Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.9.2024 00:05:17

Lög nr. 138/1994 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=138.1994.0)
Ξ Valmynd

Úr lögum
nr. 138/1994, um einkahlutafélög.*1)

*1)Sbr. lög nr. 31/1997, 67/2002 og 52/2003.

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
3.-5. mgr. 1. gr.

(3) [Einkahlutafélög mega ákveða hlutafé sitt í erlendum gjaldmiðli enda hafi þau fengið heimild ársreikningaskrár til færslu bókhalds og samningar ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Félögin skulu halda nýja gjaldmiðlinum óbreyttum í a.m.k. fimm ár nema ráðherra veiti undanþágu frá þeim tímamörkum.

(4) Auk íslensku krónunnar má ákveða hlutafé í eftirtöldum erlendum gjaldmiðlum: evru, bresku pundi, dönskum, norskum og sænskum krónum, Bandaríkjadal, japönskum jenum og svissneskum frönkum. Í ákvörðun hluthafafundar skal greina frá nafnverði í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðli. Við umreikning í annan gjaldmiðil skal nafnverð hlutafjár vera í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga varðandi umreikninginn.

(5) Ráðherra getur sett reglur um að miða megi við aðra gjaldmiðla, svo og kveðið nánar á um skilyrði fyrir því að hlutafé sé ákveðið í öðrum gjaldmiðli en íslensku krónunni og hvenær sú breyting megi fara fram.]1)

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 67/2002.

- - - - - - -
 

XII. KAFLI
Arðsútlutun, varasjóðir o.fl.
73. gr.

     Óheimilt er að úthluta af fjármunum félagsins til hluthafa nema það fari fram eftir reglum um úthlutun arðs, sem endurgreiðsla vegna lækkunar hlutafjár eða varasjóðs eða vegna félagsslita.
 

74. gr.

(1) Einungis er heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og frjálsum sjóðum eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað og það fé sem samkvæmt lögum eða félagssamþykktum skal lagt í varasjóð eða til annarra þarfa. [---]1)

(2) Í móðurfélagi er óheimilt að úthluta það miklum arði að andstætt sé góðum rekstrarvenjum með tilliti til fjárhagsstöðu samstæðunnar enda þótt arðsúthlutun sé annars heimil.

1)Sbr. 3. gr. laga nr. 31/1997.

75. gr.

(1) Minnst tíu hundraðshluta þess hagnaðar, sem ekki fer til þess að jafna hugsanlegt tap fyrri ára og ekki er lagt í aðra lögbundna sjóði, skal leggja í varasjóð uns hann nemur tíu hundraðshlutum hlutafjárins. Þegar því marki hefur verið náð skulu framlög vera minnst fimm hundraðshlutar þar til sjóðurinn nemur 1/4 hlutafjárins. Í félagssamþykktum er unnt að mæla fyrir um skyldu til hærri framlaga.

(2) Ef félagi hefur verið greitt meira en nafnverð fyrir hluti þegar það var stofnað eða hlutafé þess hækkað skal fé það sem greitt var umfram nafnverð [fært á yfirverðsreikning innborgaðs hlutafjár samkvæmt lögum um ársreikninga]1), að frádregnum kostnaði af stofnun félagsins eða hækkun hlutafjárins. Einnig skal lagt í varasjóð það fé sem félagið hefur fengið vegna sölu jöfnunarhluta sem er ekki vitjað.

(3) Heimilt er að nota varasjóð til að jafna tap sem ekki er unnt að jafna með færslu úr öðrum sjóðum. Nú nemur varasjóður meiru en 1/4 hlutafjárins og er þá heimilt að nota upphæð þá sem umfram er til þess að hækka hlutaféð eða, sé fyrirmæla 36. gr. gætt, til annarra þarfa.

1)Sbr. 5. gr. laga nr. 52/2003.
 

Fara efst á síðuna ⇑