Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 20:38:40

Reglugerð nr. 436/1998, kafli 7 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=436.1998.7)
Ξ Valmynd

VII. KAFLI
Kærur, málsmeðferð o.fl.

22. gr.
Kærur.

(1) Heimilt er að kæra ákvörðun vörugjalds innan 30 daga frá því gjaldið var ákveðið. Kærufrestur reiknast frá póstlagningu tilkynningar um gjaldákvörðun. Við ákvörðun vörugjalds án sérstakrar tilkynningar til kæranda reiknast kærufrestur þó frá gjalddaga uppgjörstímabilsins. Kæru skal beint til þess tollstjóra eða þess skattstjóra sem annaðist ákvörðun gjaldsins. Varði kæra eingöngu skráningu aðila skv. 8. eða 9. gr. skal kæru þó beint til skattstjórans í Reykjavík. Kæru skal fylgja skriflegur rökstuðningur. Innsend fullnægjandi vörugjaldsskýrsla skal tekin sem kæra þegar um er að ræða áætlanir skv. 3. mgr. 12. gr. Tollstjóri eða skattstjóri skal kveða upp skriflegan rökstuddan úrskurð um kæruna og tilkynna hann í ábyrgðarbréfi innan 30 daga frá lokum kærufrests.

(2) Gjaldskyldur aðili og ríkistollstjóri*1) geta skotið úrskurði tollstjóra skv. 1. mgr. til ríkistollanefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurð.

(3) Gjaldskyldur aðili og ríkisskattstjóri geta skotið úrskurði skattstjóra skv. 1. mgr. til yfirskattanefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurð.

*1)Með lögum nr. 155/2000, um breytingu á tollalögum nr. 55/1987, með síðari breytingum, o.fl., var embætti ríkistollstjóra lagt niður, sbr. 25. gr. þeirra. Fjármálaráðherra og tollstjórinn í Reykjavík taka við almennum réttindum og skyldum embættis ríkistollstjóra.

23. gr.
Gildissvið gagnvart tollalögum og lögum um virðisaukaskatt.

     Að því leyti sem eigi er ákveðið í reglugerð þessari um gjaldskyldu, álagningu, tilhögun bókhalds, eftirlit, viðurlög, málsmeðferð, kærur, innheimtu, stöðvun tollafgreiðslu eða atvinnurekstrar og aðra framkvæmd varðandi vörugjald skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði tollalaga um vörugjald við innflutning, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim, og laga um virðisaukaskatt um vörugjald innanlands, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.

24. gr.
Gildistökuákvæði.

     Reglugerð þessi, er sett samkvæmt heimild í 1. mgr. 13. gr., sbr. 8. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, og öðlast gildi þegar í stað. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 356/1996, um vörugjald, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Bráðabirgðaákvæði með reglugerð nr. 436/1998 eru ekki birt hér.
 

Fara efst á síðuna ⇑