Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.9.2024 00:31:32

Reglugerð nr. 758/2011 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=758.2011.0)
Ξ Valmynd

Reglugerð

nr. 758/2011, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki*1) 

 1)Sbr. reglugerðir nr. 929/2011,  247/2015833/2016nr. 492/2017 og 334/2019.

 1. gr.

 Gildissvið.

(1) Reglugerð þessi gildir um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki í formi skattfrádráttar vegna staðfestra rannsóknar- eða þróunarverkefna, skv. lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. [Reglugerðin byggir á viðmiðunum um ríkisaðstoð til rannsóknar-, þróunar- og nýsköpunarverkefna sem fram koma í reglugerð ESB nr. 651/2014, um almenna hópundanþágu, þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar ríkisaðstoðar sem samrýmast framkvæmd EES-samningsins, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2014. Ríkisaðstoðarkerfið sem felst í lögum nr. 152/2009 hefur verið fellt undir reglugerð ESB nr. 651/2014, sbr. yfirlýsingu sem send var Eftirlitsstofnun EFTA til birtingar 29. desember 2014.]1)

(2) Með nýsköpunarfyrirtæki er átt við lögaðila skv. 1. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem stundar rannsóknir eða þróun eins og þau hugtök eru skilgreind í reglugerð þessari.

(3) Háskólar og opinberar stofnanir teljast ekki fyrirtæki í skilningi laga nr. 152/2009. Stofnun telst opinber ef hún getur borið réttindi og skyldur að lögum og sérstaklega hefur verið stofnað til hennar í því skyni að þjóna almannahagsmunum, enda reki hún ekki starfsemi sem jafnað verður til starfsemi einkaaðila, svo sem á sviði viðskipta eða iðnaðar. Auk þess skal eitthvert eftirfarandi atriða eiga við um stofnunina:

  1. Starfsemin er að mestu leyti rekin á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila. Miðað skal við að stofnunin sé að mestu leyti rekin á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila ef opinber fjármögnun nemur meira en 50% af árlegum rekstrarkostnaði.

  2. Hún lýtur yfirstjórn ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila.

  3. Hún lýtur sérstakri stjórn sem ríki eða sveitarfélög, stofnanir þeirra eða aðrir opinberir aðilar skipa að meiri hluta.

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 247/2015.

2. gr.

Staðfesting verkefna.

(1) Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) ákvarðar hvort verkefni hlýtur staðfestingu sem rannsóknar- eða þróunarverkefni skv. lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og reglugerð þessari. Umsókn um staðfestingu skal berast Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) á því formi sem stofnunin ákveður og eigi síðar en [1. október]1) ár hvert vegna yfirstandandi tekjuárs. Umsókn um framlengingu staðfestingar skal skilað árlega og eigi síðar en 1. apríl fyrir hvert tekjuár.

(2) Sækja skal um staðfestingu vegna hvers verkefnis fyrir sig. Í tilviki samstarfsverkefnis skal upplýst um alla þátttakendur og áætlaða hlutdeild hvers og eins. Einungis rannsóknar- eða þróunarverkefni geta hlotið staðfestingu. Með umsókn skulu fylgja eftirtalin gögn:

  1. Verk- og kostnaðaráætlun.

  2. Viðskiptaáætlun, þ.e. greinargerð um viðskiptahugmynd nýsköpunarfyrirtækis, starfsemi þess og möguleika, ásamt greinargóðri lýsingu á því rannsóknar- eða þróunarverkefni sem um ræðir.

  3. Gögn sem sýna fram á að varið verði a.m.k. 1 milljón króna til rannsókna eða þróunar á yfirstandandi tekjuári.

  4. Gögn sem sýna fram á að starfsmenn hafi þjálfun, menntun eða reynslu á því sviði sem hugmynd að rannsóknar- eða þróunarverkefni byggist á.

  5. [Staðfesting umsækjenda þess efnis að skilyrði 3. og 4. mgr. séu uppfyllt.]1)

[(3) Eigi íslenska ríkið útistandandi endurgreiðslukröfu á umsækjanda vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar skal hafna umsókn um staðfestingu verkefna.

(4) Eigi umsækjandi um staðfestingu verkefna í fjárhagsvanda skal umsókn hafnað. Fyrirtæki telst eiga í fjárhagsvanda ef a.m.k. eitt af eftirfarandi skilyrðum er uppfyllt:

  1. Um er að ræða félag með takmarkaðri ábyrgð og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi. Þessi töluliður á ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt og starfsemi þess hefur staðið yfir í þrjú ár eða skemur.

  2. Um er að ræða félag þar sem a.m.k. einn aðili ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi. Þessi töluliður á ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt og starfsemi þess hefur staðið yfir í þrjú ár eða skemur.

  3. Um er að ræða fyrirtæki sem sætir gjaldþrotameðferð eða [uppfyllir skilyrði um að vera tekið til gjaldþrotameðferðar að beiðni kröfuhafa.]2)

  4. Um er að ræða fyrirtæki sem hefur fengið björgunaraðstoð í skilningi leiðbeinandi reglna ESA um björgun og endurskipulagningu fyrirtækja, og hefur enn ekki endurgreitt lánið eða aflétt ábyrgðinni eða hefur fengið aðstoð til endurskipulagningar og er því enn bundið af samþykktri áætlun um endurskipulagningu.

  5. Um er að ræða fyrirtæki sem hvorki er lítið né meðalstórt og hefur uppfyllt eftirtalin skilyrði síðustu tvö reikningsár:
    1. hlutfall milli bókfærðra skulda fyrirtækisins og eigin fjár hefur verið hærra en 7,5 og

    2. hagnaður fyrir afskriftir og vexti (EBITDA) nemur lægri fjárhæð en nettófjármagnskostnaður ársins.]1)

(5) Ákvarða skal innan tveggja mánaða hvort verkefni hlýtur staðfestingu og gildir ákvörðunin fyrir það tekjuár sem umsókn varðar. Ákvörðun um staðfestingu er endanleg á stjórnsýslustigi og skal tilkynna umsækjanda formlega um niðurstöðuna. Um málsmeðferð fer að öðru leyti samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

1)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 247/2015. 2)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 492/2017.

3. gr.

Rannsóknir og þróun.

(1) Í reglugerð þessari hafa hugtökin rannsóknir og þróun eftirfarandi merkingu:

  1. [Rannsóknir: Skipulegar rannsóknir eða veigamiklar athuganir sem hafa að markmiði að stuðla að nýrri þekkingu og færni við að þróa nýjar vörur, ferla eða þjónustu eða leiða til verulegra umbóta á þeim vörum, ferlum eða þjónustu sem þegar er til staðar. Þær felast í gerð íhluta í flókin kerfi, og geta falið í sér smíði frumgerða í rannsóknarstofuumhverfi eða umhverfi með viðmótshermun á fyrirliggjandi kerfum og einnig tilraunaverkefnum, þegar nauðsyn krefur vegna rannsókna og þá einkum vegna almennrar staðfestingar á tækni.

  2. Þróun: Öflun, sameining, mótun og notkun á fyrirliggjandi vísindalegri, tæknilegri, viðskiptalegri og annarri hagnýtri þekkingu og kunnáttu í því skyni að þróa nýjar eða endurbættar vörur, verkferla eða þjónustu. Þetta getur m.a. einnig tekið til starfsemi sem miðar að skilgreiningu á hugmynd, áætlanagerð og skrásetningu nýrra vara, verkferla eða þjónustu. Þróun getur falist í hönnun frumgerðar, gerð sýnisútgáfu, framkvæmd tilraunaverkefnis, prófunum og að sannreyna nýjar eða endurbættar vörur, verkferla eða þjónustu í umhverfi sem er einkennandi fyrir raunveruleg vinnsluskilyrði þar sem aðalmarkmiðið er að gera frekari tæknilegar endurbætur á ófullmótuðum vörum, verkferlum eða þjónustu. Hér getur líka verið um að ræða þróun á markaðshæfri frumgerð eða tilraunaverkefni, þegar slík frumsmíð er óhjákvæmilega endanleg markaðsvara þar sem framleiðsla á henni er of kostnaðarsöm til þess að nota eingöngu til kynningar og til að sannreyna eiginleika hennar.]1)


[(2)  Starfsemi sem er í eðli sínu hluti af almennum rekstri fyrirtækja telst ekki til þróunar. Hér undir fellur m.a. eftirtalið:

  1. Venjulegar eða reglubundnar breytingar á vörum, þjónustu, framleiðslulínum, framleiðsluferlum, núverandi þjónustu eða annarri áframhaldandi starfsemi, jafnvel þótt slíkar breytingar geti leitt af sér úrbætur.

  2. Umbætur og breytingar á vörum fyrirtækis, þjónustu eða framleiðsluferlum, þegar ekki er um að ræða þróun nýrrar þekkingar, nýrrar færni eða nýtingu núverandi þekkingar á nýjan hátt.

  3. Þjálfun og endurmenntun.

  4. Markaðsathuganir og markaðskannanir.

  5. Uppsetning eða aðlögun á aðkeyptum búnaði og tækjum.

  6. Uppsetning framleiðsluferlis.

  7. Öflun, bygging eða endurbætur á fasteignum, ökutækjum, skipum eða loftförum.

  8. Kortlagning á eða leit að námum, náttúruauðlindum eða sambærilegu, nema þegar um er að ræða þróun nýrra eða betri aðferða eða tækni.

  9. Fjármögnun samstarfsverkefna án virkrar þátttöku allra samstarfsaðila í verkefninu.

  10. Eftirlit, gæðamat og vottun á núverandi framleiðslu og framboði á vöru og þjónustu.]1)
1)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 247/2015.

4. gr.

Flokkun fyrirtækja eftir stærð.

Hámark opinberra styrkveitinga til einstakra rannsóknar- eða þróunarverkefna ræðst af þeim takmörkunum sem raktar eru í 6. gr. en í reglugerð þessari eru fyrirtæki flokkuð eftir stærð á eftirfarandi hátt:

  1. Lítið fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með færri en 50 starfsmenn og er með árlega veltu undir [10 milljónum]1) evra og/eða efnahagsreikning undir [10 milljónum]1) evra, sbr. I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar [(ESB) nr. 651/2014 frá 17. júní 2014]1), þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar aðstoðar sem samrýmast sameiginlega markaðnum til beitingar 61. og 62. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

  2. Meðalstórt fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með á bilinu 50–250 starfsmenn og er með árlega veltu undir 50 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 43 milljónum evra, sbr. I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar [(ESB) nr. 651/2014]1).

  3. Stórt fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með fleiri en 250 starfsmenn, sbr. I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar [(ESB) nr. 651/2014]1).

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 833/2016.

5. gr.

Rannsóknar- og þróunarkostnaður.

(1) Eftirfarandi kostnaður telst styrkhæfur rannsóknar- og þróunarkostnaður skv. 5. tölul. 3. gr. laga nr. 152/2009 og 7. gr. reglugerðar þessarar enda sé um frádráttarbæran rekstrarkostnað að ræða í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt:

  1. Starfsmannakostnaður, þ.m.t. vegna vinnu vísindamanna, tæknimanna og annars aðstoðarfólks sem vinnur að rannsóknarverkefninu.

  2. Kostnaður við tæki og búnað að því marki og í þann tíma sem þau eru notuð við rannsóknarverkefnið. Ef fyrrgreind tæki og búnaður eru ekki notuð allan endingartíma sinn við rannsóknarverkefnið telst aðeins afskrifaður kostnaður, sem samsvarar þeim tíma sem rannsóknarverkefnið varir og reiknaður er á grundvelli góðra reikningsskilavenja styrkhæfur kostnaður við þessar aðstæður.

  3. Kostnaður vegna bygginga og lands, að því marki og í þann tíma sem fasteignirnar eru notaðar við rannsóknarverkefnið, telst, að því er varðar byggingar, aðeins afskrifaður kostnaður sem samsvarar þeim tíma sem rannsóknarverkefnið varir og reiknaður er á grundvelli góðra reikningsskilavenja styrkhæfur kostnaður. Að því er varðar land telst útlagður kostnaður við afsal eða fjármagnskostnaður, sem stofnað er til, uppfylla skilyrði sem styrkhæfur kostnaður.

  4. Kostnaður í tengslum við samningsbundnar rannsóknir, tækniþekkingu og einkaleyfi, sem keypt eru, eða leyfi sem fengin eru frá utanaðkomandi aðilum á markaðsverði í viðskiptum ótengdra aðila sem og kostnaður vegna ráðgjafar og sambærilegrar þjónustu sem eingöngu er nýtt í tengslum við rannsóknarstarfsemina.

  5. Annar kostnaður sem stofnað er til beint vegna rannsóknarverkefnisins. Þó ekki sá kostnaður sem fellur til í beinum tengslum við umsókn um staðfestingu hjá Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís).

  6. Annar rekstrarkostnaður, þ.m.t. efniskostnaður, kostnaður við birgðir og þess háttar sem stofnað er til beint í tengslum við rannsóknarstarfsemina.

(2) Kostnaði vegna hvers rannsóknar- eða þróunarverkefnis skal haldið aðgreindum frá öðrum útgjöldum nýsköpunarfyrirtækis. Við skil á skattframtali skal gera grein fyrir rannsóknar- eða þróunarkostnaði með þeim hætti sem ríkisskattstjóri ákveður. Kostnaðargreinargerð skal árituð af endurskoðanda, skoðunarmanni eða viðurkenndum bókara.

6. gr.

Takmarkanir á heildarfjárhæð opinberra styrkveitinga.

(1) Samanlagður styrkur frá opinberum aðilum, að meðtöldum skattfrádrætti skv. 7. gr., skal ekki fara yfir neðangreind hlutföll af styrkhæfum kostnaði vegna sama rannsóknar- eða þróunarverkefnis, sbr. 15. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.

  1. Þegar um lítil fyrirtæki er að ræða getur samanlagður styrkur orðið hæstur 70% af heildarupphæð styrkhæfs kostnaðar vegna rannsóknarverkefnis eða í tilviki samstarfsverkefnis 80%. Samanlagður styrkur vegna þróunarverkefnis getur hæstur orðið 45% af heildarupphæð styrkhæfs kostnaðar eða í tilviki samstarfsverkefnis 60%.

  2. Þegar um meðalstór fyrirtæki er að ræða getur samanlagður styrkur orðið hæstur 60% af heildarupphæð styrkhæfs kostnaðar vegna rannsóknarverkefnis eða í tilviki samstarfsverkefnis 75%. Samanlagður styrkur vegna þróunarverkefnis getur hæstur orðið 35% af heildarupphæð styrkhæfs kostnaðar eða í tilviki samstarfsverkefnis 50%.

  3. Þegar um stór fyrirtæki er að ræða getur samanlagður styrkur orðið hæstur 50% af heildarupphæð styrkhæfs kostnaðar vegna rannsóknarverkefnis eða í tilviki samstarfsverkefnis 65% enda sé um að ræða samstarfsverkefni milli landa á Evrópska efnahagssvæðinu eða með a.m.k. einu litlu eða meðalstóru fyrirtæki. Samanlagður styrkur vegna þróunarverkefnis getur hæstur orðið 25% af heildarupphæð styrkhæfs kostnaðar eða í tilviki samstarfsverkefnis 40% enda sé um að ræða samstarfsverkefni milli landa á Evrópska efnahagssvæðinu eða með a.m.k. einu litlu eða meðalstóru fyrirtæki.

(2) Skilyrði aukningar á styrkhæfi vegna samstarfsverkefna er að þau feli í reynd í sér samstarf milli a.m.k. tveggja óháðra fyrirtækja og að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

  1. ekkert eitt fyrirtæki fari með meira en 70% af hinum styrkhæfa kostnaði vegna samstarfsverkefnisins;

  2. verkefnið verður að fela í sér samstarf í það minnsta eins lítils eða meðalstórs fyrirtækis eða vera yfir landamæri, þ.e. rannsóknar- og þróunarstarfsemin verður a.m.k. að eiga sér stað innan tveggja EES-landa.

(3) Aukning á styrkhæfi er einnig heimil ef verkefnið felur í reynd í sér samstarf milli fyrirtækis og rannsóknarstofnunar, sérstaklega í sambandi við samræmingu stefnumörkunar á sviði rannsókna og þróunar, og eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

  1. rannsóknarstofnunin fer með í það minnsta 10% af hinum styrkhæfa kostnaði;

  2. rannsóknarstofnunin hefur rétt til að birta niðurstöður rannsóknarverkefnisins að því marki sem þær eru tilkomnar vegna rannsókna sem stofnunin hefur hrint í framkvæmd.

(4) Enn fremur er aukning heimil, fyrir rannsóknir eingöngu, ef niðurstöðum verkefnisins er dreift með almennum hætti á tækni- og vísindaráðstefnum eða með birtingu í vísinda- eða tækniritum eða í gegnum opin gagnasöfn eða í gegnum ókeypis eða opinn hugbúnað. Með opnu gagnasafni er átt við gagnagrunn þar sem hver sem er getur nálgast grunngögn úr rannsóknum.

(5) Undirverktaka við þær aðstæður sem raktar eru í 3. og 4. mgr. telst ekki samstarf í skilningi reglugerðar þessarar.

7. gr.

Skattfrádráttur.

(1) Nýsköpunarfyrirtæki sem er eigandi að rannsóknar- eða þróunarverkefni sem hlotið hefur staðfestingu samkvæmt reglugerð þessari á rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti sem nemur 20 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði vegna þeirra verkefna enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hjá hverju fyrirtæki er [600.000.000 kr.]2)3) á rekstrarári.

(2) Ef um er að ræða aðkeypta rannsóknar- eða þróunarvinnu af ótengdu fyrirtæki, háskóla eða stofnun til nota í eigin staðfestu rannsóknar- eða þróunarverkefni, skv. 6. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, hækkar hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hjá hverju fyrirtæki og verður samtals [900.000.000 kr.]2)3).

(3) Ef um er að ræða samstarfsverkefni tveggja eða fleiri ótengdra nýsköpunarfyrirtækja, skv. 7. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, skal hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti fyrir verkefnið í heild vera samtals [900.000.000 kr.]2)3) en frádrætti skal skipt hlutfallslega milli fyrirtækjanna sem taka þátt í samstarfsverkefninu.

(4) Ríkisskattstjóri ákvarðar skattfrádrátt samkvæmt reglugerð þessari við álagningu opinberra gjalda. Fjárhæð skattfrádráttar nýsköpunarfyrirtækis ræðst af þeim skilyrðum sem rakin eru í 1.-3. mgr. Einnig getur skattfrádráttur skerst vegna þeirra takmarkana sem gilda skv. 6. gr. um hámark opinberra styrkja til einstakra rannsóknar- eða þróunarverkefna.

(5) Skattfrádrátturinn kemur til lækkunar á álögðum tekjuskatti við álagningu opinberra gjalda. Sé álagður tekjuskattur lægri en ákvarðaður frádráttur eða sé lögaðila ekki ákvarðaður tekjuskattur vegna skattalegs taps skal frádrátturinn greiddur út, að teknu tilliti til 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

[(6) Lögaðilar teljast tengdir í skilningi þessa ákvæðis þegar:

  1. þeir eru hluti samstæðu skv. 2. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, eða eru undir beinu og/eða óbeinu meirihlutaeignarhaldi eða stjórnunarlegum yfirráðum tveggja eða fleiri lögaðila innan samstæðu, eða

  2. meirihlutaeignarhald eins lögaðila yfir öðrum er til staðar samanlagt með beinum og óbeinum hætti, eða

  3. þeir eru beint eða óbeint í meirihlutaeigu eða undir stjórnunarlegum yfirráðum einstaklinga sem eru tengdir sifjaréttarlegum böndum, t.d. einstaklinga í hjónabandi eða staðfestri samvist, systkina og einstaklinga sem eru skyldir í beinan legg.]1)
1)Sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 247/2015. 2)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 833/2016. 3)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 334/2019.

 [8. gr.

   Skuldajöfnun skattfrádráttar.

 (1) Skattfrádráttur skv. 10. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, greiðist út að lokinni álagningu opinberra gjalda.

(2) Skattfrádráttur greiðist rétthafa í einu lagi að því marki sem eftirstöðvum nemur þegar frá hafa verið dregin opinber gjöld til ríkissjóðs í þessari forgangsröð:

  1. Tekjuskattur.

  2. Önnur þinggjöld, sbr. þó 3. tölulið.

  3. Tryggingagjald.

  4. Vanskil launagreiðenda á staðgreiðsluskilum.

  5. Virðisaukaskattur.

  6. Vörugjöld.

  7. Aðflutningsgjöld.

  8. Bifreiðagjöld.

  9. Kílómetragjald.

(3) Sköttum og gjöldum sem eru til innheimtu hér á landi á grundvelli Norðurlandasamnings um aðstoð í skattamálum, dags. 7. desember 1989, sbr. lög nr. 46/1990 og milliríkjasamnings Evrópuráðsins og OECD um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum, dags. 25. janúar 1998, sbr. lög nr. 74/1996, skal skipað í framangreinda forgangsröð samhliða sambærilegum sköttum og gjöldum.]1)

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 929/2011.

[9. gr.]1)
Birting upplýsinga.

Ríkisskattstjóri skal birta á [miðlægu vefsvæði um ríkisaðstoð]2) upplýsingar um nýsköpunarfyrirtæki sem hlotið hefur staðfestingu á verkefni sínu af hálfu Rannís samkvæmt lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, og skattfrádrátt nýsköpunarfyrirtækis ef fjárhæð skattfrádráttarins er yfir [500.000 evrur]2) á ári. Upplýsingarnar skulu vera í samræmi við III. viðauka reglugerðar (ESB) nr. 651/2014, um almenna hópundanþágu. Ríkisskattstjóri skal birta upplýsingarnar innan sex mánaða frá þeim degi þegar álagning opinberra gjalda er ákvörðuð og skulu upplýsingarnar vera tiltækar í a.m.k. 10 ár frá sama degi.]1)
 
1)Sbr. 3. gr. laga nr. 833/2016. 2)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 334/2019.

[10. gr.]1) *1)

Reglugerðarheimild.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 5. mgr. 10. gr. og 16. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, öðlast þegar gildi. Við gildistöku hennar falla úr gildi reglugerð nr. 592/2010, um meðferð og skiptingu óbeins kostnaðar við ákvörðun á skattfrádrætti vegna rannsóknar- og þróunarverkefna nýsköpunarfyrirtækja og reglugerð nr. 593/2010, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 929/2011. *1)Var áður 9. gr., sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 833/2016.

 

Fara efst á síðuna ⇑