Skattalagasafn ríkisskattstjóra 5.12.2024 04:00:30

Lög nr. 3/2006, kafli 12 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=3.2006.12)
Ξ Valmynd

XII. KAFLI
Viðurlög og málsmeðferð.

120. gr.
[Stjórnvaldssektir vegna skila á ársreikningi.

(1) Ársreikningaskrá skal leggja stjórnvaldssektir á þau félög sem vanrækja skyldu samkvæmt lögum þessum til að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar innan þeirra fresta sem kveðið er á um í 109. gr. Þegar frestur skv. 109. gr. til skila á ársreikningi eða samstæðureikningi er liðinn skal ársreikningaskrá leggja á viðkomandi félag stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 kr. og jafnframt krefjast úrbóta.
    
(2) Skili félag ársreikningi eða samstæðureikningi innan 30 daga frá tilkynningu um álagningu stjórnvaldssektar skal ársreikningaskrá lækka sektarfjárhæðina um 90%. Ef úrbætur eru gerðar innan tveggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar skal lækka sektarfjárhæðina um 60%. Ef úrbætur eru gerðar innan þriggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar skal lækka sektarfjárhæðina um 40%.

(3) Uppfylli ársreikningur eða samstæðureikningur ekki ákvæði laga þessara að mati ársreikningaskrár skal hún tilkynna félagi um þá afstöðu, gefa því kost á úrbótum og möguleika á að koma að andmælum. Ef ekki berast fullnægjandi skýringar eða úrbætur innan 30 daga skal lögð á félagið stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 kr.

(4) Leggi félag fram fullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi eða samstæðureikningi innan 30 daga frá tilkynningu um álagningu stjórnvaldssektar skal ársreikningaskrá lækka sektarfjárhæðina um 90%. Ef úrbætur eru gerðar innan tveggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar skal lækka sektarfjárhæðina um 60%. Ef úrbætur eru gerðar innan þriggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar skal lækka sektarfjárhæðina um 40%.

(5) Stjórnvaldssektirnar eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Ákvörðun ársreikningaskrár um álagningu sektar skv. 3. mgr. er kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992.

(6) Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.]1)
1) Sbr. a. liður 71. gr. laga nr. 73/2016.

121. gr.

(1) [Ef ársreikningi eða samstæðureikningi hefur ekki verið skilað innan [sex]2) mánaða frá því að frestur skv. 109. gr. til skila á ársreikningi eða samstæðureikningi er liðinn eða frá því að ársreikningaskrá hefur komist að þeirri niðurstöðu að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar hafi ekki verið fullnægjandi skal ársreikningaskrá krefjast skipta á búi félagsins. Ef ákvörðun ársreikningaskrár, um að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi hafi ekki verið fullnægjandi, er kærð til yfirskattanefndar skal miða upphaf frestsins við það tímamark þegar niðurstaða yfirskattanefndar liggur fyrir. Ráðherra setur nánari fyrirmæli um meðferð slíkra mála hjá ársreikningaskrá í reglugerð.

(2) Þegar héraðsdómara hefur borist krafa um skipti skv. 1. mgr. skal hann fara með hana eftir fyrirmælum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um meðferð kröfu lánardrottins um að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta. [Ef stjórn félags eða framkvæmdastjóri þess sækir þing getur héraðsdómari orðið við beiðni félagsins um að fresta meðferð kröfunnar í allt að tvo mánuði.]2)

(3) Héraðsdómari skal kveða upp úrskurð um hvort orðið verði við kröfu um að bú félags verði tekið til skipta. Sé krafan tekin til greina skal farið með búið eftir fyrirmælum laga um skipti á dánarbúum o.fl. um meðferð dánarbús þar sem erfingjar taka ekki á sig ábyrgð á skuldbindingum þess látna að öðru leyti en því að hluthafar njóta ekki þeirrar stöðu sem erfingjar njóta við slík skipti fyrr en leitt er í ljós eftir lok kröfulýsingarfrests að eignir búsins muni hrökkva fyrir skuldum.1)
 

(4) Berist beiðni þar að lútandi er ársreikningaskrá heimilt að fella niður allar álagðar stjórn­valdssektir skv. 1.–6. mgr. 120. gr. í kjölfar móttöku:

  1. hlutafélagaskrár á skriflegri yfirlýsingu hluthafa í einkahlutafélagi um að allar gjald­fallnar og ógjaldfallnar skuldir félags hafi verið greiddar og að félaginu verði slitið skv. 83. gr. a laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994,
  2. tilkynningar skilanefndar til hlutafélagaskrár um slit einkahlutafélags skv. 2. mgr. 91. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994,
  3. yfirlýsingar um afmáningu útibús erlends einkahlutafélags úr hlutafélagaskrá í sam­ræmi við XVI. kafla laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994,
  4. tilkynningar skilanefndar til hlutafélagaskrár um slit hlutafélags eða samlags­hlutafélags skv. 2. mgr. 116. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995,
  5. yfirlýsingar um afmáningu útibús erlends hlutafélags úr hlutafélagaskrá í sam­ræmi við XVI. kafla laga um hlutafélög, nr. 2/1995,
  6. firmaskrár á tilkynningu um slit sameignarfélags skv. 6. mgr. 42. gr. laga um sameignarfélög, nr. 50/2007,
  7. sjálfseignarstofnanaskrár á yfirlýsingu um slit sjálfseignarstofnunar í atvinnurekstri, sbr. 36. gr. laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, nr. 33/1999,
  8. samvinnufélagaskrár á yfirlýsingu um slit samvinnufélags í samræmi við 2. mgr. 67. gr. laga um samvinnufélög, nr. 22/1991, eða
  9. fyrirtækjaskrár á yfirlýsingu félagsmanna um slit samlagsfélags.

(5) Heimild ársreikningaskrár til að fella niður álagðar stjórnvaldssektir er háð því skilyrði að ársreikningi félags hafi verið skilað til ársreikningaskrár í samræmi við ákvæði laga þessara.
1) Sbr. b. liður 71. gr. laga nr. 73/2016. 2)Sbr. 3. gr. laga nr. 68/2020.

122. gr.
[Sektir eða fangelsi.

Það varðar viðurlögum skv. 124. gr. að brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra:

  1. 11. tölul. 2. gr. ef félag er ranglega flokkað sem lítið félag eða örfélag í því skyni að komast hjá að birta þær upplýsingar sem meðalstórum og stórum félögum ber að birta.
  2. 3. gr. um skyldu til að semja ársreikning í samræmi við lög þessi, reglugerðir og settar reikningsskilareglur eftir því sem við á.
  3. 5. gr. ef ársreikningur, samstæðureikningur eða sjóðstreymi gefur ekki glögga mynd af afkomu, efnahag og breytingu á handbæru fé.
  4. 11. gr. um grunnforsendur ársreiknings.
  5. 14. gr. um efnahagsreikning.
  6. 16. gr. um eignfærslu þróunarkostnaðar og óefnislegra réttinda.
  7. 17. gr. um færslu kostnaðar við stofnun félags eða hækkun hlutafjár.
  8. 18. gr. um afföll og lántökukostnað af seldum eða keyptum verðbréfum.
  9. 20. gr. um tekjur og gjöld reikningsárs.
  10. 22. gr. um tekjur og gjöld sem tengjast ekki reglulegri starfsemi.
  11. 23. gr. um varanlega rekstrarfjármuni sem nýtast takmarkaðan tíma.
  12. 26. gr. um gjöld sem stofnað er til á reikningsárinu en varða síðari reikningsár.
  13. 28. gr. um sjóðstreymi.
  14. 29.–42. gr. um matsreglur.
  15. 43. gr. um skýringar í ársreikningi.
  16. 65. og 66. gr. um upplýsingagjöf í skýrslu stjórnar með ársreikningi.
  17. 66. gr. a um skyldu stjórnar félaga sem fengið hafa skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði til upplýsingagjafar.
  18. 66. gr. b um undirritun yfirlýsingar stjórnarmanna í félagi sem gefið hefur út verðbréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins.
  19. 66. gr. c um birtingu yfirlýsingar um stjórnarhætti.
  20. 66. gr. d um birtingu ófjárhagslegra upplýsinga.
  21. 67. gr. um skyldu til að semja samstæðureikning.
  22. 73. gr. um skyldu til að semja samstæðureikning samkvæmt ákvæðum VII. kafla.
  23. 74. gr. um eignarhluti í dótturfélögum.
  24. 75. gr. um aðferðir við mat á eignum og skuldum samstæðu.
  25. 77. gr. um samstæðureikning.
  26. 79. gr. um kaupaðferð við stofnun samstæðu.
  27. 82.–84. gr. um skýringar með samstæðureikningi.
  28. 85. gr. um skýrslu stjórnar um samstæðu.
  29. 86. gr. um reikningsskil við samruna og skiptingu.
  30. 87. gr. a um skyldu félags sem gefið hefur út hlutabréf eða skuldabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins til að semja árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins.
  31. 87. gr. b um árshlutaskýrslu stjórnar félaga skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins.
  32. 87. gr. e um skyldu félags sem gefið hefur út hlutabréf eða skuldabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins til að birta árshlutareikning.
  33. 90. gr. um skyldu félags skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureiknings síns.
  34. 91. gr. um skyldu félags, sem ekki uppfyllir lengur skráningu á skipulögðum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.
  35. 96. gr. um val á endurskoðanda, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmönnum ársreikninga.
  36. 2. mgr. 97. gr. um hæfi skoðunarmanna.
  37. 99. gr. um skyldu móðurfélags, sem skylt er að semja samstæðureikning skv. VII. kafla, til að kjósa einn eða fleiri endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki sem jafnframt skulu endurskoða dótturfélag þess ef þess er nokkur kostur.
  38. 102. gr. um endurskoðun og yfirferð ársreiknings.
  39. 103. gr. um upplýsingaskyldu stjórnar félags og framkvæmdastjóra við endurskoðendur og skoðunarmenn.
  40. 1. og 2. mgr. 104. gr. um áritun endurskoðenda á ársreikning og samstæðureikning.
  41. 3. mgr. 104. gr. um undirritun skoðunarmanna á ársreikning og samstæðureikning.
  42. 105. gr. um ábendingar og athugasemdir endurskoðanda eða skoðunarmanns.
  43. 108. gr. um bann við því að endurskoðendur eða skoðunarmenn og samstarfsmenn þeirra veiti einstökum félagsaðilum eða óviðkomandi aðilum upplýsingar um hag félagsins.
  44. 108. gr. a um skipun endurskoðunarnefndar við einingu tengda almannahagsmunum.
  45. 108. gr. d um skyldu endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis til að gera endurskoðunarnefnd árlega grein fyrir störfum sínum og óhæði og skila skriflegri skýrslu um mikilvæg atriði sem fram hafa komið við endurskoðunina.]1)

1) Sbr. c. liður 71.. gr. laga nr. 73/2016.

123. gr.

[Endurskoðendur eða skoðunarmenn gerast sekir um refsiverð brot gegn lögum þessum með athöfnum eða athafnaleysi því sem hér greinir:

  1. Ef þeir taka að sér að framkvæma endurskoðun eða yfirferð ársreiknings án þess að uppfylla hæfisskilyrði laganna.
  2. Ef þeir haga störfum sínum andstætt ákvæðum laga þessara eða í ósamræmi við góða endurskoðunarvenju.
  3. Ef þeir með áritun eða undirritun sinni gefa rangar eða villandi upplýsingar eða láta hjá líða að geta um mikilsverð atriði er snerta rekstrarafkomu eða efnahag félags.]1

1) Sbr. d. liður 71.. gr. laga nr. 73/2016.


124. gr.

(1) [Hver sá sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi brýtur gegn ákvæðum laga þessara á þann hátt sem lýst er í 122. og 123. gr. skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum, enda liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum. Alvarleg brot gegn 122. og 123. gr. varða refsingu skv. 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga eða fésektum ef málsbætur eru miklar.

(2) Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.

(3) Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

(4) Gera má lögaðila fésekt fyrir brot gegn lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður hans eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má auk þeirrar refsingar, sem hann sætir, gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.]1)
1) Sbr. e. liður 71.. gr. laga nr. 73/2016.

125. gr.

(1) [Héraðssaksóknari fer með rannsókn alvarlegra brota á lögum þessum. Teljist brot ekki svo alvarleg að varði við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga fer [skattrannsóknarstjóri]2) með rannsóknir vegna brota á lögunum. Skattrannsóknarstjóri getur á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli til rannsóknar lögreglu af sjálfsdáðum, [eða ef hann telur að málið falli undir fyrirmæli ríkissaksóknara um rannsókn og saksókn vegna skattalagabrota]2).

(2) [Skattrannsóknarstjóri úrskurðar um]2) sektir vegna brota á lögum þessum, annarra en brota gegn 120. gr., nema brot sæti rannsókn og dómsmeðferð héraðssaksóknara skv. 1. mgr. [Skattrannsóknarstjóri]2) getur á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli til héraðssaksóknara af sjálfsdáðum, [eða ef hann telur að málið falli undir fyrirmæli ríkissaksóknara um rannsókn og saksókn vegna skattalagabrota]2.

(3) Sakir samkvæmt lögum þessum fyrnast á sex árum miðað við upphaf rannsóknar á vegum héraðssaksóknara eða [skattrannsóknarstjóra]2), gegn manni sem sökunaut, enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar.]1)
1) Sbr. f. liður 71.. gr. laga nr. 73/2016. 2)Sbr. 33. gr. laga nr. 29/2021.

126. gr.

[…]1)
Sbr. 71. gr. laga nr. 73/2016.

Fara efst á síðuna ⇑