og ef hann hefur ástæðu til að ætla að lög, reglugerðir eða reglur sem gilda um starfsemina hafi verið brotnar, skal hann þegar í stað gera stjórn sjóðsins og Fjármálaeftirlitinu viðvart.
 

VI. KAFLI
Skipulagning og skráning endurskoðunarvinnu.
10. gr.

(1) Árleg endurskoðunarvinna skal í meginatriðum vera fyrirfram skipulögð í endurskoðunaráætlun, sem er skrifleg lýsing á fyrirhuguðu umfangi og framgangi endurskoðunarinnar þar sem á skipulegan hátt er farið yfir þá þætti í innra og ytra umhverfi lífeyrissjóðs sem áhrif geta haft á endurskoðunarvinnuna.

(2) Endurskoðun skal síðan framkvæmd í samræmi við endurskoðunarfyrirmæli, sem er skrifleg lýsing á þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að framfylgja endurskoðunar-áætlun.

(3) Umfang og niðurstöðu einstakra endurskoðunaraðgerða og heildarniðurstöður um einstaka liði ársreiknings skal skrá á vinnuskjöl. Vinnuskjölunum skal safnað saman og þau geymd á kerfisbundinn hátt.
 

11. gr.

     Ábendingar og athugasemdir sem endurskoðandi vill koma á framfæri við stjórn eða framkvæmdastjóra skal bera fram skriflega og skal veita þessum aðilum hæfilegan frest til svara. Ef endurskoðanda þykir ástæða til skal hann gera tillögur til stjórnar lífeyrissjóðs um endurbætur varðandi meðferð fjármuna, um breytingar á innra eftirliti eða innri endurskoðun og öðru því sem hann telur að geti verið til bóta í rekstri lífeyrissjóðs.
 

VII. KAFLI
Áritun ársreiknings og endurskoðunarskýrsla til stjórnar.
12. gr.

(1) Endurskoðandi skal árita ársreikning og greina þar frá niðurstöðum endurskoðunarinnar. Í árituninni skulu koma fram upplýsingar um að ársreikningurinn hafi verið endurskoðaður í samræmi við góða endurskoðunarvenju og í samræmi við gildandi lög og reglur og að í því sambandi hafi verið framkvæmdar þær endurskoðunaraðgerðir sem endurskoðandinn hefur talið nauðsynlegar. Telji endurskoðandi að skýrsla stjórnar hafi ekki að geyma þær upplýsingar sem ber að veita eða sé hún ekki í samræmi við ársreikning skal hann vekja á því athygli í áritun sinni og veita viðbótarupplýsingar sé þess kostur. Að öðru leyti getur endurskoðandi greint frá þeim atriðum í áritun sinni sem hann telur eðlilegt að komi fram í ársreikningi.

(2) Endurskoðandi skal undirrita og dagsetja áritun sína á þeim degi sem hann lýkur endurskoðunarvinnu sinni, þ.m.t. sérstökum endurskoðunaraðgerðum vegna atvika eftir uppgjörsdag og sérstökum endurskoðunaraðgerðum vegna atvika eftir að venjulegri endurskoðunarvinnu lýkur, fram til dagsetningar áritunar. Endurskoðandi skal ekki árita ársreikning fyrr en stjórnendur hafa staðfest hann með undirritun sinni.
 

13. gr.

     Auk þess að árita ársreikning lífeyrissjóðs skal endurskoðandi að lokinni hefðbundinni endurskoðunarvinnu senda stjórn viðkomandi lífeyrissjóðs sérstaka endurskoðunarskýrslu vegna ársreikningsins. Í slíkri skýrslu skal endurskoðandi, eftir því sem við á, gera grein fyrir eftirfarandi:

  1. Helstu þáttum þeirrar endurskoðunarvinnu sem framkvæmd hefur verið í tengslum við endurskoðun ársreiknings.
  2. Helstu niðurstöðum endurskoðunarkannana á innra eftirliti lífeyrissjóðs og áliti endurskoðanda á gæðum innra eftirlitiskerfis sjóðsins og starfsemi endurskoðunardeildar eða eftirlitsaðila. Í þessu samhengi er eðlilegt að vísað sé til þeirra ábendinga og athugasemda sem endurskoðandi hefur áður komið skriflega á framfæri við stjórnendur lífeyrissjóðsins.
  3. Aðrar þær athugasemdir og ábendingar sem endurskoðandi telur ástæðu til að koma á framfæri við stjórn lífeyrissjóðsins, svo sem athugasemdum varðandi rekstur lífeyrissjóðs, varðveislu eigna og athugasemdum vegna áhættustýringar sjóðsins.

 

Fara efst á síðuna ⇑