Skattalagasafn ríkisskattstjóra 10.9.2024 23:53:09

Lög nr. 161/2002 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=161.2002.0)
Ξ Valmynd

Úr lögum
nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.*1)

*1)Sbr. lög nr. 130/2004, 111/2007, 75/2010 og 47/2013 og 8/2019.

 

- - - - - - -

XI. KAFLI
Ársreikningar, endurskoðun og samstæðureikningsskil.

87. gr.
Samning ársreiknings og undirritun.

(1) Stjórn og framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár. Ársreikningur skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, fjárstreymisyfirlit og skýringar. Enn fremur skal semja skýrslu stjórnar sem ásamt ársreikningi mynda eina heild. Reikningsár fjármálafyrirtækja er almanaksárið.

(2) Ársreikningur skal undirritaður af stjórn og framkvæmdastjórum fjármálafyrirtækja. Hafi stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni.

(3) [Eftirfarandi upplýsingar skulu vera í ársreikningi:

a. Launagreiðslur og hvers konar greiðslur eða hlunnindi félagsins til hvers og eins stjórnarmanns og framkvæmdastjóra,
b. heildargreiðslur og hlunnindi lykilstarfsmanna auk upplýsinga um fjölda þeirra,
c. nöfn og ríkisfang allra þeirra sem eiga umfram 1% hlutafjár eða stofnfjár í lok reikningsárs. Sé viðkomandi lögaðili skal jafnframt koma fram hver sé raunverulegur eigandi viðkomandi lögðaila, sbr. 4. mgr. 19. gr.]1)2)

1)Sbr. 47. gr. laga nr. 75/2010. 2)Sbr. 10. gr. laga nr. 47/2013.

88. gr.
Góð reikningsskilavenja.

(1) Ársreikningur skal gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu fjármálafyrirtækis. Hann skal gerður í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju og innihalda m.a. rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar og upplýsingar um liði utan efnahagsreiknings.

(2) Fjármálaeftirlitið setur reglura) að höfðu samráði við reikningsskilaráð um uppsetningu ársreiknings, innihald einstakra liða rekstrar- og efnahagsreiknings og liða utan efnahagsreiknings og skýringar og mat á einstökum liðum.

(3) Fjármálaeftirlitið skal sjá til þess í samráði við reikningsskilaráð að á hverjum tíma liggi fyrir skilgreining á góðri reikningsskilavenju við gerð ársreiknings og árshlutareiknings fjármálafyrirtækis.

a)Sbr. reglur nr. 834/2003, 97/2004, sbr. 1065/2009 og 102/2004.

89. gr.
Skýrsla stjórnar.

(1) Í skýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit yfir starfsemi hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis á árinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu hlutaðeigandi fyrirtækis og afkomu þess á reikningsárinu er ekki koma fram í ársreikningnum.

(2) Í skýrslu stjórnar skal enn fremur upplýst um eftirfarandi:

  1. atburði eftir uppgjörsdag sem hafa verulega þýðingu,

  2. væntanlega þróun fyrirtækisins og

  3. aðgerðir sem hafa þýðingu fyrir framtíðarþróun þess.

(3) Skýrsla stjórnar skal veita upplýsingar um fjölda starfsmanna að meðaltali á reikningsárinu og heildarfjárhæð launa, þóknana eða annarra greiðslna til starfsmanna, framkvæmdastjóra, stjórnar og annarra í þjónustu hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis. Sé um ágóðahlut að ræða til stjórnar eða framkvæmdastjóra skal hann sérgreindur. Í skýrslu stjórnar skal upplýst um fjölda hluthafa eða stofnfjáreigenda í lok reikningsárs. Að öðru leyti gilda ákvæði hlutafélagalaga eftir því sem við á.

(4) Stjórnir skulu í skýrslu sinni gera tillögu um ráðstöfun á hagnaði hlutaðeigandi fyrirtækis eða jöfnun taps.

90. gr.
Endurskoðun.

(1) Ársreikningur fjármálafyrirtækis skal endurskoðaður af endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi*1). [Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skal ekki gegna öðrum störfum fyrir fjármálafyrirtækið.]1)

(2) [Endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki skv. 1. mgr. skal kjósa á aðalfundi fjármálafyrirtækis til a.m.k. eins árs, þó ekki lengur en til tíu ára. Fjármálafyrirtæki getur vikið endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki frá áður en kjörtímabili skv. 1. málsl. lýkur að fengnu áliti endurskoðendaráðs. Að öðru leyti gilda ákvæði 20. gr. laga um endurskoðendur, nr. 79/2008, um starfstíma endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis fjármálafyrirtækis.]1)2)

(3) Kjósa skal sama aðila sem endurskoðanda í móður-, systur- og dótturfélagi ef þess er nokkur kostur. Í móðurfélagi skal endurskoðandi jafnframt endurskoða samstæðureikninginn.

(4) [Endurskoðendur félags eiga rétt á að sitja stjórnar- og félagsfundi í fjármálafyrirtæki og er skylt að mæta á aðalfundi.]1)

1)Sbr. 48. gr. laga nr. 75/2010. 2)Sbr. 4. gr. laga nr. 8/2019.  *1)Á að vera endurskoðunarfyrirtæki, sbr. 2. málsl. 1. mgr., 2. og 3. mgr. þessarar greinar.

91. gr.
Hæfi endurskoðanda.

(1) Endurskoðandi má ekki eiga sæti í stjórn, vera starfsmaður fyrirtækisins eða starfa í þágu þess að öðru en endurskoðun.

(2) Endurskoðandi má ekki vera skuldugur því fyrirtæki sem hann annast endurskoðun hjá, hvorki sem aðalskuldari né ábyrgðarmaður. Hið sama gildir um maka hans.
 

92. gr.
[Upplýsinga- og tilkynningarskylda endurskoðanda.

(1) Endurskoðanda er skylt að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um framkvæmd og niðurstöður endurskoðunar sé þess óskað.

(2)  Endurskoðanda er skylt að gera Fjármálaeftirlitinu tafarlaust viðvart fái hann vitneskju, í starfi sínu fyrir fjármálafyrirtækið eða aðila sem er í nánum tengslum við það, um atriði eða ákvarðanir sem:

  1. a.fela í sér veruleg brot á löggjöf sem gildir um starfsemi fjármálafyrirtækisins eða hvers konar brot sem koma til skoðunar á grundvelli 9. gr.,
  2. b.kunna að hafa áhrif á áframhaldandi starfsemi fjármálafyrirtækisins, þ.m.t. atriði sem hafa verulega þýðingu fyrir fjárhagsstöðu hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis,
  3. c.leitt geta til þess að endurskoðandi mundi synja um áritun eða gera fyrirvara við ársreikning fjármálafyrirtækisins.

(3) Endurskoðandi skal gera stjórn fjármálafyrirtækis viðvart um tilkynningu skv. 2. mgr. nema rík ástæða sé til þess að gera það ekki.

(4) Upplýsingar sem endurskoðandi veitir Fjármálaeftirlitinu samkvæmt ákvæðum þessarar greinar teljast ekki brot á lögbundinni eða samningsbundinni þagnarskyldu endurskoðanda.]1)

1)Sbr. 5. gr. laga nr. 8/2019.

93. gr.
Góð endurskoðunarvenja.

(1) Fjármálaeftirlitið skal sjá til þess í samráði við Félag löggiltra endurskoðenda og aðra hlutaðeigandi aðila að á hverjum tíma liggi fyrir skilgreining á góðri endurskoðunarvenju við endurskoðun hjá fjármálafyrirtækjum. Fjármálaeftirlitið setur reglura) um endurskoðun fjármálafyrirtækja.

(2) Að öðru leyti en fram kemur í lögum þessum gilda um endurskoðun fjármálafyrirtækja ákvæði VII. kafla laga nr. 144/1994*1), um ársreikninga, með áorðnum breytingum.

(3) Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um dótturfyrirtæki fjármálafyrirtækis, svo og eignarhaldsfélag á fjármálasviði eða blandað eignarhaldsfélag skv. 97. gr. og dótturfyrirtæki slíkra félaga.

a)Sbr. reglur nr. 532/2003. *1)Nú lög nr. 3/2006.

94. gr.
Sérstök endurskoðun.

(1) Fjármálaeftirlitið getur látið fara fram sérstaka endurskoðun hjá fjármálafyrirtæki telji eftirlitið ástæðu til að ætla að endurskoðað reikningsuppgjör gefi ekki glögga mynd af fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu fyrirtækisins. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta hlutaðeigandi fyrirtæki bera kostnaðinn af slíkri endurskoðun.

(2) Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um dótturfyrirtæki fjármálafyrirtækis, svo og haldsfélag á fjármálasviði eða blandað eignarhaldsfélag skv. 97. gr. og dótturfyrirtæki slíkra félaga.

95. gr.
Skil og birting ársreiknings.

(1) Endurskoðaður og undirritaður ársreikningur fjármálafyrirtækis ásamt skýrslu stjórnar skal sendur Fjármálaeftirlitinu innan tíu daga frá undirritun en í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.

(2) Hafi á aðalfundi verið samþykktar breytingar á undirrituðum ársreikningi skal breyttur ársreikningur sendur Fjármálaeftirlitinu innan tíu daga frá aðalfundi og gerð grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið.

(3) Ársreikningur fjármálafyrirtækis ásamt skýrslu stjórnar skal liggja frammi á afgreiðslustað hlutaðeigandi fyrirtækis og afhentur hverjum viðskiptaaðila sem þess óskar innan tveggja vikna frá samþykkt aðalfundar.

96. gr.
Árshlutauppgjör.

(1) Fjármálafyrirtæki skulu semja og birta árshlutauppgjör í samræmi við reglura) sem Fjármálaeftirlitið setur.

(2) Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá ákvæðum um gerð árshlutauppgjörs.

a)Sbr. reglugerð nr. 834/2003.

97. gr.
Samstæðureikningsskil.

(1) Fyrirtæki telst vera móðurfyrirtæki þegar það:

  1. ræður yfir meiri hluta atkvæða í öðru fyrirtæki,

  2. á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að tilnefna eða víkja frá meiri hluta stjórnarmanna eða stjórnenda

  3. á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að hafa ráðandi áhrif á starfsemi þess á grundvelli samþykkta fyrirtækisins eða samnings við það,

  4. á eignarhluti í öðru fyrirtæki og ræður, á grundvelli samnings við aðra hluthafa eða eignaraðila, meiri hluta atkvæða í fyrirtækinu eða

  5. á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur ráðandi stöðu í því.

(2) Fyrirtæki, sem hafa þau tengsl við fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði sem lýst er í 1. mgr., teljast vera dótturfyrirtæki. Fyrirtæki sem er dótturfyrirtæki dótturfyrirtækis, telst einnig vera dótturfyrirtæki móðurfélags.

(3) Móðurfyrirtæki og dótturfyrirtæki þess mynda samstæðu.

(4) [Með eignarhaldsfélagi á fjármálasviði er átt við fyrirtæki tengt fjármálasviði sem ekki er blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, þar sem dótturfyrirtækin eru annaðhvort eingöngu eða aðallega fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki tengd fjármálasviði og að minnsta kosti eitt dótturfyrirtæki er fjármálafyrirtæki.

(5) Með blönduðu eignarhaldsfélagi er átt við móðurfyrirtæki sem ekki er eignarhaldsfélag á fjármálasviði, fjármálafyrirtæki eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, þar sem að minnsta kosti eitt dótturfyrirtæki er í fjármálastarfsemi.]1)

(6) [Með blönduðu eignarhaldsfélagi í fjármálastarfsemi er átt við móðurfélag sem ekki er eftirlitsskylt en það ásamt dótturfélögum sínum, en a.m.k. eitt þeirra er eftirlitsskylt og er með höfuðstöðvar í aðildarríki, og öðrum aðilum myndar fjármálastarfsemi.]1)

(7) Við mat á atkvæðisrétti og réttindum til að tilnefna eða víkja frá stjórnarmönnum eða stjórnendum skal leggja saman réttindi sem bæði móður- og dótturfyrirtæki ráða yfir.

(8) Við mat á atkvæðisrétti í dótturfyrirtæki skal ekki talinn með atkvæðisréttur sem fylgir eigin hlutum dótturfyrirtækisins eða dótturfyrirtækja þess.

(9) Ákvæði 87.–92. gr. og 95.–96. gr. gilda eftir því sem við á bæði fyrir samstæðu, þar sem móðurfyrirtæki er fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði, og fyrir einstök fyrirtæki samstæðunnar.

(10) Fjármálaeftirlitið setur að höfðu samráði við reikningsskilaráð nánari reglura) um gerð samstæðureikningsskila fyrir samstæðu fyrirtækja þar sem móðurfyrirtækið er fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði.

(11) Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um samstæðuuppgjör fyrir samstæðu fyrirtækja þar sem móðurfyrirtækið er blandað eignarhaldsfélag.

1)Sbr. 8. gr. laga nr. 130/2004. a)Sbr. reglur nr. 834/2003.

[Ákvæði til bráðabirgða

     Þrátt fyrir 48. gr. laga þessara*1), sbr. 90. gr. laganna, er endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki sem veitt hefur fjármálafyrirtæki þjónustu sína í þrjú ár eða skemur fyrir gildistöku laga þessara heimilt að veita því félagi þjónustu í fimm ár frá gildistöku. Hafi þjónusta verið veitt lengur en þrjú ár fyrir gildistöku laga þessara er endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki heimilt að veita fjármálafyrirtæki þjónustu í þrjú ár eftir gildistöku laga þessara.]1)

1)Sbr. 48. gr. laga nr. 75/2010. *1)Þ.e. breytingalaga nr. 75/2010.

Fara efst á síðuna ⇑