Skattalagasafn ríkisskattstjóra 3.12.2024 17:29:59

Reglugerð nr. 925/2017 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=925.2017.0)
Ξ Valmynd

 

Reglugerð
nr. 925/2017, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til alþjóðastofnana o.fl.

1. gr.
Gildissvið.

(1) Reglugerð þessi gildir um endurgreiðslu virðisaukaskatts til alþjóðastofnana, erlends liðsafla og borgaralegra deilda hans, þ.m.t. Atlantshafsbandalagsins, Samstarfs í þágu friðar, herliðs Bandaríkjanna og annarra aðila sem undanþegnir skulu óbeinum sköttum og gjöldum samkvæmt sérstökum lögum þar um, alþjóðasamningum og tvíhliða samningum sem Ísland er aðili að, frá þeim tíma að viðkomandi samningur hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar, sbr. ákvæði 10. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

(2) Þeir aðilar sem falla undir 1. mgr. eiga að uppfylltum skilyrðum 2. gr. rétt á því að fá endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt hér á landi við kaup á vörum og þjónustu samkvæmt ákvæðum laga nr. 50/1988.

(3) Heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts til þeirra aðila sem falla undir 1. mgr. vegna kaupa á vörum og þjónustu hér á landi tekur þó ekki til persónulegra nota starfsmanna eða liðsmanna þeirra nema sérstaklega sé kveðið á um það í viðkomandi lögum, alþjóðasamningi eða tvíhliða samningi sem Ísland er aðili að og viðkomandi samningur hafi öðlast gildi að því er Ísland varðar.

2. gr.
Skilyrði endurgreiðslu.

Skilyrði endurgreiðslu skv. 1. gr. eru eftirfarandi:

  1. Kveðið sé á um undanþágu virðisaukaskatts eða endurgreiðslu hans í sérstökum lögum, alþjóðasamningi eða tvíhliða samningi sem Ísland er aðili að og viðkomandi samningur hafi öðlast gildi að því er Ísland varðar.
     
  2. Virðisaukaskattur sem endurgreiðslubeiðni tekur til sé vegna kaupa á vöru eða þjónustu hér á landi.
     
  3. Fram komi beiðni um endurgreiðslu frá aðila skv. 1. gr., eða umboðsmanni hans, sbr. 6. gr.
     
  4. Beiðni um endurgreiðslu sé byggð á sölureikningum sem fullnægja skilyrðum II. kafla, sbr. einnig 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.
     
  5. Afrit reiknings eða prentað eintak rafræns sölureiknings fylgi með endurgreiðslubeiðni.
     
  6. Áritun eða stimpill frá aðila sem fellur undir 1. mgr. 1. gr. sé til staðar á afriti sölureiknings eða á prentuðu eintaki rafræns sölureiknings þar sem fram komi að um sé að ræða kaup hans á vöru eða þjónustu hér á landi.
     
  7. Seljandi vöru eða þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað.

3. gr.
Framkvæmd endurgreiðslu o.fl.

(1) Ríkisskattstjóri afgreiðir beiðni um endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari. Sækja skal um endurgreiðslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

(2) Aðili sem óskar eftir endurgreiðslu, sbr. c-lið 2. gr., skal tilgreina nauðsynlegar upplýsingar í endurgreiðslubeiðni til ríkisskattstjóra. Ef óskað er eftir að endurgreiðsla berist til erlendrar bankatofnunar skal tilgreina erlendan bankareikning, IBAN-númer, SWIFT-númer og nafn og heimilisfang hinnar erlendu bankastofnunar.

(3) Hvert endurgreiðslutímabil er tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember. Skilafrestur vegna hvers endurgreiðslutímabils er til 20. dags næsta mánaðar eftir lok tímabils.

(4) Hafi beiðni um endurgreiðslu ásamt réttum fylgigögnum verið skilað á tilskildum tíma skal endur­greiðsla fara fram eigi síðar en einum mánuði og fimm dögum eftir lok endurgreiðslutímabils. Beri daga þessa upp á helgidag eða næsta almenna frídag færist fresturinn til næsta virka dags þar á eftir. Endurgreiðslubeiðnir sem berast eftir lok skilafrests skulu afgreiddar með beiðnum næsta endurgreiðslutímabils.

4. gr.

(1) Ríkisskattstjóri skal hafa eftirlit með því að beiðni uppfylli skilyrði 2. gr. og getur hann í því sambandi krafið aðila um nánari skýringar og gögn til þess að sannreyna fjárhæðir o.fl. á endurgreiðslubeiðni.

(2) Afgreiðslufrestur skv. 4. mgr. 3. gr. framlengist ef ríkisskattstjóri getur vegna aðstæðna aðila ekki gert nauðsynlegar athuganir á þeim gögnum sem beiðnin byggist á, þ.m.t. vegna atvika sem lýst er í 4. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988.

(3) Ríkisskattstjóri skal tilkynna aðila skv. 1. mgr. 1. gr., eða umboðsmanni hans, sbr. 6. gr., um ákvörðun sína um endurgreiðslu. Tilkynning um ákvörðun skal send með almennri póstsendingu eða rafrænt í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Með tilkynningu ríkisskattstjóra skulu endursend þau gögn sem lögð voru fram með beiðni.

(4) Réttur til endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari fellur niður ef beiðni um endurgreiðslu berst ríkisskattstjóra eftir að sex ár eru liðin frá því að réttur til endurgreiðslu stofnaðist, sbr. 1. mgr. 43. gr. A, laga nr. 50/1988.

5. gr.

(1) Ríkisskattstjóri skal tilkynna innheimtumanni ríkissjóðs um ákvörðun sína um endurgreiðslu. Innheimtumaður annast endurgreiðslu.

(2) Endurgreiðsla skal fara fram í íslenskum krónum. Ef fram kemur í endurgreiðslubeiðni ósk frá aðila um að endurgreiðsla verði millifærð á bankareikning í erlendum gjaldeyri skal sá dagur sem millifærslan er framkvæmd ráða viðmiðunargengi greiðslunnar.

(3) Ef um er að ræða millifærslu í erlendum gjaldeyri, sbr. 2. mgr. skal innheimtumaður ríkissjóðs draga áfallinn kostnað vegna millifærslunnar frá endurgreiðslufjárhæð nema sérstaklega sé kveðið á um annað í lögum, alþjóðasamningi eða tvíhliða samningi sem Ísland er aðili að og viðkomandi samningur hafi öðlast gildi að því er Ísland varðar.

6. gr.
Umboð.

(1) Þeim aðilum sem falla undir 1. gr. er heimilt að veita öðrum aðila umboð til þess að sækja um og veita viðtöku endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt reglugerð þessari að eftirtöldum skilyrðum uppfylltum:

  1. Fyrir liggi að aðili skv. 1. mgr. hafi með ótvíræðum hætti veitt umboðsmanni sínum skriflega heimild til að sækja um og veita viðtöku endurgreiðslu virðisaukaskatts fyrir sína hönd.
     
  2. Öll skilyrði skv. 2. gr. séu uppfyllt, þ.m.t. um áritun eða stimpil umbjóðanda á afrit reiknings eða á prentað eintak rafræns sölureiknings þar sem fram komi að um sé að ræða kaup umbjóðanda á vöru eða þjónustu hér á landi.

(2) Um framkvæmd o.fl. vegna ákvörðunar ríkisskattstjóra um endurgreiðslu virðisaukaskatts til umboðsmanns fer skv. 3.-5. gr.

7. gr.
Endursala innanlands.

Um endursölu á vörum og þjónustu innanlands, þegar endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna kaupa á vörum og þjónustu hefur átt sér stað, gilda ákvæði laga nr. 50/1988, nema um annað sé kveðið í sérstökum lögum þar um, alþjóðasamningum eða tvíhliða samningum sem Ísland er aðili að og viðkomandi samningur hafi öðlast gildi að því er Ísland varðar.

8. gr.
Gildistaka og lagastoð.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 1. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og öðlast þegar gildi.

Bráðabirgðaákvæði.

Þrátt fyrir ákvæði 3. og 4. gr. er heimilt að óska eftir endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á vöru og þjónustu frá 1. janúar 2017 skv. 10. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 10. gr. og 5. tölul. 26. gr., laga nr. 59/2017, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld. Ríkisskattstjóri skal afgreiða þær endurgreiðslubeiðnir sem varða tímabilið 1. janúar 2017 til gildistökudags þessarar reglugerðar í einu lagi án tillits til endurgreiðslutímabila, sbr. 3. gr.

Fara efst á síðuna ⇑