Skattalagasafn ríkisskattstjóra 19.4.2024 14:44:18

Reglugerð nr. 213/2001 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=213.2001.0)
Ξ Valmynd

Reglugerð
nr. 213/2001, um skattalega meðferð á bústofnsbreytingu og kaupverði
lífdýra í landbúnaði.*1)

*1)Sbr. reglugerð nr. 49/2008.

 1. gr.

(1) Breytingu á bústofni í landbúnaði skal meta til tekna eða gjalda sem hér segir:

(2) Bústofn eins og hann var í ársbyrjun og bústofn í árslok skal færa á landbúnaðarskýrslu og reikna til verðs með sama verði og bústofninn er metinn til eignar í árslok samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra. Mismunurinn á heildarverði gripanna í ársbyrjun og árslok, bústofnsaukning eða bústofnsskerðing, færist til tekna eða gjalda eftir atvikum.

(3) Kaupverð lífdýra má gjaldfæra að fullu á kaupári þegar kaupverð hvers einstaks lífdýrs er undir þeirri fjárhæð sem tilgreind er í [39. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.]1) Ef kaupverð á lífdýri er hærra en sú fjárhæð skal gjaldfæra kaupverðið með jöfnum fjár­hæðum á fimm árum. Í þeim tilvikum skal gjaldfærsla á kaupári þó aldrei vera lægri en mats­verð gripsins í árslok samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra. Gjaldfærslan í heild skal aldrei vera hærri en kaupverðið. Sé lífdýr selt eða það drepst innan fimm ára frá því að það var keypt skal færa til gjalda þann hluta kaupverðsins sem þá er ógjaldfærður.

(4) Hafi gjaldfærslu á kaupverði lífdýrs verið dreift á fimm ár, sbr. [3. mgr.]1) þessarar greinar, skal eignfæra þann hluta kaupverðs sem ógjaldfærður er. [---]1)

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 49/2008.  

 2. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með heimild í 119. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignar­skatt*1) með síðari breytingum, öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda við ákvörðun tekna og gjalda árið 2001 vegna álagningar opinberra gjalda á árinu 2002. Frá sama tíma fellur úr gildi 3. töluliður B-liðar 17. gr. reglugerðar nr. 245/1963 um tekjuskatt og eignarskatt.

*1)Nú 121. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

 Ákvæði til bráðabirgða.

Við framtal 2001 vegna tekna og eigna á árinu 2000 skal heimilt að meta bústofns­aukningu, bústofnsskerðingu og kaup á lífdýrum til tekna og gjalda samkvæmt reglugerð þessari í stað 3. töluliðar B-liðar 17. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignar­skatt.

Fara efst á síðuna ⇑