Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 15:56:58

Reglugerð nr. 535/2016 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=535.2016.0)
Ξ Valmynd

 Reglugerð
nr. 535/2016, um persónuafslátt.

1. gr.

Frá reiknuðum tekjuskatti skv. 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, skal draga persónuafslátt samkvæmt ákvæðum A-liðar 67. gr. laganna.

2. gr.

Persónuafsláttur skal í upphafi hvers árs taka breytingu í réttu hlutfalli við mismun á vísitölu neysluverðs við upphaf og lok næstliðins tólf mánaða tímabils. Fjárhæð persónuafsláttar skal birta með auglýsingu fjármála- og efnahagsráðherra fyrir upphaf staðgreiðsluárs.

3. gr.

(1) Við ákvörðun staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir tiltekið launatímabil skal draga persónuafslátt frá reiknaðri staðgreiðslu og skal afslátturinn vera eftirfarandi hlutfall af fjárhæð skv. 2. gr.:

  1. Ef launatímabil er einn mánuður er hlutfallið 1/12.
  2. Ef launatímabil er hálfur mánuður er hlutfallið 1/24.
  3. Ef launatímabil er annað en að framan greinir er hlutfallið reiknað þannig:
dagafjöldi launatímabils
365

(2) Ekkert launatímabil getur verið lengra en einn mánuður.

4. gr.

Ríkisskattstjóri hefur aðgengilegar og veitir upplýsingar um persónuafslátt og skiptingu hans sem nauðsynlegar teljast til að ákvarða staðgreiðslu á hverju launatímabili.

5. gr.

Fyrir upphaf staðgreiðsluárs ber launamanni að gera launagreiðanda sínum grein fyrir nýtingu persónuafsláttar síns og heimila honum ráðstöfun persónuafsláttar á hverju launatímabili við ákvörðun afdráttar staðgreiðslu af launum. Launagreiðandi og launamaður bera sameiginlega ábyrgð á ráðstöfun persónuafsláttar launamannsins þar til launagreiðslum lýkur. Nú hefur launamaður starf með höndum hjá eða á vegum fleiri en eins launagreiðanda og ber launamanni þá að gera launagreiðendum sínum grein fyrir hlutfallslegri nýtingu persónuafsláttar hjá hverjum þeirra eftir því sem við á.

6. gr.

(1) Fullnýti annað hjóna, sem samvistum eru, ekki persónuafslátt sinn á staðgreiðsluári er hinum makanum heimilt að nýta það sem ónýtt er. Sama gildir um tvo einstaklinga sem búa í óvígðri sambúð og uppfylla skilyrði til samsköttunar, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna staðgreiðsluársins. Skili sambúðarfólk ekki sameiginlegu skattframtali millifærist persónuafsláttur ekki við álagningu opinberra gjalda.

(2) Heimilt er ríkisskattstjóra við samnýtingu persónuafsláttar að upplýsa hvorn maka fyrir sig um stöðu nýtts eða ónýtts persónuafsláttar.

7. gr.

(1) Persónuafsláttur, sem safnast hefur upp í staðgreiðslu af þeim ástæðum að maður gat eigi nýtt sér hann, má færast til næsta launatímabils hjá sama launagreiðanda.

(2) Láti maður af starfi hjá launagreiðanda og eigi þá ónýttan persónuafslátt frá fyrri tímabilum getur hann látið nýja launagreiðandann vita hversu mikið er ónýtt. Er nýjum launagreiðanda heimilt að taka tillit til þess persónuafsláttar sem launamaður upplýsir hann um að hafi ekki verið nýttur það sem af er árinu. Hafi launamaður, eða eftir atvikum maki hans, ekki fullnýtt persónuafslátt sinn innan staðgreiðsluársins, svo sem vegna náms, er launagreiðanda heimilt að taka tillit til þess persónuafsláttar sem ónýttur hefur verið á því ári.

(3) Eigi launamaður uppsafnaðan persónuafslátt í lok árs færist hann ekki yfir á nýtt staðgreiðsluár.

(4) Flytjist menn til eða frá landinu á tekjuárinu eða starfi aðeins tímabundið hérlendis reiknast persónuafsláttur aðeins fyrir þann tíma sem þeir voru hér heimilisfastir. Við útreikning á persónuafslætti er miðað við dagafjölda á dvalartímanum.

(5) Skilyrði fyrir millifærslu persónuafsláttar milli launatímabila skv. 1. mgr. er að launagreiðandi færi launabókhald samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 539/1987, um launabókhald í staðgreiðslu, og uppfylli ákvæði reglugerðar nr. 13/2003, um skil á staðgreiðslu útsvars, tekjuskatts og tryggingagjalds.

8. gr.

(1) Ríkisskattstjóra er heimilt að upplýsa launagreiðanda um nýtingu persónuafsláttar þeirra launamanna sem hjá honum starfa, þ.m.t. nýtingu á persónuafslætti maka launamannsins.

(2) Ríkisskattstjóri skal með reglubundnum hætti kanna nýtingu persónuafsláttar hvers launamanns á staðgreiðsluári og skal hann tilkynna að frekari nýting persónuafsláttar sé óheimil hafi hann bersýnilega verið ofnýttur á staðgreiðsluárinu, þ.m.t. vegna nýtingar á persónuafslætti maka. Tilkynningu um slíkt skal beina til launamanns, maka hans eftir atvikum og/eða launagreiðanda.

9. gr.

Ef í ljós kemur við álagningu tekjuskatts og útsvars að persónuafsláttur í staðgreiðslu hefur orðið hærri en hann skal nema samkvæmt ákvæðum A-liðar 67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, fer um mismuninn við álagningu opinberra gjalda eftir ákvæðum 122. gr. sömu laga, með síðari breytingum.

10. gr.

Sá persónuafsláttur sem ekki er nýttur og er ekki ráðstafað til greiðslu útsvars eða fjármagnstekjuskatts skal við álagningu opinberra gjalda falla niður ef hann flyst eigi til maka eftir þeim reglum sem um það gilda samkvæmt A-lið 67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

11. gr.

Reglugerð þessi sem er sett samkvæmt heimild í 41. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, og heimild í 67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 10/1992, um persónuafslátt og sjómannaafslátt, með síðari breytingum.

Fara efst á síðuna ⇑