Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 15:55:30

Reglugerð nr. 1277/2016 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=1277.2016.0)
Ξ Valmynd

Úr reglugerð
nr. 1277/2016, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald*)

Sbr. reglugerðir nr. 649/2018 og 776/2019.

13. gr.

Heimagisting.

(1) Heimagisting er gisting á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. Ef aðili óskar skráningar á fasteign í sinni eigu sem hann er ekki með skráð lögheimili á, telst eignin ekki til persónulegra nota hafi aðrir skráð lögheimili á eigninni. Ef um er að ræða lögheimili einstaklings er ekki skilyrði að viðkomandi sé einnig þinglýstur eigandi. Uppfylli fleiri en einn aðili skilyrði til skráningar heimagistingar vegna sömu eignar, hvort heldur sem skráning á sér stað á grundvelli eignarheimildar eða lögheimilisskráningar, skal liggja fyrir samþykki þeirra allra til skráningarinnar.

(2) Aðeins er heimilt að leigja viðkomandi eignir út til 90 daga samanlagt á hverju almanaksári eða þar til samanlagðar tekjur af leigu eignanna ná fjárhæð sem kveðið er á um í 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Er þar átt við að fjöldi samanlagðra útleigðra gistinátta í báðum eignum megi að hámarki vera 90 dagar eða tekjur af slíkri leigu nemi samanlagt umræddri fjárhæð. Fjöldi gistinátta miðast við fastanúmer og skráð heiti viðkomandi eignar, ekki við kennitölu þess sem skráir heimagistingu. Einungis einum einstaklingi er heimilt að vera með skráða heima­gistingu í hverri fasteign á hverjum tíma.

(3) Gistirými heimagistingar getur verið íbúðarherbergi, íbúðarhúsnæði eða frístundahús sem samþykkt er af byggingaryfirvöldum.

(4) [Einstaklingur sem býður heimagistingu ábyrgist að íbúðarhúsnæðið uppfylli viðeigandi kröfur laga og reglugerða um brunavarnir. Reykskynjarar, eldvarnarteppi og slökkvitæki skulu vera í íbúðinni. Uppdráttur sem sýnir útgönguleiðir ásamt staðsetningu brunavarnarbúnaðar skal festur á vegg við eða á inngangshurð í öllum gistirýmum.]1)

(5) Ekki skulu fleiri en tíu manns vera um hverja fullbúna baðaðstöðu. Baðaðstaðan skal vera vel loftræst og sé hún notuð jafnt af gestum og heimilisfólki skulu þar aðeins vera hreinlætistæki með tilheyrandi nauðsynjum ásamt ruslafötu með loki. Skulu gestir hafa þar forgang.

(6) Í hverju gistiherbergi skal vera aðstaða til að hengja upp föt, ruslakarfa, nægilegur fjöldi handklæða og vatnsglas.

(7) Ef leigð eru út fleiri en fimm herbergi eða rými fyrir fleiri en 10 einstaklinga í heimagistingu telst um gististað í flokki II að ræða þrátt fyrir að önnur skilyrði um heimagistingu séu uppfyllt.

1)Sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 649/2018.

-----------

A. Rekstrarleyfi.

25. gr.

Umsókn um rekstrarleyfi.

(1) Sé umsækjandi lögaðili skulu eftirtalin gögn fylgja umsókn um rekstrarleyfi eða þeirra aflað rafrænt eftir því sem við verður komið:

  1. Starfsleyfi heilbrigðisnefndar.
  2. Búsetuvottorð fyrir forsvarsmenn umsækjenda.
  3. Vottorð um búsforræði fyrirtækis og forsvarsmanns þess.
  4. Staðfesting ríkisskattstjóra á virðisaukaskattsnúmeri.
  5. Sakavottorð forsvarsmanns.
  6. Yfirlýsing umsækjanda varðandi skuldastöðu gagnvart lífeyrissjóðum.
  7. Vottorð frá innheimtumanni ríkissjóðs, og eftir atvikum sveitarfélagi, um skuldastöðu umsækjanda og forsvarsmanns hans.
  8. Nákvæm teikning af húsnæði. Ef um blandaða notkun húsnæðis er að ræða skal fylgja staðfest afrit af aðaluppdrætti þess þar sem fram kemur afmörkun þess rýmis sem ætlað er fyrir reksturinn og skal tilgreina stærð þess í fermetrum. Einnig skal fylgja með umsókn upplýsingar um aðgengi að almennum bílastæðum eða bílastæðum sem fylgja gististað samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu.
  9. Ef um er að ræða útiveitingaleyfi, teikning þar sem fram kemur stærð og skipulag útisvæðis.
  10. Staðfesting fyrri leyfishafa um að hann hafi hætt rekstri, ef við á.

(2) Sé umsækjandi einstaklingur skulu eftirtalin gögn fylgja umsókn um rekstrarleyfi eða þeirra aflað rafrænt eftir því sem við verður komið:

  1. Starfsleyfi heilbrigðisnefndar.
  2. Búsetuvottorð.
  3. Vottorð um búsforræði.
  4. Staðfesting ríkisskattstjóra á virðisaukaskattsnúmeri.
  5. Sakavottorð.
  6. Yfirlýsing umsækjanda varðandi skuldastöðu sína gagnvart lífeyrissjóðum.
  7. Vottorð frá innheimtumanni ríkissjóðs, og eftir atvikum sveitarfélagi, um skuldastöðu.
  8. Nákvæm teikning af húsnæði. Ef um blandaða notkun húsnæðis er að ræða skal fylgja staðfest afrit af aðaluppdrætti þess þar sem fram kemur afmörkun þess rýmis sem ætlað er fyrir reksturinn og skal tilgreina stærð þess í fermetrum. Einnig skal fylgja með umsókn upplýsingar um aðgengi að almennum bílastæðum eða bílastæðum sem fylgja gististað samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu.
  9. Ef um er að ræða útiveitingaleyfi, teikning þar sem fram kemur stærð og skipulag útisvæðis.
  10. Staðfesting fyrri leyfishafa um að hann hafi hætt rekstri, ef við á.

-----------

39. gr.

[Eftirlit með gististarfsemi.

(1) Eftirlitsaðili með heimagistingu er sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Hefur hann eftirlit með skráðum og skráningarskyldum aðilum sem bjóða upp á heimagistingu í samræmi við ákvæði laga og reglugerð þessari. Beina skal athugasemdum vegna heimagistingar til hans.

(2) Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu annast ákvarðanir um stjórnvaldssektir vegna leyfis­skyldrar gististarfsemi. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu skal tilkynna álagðar stjórnvaldssektir vegna leyfisskyldrar gististarfsemi til sýslumanns þess umdæmis þar sem brot á sér stað. Við ákvörðun um stjórnvaldssektir vegna leyfisskyldrar gististarfsemi er sýslumanni heimilt að afla gagna með sjálfstæðri rannsókn.

(3) Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu skal m.a. fylgjast með þeim miðlum þar sem fasteignir eru auglýstar til skammtímaleigu ásamt því að yfirfara nýtingaryfirlit, tekjuupplýsingar og aðrar upp­lýsingar sem liggja fyrir um starfsemi.

(4) Sé uppi rökstuddur grunur um að aðili sem stundar skráningar- eða leyfisskylda gististarfsemi hafi gerst brotlegur við ákvæði laganna eða reglugerðar þessarar er sýslumanni heimilt að kalla eftir nauðsynlegum gögnum frá aðilum, s.s. upplýsingum frá bókunarvefjum, m.a. í því skyni að meta umfang starfseminnar eða ganga úr skugga um að starfsemin fari ekki út fyrir mörk leyfilegrar nýtingar.

(5) Sýslumaður skal einnig hafa eftirlit með því að skráningar- og leyfisskyldir aðilar noti úthlutað skráningar- eða leyfisnúmer í markaðssetningu sinni.

(6) Í tengslum við eftirlit og beitingu viðurlaga vegna skráningar- eða leyfisskyldrar gististarfsemi er sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu heimilt:

  1. Að leita atbeina lögreglu við að kanna hvort skráningar- eða leyfisskyld gististarfsemi sé starfrækt á viðkomandi stað.
  2. Að fara fram á að lögreglustjóri, án fyrirvara eða aðvörunar, stöðvi skráningar- eða leyfis­skylda gististarfsemi sem fer fram án skráningar eða leyfis.
  3. Að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem rekur leyfisskylda gististarfsemi án tilskilins leyfis eða heimagistingu án skráningar. Sýslumanni er einnig heimilt að leggja stjórnvalds­sektir á skráða aðila sem stunda útleigu lengur en 90 daga á ári eða hafa hærri tekjur af sölu gistingar en nemur viðmiðunarfjárhæð í lögum um virðisaukaskatt, sbr. 13. gr. reglugerðar þessarar. Þá er sýslumanni heimilt að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem ekki notar úthlutað leyfis- eða skráningarnúmer í markaðssetningu. Um stjórnvaldssektir er fjallað í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.]1)

 1)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 776/2019.

40. gr.

Afskráning og synjun skráningar.

(1) Sýslumanni er heimilt að afskrá heimagistingu verði aðili uppvís að því að leigja út húsnæði sitt, hvort heldur sem er lögheimili, annað húsnæði í persónulegri eigu eða hvort tveggja, til lengri tíma samanlagt en 90 daga á hverju almanaksári eða fyrir hærri tekjur en skv. viðmiðunarfjárhæð laga um virðisaukaskatt.

(2) Sýslumanni er heimilt að afskrá heimagistingu eða synja um endurskráningu, verði aðili uppvís að því að vanrækja skyldu til að nota úthlutað skráningarnúmer í markaðsefni og kynningum.

(3) Sýslumanni er heimilt að afskrá heimagistingu eða synja um endurskráningu verði aðili uppvís að því að vanrækja aðrar skyldur sem gilda um heimagistingu samkvæmt öðrum lögum og reglugerðum eða brjóta að öðru leyti gegn skilyrðum eða skilmálum skráningar.

(4) Sýslumanni er einnig heimilt að afskrá heimagistingu eða synja um endurskráningu, hafi aðili gefið rangar upplýsingar við skráningu, eða uppfylli ekki lengur skilyrði skráningar t.d. vegna breytinga á lögheimili. Þá er sýslumanni heimilt að afskrá heimagistingu, vanræki skráningarskyldir aðilar að skila umbeðnum gögnum samkvæmt reglugerð þessari.

(5) Sýslumanni ber að senda skráningaraðila tilkynningu um tilefni afskráningar og skal skráningaraðila veittur frestur til að andmæla. Ákvörðun um afskráningu heimagistingar er kæranleg til ráðuneytis í samræmi við lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

(6) Sýslumanni er enn fremur heimilt að synja um skráningu eða endurnýjun heimagistingar sé um að ræða ítrekaða afskráningu, misnotkun skráningar eða nýtingaryfirliti eða öðrum gögnum samkvæmt reglugerðinni ekki skilað. Slík ákvörðun er einnig kæranleg í samræmi við lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Fara efst á síðuna ⇑