Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.10.2024 20:56:09

Lög nr. 92/2006 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=92.2006.0)
Ξ Valmynd

Úr lögum
nr. 92/2006, um evrópsk samvinnufélög.
 

2. gr.
Bókhald og ársreikningar.

(1) Um evrópskt samvinnufélag, sem skráð er hér á landi, gilda lög um bókhald og lög um ársreikninga sé eigi kveðið á um annað í reglugerð um evrópsk samvinnufélög. Evrópskt samvinnufélag getur fengið heimild ársreikningaskrár, sem ríkisskattstjóri starfrækir, til að færa bókhald sitt í erlendum gjaldmiðli í samræmi við ákvæði laga um bókhald og semja og birta ársreikning sinn í erlendum gjaldmiðli í samræmi við lög um ársreikninga.

(2) Flytji evrópskt samvinnufélag skráða skrifstofu sína til annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja skal stjórn eða framkvæmdastjórn félagsins gera sérstakan rekstrarreikning fyrir tímabilið frá lokum síðasta ársreiknings til þess dags er flutningur skráðrar skrifstofu hefur öðlast gildi skv. 10. mgr. 7. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög.

(3) Taki samvinnufélag þátt í stofnun evrópsks samvinnufélags með samruna skv. 19. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög og evrópska samvinnufélagið verður með skráða skrifstofu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum skal stjórn samvinnufélagsins gera sérstakan ársreikning frá lokum síðasta ársreiknings til þess dags er evrópska samvinnufélagið er skráð skv. 1. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar.

(4) Ársreikningurinn skal afhentur samvinnufélagaskrá*1) innan mánaðar frá lokum þess tímabils sem reikningurinn tekur til.

(5) Stundi evrópskt samvinnufélag, með skráða skrifstofu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, starfsemi hér á landi í formi útibús skal bókhald og ársreikningur útibúsins vera í samræmi við lög um bókhald og lög um ársreikninga. Heimild 2. málsl. 1. mgr. gildir einnig um þessi útibú.

*1)Einnig ársreikningaskrá skv. 109. gr. laga nr. 3/2006.

Fylgiskjal.

ÚR REGLUGERÐ RÁÐSINS (EB) nr. 1435/2003
frá 22. júlí 2003
um samþykktir fyrir evrópsk samvinnufélög (SCE)

V. KAFLI
Ráðstöfun hagnaðar.
65. gr.
Lögbundinn varasjóður.

  1. Með fyrirvara um ófrávíkjanleg lagaákvæði skal í samþykktunum mæla fyrir um reglur um ráðstöfun tekjuafgangs fyrir hvert fjárhagsár.
  2. Í samþykktunum skal gerð krafa um að hluti af slíkum tekjuafgangi sé lagður í lögboðinn varasjóð, er komið verði á fót, áður en afgangi er ráðstafað á nýjan leik.
    Þangað til lögbundinn varasjóður nemur sömu fjárhæð og stofnfénu, sem um getur í 2. mgr. 3. gr., verður fjárhæðin, sem lögð er í hann, að nema a.m.k. 15% af tekjuafgangi fjárhagsársins, að frádregnu tapi sem hefur verið flutt frá fyrra ári.
  3. Aðilar, sem segja sig úr evrópska samvinnufélaginu, skulu ekki eiga neina kröfu til fjár sem lagt hefur verið í lögbundna varasjóðinn með þessum hætti.
     

66. gr.
Arður.

     Heimilt er að kveða á um það í samþykktunum að arður sé greiddur til félagsaðila í hlutfalli við viðskipti þeirra við evrópska samvinnufélagið eða þá þjónustu sem þeir hafa innt af hendi fyrir það.
 

67. gr.
Ráðstöfun tekjuafgangs.

  1. Hagnaður til úthlutunar er sú fjárhæð sem eftir stendur þegar búið er að draga frá greiðslu í lögbundinn varasjóð, arðgreiðslur og yfirfært tap frá fyrri árum að viðbættum tekjuafgangi, sem hefur verið yfirfærður frá fyrra ári, og fjárhæðum sem hafa verið úr varasjóðum.
  2. Á félagsfundi, þar sem reikningar fjárhagsársins eru lagðir fram, má ráðstafa tekjuafgangi á þann hátt og í þeim hlutföllum sem mælt er fyrir um í samþykktunum, einkum: 
              að færa hann yfir á næsta fjárhagsár, 
              leggja hann í lögbundinn varasjóð eða annan skyldubundinn varasjóð, 
              að veita arði af innborguðu stofnfé og ígildi stofnfjár, sem staðgreiddur er eða greiddur í hlutum.
  3. Í samþykktunum má einnig kveða á um bann við úthlutun.
     

VI. KAFLI
Árleg reikningskil og samstæðureikningsskil.
68. gr.
Gerð árlegra reikningsskila og samstæðureikningsskila.

  1. Að því er varðar gerð árlegra reikningsskila og, eftir atvikum, gerð samstæðureikningsskila, ásamt meðfylgjandi ársskýrslu, svo og um endurskoðun þeirra og birtingu, skal evrópskt samvinnufélag heyra undir lagaákvæði aðildarríkisins, þar sem félagið er með skráða skrifstofu, sem sett eru til framkvæmdar tilskipunum 78/660/EBE og 83/349/EBE. Aðildarríki geta þó kveðið á um breytingar á ákvæðum landslaga til framkvæmdar þeim tilskipunum svo að tekið sé tillit til séreinkenna samvinnufélaga.
  2. Ef evrópsku samvinnufélagi ber ekki skylda til, samkvæmt lögum aðildarríkisins þar sem félagið hefur skráða skrifstofu, að birta reikningsskil, eins og kveðið er á um í 3. gr. tilskipunar 68/151/EBE, skal evrópska samvinnufélagið a.m.k. sjá til þess að almenningur hafi aðgang að skjölum, tengdum árlegum reikningsskilum, á skráðri skrifstofu sinni. Afrit af þessum skjölum skulu afhent ef óskað er eftir því. Gjald fyrir slík afrit skal ekki vera hærra en sem nemur umsýslukostnaði.
  3. Evrópskt samvinnufélag skal setja fram árleg reikningsskil sín og, eftir atvikum, samstæðureikningsskil í innlendum gjaldmiðli. Evrópskt samvinnufélag, sem hefur skráða skrifstofu utan gildissvæðis evrunnar, getur einnig sett fram árleg reikningsskil sín og, eftir atvikum, samstæðureikningsskil í evrum. Í því tilviki skal tilgreina, í athugasemdum með reikningsskilunum, hvernig þeir liðir í reikningsskilunum, sem eru eða voru upphaflega tilgreindir í öðrum gjaldmiðli, hafa verið umreiknaðir í evrur.
     

69. gr.
Reikningsskil evrópskra samvinnufélaga sem stunda lána- eða fjármálastarfsemi.

  1. Við gerð árlegra reikningsskila, og eftir atvikum, samstæðureikningsskila ásamt meðfylgjandi ársskýrslu svo og við endurskoðun og birtingu þessara reikninga skal evrópskt samvinnufélag, sem er lána- eða fjármálastofnun, fara eftir reglum sem mælt hefur verið fyrir um í landslögum aðildarríkisins, þar sem það hefur skráða skrifstofu, samkvæmt tilskipunum sem tengjast stofnun og rekstri lánastofnana.
  2. Við gerð árlegra reikningsskila og, eftir atvikum, samstæðureikningsskila ásamt meðfylgjandi ársskýrslu svo og við endurskoðun og birtingu þessara reikninga skal evrópskt samvinnufélag, sem er vátryggingafélag, fara eftir reglum sem mælt hefur verið fyrir um í landslögum aðildarríkisins, þar sem það hefur skráða skrifstofu, samkvæmt tilskipunum um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga.
     

70. gr.
Endurskoðun.

     Lögboðin endurskoðun árlegra reikningsskila evrópsks samvinnufélags og, eftir atvikum, samstæðureikningsskila þess skal vera í höndum eins eða fleiri aðila, sem hafa til þess heimild í aðildarríkinu þar sem það hefur skráða skrifstofu, í samræmi við ráðstafanir sem það ríki hefur samþykkt í samræmi við tilskipanir 84/253/EBE og 89/48/EBE.
 

71. gr.
Endurskoðunarkerfi.

     Ef þess er krafist í lögum aðildarríkis að öll samvinnufélög eða samvinnufélög af tiltekinni gerð, sem heyra undir lög þess ríkis, tengist annarri stofnun, sem hlotið hefur heimild að lögum, og gangist undir tiltekið endurskoðunarkerfi sem sú stofnun starfrækir, skal sú tilhögun sjálfkrafa gilda um evrópskt samvinnufélag sem hefur skráða skrifstofu í því aðildarríki, að því tilskildu að aðilinn uppfylli kröfur tilskipunar 84/253/EBE.
 

Fara efst á síðuna ⇑