Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 11:56:00

Reglugerð nr. 648/1995 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=648.1995.0)
Ξ Valmynd

Reglugerð
nr. 648/1995, um réttindi og skyldur manna, sem dveljast erlendis við nám, skv. ákvæðum laga um opinber gjöld.*1)

*1)Sbr. reglugerðir nr. 694/2008 og 394/2011.


1. gr.

(1) Þeir menn sem dveljast erlendis við nám, geta haldið öllum réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitir skv. lögum nr. [90/2003, um tekjuskatt]1) og öðrum lögum um opinber gjöld eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.

(2) Ákvæði 1. mgr. á við, þrátt fyrir að menn séu með fasta búsetu erlendis, enda hafi þeir verið búsettir hér á landi eða uppfyllt skilyrði reglugerðar þessarar síðustu 5 árin áður en nám hófst. [Nám í skilningi reglugerðar þessarar skal hefjast innan þriggja mánaða frá flutningi til útlanda.]1)

(3) Nám skv. 1. mgr. telst hvers konar reglulegt nám í viðurkenndri [erlendri]1) menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á framhalds- eða háskólastigi [enda sé námið fullt starf]1) og námstími eigi skemmri en 6 mánuðir eða sem svarar til 624 klst. á ári.

(4) Til náms skv. 1. mgr. telst starfsþjálfun, sérhæfing eða öflun sérfræðiréttinda enda séu skilyrði 3. mgr. uppfyllt. [Til náms telst einnig skiptinám við erlenda háskóla þótt námstími sé skemmri en 6 mánuðir, enda séu skilyrði 3. mgr. uppfyllt og nemandi skráður í nám við íslenskan háskóla. Stundi nemandi sem hefur búsetu erlendis fjarnám við íslenskan háskóla skapar það eitt og sér ekki rétt til skattalegrar heimilsfesti hér á landi.]2)

(5) Til náms skv. 1. mgr. telst ekki nám í grunnskólum, menntaskólum[, lýðháskólum]1) eða sambærilegum menntastofnunum, nema nám að loknum grunnskóla veiti formleg starfsréttindi eða heimild til að bera starfsheiti.

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 694/2008. 2)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 394/2011.

2. gr.

Maki námsmanns og börn hans eldri en 16 ára geta haldið sömu réttindum og námsmaður ef sýnt er fram á að dvöl þeirra erlendis sé bein afleiðing af námi hans, en ekki sérstaklega til tekjuöflunar eða öflunar sérþekkingar, sem ekki fellur undir ákvæði þessarar reglugerðar. Sama gildir um sambúðarfólk, sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, sbr. [3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt]1).

1)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 694/2008.

3. gr.

(1) Námsmenn, makar þeirra og börn eldri en 16 ára, sem óska eftir að halda hér á landi skattalegri heimilisfesti, skulu árlega sækja um það á skattframtali. [Skattframtal skal senda skattstjóra í því umdæmi þar sem þeir voru síðast skattskyldir fyrir brottflutning með upplýsingum um allar tekjur, hvar sem þeirra er aflað.]1) Leggja skal fram eftirtalin gögn og upplýsingar með skattframtali:

  1. Vottorð um nám erlendis á tekjuári þar sem fram komi:

    1. hvaða nám var stundað og hve lengi,

    2. hvenær nám hófst,

    3. hvenær námslok séu áætluð.

  2. Upplýsingar um eftirfarandi:

    1. hvert hafi verið síðasta lögheimili námsmanns hér á landi,

    2. hver sé umboðsmaður eða hvert sé póstfang námsmanns hér á landi.

  3. Upplýsingar um tekjur erlendis:

    1. staðfest ljósrit af erlendum skattframtölum ef tekjur koma þar fram, eða

    2. skriflegt tekjuvottorð frá erlendum skattyfirvöldum, eða

    3. erlenda álagningarseðla, eða

    4. staðfestingu á skattauppgjöri erlendis.

  4. Staðfestingu um barnabætur o.þ.h. greiðslur erlendis ef um þær var að ræða. Fram komi heildargreiðslur tekjuársins.

(2) Skattstjórar skulu taka ákvörðun um réttindi skv. reglugerð þessari í samræmi við framlögð gögn við álagningu opinberra gjalda ár hvert.

1)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 694/2008.

4. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

*1)Nú 3. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
 

Fara efst á síðuna ⇑