Skattalagasafn ríkisskattstjóra 26.4.2024 17:57:12

Reglugerð nr. 283/2005, kafli 1 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=283.2005.1)
Ξ Valmynd

I. KAFLI
Skilgreiningar og gildissvið.

1. gr.
Skilgreiningar.

     Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:
Blöndunarbúnaður: Viðurkenndur litunarbúnaður sem settur er upp í tengslum við blöndun litunarefnis saman við gas- og dísilolíu.

Faggilt prófunarstofa: Prófunarstofa sem hefur verið faggilt sbr. IV. kafla laga nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu, með síðari breytingum.

Gas- og dísilolía: Gas- og dísilolía sem flokkast í tollskrárnúmer 2710.1930 og nothæf er sem eldsneyti á ökutæki, þó ekki skipagasolía sem notuð er á kaupskip, varðskip og öll skip til atvinnurekstrar sem eru með skráningarlengd 6 metrar og lengri. Hugtakið nær jafnframt til olíu í öðrum tollskrárnúmerum sem blönduð hefur verið gjaldskyldri olíu, enda séu blöndurnar nothæfar sem eldsneyti á ökutæki.

Leyfishafar: Aðilar sem fengið hafa leyfi ríkisskattstjóra til að meðhöndla olíu sem gjaldskyld er skv. 3. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., og bæta litar- og merkiefnum í gas- og dísilolíu vegna sölu eða afhendingar án gjalds, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar.

Lituð olía: Gas- og dísilolía sem litunarefnum hefur verið bætt í.

Litun: Sú aðgerð að bæta litunarefnum í gas- og dísilolíu.

Litunarbúnaður: Viðurkenndur búnaður sem notaður er til að blanda litunarefni saman við gas- og dísilolíu.

Litunarefni: Merkiefni og litarefni.
 

2. gr.
Aðilar undanþegnir gjaldskyldu.

(1) Til aðgreiningar frá gas- og dísilolíu sem ber olíugjald samkvæmt lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., skal bæta litunarefnum í gas- og dísilolíu, í eftirfarandi tilvikum:

  1. til nota á skip og báta,
  2. til húshitunar og hitunar almenningssundlauga,
  3. til nota í iðnaði og á vinnuvélar,
  4. til nota á dráttarvélar í landbúnaði,
  5. til raforkuframleiðslu,
  6. til nota á ökutæki sem ætluð eru til sérstakra nota og falla undir vörulið 8705 í viðauka I við tollalög, nr. 55/1987*1),
  7. til nota á vörubifreiðar með krana yfir 25 tonnmetrum.
     

(2) Skipagasolía sem notuð er á kaupskip, varðskip og öll skip til atvinnurekstrar sem eru með skráningarlengd 6 metrar og lengri, fellur ekki undir gjaldskyldusvið laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., og er því undanþegin litun samkvæmt þessari reglugerð.

1)Sjá nú tollalög nr. 88/2005.
 

3. gr.
Litunarefni.

(1) Litunarefnið samanstendur af einu litarefni og einu merkingarefni.

(2) Sem merkiefni skal nota N-Ethyl-N[2(1-isobutoxyethoxy)ethyl]-4-(phenylazo)anilin (Solvent Yellow 124), og sem litarefni skal nota sérstaka útgáfu af 1,4-bis-N-dialkylaminoathraquinon blöndunarefni með alkylhópunum 2-ethylhexyl, 3-(2-ethylhexyloxy) propyl og 3-menthoxypropyl (sérstök útgáfa af C.I. Solvent Blue 79 með CAS 90170-70-0). Merkiefnið og litarefnið kallast hér eftir litunarefni. Ekki má bæta öðrum litar- eða merkingarvörum í olíuvörur.

(3) Litaða olíu má ekki nota sem eldsneyti í öðrum tilvikum en lýst er í 1. mgr. 2. gr.

(4) Litar- og/eða merkiefni má hvorki fjarlægja að öllu leyti né að hluta. Blöndun litaðrar olíu og annarrar olíu eða vöru er óheimil, sbr. þó 4. mgr. 11. gr.
 

Fara efst á síðuna ⇑