Skattalagasafn ríkisskattstjóra 24.11.2024 11:22:31

Reglugerð nr. 50/1993, kafli 4 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=50.1993.4)
Ξ Valmynd

IV. KAFLI
Um bókhald þeirra sem halda skulu tvíhliða bókhald.

Almennt.
22. gr.

(1) Skattaðili sem fellur undir ákvæði þessa kafla skal hafa í fjárhagsbókhaldi sínu sérstaka reikninga fyrir þær fjárhæðir er færa skal á virðisaukaskattsskýrslu, sbr. nánar 23.-27. gr.

(2) Skattaðila er heimilt að færa fjárhæðir skv. 1. mgr. í sérstakar undirbækur eða yfirlit sem byggð eru á reikningaskipan fjárhagsbókhalds, enda séu niðurstöðutölur vegna hvers uppgjörstímabils færðar á viðeigandi bókhaldsreikninga fyrir lok skilafrests virðisaukaskattsskýrslu tímabilsins. Ávallt skal vera hægt að rekja færslur í fjárhagsbókhaldi til færslna í undirbækur sem kunna að vera haldnar samkvæmt þessari málsgrein.

Aðgreining í bókhaldi.
23. gr.

(1) Ef starfsemi aðila er að hluta skattskyld en að hluta undanþegin skattskyldu, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, skal hann í bókhaldi sínu aðgreina hin skattskyldu viðskipti frá undanþegnum viðskiptum, bæði hvað varðar tekjur og gjöld.

(2) [Tekjur og gjöld skal aðgreina í bókhaldi á aðskilda reikninga eftir skatthlutföllum.]1)

(3) Færa skal á sérstaka teknareikninga í bókhaldi sölu vöru og þjónustu sem ekki telst til skattskyldrar veltu, sbr. 12. gr. laga nr. 50/1988. Jafnframt skal færa á sérstaka gjaldareikninga þau kaup á vöru og þjónustu sem ekki bera frádráttarbæran virðisaukaskatt, sbr. 16. gr. laganna, eða bera ekki virðisaukaskatt.

(4) Í bókhaldi skal aðgreina innlend og erlend vörukaup með því að færa þau á sérstaka gjaldareikninga.

1)Sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 599/1999.

Skattreikningar og færslur á þá.
24. gr.

     Skattaðili skal hafa meðal efnahagsliða í fjárhagsbókhaldi sínu sérstaka bókhaldsreikninga (skattreikninga) sem eru eftirfarandi:

  1. Innskattsreikningur (virðisaukaskattur af innkaupum).
  2. Útskattsreikningur (virðisaukaskattur af sölu).
  3. Uppgjörsreikningur virðisaukaskatts.
  4. Biðreikningur vegna útskatts af innborgunum.

25. gr.

(1) Á innskattsreikning skal færa þann virðisaukaskatt sem heimilt er skv. 16. gr. laga nr. 50/1988 að telja til frádráttar við uppgjör á virðisaukaskatti, sbr. einnig 14.-17. gr. reglugerðar þessarar.

(2) Á útskattsreikning skal færa þann virðisaukaskatt sem fellur á skattskylda veltu skattaðila, þ.m.t. vegna úttektar eiganda á skattskyldri vöru og þjónustu.

(3) Uppgjörsreikningur er notaður við uppgjör og skil á virðisaukaskatti.

(4) Reikna skal sérstaklega útskatt vegna innborgana á viðskipti, sem teljast hluti skattskyldrar veltu á uppgjörstímabili, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, og tilgreina hann sérstaklega í uppgjörsgögnum tímabilsins. Útskattur vegna slíkra innborgana skal bókaður á kredit-hlið útskattsreiknings og debet á biðreikning skv. 4. tölul. 24. gr. reglugerðar þessarar. Þegar sölureikningur vegna viðskiptanna er gefinn út við afhendingu og hann bókaður skal útskattur vegna innborgunarinnar færður kredit á biðreikninginn og á debet-hlið útskattsreiknings.

26. gr.

(1) Að jafnaði skal færa skattfjárhæðir á innskatts- eða útskattsreikning samtímis færslum á viðkomandi gjalda- eða teknareikning í fjárhagsbókhaldi.

(2) Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má færa á skattreikningana í lok hvers uppgjörstímabils eða með öðrum reglulegum hætti, enda sé hægt að reikna skattfjárhæðirnar beint út frá reikningum bókhaldsins yfir kaup og sölu skattskyldrar vöru og þjónustu. Í þessu tilviki skal færa kaupverð eða söluandvirði að meðtöldum virðisaukaskatti á viðkomandi gjalda- eða teknareikninga. Fjárhæð skattsins er síðan reiknuð í lok tímabils sem [19,35%]2)3) af samtölu innkaupa eða sölu á tímabilinu að meðtöldum skatti eða [9,91%]1)3) þegar um er að ræða innkaup eða sölu vöru eða þjónustu skv. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988. Því næst skal færa skattfjárhæðina á innskatts- eða útskattsreikning af viðkomandi gjalda- eða teknareikningum.

(3) Ávallt skal nota þá aðferð sem um ræðir í 1. mgr. við færslu þess virðisaukaskatts sem tollyfirvöld innheimta við innflutning vöru.

(4) Gjöldum og skattfjárhæð skal skipta strax við bókfærsluna ef aðeins er heimilt að reikna skatt af innkaupum að hluta til innskatts skattaðila.

1)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 176/2008. 2)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1071/2009.3)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1144/2014.

Afstemming og jöfnun skattreikninga.
27. gr.

     Skattreikninga í bókhaldi og aðra reikninga, bækur eða yfirlit, sem færslur á virðisaukaskattsskýrslu byggjast á, skal stemma af og loka að liðnu hverju uppgjörstímabili. Innskattsreikningur er jafnaður með færslu niðurstöðu hans yfir debet-hlið uppgjörsreiknings virðisaukaskatts, en niðurstaða útskattsreiknings færist yfir kredit-hlið uppgjörsreiknings. Staða hans sýnir þannig skilaskylda fjárhæð eða þá fjárhæð sem ríkissjóður skal endurgreiða skattaðila. Við skil á skattinum eða móttöku endurgreiðslu er fjárhæðin færð á uppgjörsreikninginn sem þar með jafnast.
 

Fara efst á síðuna ⇑