Skattalagasafn ríkisskattstjóra 3.12.2024 17:34:11

Reglugerð nr. 483/1994 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=483.1994.0)
Ξ Valmynd

Reglugerðin var felld á brott 1. nóvember 2021,
sbr. 22. gr. reglugerðar nr. 1300/2021.


Reglugerð
nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri
eða sjálfstæðri starfsemi. *1)

*1)Sbr. reglugerðir nr. 498/2001 og 439/2003.

Almenn skilgreining.
1. gr.

Frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri má draga:

  1. Rekstrarkostnað skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), með síðari breytingum, þ.e. þau gjöld, greidd eða áfallin, sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við og ekki eru sérstaklega undanskilin í lögum. Til rekstrarkostnaðar teljast hvorki útgjöld til eignakaupa eða annarra fjárfestinga, né útgjöld til einkaþarfa, nema að því marki sem þau eru talin til tekna sbr. 3. gr.
     
  2. Frádrátt sem heimilaður er skv. 2.-10. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), með síðari breytingum.
     
  3. Önnur gjöld en skv. a- og b-lið, eftir því sem kveðið er á um í lögum.

*1)Nú lög nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Kostnaðarverð vöru.
2. gr.

(1) Til rekstrarkostnaðar telst kostnaðarverð vöru sem seld hefur verið á árinu og skal það ákvarðað þannig: Vörubirgðir í ársbyrjun að viðbættu kostnaðarverði aðkeyptrar vöru á árinu og/eða framleiðslukostnaði vöru á árinu, að frádregnum vörubirgðum í árslok.

(2) Vörubirgðir í ársbyrjun og árslok skal telja á því verði sem þær eru metnar til eignarskatts.

Laun og annar starfsmannatengdur kostnaður.
3. gr.

(1) Til rekstrarkostnaðar telst launakostnaður til öflunar tekna í atvinnurekstri. Til þessa kostnaðar teljast hvers konar launagreiðslur, hverju nafni sem nefnast, hvort sem greitt er með reiðufé, hlunnindum eða með öðrum hætti. Sama gildir um annan starfsmannakostnað, með þeim takmörkunum sem af ákvæðum laga og reglugerðar þessarar leiðir.

(2) Til rekstrarkostnaðar telst endurgjald sem manni er vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi ber að reikna sér við öflun tekna í rekstri sínum skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), sbr. og 59. gr.*2) sömu laga. Sama gildir um reiknað endurgjald fyrir störf sem maki hans og barn inna af hendi fyrir atvinnureksturinn eða hina sjálfstæðu starfsemi.

(3) Séu laun greidd í hlunnindum, svo sem fatnaði, síma, húsnæði eða fæði, má ekki draga frá hærri fjárhæð en sem kostnaðarverði nemur. Vinnu framteljanda og skylduliðs hans má ekki reikna með í kostnaðarverði fæðisins, nema talið sé til tekna á móti.

(4) Ekki má telja gjafir til starfsmanna til rekstrarkostnaðar, nema um sé að ræða kaupauka sem þá telst til endurgjalds fyrir vinnu eða starf.

(5) Skilyrði fyrir frádrætti þess kostnaðar sem um ræðir í 1., 3. og 4. mgr. er að hann komi fram á launamiðum, sem skilað er til skattstjóra skv. 1. mgr. 92. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1).

(6) Til rekstrarkostnaðar telst kostnaður við árshátíð, jólagleði og sambærilegar samkomur svo og starfsmannaferðir, enda séu samkomur þessar og ferðir fyrir starfsfólk almennt og kostnaður hæfilegur miðað við einstök tilefni og heildstætt á rekstrarárinu.

(7) Til rekstrarkostnaðar telst kostnaður við almenna fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu og almenna heilsubótaraðstöðu, kostnaður við kaffiveitingar í vinnutíma og kostnaður við námskeið sem tengjast starfinu beint.

(8) Til rekstrarkostnaðar teljast enn fremur framlög til starfsmannafélaga vegna þeirra liða er greinir í 6. og 7. mgr. þessarar greinar.

(9) Iðgjöld launagreiðanda vegna starfsmanna sinna [sem og eigin iðgjald þeirra sem standa fyrir rekstri eða sjálfstæðri starfsemi,]1) til lífeyrissjóðs, sem hlotið hefur staðfestingu fjármálaráðuneytisins, teljast til rekstrarkostnaðar. Sama gildir um almenn launatengd gjöld vegna starfsmanna samkvæmt lögum eða kjarasamningum.

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 498/2001. *1)lög nr. 90/2003, um tekjuskatt. *2)58. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Viðhald eigna.
4. gr.

(1) Til rekstrarkostnaðar telst viðhald á eignum, sem notaðar eru við atvinnurekstur. Viðhald telst það sem gera þarf til þess að halda eignunum eða einstökum hlutum þeirra í svipuðu ástandi og þær voru í, þegar rekstraraðili eignaðist þær, hvort heldur þær voru þá gamlar eða nýjar. Þó að eign gangi úr sér fyrir aldurs sakir, þ.e. fyrnist, þá skal hún samt talin í svipuðu ástandi að því er viðhald varðar. Fyrning hennar kemur hins vegar til frádráttar skv. 7. gr.

(2) Endurbætur á eign, sem hefur verið keypt, eða er orðin úr sér gengin fyrir aldurs sakir, stækkun eða breyting hennar, skal ekki talin til viðhalds. Til viðhalds skal aftur á móti telja að halda eigninni í svipuðu ástandi og hún varð að stækkun, breytingu eða endurbót lokinni.

(3) Sé annars vegar viðhald og hins vegar breytingar, endurbætur og/eða stækkun framkvæmd í einu lagi, verður að meta hvað telst til hvors um sig.

(4) Ef eigendaskipti verða að húsi eða öðrum eignum, má eigi leyfa til frádráttar hærri fjárhæðir til viðhalds en teljast mega eðlilegar og venjulegar, hvorki hjá seljanda né kaupanda. Það sem í slíkum tilfellum er umfram venjulegt viðhald, skal talið endurgoldið með söluverði eignarinnar eða hluti af kaupverði, þ.e. kostnaðarverði hennar.

(5) Ef endurnýjuð er eign, sem eyðst hefur vegna slysa eða af öðrum ástæðum, t.d. skip farist, bryggja ónýst, hús brunnið eða fokið o.s.frv., þá telst það ekki til viðhalds.

(6) Þegar um er að ræða flokkunarviðgerðir skipa og hliðstæðar viðgerðir flugvéla, er útgerðar- og flugrekstrarfyrirtækjum heimilt að dreifa greiddum kostnaði af slíkum viðgerðum til frádráttar tekjum það ár sem viðgerðin var framkvæmd og næstu ár þar á eftir, þó ekki á lengri tíma en viðurkennt flokkunartímabil.

Vaxtagjöld.
5. gr.

(1) Frá tekjum af atvinnurekstri má draga vaxtagjöld og annan fjármagnskostnað af skuldum sem tengjast atvinnurekstri, sbr. 51. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), með síðari breytingum.

(2) Eigi er heimilt að draga frá skv. 1. mgr. vexti af því fé sem maður hefur sjálfur lagt í atvinnurekstur sinn. Félög og stofnanir mega ekki draga frá vexti af hlutafé, stofnfé eða tryggingafé. Vextir af stofnsjóðum samvinnufélaga teljast þó ekki hér með, sbr. 3. tölul. 51. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1).

*1)49. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Ýmis kostnaður.
6. gr.

Til rekstrarkostnaðar teljast þeir kostnaðarliðir sem hér fara á eftir með þeim takmörkunum og skilyrðum sem þar greinir:

  1. Gjöld af fasteignum, enda séu þær ætlaðar til tekjuöflunar. Rekstrarkostnað vegna sumarbústaða og orlofshúsa fyrir starfsmenn, má draga frá enda sé sýnt að tekjur af útleigu þeirra nægi til að greiða reksturinn að mestu leyti eða leigan sé í samræmi við það sem almennt tíðkast.
     
  2. Félagsgjöld sem atvinnurekendur greiða og ganga til greiðslu kostnaðar vegna öflunar, viðhalds og tryggingar atvinnurekstrartekna þeirra. Eigi mega gjöld þessi vera til eignamyndunar, en rekstrarafgangur viðkomandi félags telst þó eigi til eignamyndunar sé honum varið til rekstrarkostnaðar á næstu árum. Ekki telst til eignamyndunar í þessu sambandi þótt félag kaupi húsnæði undir starfsemi sína. Sé verulegum hluta félagsgjalda ekki ráðstafað í samræmi við 1. málsl. þessa stafliðar takmarkast frádráttarbærni þeirra að sama marki. Félagsgjöld til stéttarfélags samkvæmt lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, er óheimilt að draga frá tekjum. Ríkisskattstjóri heldur lista fyrir þau félagsgjöld sem frádráttarbær eru sem rekstrarkostnaður.
     
  3. Ferðakostnaður í þágu atvinnurekstrar. Sé starfsmanni greiddur ferðakostnaður með dagpeningum skulu þeir taldir til rekstrarkostnaðar og gefnir upp með greiddum launum. Frá tekjum manna af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi er heimilt, í stað kostnaðar samkvæmt reikningi, að draga frá fasta fjárhæð vegna ferðakostnaðar erlendis, annars en gisti- og fæðiskostnaðar, samkvæmt matsreglum sem ríkisskattstjóri setur. Til staðfestingar á ferðakostnaði þurfa upplýsingar m.a. um tilgang ferðar, þátttakendur og fjölda ferðadaga að liggja fyrir með aðgengilegum hætti.
     
  4. Risna vegna atvinnurekstrar, þ.e. sá kostnaður sem lagt er í til að ljúka viðskiptum, afla nýrra viðskiptasambanda eða halda þeim við, enda sé kostnaður eðlilegur miðað við tilefni. Frádráttarbær risna þarf að beinast að aðilum sem ekki starfa við fyrirtækið eða tengjast því með öðrum hætti, svo sem stjórnarmenn eða hluthafar. Til staðfestingar risnukostnaði þurfa upplýsingar m.a. um tilefni risnu, hverjir hennar nutu og tengsl þeirra við fyrirtækið að liggja fyrir með aðgengilegum hætti.
     
  5. Kostnaður vegna funda sem beinlínis tengjast atvinnurekstrinum, svo sem kostnaður vegna aðalfunda, hluthafafunda og stjórnarfunda, enda sé kostnaðurinn eðlilegur miðað við tilefni.
     
  6. Bústofnsskerðing.a)
     
  7. Kostnaður vegna sérfræðiaðstoðar við kaup og sölu eigna telst eigi til rekstrarkostnaðar. Við kaup teljast þessi útgjöld hluti af kostnaðarverði eignar og við sölu til lækkunar á söluverði.
     
  8. Kostnaður vegna sérfræðiaðstoðar við stofnun fyrirtækis telst eigi til rekstrarkostnaðar. Hann telst til stofnkostnaðar og færist til gjalda samkvæmt reglum um niðurfærslu eigna í 31. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), með síðari breytingum.
     
  9. Fjársektir eða önnur viðurlög, hverju nafni sem nefnast, vegna refsiverðs verknaðar skattaðila sjálfs, þar með talið verðmæti upptækra eigna eða greiðslur í þess stað teljast eigi til rekstrarkostnaðar. Sama gildir um kostnað, hverju nafni sem nefnist, við öflun ólöglegs upptæks hagnaðar eða tengdan saknæmum brotum. 

a)Sjá reglugerð nr. 213/2001. *1)32. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

7. gr.

(1) Til rekstrarkostnaðar telst fyrning þeirra eigna sem notaðar eru við öflun teknanna og heimilt er að fyrna samkvæmt ákvæðum laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum*1).

(2) Fyrningarhlutfall skal vera í samræmi við ákvæði laga þar um [---]1). Því má breyta á milli ára en þó þannig að það sé innan þeirra marka sem 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*2), [---]1) setur um lágmarks- og hámarksfyrningu í hverjum fyrningarflokki. Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi má víkja frá fyrningarhlutföllum samkvæmt ákvæðum laga og veitir ríkisskattstjóri slíka heimild.
[---]1)

(3) Almenn fyrning eigna skal reiknuð árlega og talin til frádráttar án tillits til hagnaðar eða taps gjaldanda.

(4) Halda skal sérstaka skrá um fyrnanlegar eignir, fyrningarverð þeirra, almennar og sérstakar fyrningar hverrar eignar og bókfært verð þeirra til skatts.

1)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 498/2001. *1)lög nr. 90/2003, um tekjuskatt. *2)37. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

8. gr.

Stofnverð, fyrningargrunnur og skipting hans og niðurlagsverð, skal vera með eftirgreindum hætti:

  1. Stofnverð eigna telst kostnaðarverð þeirra, þ.e. kaup- eða framleiðsluverð, ásamt kostnaði við endurbætur, breytingar eða endurbyggingu og sérhverjum öðrum kostnaði sem á eignirnar fellur, en að frádregnum óendurkræfum styrkjum, afsláttum, eftirgjöfum skulda og skaðabótum sem til falla í sambandi við kaup þeirra, framleiðslu, breytingar eða endurbætur.
     
  2. Fyrningargrunnur eigna telst stofnverð þeirra að teknu tilliti til verðbreytinga samkvæmt verðbreytingarstuðli sem ríkisskattstjóri birtir. Ef stofnverð hækkar eða lækkar eftir að hafin er nýting eignarinnar ber að færa breytinguna til hækkunar eða lækkunar fyrningargrunni þess árs þegar breytingin verður. Ef gerðar eru endurbætur á eign eftir að nýting er hafin skulu þær mynda nýjan fyrningargrunn.
     
  3. Ef keypt er fasteign eða mannvirki, ásamt lóð, landi eða réttindum tengdum þessum eignum, skal skipta stofnverðinu í sama hlutfalli og eignir eru metnar til fasteignamats á kaupdegi. Sama gildir um kaup mannvirkja eingöngu. Þegar um lóðaréttindi er að ræða skal afgjaldskvaðarverðmætið dregið frá fasteignamati áður en hlutfallið er reiknað.
     
  4. Lausafé, þar með talin skip, loftför, bifreiðar, vélar og tæki og mannvirki, þar með talin ræktun á bújörðum og byggingar, má aldrei fyrna meira en svo að ávallt standi eftir sem niðurlagsverð eignar 10% af fyrningargrunni hennar.

9. gr.

[Fyrningarhlutföll mannvirkja fara eftir 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1)]1)

1)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 498/2001. *1)Nú 37. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

10. gr.

Kaup á framleiðslurétti í landbúnaði má færa niður með jöfnum fjárhæðum á fimm árum. Stofnkostnað, svo sem kostnað við skráningu fyrirtækis og öflun atvinnurekstrarleyfa, og kostnað við tilraunavinnslu, markaðsleit, rannsóknir og öflun einkaleyfis og vörumerkja er heimilt að færa niður á fimm árum eða að fullu á því ári sem hann myndast.

11. gr.

Fyrning af eftirtöldu er ekki frádráttarbær:

  1. Eignum sem tilheyra ekki atvinnurekstri. Sé eign notuð bæði í þágu atvinnurekstrar og í einkaþágu atvinnurekanda sjálfs, verður að meta hve mikið af notkuninni tilheyrir rekstrinum og miða frádráttarbæra fyrningu við það.
     
  2. Löndum og lóðum eða öðrum slíkum eignum, sem eigi rýrna eða ganga úr sér við notkun. Rýrnun á bústofni kemur fram í bústofnsskerðingu og rýrnun vörubirgða kemur fram í mati þeirra, og verður þá fyrning eigi reiknuð á annan hátt.
     
  3. [Aflahlutdeild í sjávarútvegi]1)

1)Sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 498/2001.

12. gr.

(1) Ekki er heimilt að fyrna eign á því rekstrarári sem nýtingu hennar lýkur vegna sölu eða af öðrum ástæðum. Verði eign ónothæf áður en fyrningu hennar er lokið er heimilt að færa eftirstöðvar fyrningarverðs til gjalda. Niðurlagsverð eignar skal færa til gjalda á því ári, sem hún hverfur úr eigu skattþegns, þó að frádregnu söluandvirði eða öðru andvirði.

(2) Þegar notkun einstakra eigna er þannig háttað að þær falla ekki undir sama fyrningarhlutfall skal fyrningargrunni þeirra skipt eftir notkun. Sé eign notuð að 3/4 hlutum eða meira til sömu starfsemi skal hún þó í heild háð sama fyrningarhlutfalli. Sé hluti eignar ekki fyrnanlegur, t.d. ef um er að ræða íbúð í fyrnanlegri eign, skal ætíð lækka stofnverð eignarinnar um hinn ófyrnanlega hluta eftir stærðarhlutföllum. Við skiptingu á fyrningargrunni bygginga skal í þessu sambandi miða við fasteignamat einstakra byggingarhluta eða við rúmmál liggi fasteignamat ekki fyrir.

Tap á kröfum.
13. gr.

Tap á viðskiptakröfum, lánveitingum og vegna skuldaábyrgða má draga frá tekjum á því tekjuári sem eignir þessar eru sannanlega tapaðar eða ábyrgð á fallin, enda sé eftirgreindum skilyrðum fullnægt:

  1. Að krafa, lánveiting eða ábyrgð stafi beinlínis af atvinnurekstri aðila, þ.e. að hún sé til komin í beinu samhengi við viðskipti eða eðlilega starfsemi hans. Hér koma því eigi til greina lán eða ábyrgðir, sem veitt eru í greiðaskyni eða sem aðstoð við stofnun fyrirtækis eða rekstur. Eigi heldur töp á hlutabréfum eða öðrum slíkum framlögum til félaga, nema atvik falli undir 4. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), með síðari breytingum. (1)

    Til frádráttar koma eigi afskriftir sem telja má gjöf þótt upphaflega sé veitt sem lán að forminu til, en síðan afskrifað. (2)

    Þjófnaður og sjóðþurrð sem ekki fæst bætt er frádráttarbær, enda sé sýnt fram á þessi atvik með óyggjandi hætti. (3)
     
  2. Að sönnur séu færðar fyrir því að fjárhæð viðskiptakröfu hafi áður verið talin til tekna, lánveiting eignfærð eða ábyrgð hafi verið veitt.
     
  3. Skuldaábyrgð kemur til frádráttar þegar hún er áfallin samkvæmt reglum kröfuréttar og ábyrgðarveitandinn samþykkir að svo sé. Töpuð viðskiptakrafa eða veitt lán kemur til frádráttar á því ári þegar slíkt tap er orðið sannanlegt.

*1)Nú lög nr. 90/2003, um tekjuskatt.

14. gr.

(1) Tap á kröfu sbr. 13. gr. telst sannanlegt:

  1. Ef krafan er fyrnd eða það sannast á fullnægjandi hátt að eignir séu eigi til fyrir henni eða hún verði eigi greidd, svo sem við gjaldþrot, nauðasamninga, árangurslaust fjárnám o.þ.h.
     
  2. Ef telja má fullvíst að krafan fáist eigi greidd, enda þótt atvik þau sem um ræðir í a-lið séu eigi fyrir hendi. Líkur einar eru þó eigi nægar, heldur verða öll rök að liggja til þess að hún sé að fullu töpuð. Að það hafi sýnt sig við ítrekaðar innheimtutilraunir, þ.m.t. annarra kröfuhafa, að skuldari sé ófær til greiðslu, að hvorki fáist af kröfunni afborganir og vextir né veð fyrir henni og efnahagur skuldara og afkoma sé þannig að greiðslu verði ekki að vænta, enda sé eigi um gagnkröfu að ræða af hans hendi.

(2) Ef hluti af kröfu tapast, t.d. við gjaldþrot eða samninga um eftirgjöf, eða veð fæst aðeins fyrir hluta hennar, eða á annan hátt er fengin vissa fyrir því að hluti hennar fáist eigi greiddur, er leyfilegt að afskrifa hann, enda hafi skuldareigandi fullnægjandi reikningshald.

(3) Sé krafa, sem afskrifuð hefur verið, greidd að fullu eða hluta telst það til tekna á því ári er greiðsla átti sér stað.

Frádráttur vegna gjafa til menningarmála o.fl.
15. gr.

(1) Frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi má draga einstakar gjafir og framlög til þeirra málaflokka sem greinir í 16. gr., þó ekki [yfir]1) 0,5% af tekjum skv. B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1).

(2) Skilyrði fyrir frádrætti skv. 1. mgr. er það að framteljandi leggi fram móttökukvittun með framtali sínu frá stofnun, sjóði eða félagi sem fellur undir 16. gr. reglugerðar þessarar.

(3) Viðkomandi stofnun, sjóður eða félag skal hafa sett sér skipulagsskrá, lög eða samþykktir yfir starfsemi sína. Undanþegin þessu ákvæði er starfsemi á vegum ríkissjóðs og stofnana hans eða sveitarsjóða og stofnana þeirra, svo og starfsemi sú er tilgreind er í d-lið 16. gr. reglugerðar þessarar.

(4) Árstillög félagsmanna og styrktarfélaga teljast ekki til gjafa í þessu sambandi.

1)Sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 498/2001. *1)lög nr. 90/2003, um tekjuskatt.

16. gr.

Málaflokkar skv. 15. gr. eru:

  1. Hvers konar menningarmálastarfsemi fyrir almenning, svo sem byggingar skólahúsa og íþróttamannvirkja, rekstur skóla, íþróttastarfsemi, fræðiritaútgáfa, fræðslukvikmyndagerð, bóka-, skjala-, lista og minjasöfnun, bókmennta- og listastarfsemi, verndun fornra mannvirkja og sérstæðra náttúrufyrirbrigða, skóggræðsla, sandgræðsla, verndun fiskimiða o.fl. sem til menningarmála heyrir.
     
  2. Hvers konar vísindaleg rannsóknarstarfsemi, hvort heldur er á sviði hugvísinda eða raunvísinda.
     
  3. Hvers konar viðurkennd líknarstarfsemi. Hér til telst m.a. bygging og rekstur sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva, elliheimila, vöggustofa, barnaheimila, stofnana fyrir drykkjusjúklinga og lamaða og fatlaða og annarra hliðstæðra stofnana. Hér til teljast enn fremur slysavarnir á landi, sjó og lofti.
     
  4. [Starfsemi Þjóðkirkjunnar og annarra opinberlega viðurkenndra trúfélaga, starfsemi deilda inna*1) slíkra trúfélaga, svo og hver önnur viðurkennd kirkjuleg starfsemi.]1)
     
  5. Stjórnmálaflokkar.

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 439/2003. *1)Birt svo í Stjórnartíðindum, en á að vera innan.

17. gr.

Á móttökukvittunum skv. 15. gr. skal koma fram nafn og heimili gefanda, hver gjöfin er og hvert verðmæti hennar er. Tekið skal fram að um gjöf sé að ræða og fjárhæðin skal tilgreind í bókstöfum og tölustöfum.

18. gr.

Aðilum sem gefa út móttökukvittanir, sbr. 15. gr., skal skylt að senda skattyfirvöldum ársreikninga ásamt lögum, reglugerð eða skipulagsskrá yfir starfsemi sína sé um það beðið.

Rekstrartap frá fyrri árum.
19. gr.

Frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, má draga eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu [átta]1) árum á undan tekjuári. Þetta er þó bundið því skilyrði að fullnægjandi grein hafi verið gerð fyrir tapinu á því tekjuári þegar tapið myndaðist. Tapið skal framreikna í samræmi við verðbreytingarstuðul ríkisskattstjóra, sbr. 26. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), með síðari breytingum.

1)Sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 498/2001. Með lögum nr. 152/2002 var heimilað að draga eftirstöðvar rekstrartapa síðustu tíu ára frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sbr. 8. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. *1)Með lögum nr. 133/2001 var 26. gr. laga nr. 75/1981 felld úr gildi.

Gildistaka.
20. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 119. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), með síðari breytingum. Hún öðlast þegar gildi og skal koma til framkvæmda við álagningu gjalda á árinu 1995 vegna tekna á árinu 1994 og eigna í lok þess árs. Frá sama tíma fellur úr gildi III. kafli reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, og reglugerð nr. 12/1993, um flokkun bygginga og annarra mannvirkja til fyrninga, og reglugerð nr. 615/1987, um frádrátt vegna gjafa til menningarmála o.fl., með síðari breytingum.

*1)121. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Fara efst á síðuna ⇑