Skattalagasafn ríkisskattstjóra 4.12.2024 08:30:59

Reglugerð nr. 1124/2005, kafli 1 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=1124.2005.1)
Ξ Valmynd

I. KAFLI
Gjaldskyldar vörur.

1. gr.
Gjaldskyldar vörur.

(1) Greiða skal í ríkissjóð úrvinnslugjald af innfluttum vörum og vörum sem framleiddar eru innanlands.

(2) Úrvinnslugjald skal leggja á vöruflokka, á nýjar og notaðar vörur, eins og nánar er kveðið á um í viðaukum með lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald að undanskildu tollskrárnúmeri 2710.1920. Við flokkun til gjaldskyldu skal fylgt flokkunarreglum tollalaga nr. 55/1987*1).

(3) Greiða skal úrvinnslugjald af ökutækjum eins og nánar er mælt fyrir um í IV. kafla reglugerðar þessarar.

(4) Greiða skal úrvinnslugjald af pappa-, pappírs- og plastumbúðum eins og nánar er kveðið á um í VI. kafla reglugerðar þessarar.

(5) Skattstjórar og innlendir framleiðendur vöru geta óskað eftir ákvörðun tollstjóra um tollflokkun framleiðsluvöru samkvæmt ákvæðum 142. gr. tollalaga*2). Skattstjóri og framleiðandi geta skotið ákvörðun tollstjóra um tollflokkun vöru til ríkistollanefndar, sbr. 101. gr. tollalaga*3). Ákvörðun tollyfirvalda um tollflokkun er bindandi fyrir framleiðanda og skattyfirvöld.

*1)Sjá nú tollalög nr. 88/2005. *2)Nú 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. *3)Nú 118. gr. tollalaga nr. 88/2005.

2. gr.
Gjaldstofn.

(1) Gjaldstofn úrvinnslugjalds skal miðast við stykkjatölu eða þyngd í kílógrömmum hinnar gjaldskyldu vöru ásamt söluumbúðum, þ.e. nettóþyngd. Ef gjaldskyld vara er hluti af annarri vöru miðast gjaldstofn við heildarþyngd gjaldskyldu vörunnar.

(2) Gjaldstofn úrvinnslugjalds af pappa-, pappírs- og plastumbúðum skal miðast við þyngd umbúða í kílógrömmum hvort sem þær eru einar sér eða utan um vöru.
 

Fara efst á síðuna ⇑