II. KAFLI
Álagning, uppgjörstímabil, gjalddagi o.fl.
(1) Áfengisgjald af innfluttu áfengi skal innheimt ásamt aðflutningsgjöldum við tollafgreiðslu nema annað leiði af reglugerð þessari.
(2) Af áfengi, sem framleitt er innanlands til sölu þar, reiknast gjald við sölu eða afhendingu vörunnar frá verksmiðju eða framleiðanda til kaupanda og skiptir ekki máli hvenær eða með hvaða hætti greiðsla fer fram.
(3) Verði rýrnun á vörulager án þess að sala eða afhending komi fram í birgðabókhaldi ber gjaldskyldum framleiðanda ótilkvöddum að greiða áfengisgjald vegna vörurýrnunar á því uppgjörstímabili þegar rýrnunar verður vart.
Greiðslufrestur við innflutning.
5. gr.
(1) Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 4. gr. er tollstjórum heimilt að veita skráðum innflytjendum greiðslufrest á áfengisgjaldi vegna tollafgreiðslu á innfluttu áfengi.
(2) [Hvert uppgjörstímabil vegna greiðslufrests á áfengisgjaldi við innflutning er [1. hvers mánaðar til loka hans]3). Gjalddagi er annar virkur dagur eftir lok hvers uppgjörstímabils. Innflytjandi skal eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddur greiða tollstjóra áfengisgjald vegna tollafgreiðslna á því tímabili. [---]2)]1)
1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 527/2000. 2)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 437/2005. 3)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1249/2015.
Gjalddagi og uppgjörstímabil framleiðenda innanlands.
6. gr.
(1) Hvert uppgjörstímabil vegna innlendrar framleiðslu er frá [1. hvers mánaðar til loka hans]1).
(2) Framleiðandi skal eftir lok hvers uppgjörstímabils ótilkvaddur greiða innheimtumanni ríkissjóðs, í umdæmi því þar sem hann er heimilisfastur, áfengisgjald sem honum ber að standa skil á.
(3) Áfengisgjaldi af innlendri framleiðslu, ásamt áfengisgjaldsskýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, skal skila eigi síðar en á gjalddaga. Gjalddagi er annar virkur dagur eftir lok uppgjörstímabils.
1)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1249/2015.
[Vangreitt áfengisgjald.
7. gr.
(1) Sé áfengisgjald ekki greitt á gjalddaga, sbr. 2. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 6. gr., skal aðili sæta álagi til viðbótar því gjaldi sem honum ber að standa skil á. Sama gildir ef framleiðandi hefur ekki skilað áfengisgjaldsskýrslu eða henni verið ábótavant og áfengisgjald því áætlað, nema aðili hafi greitt fyrir gjalddaga upphæð er til áætlunar svarar eða gefið fyrir lok kærufrests fullnægjandi skýringu á vafaatriðum.
(2) Álag skv. 1. mgr. skal vera 1% af þeirri upphæð sem vangreidd er, fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærri en 10%.
(3) Sé áfengisgjald ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Dráttarvextir skulu reiknaðir frá og með gjalddaga.
(4) Verði vanskil á greiðslu áfengisgjalds skal tollstjóri synja innflytjanda eða framleiðanda um frekari greiðslufrest meðan vanskil vara.
(5) Ef um er að ræða ítrekuð eða stórfelld vanskil á greiðslu áfengisgjalds, álags skv. 2. mgr. eða dráttarvaxta skv. 3. mgr. getur tollstjóri án fyrirvara stöðvað tollafgreiðslu á öðrum vörum til skuldara eða látið lögreglu stöðva atvinnurekstur skuldarans m.a. með því að setja starfsstöðvar, skrifstofur, útsölur, tæki og vörur undir innsigli þar til full skil eru gerð, enda telji tollstjóri hagsmuni ríkissjóðs ekki verða tryggða með öðrum hætti.]1)