Skattalagasafn ríkisskattstjóra 4.12.2024 08:40:10

Reglugerð nr. 1124/2005, kafli 6 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=1124.2005.6)
Ξ Valmynd

VI. KAFLI
Úrvinnslugjald á pappa-, pappírs- og plastumbúðir.

16. gr.
Umbúðir.

(1) Umbúðir eru skv. reglugerð þessari allar vörur, af hvaða tegund sem er og úr hvaða efni sem er, sem eru notaðar við pökkun, verndun, meðhöndlun og afhendingu framleiðsluvöru, hvort sem þar er um að ræða hráefni eða fullunna vöru, til notanda eða neytanda. Nánar tiltekið eru umbúðir:

  1. söluumbúðir eða grunnumbúðir, þ.e. umbúðir sem eru þannig gerðar að á sölustað mynda þær sölueiningu fyrir notanda eða neytanda,

  2. safnumbúðir, þ.e. umbúðir sem eru þannig gerðar að á sölustað mynda þær safn tiltekins fjölda sölueininga, hvort sem þær eru seldar sem slíkar til notanda eða neytanda eða aðeins notaðar til að fylla í hillur á sölustað; hægt er að taka þær utan af vörunni án þess að það hafi áhrif á eiginleika hennar,

  3. flutningsumbúðir, þ.e. umbúðir þannig gerðar að þær auðvelda meðhöndlun og flutning nokkurra sölueininga eða safnumbúða til að koma í veg fyrir tjón við meðhöndlun og flutning; gámar til vöruflutninga á landleiðum, með skipum og flugvélum eru ekki taldir til flutningsumbúða.

(2) Við skilgreiningu á því hvað teljist umbúðir skal byggt á eftirfarandi viðmiðunum, sbr. og viðauka 1.

  1. Hlutir sem gegna jafnframt annars konar hlutverki en að vera umbúðir utan um vöru teljast ekki umbúðir ef hluturinn er óaðskiljanlegur hluti framleiðsluvörunnar og sé nauðsynlegur til að geyma, styðja eða varðveita vöruna á endingartíma hennar og allir þættir séu ætlaðir til notkunar, neyslu eða förgunar á sama tíma.

  2. Hlutir skulu teljast til umbúða að því tilskyldu að þeir þjóni hlutverki umbúða. Í fyrsta lagi ef þeir eru hannaðir og ætlaðir til áfyllingar við sölu, og í öðru lagi einnota hlutir, sem eru seldir, fylltir eða hannaðir og ætlaðir til áfyllingar við sölu.

  3. Efnisþættir umbúða og viðbótarþættir sem eru felldir inn í umbúðir teljast vera hluti af þeim umbúðum. Viðbótarþættir, sem eru hengdir beint á eða festir við framleiðsluvöru og þjóna hlutverki umbúða, teljast til umbúða nema þeir séu óaðskiljanlegur hluti vörunnar og allir þættir hennar séu ætlaðir til neyslu eða förgunar á sama tíma.
     

17. gr.
Úrvinnslugjald á pappa-, pappírs- og plastumbúðir.

(1) Úrvinnslugjald skal leggja á umbúðir gerðar úr pappa, pappír og plasti, sbr. þó viðauka I og III í lögum nr. 162/2002 um úrvinnslugjald. Gjaldið skal lagt á annars vegar umbúðir sem fluttar eru til landsins einar sér eða utan um vöru og hins vegar umbúðir sem framleiddar eru hér á landi. Úrvinnslugjald skal lagt á samkvæmt upplýsingum gjaldskylds aðila um þyngd, tegund og samsetningu umbúða, sbr. þó 2. mgr. Þetta á einnig við um samsettar umbúðir.

(2) Gjaldskyldur aðili skal við tollafgreiðslu gefa upp þyngd umbúða í vörusendingu til tollafgreiðslu samkvæmt staðfestum upplýsingum þar um. Með staðfestum upplýsingum er átt við staðfestingu frá framleiðanda á gerð og þyngd allra gjaldskyldra umbúða eða upplýsingar um þyngd gjaldskyldra umbúða samkvæmt vigtun hér á landi. Ef staðfestar upplýsingar um þyngd umbúða vöru fást ekki er gjaldskyldum aðila heimilt að greiða úrvinnslugjald í samræmi við reiknireglur sbr. XVI. viðauka laga um úrvinnslugjald.
 

Fara efst á síðuna ⇑