REGLUR
nr. 712/2015, um framkvæmd gæðaeftirlits með störfum endurskoðenda.
Markmið gæðaeftirlits með störfum endurskoðenda er að tryggja að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði laga nr. 79/2008 um endurskoðendur, siðareglur Félags löggiltra endurskoðenda og aðrar reglur sem taka til starfa endurskoðenda.
Umfang gæðaeftirlits.
2. gr.
(1) Gæðaeftirlit felur í sér könnun á gæðakerfi endurskoðunarfyrirtækis, gæðastjórnun endurskoðenda og skoðun vinnuskjala eftir því sem við á.
(2) Gæðaeftirlitið skal fela í sér sannprófanir á að gæðakerfi, gæðastjórnun og frágangur vinnuskjala sé í samræmi við góða endurskoðunarvenju, skv. 9. gr., sbr. ákvæði til bráðabirgða II laga um endurskoðendur.
3. gr.
(1) Gæðaeftirlitið nær til allra endurskoðenda sem sinna endurskoðun samkvæmt lögum um endurskoðendur. Gæðaeftirlitið getur beinst að endurskoðunarfyrirtæki í heild sinni og að einstökum endurskoðendum sem árita endurskoðuð reikningsskil.
(2) Gæðaeftirlitið nær að jafnaði til hvers endurskoðanda eigi sjaldnar en á sex ára fresti. Endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem annast endurskoðun eininga tengdra almannahagsmunum skulu þó sæta gæðaeftirliti eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti sbr. 1. og 2. mgr. 22. gr. laga um endurskoðendur. Endurskoðendaráð getur ákveðið örara eftirlit ef nauðsyn krefur, s.s. til að fylgja eftir tilmælum um úrbætur.
(3) Sinni endurskoðunarfyrirtæki eða endurskoðandi ekki tilmælum um gæðaeftirlit samkvæmt 1. mgr. 4. gr. eða veiti ekki nauðsynlega aðstoð og aðgang að upplýsingum skv. 8. gr. mun endurskoðendaráð grípa til viðeigandi ráðstafana samkvæmt lögum um endurskoðendur. Koma þá til álita ákvæði 17. gr. laga um endurskoðendur.
4. gr.
(1) Félag löggiltra endurskoðenda skal annast gæðaeftirlit með störfum endurskoðenda í samráði við endurskoðendaráð sbr. 4. tl. 13. gr. laga um endurskoðendur.
(2) Félag löggiltra endurskoðenda velur gæðaeftirlitsmenn að fengnu samþykki endurskoðendaráðs. Gæðaeftirlitsmenn skulu vera endurskoðendur með víðtæka reynslu af endurskoðunarstörfum. Þeir skulu ekki hafa hlotið áminningu í kjölfar gæðaeftirlits á síðustu þremur árum eða sitja í gæðanefnd Félags löggiltra endurskoðenda.
5. gr.
Félag löggiltra endurskoðenda skal hlutast til um að námskeið fyrir gæðaeftirlitsmenn sé haldið á hverju ári. Viðfangsefni námskeiðsins er að fjalla almennt um gæðakerfi, gæðastjórnun og vinnuskjöl endurskoðenda með hliðsjón af endurskoðunarstöðlum og siðareglum. Á námskeiðinu skal sérstaklega farið yfir verklagsreglur um framkvæmd gæðaeftirlitsins með áherslu á:
1) Gæðastjórnunarkerfi í endurskoðunarfyrirtækjum.
2) Endurskoðunarferilinn með hliðsjón af endurskoðunarstöðlum.
3) Ákvæði laga um endurskoðendur varðandi óhæði og eignarhald.
4) Stjórnsýslurétt eftir því sem við á.
5) Kröfur til hæfni.
6) Ákvæði laga um gæðaeftirlit.
7) Kröfur um skjölun endurskoðunar.
8) Viðfangsefni endurskoðendaráðs.
9) Ábyrgð og hlutverk gæðaeftirlitsmanns.
10) Verkefni við gæðaeftirlit.
Framkvæmd gæðaeftirlits.
6. gr.
Við úthlutun verkefna til gæðaeftirlitsmanna skal gæta að eftirfarandi:
a) Einn til tveir gæðaeftirlitsmenn skulu koma að hverju verkefni. Skal ákvörðun um fjölda miðuð við ætlað umfang verkefnis. Þegar verkefnið varðar einingu tengda almannahagsmunum skulu ætíð tveir gæðaeftirlitsmenn koma að verkefninu.
b) Þeir sem starfa saman að gæðaeftirliti skulu ekki vera samstarfsmenn í endurskoðunarfyrirtæki.
c) Þeir sem veljast til starfa sem gæðaeftirlitsmenn skulu sækja námskeið í gæðaeftirliti áður en gæðaeftirlit hefst.
d) Gæðaeftirlitsmenn skulu staðfesta skriflega óhæði sitt samkvæmt 2. mgr. 15. gr. áður en gæðaeftirlit hefst.
7. gr.
Við gæðaeftirlit skal kanna hvort endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki hafi uppfyllt eftirfarandi ákvæði laga um endurskoðendur:
1) Ákvæði 2. - 6. mgr. 3. gr. og 4. og 5. mgr. 4. gr.
2) Að gætt sé að óhæði endurskoðanda og endurskoðunarfyrirtækis í samræmi við ákvæði VI. kafla laganna.
3) Að gætt sé ákvæða 2. mgr. 8. gr. laganna um að endurskoðendur fylgi ákvæðum siðareglna sem settar hafa verið af Félagi löggiltra endurskoðenda í samræmi við þá málsmeðferð sem kveðið er á um í lögum um endurskoðendur.
4) Að við endurskoðun sé fylgt góðri endurskoðunarvenju eins og hún kemur fram í 9. gr. laganna sbr. og ákvæði II til bráðabirgða.
5) Að endurskoðendur hafi fullnægt skilyrðum um:
a. starfsábyrgðartryggingu samkvæmt 6. gr. laga um endurskoðendur,
b. endurmenntun samkvæmt 7. gr. laga um endurskoðendur,
c. búsforræði samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga um endurskoðendur.
6) Að endurskoðunarfyrirtæki uppfylli kröfur laga um skýrslu um gagnsæi samkvæmt 29. gr. laga um endurskoðendur.
8. gr.
(1) Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki sem sætir gæðaeftirliti skal veita þeim sem sinnir gæðaeftirliti nauðsynlega aðstoð og aðgang að upplýsingum sem óskað er eftir við gæðaeftirlitið og getur ekki borið fyrir sig lagaákvæði um þagnarskyldu í því skyni að takmarka skyldu sína til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum, sbr. 4. mgr. 22. gr. laga um endurskoðendur.
(2) Verði endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki ekki við tilmælum skoðunarmanna um að veita aðgang að nauðsynlegum gögnum við framkvæmd gæðaeftirlits skulu skoðunarmenn þegar í stað senda skýrslu þar að lútandi til Félags löggiltra endurskoðenda. Félaginu ber svo fljótt sem verða má að fjalla um skýrsluna og senda niðurstöður sínar til endurskoðendaráðs sem tekur afstöðu til frekari meðferðar málsins á grundvelli laga um endurskoðendur.
9. gr.
(1) Gæðaeftirlitsmenn skulu í störfum sínum m.a. styðjast við gátlista sem birtir eru í fylgiskjali með reglum þessum eftir því sem við á og taka saman skýrslu um niðurstöður sínar. Þeir skulu afhenda skýrsluna þeim aðila sem eftirlitið beinist að innan tíu daga frá því að gagnaöflun lauk.
(2) Sá sem eftirlitið beinist að skal staðfesta móttöku skýrslunnar og gefst þá jafnframt kostur á að koma á framfæri innan tíu daga athugasemdum, sem gæðaeftirlitsmenn taka afstöðu til. Athugasemdir sem berast verða, ásamt umsögn gæðaeftirlitsmanna, hluti af eftirlitsskýrslunni. Endanleg skýrsla skal liggja fyrir tíu dögum síðar.
(3) Gæðaeftirlitsskýrslur skulu útbúnar með þeim hætti að nafnleyndar sé gætt. Sá sem eftirlitið beinist að fær afrit af endanlegri skýrslu.
10. gr.
(1) Félag löggiltra endurskoðenda skal taka saman niðurstöður að loknu gæðaeftirliti og afhenda endurskoðendaráði eins fljótt og auðið er, eigi síðar en 30. nóvember ár hvert.
(2) Efni eftirlitsskýrslu er trúnaðarmál.
11. gr.
Gæta skal fyllsta öryggis um meðferð gagna og trúnaðarupplýsinga við gæðaeftirlit. Gæðaeftirlitsmenn skulu ekki varðveita gögn eða upplýsingar sem varða störf þeirra að gæðaeftirliti loknu.
12. gr.
Endurskoðendaráð ber ábyrgð á varðveislu eftirlitsskýrslna. Skýrslur skulu varðveittar með tryggilegum hætti eigi skemur en í 7 ár.
13. gr.
Endurskoðendaráð metur niðurstöðu gæðaeftirlitsins og tekur afstöðu til frekari meðferðar á grundvelli ákvæða laga um endurskoðendur. Getur endurskoðendaráð óskað eftir skýringum og gögnum frá endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum er sæta gæðaeftirliti og skulu viðkomandi aðilar veita ráðinu aðgang að upplýsingum sem óskað er eftir. Endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki geta ekki borið fyrir sig lagaákvæði um þagnarskyldu í því skyni að takmarka skyldu sína til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum, sbr. 4. mgr. 22. gr. laga um endurskoðendur.
Þagnarskylda og vanhæfisástæður.
(1) Gæðaeftirlitsmenn eru bundnir þagnarskyldu um allar upplýsingar sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum, sbr. 30. gr. laga um endurskoðendur.
(2) Ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu gilda um vanhæfi gæðaeftirlitsmanna. Sé gæðaeftirlitsmaður vanhæfur skal annar kallaður til í hans stað. Gæðaeftirlitsmaður skal sjálfur upplýsa um aðstæður sem leitt gætu til vanhæfis hans.
Kostnaður við gæðaeftirlit.
15. gr.
Um kostnað af framkvæmd gæðaeftirlitsins fer skv. 4. mgr. 12. gr. laga um endurskoðendur.
Fylgiskjal með reglunum er ekki birt hér. Sjá á vef Stjórnartíðinda