Skattalagasafn ríkisskattstjóra 23.11.2024 07:57:56

Reglugerð nr. 1245/2019 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=1245.2019.0)
Ξ Valmynd

 

Reglugerð

nr. 1245/2019, um skattlagningu tekna af höfundarréttindum.

1. gr.

Gildissvið.

(1) Reglugerð þessi gildir um greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa vegna síðari afnota eftir að verk samkvæmt 1. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, hefur verið gert aðgengilegt almenningi, birt eða gefið út, sbr. 2. og 3. gr. sömu laga. Slíkar greiðslur skulu ávallt teljast til fjár­magnstekna einstaklinga án nokkurs frádráttar.

(2) Reglugerðin gildir um tekjur höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa þegar slíkar tekjur eru skattskyldar hjá einstaklingi hér á landi.

2. gr.

Skilgreiningar/Orðskýringar.

Aðgengilegt almenningi: Höfundarverk telst hafa verið gert aðgengilegt almenningi þegar það hefur verið boðið opinberlega til sölu, láns eða leigu, s.s. til sölu hjá útgefanda eða smásala eða með öðrum hætti lánað eða leigt gegn gjaldi.

Frumsköpun höfundarverks: Fyrsta sköpun höfundarverks höfundar og/eða annarra einstakl­inga sem rétthafa sem nýtur réttinda samkvæmt höfundalögum.

Grannréttindi höfundarréttar: Réttindi samkvæmt höfundalögum sem varða aðra en hina eigin­legu höfunda verndaðra verka, svo sem réttindi listflytjenda, framleiðenda mynd- og hljóðrita og útvarpsstofnana, auk réttinda yfir ljósmyndum sem ekki eru háðar fullkominni höfundarvernd.

Greiðsla: Peningagreiðsla til höfundar og/eða annars einstaklings sem rétthafa vegna nýtingar á höfundarverki eftir frumsköpun þess og eftir að verk skv. 1. gr. höfundalaga hefur verið gert aðgengi­legt almenningi, birt eða gefið út, samkvæmt 2. og 3. gr. laganna. Hér undir falla m.a. greiðslur frá samtökum rétthafa til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa, greiðslur vegna tónlistar­flutnings í útvarpi eða öðrum miðlum, upplesturs á ritverkum, birtingu á mynd­verkum í bókum, jóla­kortum o.fl.

Höfundarverk: Verk, í hljóð-, mynd-, textaformi eða öðru formi samkvæmt 1. gr. höfundalaga sem er hugarsmíð höfundar og nýtur réttarverndar samkvæmt höfundalögum. Undir höfundarverk fellur m.a. bókmenntaverk, leiksviðsverk, tónsmíðar, myndlist, byggingarlist, kvikmyndir, ljós­mynda­list, nytjalist og aðrar samsvarandi listgreinar á hvern hátt og í hverju formi sem verkið birtist. Hér undir falla einnig uppdrættir, teikningar, mótanir, líkön og tölvuforrit.

Höfundur: Sá einstaklingur sem skapar höfundarverk, sem nýtur verndar samkvæmt höfunda­lögum. Ópersónulegir aðilar, lögpersónur, geta aldrei talist höfundar í þessari merkingu.

Rétthafi: Sá einstaklingur sem er handhafi höfundarréttinda yfir hvers konar höfundarverki, s.s. bókmenntum, listum, listaverki o.fl. samkvæmt höfundalögum eða á rétt á hluta af réttinda­tekjum á grundvelli samnings um nýtingu réttinda eða samkvæmt lögum. Rétthafi getur t.a.m. verið höfundur sjálfur, erfingi, umboðsmaður, eða annar sá einstaklingur sem nýtur höfundar­réttinda samkvæmt höfundalögum.

Samtök rétthafa: Samtök sem falla undir 1. tölul. 2. gr. laga nr. 88/2019, um sameiginlega um­sýslu höfundarréttinda eða önnur samtök erlendis sem sinna sambærilegum málefnum fyrir rétt­hafa erlendis.

Síðari afnot: Síðari nýting höfundarverks eftir frumsköpun þess og eftir að verk skv. 1. gr. höf­undalaga hefur verið gert aðgengilegt almenningi, birt eða gefið út, samkvæmt 2. og 3. gr. sömu laga. Hér undir falla m.a. greiðslur af hvers konar nýtingu á höfundarverki eftir frum­sköpun þess vegna síðari afnota, s.s. tekjur frá samtökum rétthafa, vegna flutnings verks í útvarpi, tónverks í leik­sýn­ingu, notkunar listaverks á tækifæriskort, upplesturs úr útgefnu bókmenntaverki o.fl.

3. gr.

Greiðslur sem teljast til fjármagnstekna.

(1) Greiðslur sem greiddar eru til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa vegna síðari afnota á höfundarverki og falla undir 3. gr. skulu ávallt teljast til fjármagnstekna einstaklings án nokkurs frádráttar.

  1. Eftirfarandi greiðslur vegna ritstarfa:
    1. Frá samtökum rétthafa.
    2. Síðari afnot höfundarverks vegna upplesturs eða annars konar nýtingar á áður birtu ritverki höfundar í útvarpi eða öðrum miðli eftir frumsköpun þess.
    3. Bætur sem falla undir höfundalög vegna síðari afnota, s.s. vegna nýtingar í formi lög­legrar ljósritunar, eintakagerðar til einkanota, Hljóðbókasafns og endurbirtingar náms­efnis.
    4. Tekjur frá samtökum rétthafa sem stafa af grannréttindum samkvæmt höfunda­lögum.
    5. Útleiga bókar í gegnum áskriftar- og/eða streymisveitur.
    6. Afnot bóka á bókasöfnum sem rekin eru á kostnað ríkissjóðs eða sveitarfélaga, sbr. lög nr. 91/2007 um bókmenntir.
    7. Aðrar tekjur rétthafa vegna síðari afnota eftir frumsköpun höfundarverks.
  2. Eftirfarandi greiðslur vegna tónverka:
    1. Frá samtökum rétthafa vegna innheimtu höfundarréttargjalda fyrir flutning á tónlist og tilheyrandi texta, s.s. vegna eintakagerðar, flutnings í útvarpi, leiksýningu o.fl.
    2. Síðari afnot höfundarverks vegna flutnings eða annars konar nýtingu á tónverki eftir frum­sköpun þess.
    3. Bætur sem falla undir höfundalög vegna síðari afnota, s.s. vegna nýtingar í formi eintaka­gerðar til einkanota.
    4. Tekjur frá samtökum rétthafa sem stafa af grannréttindum samkvæmt höfunda­lögum.
    5. Útleiga tónverks í gegnum áskriftar- og/eða streymisveitur.
    6. Höfundarréttartekjur vegna nótnasölu og -leigu.
    7. Aðrar tekjur rétthafa vegna síðari afnota eftir frumsköpun höfundarverks.
  3. Eftirfarandi greiðslur vegna kvikmynda:
    1. Frá samtökum rétthafa.
    2. Síðari afnot höfundarverks vegna kvikmyndar höfundar eða áður birtrar kvikmyndar í sjónvarpi, kvikmyndahúsi eða öðrum mynd- eða netmiðlum eftir frumsköpun þess.
    3. Bætur sem falla undir höfundalög vegna síðari afnota, s.s. vegna nýtingar í formi eintaka­gerðar til einkanota.
    4. Tekjur frá samtökum rétthafa sem stafa af grannréttindum samkvæmt höfunda­lögum.
    5. Útleiga kvikmyndar í gegnum áskriftar- og/eða streymisveitur.
    6. Aðrar tekjur rétthafa vegna síðari afnota eftir frumsköpun höfundarverks.

(2) Auk þeirra greiðslna sem falla undir stafliði a-c hér að ofan skulu greiðslur vegna annarra listgreina sem sannanlega fela í sér greiðslur til höfundar og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa vegna síðari afnota höfundarverks, teljast til fjármagnstekna einstaklings án nokkurs frádráttar, þ.m.t. fylgiréttargjald frá samtökum rétthafa skv. 25. gr. b. höfundalaga og reglugerð nr. 486/2001, um fylgiréttargjald.

(3) Greiðslur til rétthafa vegna aðlögunar höfundarverks með yfirfærslu frumverks í nýjan búning vegna síðari afnota þess skulu einnig teljast til fjármagnstekna án nokkurs frádráttar. Hér undir falla tekjur af síðari afnotum á frumsköpun höfundar hvort sem frumhöfundur gerir það sjálfur eða aðrir menn með hans leyfi eftir því sem lög krefjast. Sem dæmi um greiðslur sem falla hér undir eru greiðslur af ýmsum réttindum, s.s. vegna kvikmynda, sjónvarpsmynda, leikgerðar, tónsmíða og þýðinga vegna nýtingar frumverks.

4. gr.

Greiðslur sem teljast ekki til fjármagnstekna.

Hvers konar sala á verkum sem njóta verndar höfundalaga og jafna má við hverja aðra vöru­sölu, svo sem sala á útgáfurétti, þ.m.t. endurútgáfa, oftast á grundvelli útgáfusamnings, bókum, kvik­myndum, aðgöngumiðum á listviðburði o.fl. telst ekki til fjármagnstekna samkvæmt reglugerð þessari. Sama á við um sölu á höfundarverki, s.s. sala á lagi til afspilunar og aðrar tekjur af seldum eintökum. Höfundarréttartekjur af umræddri sölu falla þó ávallt undir 3. gr.

5. gr.

Staðgreiðsla o.fl.

(1) Innheimta skal í staðgreiðslu fjármagnstekjuskatt til ríkissjóðs af greiðslum til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa eins og nánar er kveðið á um í lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og reglugerð þessari, sbr. 21. gr. a, laga um stað­greiðslu skatts á fjár­magns­tekjur og 4. málsl. 3. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Móttakandi greiðslna af höfundar­verki skal gera grein fyrir slíkum tekjum í persónuframtali sínu sem fjár­magns­tekjum ár hvert.

(2) Skylda til að draga staðgreiðslu af tekjum af höfundarrétti og skila í ríkissjóð hvílir á samtökum rétthafa samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um tekjuskatt. Hér undir falla þau samtök rétthafa sem falla undir 1. tölul. 2. gr. laga um sameiginlega umsýslu höfundarréttinda, þ.e. hver sú skipulagsheild sem lögum samkvæmt eða með framsali, leyfi eða öðru samningsbundnu fyrirkomulagi hefur, sem sitt eina eða helsta hlutverk, umsjón með höfundarrétti eða réttindum sem tengjast höfundarrétti, fyrir hönd fleiri en eins rétthafa og sem uppfyllir annað eða bæði eftirfarandi skilyrði, a) er í eigu eða undir yfirráðum félagsaðila sinna, b) er ekki starfrækt í hagnaðarskyni.

(3) Um skil á staðgreiðslu, greiðslutímabil og eindaga fer samkvæmt lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Greiðslu til innheimtumanns skal fylgja skilagrein á sérstöku formi sem ríkis­skatt­stjóri ákveður.

(4) Tekjur af höfundarréttindum skulu taldar til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga um tekjuskatt.

6. gr.

Gildistaka og lagastoð.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 1. mgr. 121. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, og 22. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 2020 og kemur til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2020 og við álagningu á árinu 2021.

Fara efst á síðuna ⇑