Úr lögum
nr. 22/1991, um samvinnufélög.*1)
*1)Sbr. lög nr. 22/2001.
41. gr.
(1) Aðalfundur tekur ákvörðun um ráðstöfun arðs til stofnsjóðs félagsins. Þar sem um er að ræða B-deild stofnsjóðs skal skipta arði milli deilda stofnsjóðs samkvæmt ákvæðum samþykkta og ákvörðun aðalfundar. Einungis er heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og frjálsum sjóðum eftir að dregið hefur verið frá tap, sem ekki hefur verið jafnað, og það fé sem samkvæmt lögum eða félagssamþykktum skal lagt í varasjóð eða til annarra þarfa. Aðalfundur getur ekki ákveðið hærri greiðslur í stofnsjóð en stjórn félagsins hefur lagt til eða samþykkir, sbr. þó 2. mgr.
(2) Eigendur B-deildar stofnsjóðs, sem samtals eiga minnst tíunda hluta sjóðsins, eiga á aðalfundi kröfu til þess að fundurinn taki ákvörðun um að úthluta sem arði til eigenda B-deildar stofnsjóðs fjárhæð er nemur allt að helmingi þess sem eftir stendur af árshagnaði félagsins þegar tap fyrri ára hefur verið jafnað og það dregið frá sem samkvæmt lögum eða félagssamþykktum skal lagt í varasjóð eða til annarra þarfa. Eigendur hluta í B-deild stofnsjóðs geta þó eigi krafist hærri greiðslu með þessu móti en sem nemur 10% af nafnverði hluta í B-deild, nema þeim sé veittur frekari forgangsréttur í samþykktum félagsins. Eigendur hluta í B-deild stofnsjóðs geta einnig með sama hætti krafist útgáfu jöfnunarhluta ef skilyrði til þess eru fyrir hendi samkvæmt ákvæðum 51. gr.
(3) [Aðalfundur getur ákveðið að greiða félagsmönnum út arð með peningum eða öðrum verðmætum í stað þess að leggja hann í stofnsjóð. Gjalddagi arðs skal ekki vera síðar en sex mánuðum eftir að ákvörðun um úthlutun hans hefur verið tekin.]1)
1)Sbr. 4. gr. laga nr. 22/2001.
- - - - - - -
VIII. KAFLI
Ráðstöfun tekjuafgangs.
53. gr.
(1) Óheimilt er að úthluta af fjármunum félagsins til félagsmanna eða annarra á annan hátt en segir í lögum þessum.
(2) Samvinnufélag skal ráðstafa hagnaði samkvæmt ársreikningi liðins árs eins og hann er skilgreindur í ákvæðum 41. gr. Í samþykktum félagsins má heimila úthlutun tekjuafgangs til félagsmanna í hlutfalli við viðskipti þeirra, að svo miklu leyti sem söluverð til félagsmanna hefur verið ofan við kostnaðarverð eða útborgað verð fyrir framleiðsluvörur eða þjónustu félagsmanna hefur reynst neðan við endanlegt fullnaðarverð. Þó skal ávallt tekið tillit til sanngjarnra greiðslna í stofnsjóð félagsins.
(3) Með sömu skilyrðum og að framan greinir er framleiðslusamvinnufélagi heimilt að ráðstafa tekjuafgangi til félagsmanna í samræmi við vinnuframlag hvers og eins. Setja skal nánari ákvæði um slíka ráðstöfun í samþykktir félagsins.
54. gr.
(1) Minnst tíu hundraðshluta þess hagnaðar, sem ekki fer til þess að jafna hugsanlegt tap fyrri ára og ekki er lagður í aðra lögbundna sjóði samvinnufélags, skal leggja í varasjóð félagsins uns varasjóður nemur tíu hundraðshlutum af fjárhæð stofnsjóðs eða samanlagðri fjárhæð A- og B-deilda stofnsjóðs þar sem um slíka skiptingu er að ræða. Þegar því marki hefur verið náð skulu framlög vera minnst fimm hundraðshlutar þar til sjóðurinn nemur einum fjórða hluta af fjárhæð stofnsjóðs. Í samþykktum félags er heimilt að mæla fyrir um skyldu til hærri framlaga í varasjóð.
(2) Heimilt er að nota varasjóð til að jafna tap sem ekki er unnt að jafna með öðrum hætti.
(3) Heimilt er að leggja af hagnaði félagsins samkvæmt ákvæðum samþykkta þess eða ákvörðun félagsfunda til sjóða innan þess eða stofnana utan þess, sem ætlað er að styrkja málefni sem teljast til almenningsheilla, mannúðarmála eða ætlað er að starfa í hliðstæðum tilgangi, að svo miklu leyti sem slíkt telst hæfilegt með hliðsjón af tilganginum með stofnun slíkra sjóða, fjárhagsstöðu félagsins, svo og atvikum að öðru leyti.
(4) Félagsstjórn er heimilt að verja smávægilegum fjárhæðum miðað við fjárhagsstöðu félagsins í sama skyni og um getur í 3. mgr.