Skattalagasafn ríkisskattstjóra 4.12.2024 08:46:24

Reglugerð nr. 599/2005, kafli 2 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=599.2005.2)
Ξ Valmynd

II. KAFLI
Álestraraðilar.

11. gr.

     Álestraraðilar eru skoðunarstöðvar, sem fjármálaráðuneytið hefur samið við um að annast álestur, Vegagerðin og aðrir aðilar sem falið hefur verið að annast álestur. 

12. gr.

     Álestur telst því aðeins hafa farið fram að mætt hafi verið með ökutæki til álestraraðila. Að öðrum kosti er álestraraðila óheimilt að skrá álestur í álestrarskrá ökumæla. 

13. gr.

(1) Aðili sem annast álestur skal óska eftir því við ökumann að hann framvísi akstursbók. Álestraraðili skal lesa af kílómetrastöðu ökurita eða ökumælis og hraðamælis og skrá hana í akstursbókina. Í álestrarskrá ökumæla skal álestraraðili skrá stöðu ökumælis eða ökurita.

(2) Álestraraðili skal við álestur ökutækis athuga:

  1. hvort akstur hafi verið færður réttilega í akstursbók,
  2. hvort skráningu í akstursbók beri saman við akstur samkvæmt ökurita eða ökumæli og hraðamæli,
  3. hvort ökumælir hafi verið óvirkur eða talið of lítið,
  4. hvort innsigli hafi verið rofið og
  5. önnur þau atriði sem upp eru talin í 16. gr.
     

(3) Ef akstursbók er ekki framvísað við álestur eða ef einhverjum af framangreindum atriðum er áfátt, skal álestraraðili fylla út skýrslu sbr. 17. gr.

(4) Ökumaður skal aðstoða álestraraðila og eftirlitsmenn við álestur ökumælis með því m.a. að losa hlífar frá ökumæli og hreinsa til umhverfis ökumæli svo hann verði aðgengilegur. Ökumaður skal jafnframt, verði þess óskað, aka ökutækinu svo hægt sé að ganga úr skugga um að ökumælir telji rétt. 

14. gr.

(1) Við árlega skoðun ökutækis skal skoðunarmaður athuga þau atriði sem um getur í 1. mgr. 13. gr. Komi í ljós við árlega skoðun ökutækis að einhverju af framangreindum atriðum er áfátt skal skoðunarmaður fylla út skýrslu sbr. 17. gr.

(2) Komi í ljós við aðalskoðun að kílómetragjald sem fallið er í eindaga á skoðunardegi hefur ekki verið greitt skal skoðunarstöð neita um skoðun á ökutækinu og tilkynna lögreglu um það þegar í stað. Eiganda eða umráðamanni bifreiðar er þó ekki skylt að færa sönnur á að hafa greitt gjaldfallið kílómetragjald fyrr en eftir eindaga.

(3) Hafi kílómetragjald ekki verið greitt á eindaga skal lögreglustjóri að kröfu innheimtumanns ríkissjóðs stöðva ökutækið hvar sem það fer og taka skráningarmerki þess til geymslu.

(4) Óheimilt er að afhenda eiganda eða umráðamanni skráningarmerkin fyrr en kílómetragjald hefur verið greitt af ökutækinu.

(5) Óheimilt er að skrá eigendaskipti að ökutæki nema gjaldfallið kílómetragjald hafi verið greitt og lesið hafi verið af ökumæli og kílómetragjald vegna þess álestrar greitt.

(6) Óheimilt er að skipa út ökutæki sem er gjaldskylt nema sannað sé að kílómetragjald hafi verið greitt. 

Fara efst á síðuna ⇑