Reglur
nr. 102/2004, um reikningsskil verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlara
Almenn ákvæði
1. gr.
Reglur þessar gilda um verðbréfafyrirtæki og verðbréfamiðlanir, sbr. 5. – 6. tölulið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
2. gr.
(1) Stjórn og framkvæmdastjóri fyrirtækis samkvæmt 1. gr. skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár. Sé ekki annað tekið fram í reglum þessum gilda ákvæði laga nr. 144/1994*1), um ársreikninga og reglugerðar nr. 696/1996, um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga.
(2) Semja skal árshlutauppgjör fyrir verðbréfafyrirtæki miðað við 30. júní.
(3) Fyrir verðbréfafyrirtæki, sem er móðurfyrirtæki skal semja samstæðureikningsskil fyrir félagið og dótturfélög þess.
3. gr.
(1) Ársreikningur skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, fjárstreymisyfirlit og skýringar. Ennfremur skal semja skýrslu stjórnar. Ársreikningur og skýrsla stjórnar mynda eina heild.
(2) Ársreikningur skal undirritaður af stjórn og framkvæmdastjóra. Telji stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri að ekki skuli samþykkja ársreikning eða hafi mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni.
(3) Framsetning ársreiknings skal vera með glöggum hætti og í samræmi við ákvæði laga, reglna og góða reikningsskilavenju.
4. gr.
Rekstrarreikningur skal gerður þannig að hann gefi glögga mynd af því hvernig hagnaður eða tap á reikningsárinu hefur myndast. Uppsetning og sundurliðun rekstrarreiknings skal vera með þeim hætti sem fram kemur í fylgiskjali með reglum þessum. Viðkomandi rekstrarliðir skulu sérgreindir nema þeir eigi ekki við eða nemi óverulegum fjárhæðum.
5. gr.
Efnahagsreikningur skal gerður þannig að hann gefi glögga mynd af eignum, skuldum og eigin fé í lok reikningsárs. Uppsetning og sundurliðun efnahagsreiknings skal vera með þeim hætti sem fram kemur í fylgiskjali með reglum þessum. Viðkomandi efnahagsliðir skulu sérgreindir nema þeir eigi ekki við eða nemi óverulegum fjárhæðum.
6. gr.
Fjárstreymisyfirlit skal samið sem sjóðstreymi. Sjóðstreymi skal gert þannig að það greini breytingar á handbæru fé á árinu í samræmi við góða reikningsskilavenju.
Einstakir liðir í rekstrarreikningi
7. gr.
Varðandi rekstrarliði 1.3, Fjármunatekjur, og 1.5, Fjármagnsgjöld, skal sýna í skýringum nánari sundurliðun eftir því sem við á sbr. ennfremur 12. gr. reglugerðar nr. 696/1996.
Einstakir liðir í efnahagsreikningi
8. gr.
(1) Undir efnahagslið 2, Verðbréf, skal færa verðbréf sem er ekki aflað í þeim tilgangi að halda því til varanlegrar eignar í rekstri.
(2) Verðbréf með föstum tekjum annars vegar, sbr. efnahagslið 2.1, og verðbréf með breytilegum tekjum hins vegar, sbr. efnahagslið 2.2, skal sundurliða í skýringum í: 1) Skráð á Verðbréfaþingi Íslands, 2) Önnur skráð verðbréf og 3) Óskráð verðbréf.
9. gr.
(1) Varðandi efnahagslið 2.1, Verðbréf með föstum tekjum, skal greina í skýringum frá heildarfjárhæð verðbréfa útgefnum af opinberum aðilum annars vegar og öðrum aðilum hins vegar.
(2) Varðandi efnahagslið 2.2, Verðbréf með breytilegum tekjum, skal greina í skýringum frá heildarfjárhæð hlutabréfa annars vegar og hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum hins vegar.
10. gr.
(1) Varðandi efnahagsliði 4.2, Hlutir í hlutdeildarfélögum, og 4.3, Hlutir í tengdum félögum, skal sýna sundurliðun í skýringum eftir fyrirtækjum, eignarhlutdeild, hagnaðarhlutdeild, nafnverði, markaðsverði og bókfærðu verði.
(2) Varðandi efnahagslið 4.4, Aðrar eignir, skal sýna nánari sundurliðun í skýringum þegar um er að ræða verulegar fjárhæðir. Sé um að ræða hlutabréfaeign samkvæmt þessum efnahagslið skal sýna sambærilega sundurliðun og lýst er í næstu málsgrein á undan.
11. gr.
Varðandi efnahagslið 6., Eigið fé, skal sýna í skýringum nánari sundurliðun einstakra eiginfjárliða eftir því sem við á sbr. ennfremur 3. gr. reglugerðar nr. 696/1996.
Skýringar
12. gr.
Auk upplýsinga samkvæmt 7. - 11. gr. skal í skýringum gefa upplýsingar um reikningsskilaaðferðir og annað sem máli skiptir við mat á rekstrarafkomu og fjárhagsstöðu sbr. ennfremur ákvæði IV. kafla laga nr. 144/1994*1) og reglurgerðar nr. 696/1996.
13. gr.
Greint skal frá heildarfjárhæð eigna viðskiptamanna í eignastýringu og vörslu,á uppgjörsdegi.
14. gr.
Gerð skal grein fyrir eiginfjárútreikningi samkvæmt gildandi reglum um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja í samræmi við eftirfarandi sundurliðun:
Áhættugrunnur:
Áhættugrunnur vegna útlánaáhættu liða utan veltubókar
Áhættugrunnur vegna gjaldeyrisáhættu
Áhættugrunnur vegna stöðu- og mótaðilaáhættu veltubókarliða
Áhættugrunnur samtals
Eigið fé:
Eiginfjárþáttur A
Eiginfjárþáttur B
Eiginfjárþáttur C
- Eignarhlutir til frádráttar
Eigið fé samtals
Eiginfjárhlutfall (%)
15. gr.
Gerð skal grein fyrir skuldbindingum utan efnahagsreiknings, þ.m.t. sölutryggingum og afleiðusamningum. Sundurliða skal afleiðusamninga eftir fjárhæðum í helstu tegundir samninga og í eignir og skuldir í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum. Ennfremur skal upplýsa um hvort og þá hvernig afleiðusamningar eru notaðir við stjórnun vaxta- og gjaldmiðlaáhættu fyrirtækisins.
Ýmis ákvæði
16. gr.
(1) Endurskoðaður ársreikningur ásamt skýrslu stjórnar skal sendur Fjármálaeftirlitinu innan 10 daga frá undirritun og eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.
(2) Árshlutareikningur skal liggja fyrir eigi síðar en tveimur mánuðum eftir uppgjörsdag, áritaður af stjórn og framkvæmdastjóra. Hafi árhlutareikningurinn verið endurskoðaður eða kannaður skal hann jafnframt áritaður af endurskoðanda fyrirtækisins. Áritaður árshlutareikningur skal sendur Fjármálaeftirlitinu jafnskjótt og hann liggur fyrir.
17. gr.
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 2. mgr. 88. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki og öðlast gildi frá og með reikningsárinu 2003.
Fylgiskjal
Rekstrarreikningur
1. Rekstrartekjur:
1.1 Umsýsluþóknun
1.2 Söluþóknun
1.3 Fjármunatekjur
1.4 Aðrar rekstrartekjur
Heildartekjur
1.5 Fjármagnsgjöld
Hreinar rekstrartekjur
2. Rekstrargjöld:
2.1 Laun og launatengd gjöld
2.2 Annar rekstrarkostnaður
2.3 Afskriftir rekstrarfjármuna
Rekstrargjöld
3. Hagnaður af reglulegri starfsemi fyrir skatta
4. Skattar:
4.1 Tekjuskattur
4.2 Eignaskattur
Samtals
5. Óreglulegir liðir:
6. Hagnaður
Efnahagsreikningur
Eignir
1. Óefnislegar eignir
2. Verðbréf:
2.1 Verðbréf með föstum tekjum
2.2 Verðbréf með breytilegum tekjum
3. Kröfur:
3.1 Kröfur á tengd félög
3.2 Kröfur á hlutdeildarfélög
3.3 Aðrar kröfur
4. Aðrar eignir:
4.1 Rekstrarfjármunir
4.2 Hlutir í hlutdeildarfélögum
4.3 Hlutir í tengdum félögum
4.4 Sjóður og bankainnstæður
4.5 Aðrar eignir
5. Fyrirframgreiddur kostnaður og áfallnar tekjur
Eignir samtals
Skuldir og eigið fé
6. Eigið fé:
6.1 Hlutafé
6.2 Yfirverðsreikningur innborgaðs hlutafjár
6.3 Endurmatsreikningur
6.4 Lögbundinn varasjóður
6.5 Óráðstafað eigið fé
Eigið fé samtals
7. Skuldbindingar og víkjandi lán:
7.1 Lífeyrisskuldbindingar
7.2 Skattaskuldbindingar
7.3 Víkjandi lán
7.4 Aðrar skuldbindingar
8. Aðrar skuldir
8.1 Lántökur
8.2 Skuldir við tengd félög
8.3 Skuldir við hlutdeildarfélög
8.4 Reiknaðir skattar
8.5 Skuldir við lánastofnanir
8.6 Aðrar skuldir
9. Áfallinn kostnaður og fyrirfram innheimtar tekjur
Skuldir samtals
Skuldir og eigið fé samtals