Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 15:54:23

Reglugerð nr. 628/2005 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=628.2005.0)
Ξ Valmynd

Reglugerð
nr. 628/2005, um eftirlit með notkun á litaðri gas- og dísilolíu. 


1. gr.
Eftirlit með skráningarskyldum ökutækjum.

     Vegagerðin skal annast eftirlit með því að ekki sé notuð lituð olía á skráningarskyld ökutæki. Undanþegin slíku eftirliti eru skráningarskyld ökutæki sem heimild hafa til notkunar á litaðri olíu, sbr. reglugerð nr. 602/2005, um skilyrði undanþágu frá greiðslu olíugjalds*1). Vegagerðin skal jafnframt hafa eftirlit með að skráning og búnaður skráningarskyldra ökutækja sé í samræmi við lög nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl.

*1)Sjá nú reglugerð nr. 274/2006, um skilyrði undanþágu frá greiðslu olíugjalds og um greiðslu sérstaks kílómetragjalds

2. gr.
Stöðvun á ökutækjum og sýnataka.

(1) Eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar er heimilt að stöðva ökutæki til að gera þær athuganir sem taldar eru nauðsynlegar til að staðreyna hvort lituð olía hafi verið notuð á ökutæki sem fellur undir 1. málsl. 1. gr. andstætt ákvæðum reglugerðar nr. 602/2005*1), um skilyrði undanþágu frá greiðslu olíugjalds, þar á meðal að skoða eldneytisgeymi og vél ökutækis.

(2) Eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar er heimilt að taka sýni af eldsneyti sem notað er á ökutæki sem heyrir undir 1. málsl. 1. gr. Vegagerðin setur nánari reglur um framkvæmd á sýnatöku.

*1)Sjá nú reglugerð nr. 274/2006, um skilyrði undanþágu frá greiðslu olíugjalds og um greiðslu sérstaks kílómetragjalds

3. gr.
Eftirlit með gjaldskyldum aðilum.

     Ríkisskattstjóra er heimilt við eftirlit með gjaldskyldum aðilum, sem hlotið hafa skráningu skv. 3. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., að krefjast þess að fá afhent bókhald og bókhaldsgögn, svo og önnur gögn er varða reksturinn. Enn fremur hefur ríkisskattstjóri aðgang að framangreindum gögnum, starfsstöðvum og birgðastöðvum. Að öðru leyti gilda ákvæði laga um virðisaukaskatt eftir því sem þau geta átt við.

4. gr.

     Reglugerð þessi er sett með heimild í 3. mgr. 23. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., og öðlast gildi 1. júlí 2005. 

Fara efst á síðuna ⇑