Skattalagasafn ríkisskattstjóra 25.4.2024 19:36:00

Lög nr. 94/2019, kafli 1 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=94.2019.1)
Ξ Valmynd

I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.
Markmið.

Markmið laga þessara er að tryggja að um störf endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja gildi skýrar reglur í því skyni að auka traust á ársreikningum og samstæðureikningsskilum endur­skoðaðra eininga.

 2. gr.
Orðskýringar.

Í lögum þessum merkir;

  1. Áritunarendurskoðandi: Endurskoðandi sem áritar reikningsskil eða samstæðureikningsskil.
  2. Eiginhagsmunaógnun: Ógnun vegna fjárhagslegra eða annarra hagsmuna sem hefur óvið­eigandi áhrif á faglegt mat endurskoðanda eða hegðun.
  3. Eining tengd almannahagsmunum:
    1. Lögaðili sem er með skráð lögheimili á Íslandi og hefur verðbréf sín skráð á skipu­legum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofn­samn­ings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
    2. Lífeyrissjóður sem hefur fullgilt starfsleyfi.
    3. Lánastofnun eins og hún er skilgreind í lögum um fjármálafyrirtæki.
    4. Félag sem hefur starfsleyfi til að reka vátryggingastarfsemi hér á landi samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
    5. [lögaðili sem á fiskiskip með aflahlutdeild samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða og lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga. Einnig lögaðili sem hefur rekstrarleyfi samkvæmt lögum um fiskeldi og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga.
    6. Stórnotandi, dreifiveita eða flutningsfyrirtæki samkvæmt skilgreiningum raforkulaga sem telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga. Einnig lögaðili sem starfrækir raforkuver/virkjun samkvæmt skilgreiningu raforkulaga, eða hitaveitu samkvæmt skilgreiningu orkulaga, og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga.
    7. Lögaðili sem hefur flugrekstrarleyfi samkvæmt lögum um loftferðir og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga.
    8. Lögaðili sem hefur leyfi til rekstrar fjarskiptanets samkvæmt lögum um fjarskipti og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga.
    9. Lögaðili sem sinnir farmflutningum samkvæmt siglingalögum og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga.]1)
  4. Endurskoðandi: Sá sem hefur þekkingu til að gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikn­ings­skilum og öðrum fjárhagsupplýsingum, hefur löggildingu til að starfa við endur­skoðun, er á endurskoðendaskrá, sbr. 5. gr., og fullnægir að öðru leyti skilyrðum laga þessara.
  5. Endurskoðandi samstæðu: Endurskoðandi sem ber ábyrgð á endurskoðun samstæðu­reiknings­skila.
  6. Endurskoðun: Óháð og kerfisbundin öflun gagna og mat á þeim í þeim tilgangi að láta í ljós rökstutt og faglegt álit endurskoðanda á áreiðanleika þeirra og framsetningu í samræmi við lög, settar reikningsskilareglur eða önnur skilyrði sem fram koma í álitinu.
  7. Endurskoðunarfyrirtæki: Fyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi til endurskoðunarstarfa samkvæmt ákvæðum laga þessara, er á endurskoðendaskrá og fullnægir að öðru leyti skil­yrðum laganna.
  8. Endurskoðunarnefnd: Endurskoðunarnefnd skv. IX. kafla A laga um ársreikninga, nr. 3/2006.
  9. Fagleg tortryggni: Viðhorf sem felur í sér gagnrýna hugsun og að vera á varðbergi gagnvart aðstæðum sem geta gefið til kynna mögulegar rangfærslur vegna villna eða svika og gagnrýnið mat á endurskoðunargögnum með sönnunargildi.
  10. Gistiríki: Aðildarríki að Evrópska efnahagssvæðinu þar sem endurskoðandi, sem löggiltur hefur verið í heimaaðildarríki sínu, leitar eftir að fá einnig löggildingu í samræmi við 3. gr., eða aðildarríki þar sem endurskoðunarfyrirtæki, sem hlotið hefur starfsleyfi í heima­aðildar­ríki sínu, leitar eftir að fá starfsleyfi eða er með starfsleyfi í samræmi við 5. gr.
  11. Málsvarnarógnun: Ógnun sem getur skapast þegar endurskoðandi heldur fram afstöðu eða skoðun viðskiptavinar að því marki að ógnað gæti hlutlægni hans.
  12. Óhæði í ásýnd: Að forðast tengsl og aðstæður sem hafa svo mikla þýðingu að óvilhallur og upplýstur þriðji aðili væri líklegur til að álykta á grundvelli allra staðreynda og aðstæðna að heiðarleika, hlutleysi, faglegri gagnrýni fyrirtækis eða meðlims endurskoðunarteymis hafi verið stefnt í hættu.
  13. Óhæði í reynd: Hugarástand sem gerir það kleift að látið sé í ljós álit án þess að hafa orðið fyrir áhrifum sem stofna faglegu mati í hættu og gerir einstaklingi kleift að starfa af heiðar­leika og beita hlutleysi og faglegri dómgreind.
  14. Samstarfsfyrirtækjanet: Endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki sem hafa með sér samstarf sem miðar að hagnaðar- eða kostnaðarskiptingu, sameiginlegu eignarhaldi, sam­eigin­legum yfirráðum eða stjórn, sameiginlegri stefnu í gæðastjórnun og gæðaaðferðum og sameigin­legri viðskiptastefnu og nota sameiginlegt vörumerki eða samnýta umtalsverðan hluta faglegra úrræða.
  15. Sjálfsmatsógnun: Ógnun vegna hættu á að endurskoðandi muni ekki meta með réttum hætti niðurstöðu fyrra mats eða veittrar þjónustu af hans hálfu, eða af öðrum einstaklingi innan fyrirtækis hans eða vinnuveitenda, þegar endurskoðandi þarf síðar að leggja mat á eigin niðurstöður í tengslum við veitta þjónustu.
  16. Vinfengisógnun: Ógnun vegna langs og náins sambands við viðskiptavin eða vinnuveitanda.
  17. Þvingunarógnun: Ógnun þegar endurskoðandi er hindraður í að starfa af hlutleysi vegna þvingana, raunverulegra eða ætlaðra, þ.m.t. tilrauna til að hafa óviðeigandi áhrif á hann.

1)Sbr. 7. gr. laga nr. 102/2020. Ákvæðið öðlast gildi og kemur til framkvæmda fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2021 eða síðar.

 

Fara efst á síðuna ⇑