Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 23:35:07

Lög nr. 88/1997, kafli 1 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=88.1997.1)
Ξ Valmynd

I. KAFLI
Ríkisreikningur.
Almennt um bókhald og reikningsskil ríkisins.
1. gr.

     Bókhaldi ríkisaðila skal hagað á skýran og aðgengilegan hátt og skulu reikningsskil gefa glögga mynd af rekstri þeirra og efnahag. Að svo miklu leyti sem ekki er sérstaklega mælt fyrir á annan veg í lögum þessum gilda ákvæði laga nr. 145/1994, um bókhald, og laga nr. 144/1994*1), um ársreikninga, svo og góðar bókhalds- og reikningsskilavenjur.
*1)Nú lög nr. 3/2006.

Ríkisaðilar.
2. gr.

     Ríkisaðilar eru þeir sem fara með ríkisvald og þær stofnanir og fyrirtæki sem eru að hálfu eða meiri hluta í eigu ríkisins.

Flokkun í ríkisreikningi.
3. gr.

     Ríkisreikningur skiptist í eftirfarandi hluta:

  1. A-hluti. Til hans teljast æðsta stjórn ríkisins, þ.e. embætti forseta Íslands, Alþingi, ríkisstjórn og Hæstiréttur, sem og ráðuneyti og ríkisstofnanir, þar með taldir sjóðir í eigu ríkisins sem sinna starfsemi er að stærstum hluta er fjármögnuð af almennum skatttekjum. Sama á við um verðmiðlunar- og verðjöfnunarsjóði, öryggis- og eftirlitsstofnanir og þjónustustofnanir við ríkisaðila sem starfa samkvæmt sérstökum lögum þótt kostnaður við starfsemi þeirra sé ekki greiddur af almennu skattfé. Í A-hluta skal jafnframt gerð grein fyrir fjárreiðum þeirra sem ekki eru ríkisaðilar ef ríkissjóður kostar að öllu eða að verulegu leyti starfsemi þeirra með framlögum eða ber rekstrarlega ábyrgð á starfseminni samkvæmt lögum eða samningi.
  2. B-hluti. Til hans teljast ríkisfyrirtæki er starfa á markaði og standa að öllu eða verulegu leyti undir kostnaði við starfsemi sína með tekjum af sölu á vöru eða þjónustu til almennings og fyrirtækja, hvort sem er í samkeppni eða í skjóli einkaréttar, enda séu þau hvorki sameignar- né hlutafélög.
  3. C-hluti. Til hans teljast lánastofnanir í eigu ríkisins aðrar en innlánsstofnanir, enda séu þær hvorki sameignar- né hlutafélög.
  4. D-hluti. Til hans teljast fjármálastofnanir ríkisins, þar með taldir bankar og vátryggingafyrirtæki í eigu ríkisins, enda séu þær hvorki sameignar- né hlutafélög.
  5. E-hluti. Til hans teljast sameignar- og hlutafélög sem ríkið á að hálfu eða meira.

Reikningsár ríkisins.
4. gr.

     Reikningsár ríkisaðila skal vera almanaksárið.

Áritun ríkisreiknings.
5. gr.

     Með ríkisreikningi skal fylgja áritun fjármálaráðherra og [fjársýslustjóra]1) þar sem m.a. komi fram að reikningurinn nái til allra ríkisaðila og að hann sé gerður í samræmi við lög og þær venjur sem gilda um reikningsskil ríkisins.
1)Sbr. 1. gr. laga nr. 95/2002.

Endurskoðun.
6. gr.

     Ríkisendurskoðandi er endurskoðandi ríkisreiknings og ársreikninga ríkisaðila, sbr. lög um Ríkisendurskoðun.

Framlagning ríkisreiknings.
7. gr.

     Fjármálaráðherra skal leggja endurskoðaðan ríkisreikning næstliðins reikningsárs fyrir Alþingi eigi síðar en tveimur vikum eftir að þing kemur saman að hausti.

A-hluti ríkisreiknings.
8. gr.

     A-hluti ríkisreiknings skal gerður í samræmi við viðurkenndar reikningsskilavenjur, sbr. þó 1. gr., og skal m.a. geyma eftirfarandi upplýsingar:

  1. Reikningsyfirlit er sýni:
    1. Rekstrarreikning.
    2. Efnahagsreikning.
    3. Sjóðstreymi.

     Í yfirlitum skv. 1.–3. tölul. skal sýna samanburð við fjárheimildir ársins og reikningstölur fyrra árs.

  1. Skýringar þar sem m.a. komi fram:
    1. Lýsing á reikningsskilaaðferðum.
    2. Yfirlit yfir lán og ábyrgðir þar sem m.a. komi fram:
      1. Tekin löng lán.
      2. Veitt löng lán.
      3. Samningar sem fela í sér fjárskuldbindingar, m.a. vegna rekstrar og framkvæmda. Greina skal á milli samningsbundinna og lögbundinna skuldbindinga.
      4. Ábyrgðarskuldbindingar.
    3. Önnur yfirlit þar sem m.a. komi fram:
      1. Áhættufé í fyrirtækjum og sjóðum.
      2. Gjaldfærð fjárfesting.
      3. Útgjöld umfram heimildir.
      4. Breytingar á höfuðstólsreikningi.

Ríkistekjur.
9. gr.

     Til ríkistekna í A-hluta teljast:

  1. Skattar og gjöld sem ríkið leggur á og innheimtir á grundvelli laga án þess að á móti komi beint framlag eða þjónusta í réttu hlutfalli við greiðslur.
  2. Aðrar rekstrartekjur, þ.e. lögbundnar tekjur fyrir veitta þjónustu eða starfsemi á vegum ríkisins, auk tekna af eignum, viðurlögum og sektum.
  3. Tekjur af sölu eigna, sbr. þó 35. gr.
  4. Fjármagnstilfærslur, þ.e. tekjur frá öðrum en opinberum aðilum sem eingöngu eru ætlaðar til að fjármagna fjárfestingar.
  5. Fjárframlög, þ.e. óafturkræf framlög frá öðrum.

Skattafslættir.
10. gr.

(1) Skattafslættir, sem ekki eru útborganlegir, skulu dregnir frá tekjum skv. 1. tölul. 9. gr. Þeir skulu þó sýndir sérstaklega í tekjuyfirliti ríkisreiknings.

(2) Útborganlega skattafslætti og bætur skal færa til gjalda.

Innheimta fyrir aðra.
11. gr.

(1) Af sameiginlegum tekjustofni opinberra aðila sem ríkissjóður innheimtir og skiptist í föstum hlutföllum skal aðeins telja þann hluta meðal ríkistekna sem ríkissjóður hefur til eigin ráðstöfunar.

(2) Sé hins vegar sveitarfélögum ætluð föst fjárhæð af hinum sameiginlega tekjustofni skal færa tekjurnar að fullu hjá ríkissjóði og sýna ráðstöfun þeirra á gjaldahlið rekstrarreiknings.

(3) Sérgreindir tekjustofnar sveitarfélaga, sem ríkissjóður annast innheimtu á, teljast ekki með tekjum ríkissjóðs.

(4) Lögbundnir tekjustofnar sem ríkissjóður innheimtir, annarra en sveitarfélaga, skulu teljast meðal ríkistekna og ráðstöfun þeirra koma fram á gjaldahlið A-hluta ríkisreiknings.

Sértekjur.
12. gr.

     Tekjur ríkisstofnana af sölu vöru og þjónustu sem seld er á markaðsforsendum skulu færast til lækkunar á gjöldum en jafnframt sýndar sérstaklega í reikningum þeirra.

Flokkun útgjalda.
13. gr.

     Gjöldum skal skipt á æðstu stjórn ríkisins og ráðuneyti, en þó skal sýna fjármagnsgjöld sérstaklega. Í séryfirlitum skal sýna:

  1. Skiptingu gjalda eftir málaflokkum.
  2. Hagræna skiptingu útgjalda.
  3. Skiptingu gjalda eftir stofnunum og viðfangsefnum.
  4. Ráðstöfun fjár sem veitt er óskipt í fjárlögum til einstakra ráðuneyta eða ríkisstjórnar með sundurliðunum á viðfangsefni og málaflokka eftir því sem við á.

Varanlegir rekstrarfjármunir.
14. gr.

     Varanlega rekstrarfjármuni ríkisaðila í A-hluta skal færa til gjalda á því reikningsári þegar stofnað er til skuldbindandi samninga um kaup á þeim. Verksamninga skal gjaldfæra í sam¬ræmi við framvindu verksins ljúki því ekki á reikningsári.

Eignir utan efnahags.
15. gr.

     Árlega skal halda sérstaka eignaskrá um varanlega rekstrarfjármuni ríkisins. Hún skal sundurliðuð eftir eignaflokkum og skulu niðurstöður hennar birtar með ríkisreikningi.

B- og C-hluti ríkisreiknings.
16. gr.

(1) B- og C-hluti ríkisreiknings skulu a.m.k. hafa að geyma samandregna útgáfu af ársreikningum ríkisfyrirtækja og lánastofnana sem flokkast undir 2. og 3. tölul. 3. gr.

(2) Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um stytta útgáfu ársreikninga skv. 1. mgr.

D- og E-hluti ríkisreiknings.
17. gr.

     Í D- og E-hluta ríkisreiknings skulu sýndar lykiltölur eða samandregin útgáfa ársreikninga fjármálastofnana og félaga, sbr. 4. og 5. tölul. 3. gr.

Fara efst á síðuna ⇑