Skattalagasafn ríkisskattstjóra 28.3.2024 11:27:37

Reglugerð nr. 1124/2005, kafli 9 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=1124.2005.9)
Ξ Valmynd

IX. KAFLI
Kærur, málsmeðferð o.fl.

25. gr.
Kæruheimild og kærufrestur.

(1) Heimilt er að kæra álagningu úrvinnslugjalds innan 30 daga frá gjalddaga gjaldsins. Kæru skal beint til þess tollstjóra, ríkisskattstjóra eða þess skattstjóra sem annaðist álagningu gjaldsins. Kæru skal fylgja skriflegur rökstuðningur. Innsend fullnægjandi skýrsla skal tekin sem kæra þegar um er að ræða áætlanir. Tollstjóri, ríkisskattstjóri eða skattstjóri skal kveða upp skriflegan rökstuddan úrskurð um kæruna og tilkynna hana í ábyrgðarbréfi innan 30 daga frá lokum kærufrests.

(2) Telji innflytjandi ákvörðun tollstjóra, er varðar undanþágu frá úrvinnslugjaldi samkvæmt reglugerð þessari, eigi rétta, getur hann óskað eftir úrskurði tollstjóra með því að senda honum skriflega kæru, studda nauðsynlegum rökum og gögnum, innan 60 daga frá því er ákvörðun tollstjóra lá fyrir. Um meðferð slíkrar kæru fer samkvæmt reglugerð nr. 797/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum, með síðari breytingum*2).

(3) Endurgreiðsla úrvinnslugjalds samkvæmt 9. gr. er kæranleg til skattstjóra í samræmi við 13. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, með síðari breytingum.

(4) Gjaldskyldur aðili og tollstjórinn í Reykjavík geta skotið úrskurði tollstjóra skv. 1. mgr. til ríkistollanefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurð. Um kærufresti og málsmeðferð fer eftir ákvæðum 101. gr. tollalaga, nr. 55/1987.*1)

(5) Gjaldskyldur aðili og ríkisskattstjóri geta skotið úrskurði skattstjóra skv. 1. mgr. til yfirskattanefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurð. Gjaldskyldur aðili getur skotið úrskurði ríkisskattstjóra skv. 1. mgr. til yfirskattanefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurð. Um kærufresti og málsmeðferð fer eftir ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

*1)Nú 118. gr. tollalaga nr. 88/2005*2)reglugerð nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi.
 

26. gr.
Lög um vörugjald.

     Að svo miklu leyti sem ekki er á annan veg kveðið á um í reglugerð þessari skulu ákvæði laga nr. 97/1987, um vörugjald, eiga við um álagningu, innheimtu, tilkynningarskyldu, kærur, eftirlit og aðra framkvæmd gjaldtöku samkvæmt reglugerðinni.
 

27. gr.
Gildistökuákvæði.

     Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 15. og 21. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald með síðari breytingum, að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið og öðlast gildi 1. janúar 2006. Einnig var höfð hliðsjón af tilskipun 2004/12/EB um breytingu á tilskipun 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 501/2003, um úrvinnslugjald.
 

Fara efst á síðuna ⇑