Skattalagasafn ríkisskattstjóra 26.4.2024 23:12:29

nr. 797/2016 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=797.2016.0)
Ξ Valmynd

Reglur
nr. 797/2016, um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda 


1. gr.
Markmið.

Markmið reglna þessara er að kveða með skýrum hætti á um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda.

I. KAFLI
Greiðsluforgangur.
2. gr.
Greiðsluforgangur elstu skuldar innan gjaldflokks.

(1) Þegar um er að ræða gjaldfallna skatta og gjaldfallin gjöld í tilteknum gjaldflokki, skal greiðsla frá gjaldanda, sem aðeins nægir fyrir hluta af heildarskuld, alltaf ganga fyrst upp í elsta ár eða tímabil. Forgangurinn skal vera þannig að fyrst greiðist kostnaður, síðan höfuðstóll, álag og loks vextir.

(2) Eftirfarandi undantekningar eru frá meginreglu 1. mgr.:

  1. Ef tveir innheimtumenn eiga kröfu á sama gjaldanda í sama gjaldflokki og annar hefur hafið innheimtuaðgerðir en hinn ekki, skal hann nota greiðsluna fyrst upp í sína kröfu þótt hún sé yngri. Þessi undanþága byggir á fjárnámsbeiðninni sjálfri þar sem hún er alltaf vegna tiltekinnar kröfu.
     
  2. Ef gjaldandi tilgreinir sérstaklega hvaða ár eða tímabil hann ætlar að greiða skal farið að óskum hans, að því tilskildu að hann greiði kostnað af kröfu viðkomandi tímabils fyrst, þá höfuðstól, álag og loks áfallna vexti.
     
  3. Myndist inneign sem tilheyrir tilteknum gjaldgrunni, t.d. virðisaukaskattsnúmeri eða fastanúmeri bifreiða skal inneigninni fyrst ráðstafað til greiðslu skulda sem tilheyra sama gjaldgrunni.
     
  4. Skuldajöfnun innan gjaldflokks skal fara fram með þeim hætti að myndist inneign sem tilheyrir tilteknum gjaldgrunni, t.d. virðisaukaskattsnúmeri eða fastanúmeri bifreiða og fasteigna, skal inneigninni fyrst ráðstafað til greiðslu skulda sem tilheyra sama gjaldgrunni.
3. gr.
Forgangur jafngamalla skulda innan sama gjaldflokks.

Þegar um tvær jafngamlar kröfur innan sama gjaldflokks er að ræða skal greiðslunni skipt hlutfallslega á milli þeirra.

4. gr.
Greiðsluforgangur milli gjaldflokka.

(1) Sendi gjaldandi greiðslu án þess að tilgreina hvaða kröfu hann er að greiða og sé ekki kveðið á um annað í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum skal greiðslunni ráðstafað í samræmi við eftirfarandi forgangsröðun:

  1. Virðisaukaskattur.
     
  2. Staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars.
     
  3. Staðgreiðsla tryggingagjalds og fjársýsluskatts.
     
  4. Staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.
     
  5. Álagður tekjuskattur og fjármagnstekjuskattur.
     
  6. Önnur þinggjöld þ.m.t. gjald í framkvæmdasjóð aldraðra, slysatrygging við heimilisstörf, útvarpsgjald og búnaðargjald.
     
  7. Álagt útsvar.
     
  8. Ofgreiddar barnabætur.
     
  9. Ofgreiddar vaxtabætur.
     
  10. Álagt tryggingagjald.
     
  11. Álagður fjársýsluskattur.
     
  12. Greiðslufrestur í tolli.
     
  13. Vörugjöld.
     
  14. Bifreiðagjöld.
     
  15. Kílómetragjald.
     
  16. Skattsektir.
     
  17. Ofgreiddar atvinnuleysisbætur.
     
  18. Ofgreiddar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.
     
  19. Ofgreiddar bætur Tryggingastofnunar.
     
  20. Sakarkostnaður.
     
  21. Þing- og sveitarsjóðsgjöld hjóna og samskattaðra aðila.
     
  22. Önnur ótalin gjöld ríkis og stofnana þess.

(2) Sama á við greiði gjaldandi inn á kröfur samkvæmt greiðsluáætlun við innheimtumenn ríkissjóðs eða vanskilareikning. Gjaldandi hefur ekki forræði á stýringu greiðslna inn á gjaldflokka samkvæmt greiðsluáætlun.

II. KAFLI
Skuldajöfnun.
5. gr.
Skuldajöfnun inneigna vegna ofgreiðslu eða breytinga á höfuðstól eða vaxtakröfu.

Inneignum vegna greiddra skatta og gjalda til ríkissjóðs, vegna ofgreiðslu, breytinga á höfuðstól eða vöxtum má, nema lög kveði á um annað, skuldajafna upp í kröfur skv. 4. gr., enda sé fullnægt almennum skilyrðum skuldajöfnunar.

6. gr.
Skuldajöfnun ofgreiddrar staðgreiðslu.

(1)  Ofgreiddri staðgreiðslu gjaldanda ásamt verðbótum skal skuldajafnað á móti ógreiddum tekjuskatti og útsvari maka eða samskattaðra aðila, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

(2) Endurgreiðsla inneignar í staðgreiðslu fer fram eftir skuldajöfnun á móti gjaldföllnum sköttum og gjöldum til ríkis og sveitarfélaga, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 45/1987. Með vísan til 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, skal skuldajafna inneignum vegna ofgreiddrar staðgreiðslu á móti gjaldföllnum þing- og sveitarsjóðsgjöldum samskattaðra aðila.

(3) Sveitarfélagsrétthafar geta verið fleiri en einn ef til staðar er skuld í fleiri sveitarfélögum en álagningarsveitarfélagi ársins.

7. gr.
Skuldajöfnun inneigna í virðisaukaskatti.

Endurgreiðslu mismunar innskatts og útskatts virðisaukaskatts skal skuldajafna á móti kröfu um vangoldin opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, samkvæmt forgangsröðun 4. gr. Heimilt er að skuldajafna inneign í virðisaukaskatti upp í gjaldfallið útsvar.

8. gr.
Skuldajöfnun vaxtabóta.

Skuldajöfnun vaxtabóta skal fara eftir 13. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 19. gr. reglugerðar nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta.

9. gr.
Skuldajöfnun barnabóta.

Skuldajöfnun barnabóta skal fara eftir 4. málslið 8. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 555/2004, um greiðslu barnabóta.

10. gr.
Uppgreiðsla með skuldabréfi.

Ef vanskil eru gerð upp með skuldabréfi fer skuldajöfnun við inneign í opinberum gjöldum á móti gjaldföllnum afborgunum eða höfuðstól skuldabréfsins eftir almennum skilyrðum skuldajöfnunar.

11. gr.
Skuldajöfnun á beinum greiðslum í garðyrkju og til framleiðenda mjólkur- og
sauðfjárafurða á móti vangreiddum opinberum gjöldum.

Heimilt er á grundvelli almennra reglna um skuldajöfnun að skuldajafna vangoldnum sköttum og gjöldum skv. 4. gr. á móti beingreiðslum í garðyrkju og til framleiðenda mjólkur- og sauðfjárafurða, sbr. lög nr. 99/1993.

12. gr.
Erlend innheimta.

Inneignum skal skuldajafnað upp í skatta og gjöld sem eru til innheimtu hér á landi á grundvelli Norðurlandasamnings um aðstoð í skattamálum, sbr. lög nr. 46/1990 og milliríkjasamnings Evrópuráðsins og OECD um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum, sbr. lög nr. 74/1996, með sama hætti og greinir í 4. gr.

13. gr.
Gildistaka.

Reglurnar öðlast þegar gildi.

 

Fara efst á síðuna ⇑