Skattalagasafn ríkisskattstjóra 13.6.2024 07:39:00

Reglugerð nr. 50/1993 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=50.1993)
Ξ Valmynd

Reglugerð
nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.*1)

*1)Sbr. reglugerðir nr. 539/1993, 136/1997, 599/1999, 16/2001, 176/2008, 1071/2009, 615/2013 og 1144/2014.

I. KAFLI

Inngangsákvæði.
1. gr.

(1) Allir, sem skattskyldir eru samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skulu halda bókhald yfir kaup sín og sölu á virðisaukaskattsskyldum vörum og þjónustu eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð þessari. Gildir þetta einnig um þá sem ekki eru taldir bókhaldsskyldir samkvæmt lögum nr. [145/1994]1), um bókhald.

(2) Skattaðilar, sem skyldir eru til að halda tvíhliða bókhald, sbr. [2. og 3. gr. laga nr. 145/1994]1), skulu haga bókhaldi sínu eftir ákvæðum IV. kafla reglugerðar þessarar, sbr. III. kafla.

(3) Skattaðilar, sem ekki eru bókhaldsskyldir eða eru undanþegnir skyldu til að halda tvíhliða bókhald, skulu halda bókhald vegna virðisaukaskatts samkvæmt ákvæðum V. kafla reglugerðar þessarar, sbr. III. kafla.

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 136/1997.

2. gr.

Þeir, sem skyldir eru til að halda tvíhliða bókhald, sbr. [2. og 3. gr. laga nr. 145/1994]1), skulu fyrirfram skipuleggja tekjuskráningu og færslu bókhalds vegna virðisaukaskatts. Í bókhaldsgögnum skal liggja fyrir skrifleg lýsing á því hvernig tekjuskráningu er hagað, sbr. II. kafla, og hvaða aðferð er notuð við færslu á skattreikninga, sbr. 24.-26. gr.

1)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 136/1997.

II. KAFLI
Útgáfa sölureikninga, skráning í sjóðvélar o.fl.

Sölureikningar.
3. gr.

(1) Við sérhverja afhendingu á skattskyldri vöru eða þjónustu, þ.m.t. afhending til starfsmanna, skal seljandi gefa út sölureikning, sbr. þó 8.-11. gr. Reikning skal gefa út samtímis og afhending á sér stað, hvort sem um er að ræða staðgreiðslusölu eða sölu gegn greiðslufresti. Fari afhending ekki fram í einu lagi skal gefa út reikning fyrir sérhverri einstakri afhendingu, enda geti einstakir hlutar vöru almennt haft sjálfstætt notagildi eða greitt hafi verið inn á viðskiptin.

(2) Þegar seldum verðmætum er skilað til seljanda skal gefa út kreditreikning fyrir hinum mótteknu verðmætum með tilvísun til fyrri reiknings. Sama gildir um afslátt sem veittur er eftir að sölureikningur hefur verið gefinn út, svo og leiðréttingar á fyrri reikningum.

(3) Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er þjónustusölum, öðrum en þeim sem falla undir 8. gr., heimilt að gefa út sölureikning í lok hvers mánaðar vegna þeirrar þjónustu sem innt var af hendi frá upphafi til loka þess mánaðar. Sama gildir, með hliðsjón af viðskiptavenjum, við sölu á vöru til þeirra sem nota hið keypta í atvinnurekstri sínum, enda fái kaupandi með vörunni í stað reiknings afgreiðsluseðil með upplýsingum um tegund sölu og magn. Óheimilt er að tilgreina virðisaukaskatt á afgreiðsluseðli. Seljandi skal varðveita afrit afgreiðsluseðils með viðkomandi sölureikningi.

4. gr.

(1) [Reikningseyðublöð skulu vera fyrirfram tölusett (áprentuð númer) í samfelldri töluröð. [Þegar um er að ræða rafrænan reikning, þ.e. reikning sem á uppruna sinn í rafrænu reikningakerfi skv. reglugerð nr. 505/2013, um rafræna reikninga, rafrænt bókhald, skeytamiðlun, skeytaþjónustu, geymslu rafrænna gagna og lágmarkskröfur til rafrænna reikninga- og bókhaldskerfa, skal reikningurinn uppfylla ákvæði III. kafla þeirrar reglugerðar.]2)4)7) *1) Við útgáfu reiknings skal hann jafnframt bera nafn, kennitölu og skráningarnúmer seljanda.]1)

(2) Við útgáfu sölureiknings skal færa á hann upplýsingar um eftirtalin atriði:

 1. Útgáfudag.
 2. Nafn og kennitölu kaupanda. Smásöluverslunum og þjónustusölum, sem falla undir ákvæði 8. gr. og nota sölureikninga til tekjuskráningar, er heimilt að víkja frá þessari reglu við staðgreiðslusölu til endanlegs neytanda, þ.e. þess sem ekki notar hið keypta í atvinnurekstri sínum.
 3. Tegund sölu, þ.e. lýsingu á hinu selda. Við sölu til skattskylds aðila skal lýsingin vera nægilega glögg til að ljóst sé hvort viðskiptin varði skattskylda starfsemi hans.
 4. Magn, einingarverð og heildarverð eftir því sem við verður komið.
 5. Hvort virðisaukaskattur er innifalinn í heildarfjárhæð eða ekki. Enn fremur skal sérstaklega koma fram hver fjárhæð virðisaukaskatts er. Við sölu til endanlegs neytanda er þó nægilegt að fram komi að virðisaukaskattur sé [19,35%]6)8) af heildarverði eða [9,91%]5)8) þegar um er að ræða sölu skv. 2. mgr. 14 gr. laga nr. 50/1988, með síðari breytingum.

(3) Sölureikningar skulu vera a.m.k. í þríriti. Ætíð skal láta viðskiptamanni í té frumrit reiknings. Eitt eintak (samrit) skal varðveita í réttri töluröð. Þriðja eintakið skal liggja til grundvallar færslu á sölu í bókhaldi. Heimilt er að fella niður þriðja eintakið ef þess í stað er gert [söluuppgjörsyfirlit]3) yfir útgefna reikninga, þar sem fram kemur númer, dagsetning og fjárhæð hvers einstaks reiknings, og það lagt til grundvallar færslu á sölu í bókhaldi. [Þegar um er að ræða rafrænan reikning skal ákvæði um frumrit, samrit og eintak í réttri röð eða söluuppgjörsyfirlit teljast uppfyllt þegar farið er eftir ákvæðum III. kafla reglugerðar nr. 505/2013.]3)4)7)

1)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 136/1997. 2)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 599/1999. 3)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 599/1999. 4)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 16/2001. 5)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 176/2008. 6)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1071/2009. 7)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 615/2013. 8)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1144/2014.

5. gr.

     Við sölu, sem er að hluta til skattskyld og að hluta til undanþegin skatti sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, eða undanþegin skattskyldri veltu, sbr. 12. gr. laganna, skal halda viðskiptum sem eru skattskyld greinilega aðgreindum á reikningi frá öðrum viðskiptum. Jafnframt skal á reikningi aðgreina skattskylda sölu eftir skatthlutföllum, þannig að heildarverð vöru og þjónustu ásamt virðisaukaskatti komi sérstaklega fram vegna hvors skatthlutfalls.

[5. gr. A.
Gíróseðlar.

(1) Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. er þeim sem falla undir 3. mgr. 3. gr. heimilt að nota gíróseðla í stað sölureikninga. Gíróseðlarnir skulu vera fyrirfram tölusettir í samfelldri töluröð og uppfylla önnur skilyrði um form og efni sölureikninga, en þó er nægilegt að þeir séu í tvíriti. Seljandi skal varðveita afrit í réttri töluröð.

(2) Við útgáfu gíróseðla skal gera [söluuppgjörsyfirlit]2) yfir útgefna seðla og það [staðfest]2) af ábyrgum starfsmanni fyrirtækisins. Á [[söluuppgjörsyfirliti]3)]2) skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar um hvern einstakan gíróseðil:

 1. Útgáfudagur.
 2. Númer.
 3. Heildarfjárhæð ásamt fjárhæð virðisaukaskatts.
 4. Nafn og kennitala viðskiptamanns.

(3) [Söluuppgjörsyfirlit]2) skv. 2. mgr. skal liggja til grundvallar færslu á sölu í bókhaldi.

(4) Varðveita skal yfirlit frá banka yfir innborgaða gíróseðla eins og önnur fylgiskjöl. Innborgunaryfirlit frá banka skal vera grundvöllur færslna á viðskiptamannareikning. Jafnframt skal varðveita gögn frá prentsmiðju eða banka sem sýna hvaða númerahópur hefur verið prentaður af gíróseðlum hverju sinni.]1)

1)Sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 136/1997. 2)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 599/1999. 3)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 16/2001.

Afreikningar.
6. gr.

     Þeir sem taka framleiðslu annarra til vinnslu eða endursölu skulu gefa út afreikninga (innleggsnótur) sem geta komið í stað reikninga skv. 1. mgr. 3. gr. Á þetta m.a. við um kaup eða móttöku samlaga, samvinnufélaga og annarra á framleiðsluvörum bænda, sjávarafla og hvers konar iðnaðarvörum, fullunnum og hálfunnum. Ákvæði 4. og 5. gr. gilda um afreikninga eftir því sem við á. Auk skráningarnúmers kaupanda (útgefanda) skal skráningarnúmer seljanda koma fram á afreikningi við útgáfu hans.

Kvittun fyrir innborgun.
7. gr.

(1) Sé vara eða þjónusta greidd að fullu eða að hluta áður en afhending fer fram, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, skal móttakandi greiðslu gefa út kvittun til greiðanda. Þó er heimilt að gefa út sölureikning vegna slíkra innborgana.

(2) Ákvæði 4. og 5. gr., að undanskildum 4. tölul. 2. mgr. 4. gr., gilda um kvittanir eftir því sem við á. Tölusetning kvittana skal vera aðgreind frá tölusetningu sölureikninga.

(3) Þegar sölureikningur er gefinn út skal tilgreina á honum mótteknar skattskyldar innborganir vegna viðkomandi sölu. Koma skal fram fjárhæð, dagsetning og númer kvittunar eða sölureiknings skv. 1. mgr.

Tekjuskráning smásöluverslana o.fl.
8. gr.

(1) Smásöluverslanir og þjónustusalar sem nær eingöngu selja til endanlegra neytenda skulu annaðhvort gefa út sölureikning skv. 3.-5. gr. við sérhverja afhendingu sína eða skrá sérhverja afhendingu á vöru eða þjónustu í sjóðvél jafnskjótt og hún fer fram. Í fylgiskjali við reglugerð þessa eru taldar upp verslanir þær og þjónustusalar sem falla undir ákvæði þessarar greinar.

(2) Við skráningu í sjóðvél skal aðgreina skattskylda sölu eftir skatthlutföllum.

(3) Sérhver aðili skal nota sömu aðferð, sbr. 1. mgr., við skráningu allrar sölu sinnar. Ef aðstæður krefjast má þó víkja frá þessari reglu og skrá staðgreiðslusölu í sjóðvél en færa sölu gegn greiðslufresti, pöntunarsölu eða annan afmarkaðan þátt sölu á sölureikninga. Jafnan er skilyrði að skýrt sé afmarkað í lýsingu skv. 2. gr. hvernig tekjuskráningu er hagað.

(4) Lánssala skal skráð í viðskiptamannabók, sbr. [2. tölul. 4. mgr. 10. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994]1), hvort sem skattaðili skráir sölu sína í sjóðvél eða færir hana á sölureikninga.

(5) Smásöluverslunum og þjónustusölum, sem um ræðir í 1. mgr., er jafnframt skráningu í sjóðvél skylt að gefa út reikning vegna sölu til annars skattskylds aðila sem þess óskar. Reikningur sem gefinn er út ásamt skráningu í sjóðvél skal að formi og efni fullnægja kröfum 4. og 5. gr. Þó er ekki skylt að tölusetja reikningseyðublöð fyrirfram og nægilegt er að þau séu í tvíriti. Seljandi skal varðveita samrit í réttri útgáfuröð og hefta [greiðslukvittun sjóðvélar]2), sbr. 1. tölul. 1. mgr. 9. gr., við eintak kaupanda. [Þegar notuð er sjóðvél sem hefur rafræna dagbók í stað innri strimils, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 9. gr., er fullnægjandi að seljandi afhendi kaupanda greiðslukvittun sjóðvélar í stað reiknings enda skal greiðslukvittun sjóðvélar að formi og efni fullnægja kröfum 4. og 5. gr.]2) Víkja má frá reglunni í 2. tölul. 2. mgr. 4. gr. um að tilgreina nafn og kennitölu kaupanda ef reikningur er að fjárhæð [6.000 kr.]2) eða minna.

(6) [Smásöluverslunum og þjónustusölum, sem um ræðir í 1. mgr., er skylt að gefa út kvittun skv. 7. gr. við sölu á gjafakorti. Á kvittun skal auk þess sem segir í 7. gr. koma fram hver gjafþegi er og að innborgun sé vegna gjafakorts. Þegar úttekt á vöru eða þjónustu samkvæmt gjafakorti er valkvæð þannig að ekki er ljóst undir hvaða skatthlutfall væntanleg úttekt fellur skal miða skatthlutfall við [24%.]3)4) Við afhendingu á grundvelli gjafakorts skal gefa út sölureikning þó að seljandi skrái tekjur sínar í sjóðvél. Seljandi skal varðveita afrit eða samrit kvittana og reikninga ásamt mótteknum gjafakortum.]1)

1)Sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 136/1997. 2)Sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 599/1999. 3)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1071/2009. 4)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1144/2014.

9. gr.

(1) Sjóðvélar, sbr. 8. gr., skulu að lágmarki vera með eftirfarandi búnaði:

 1. [Ytri strimli, þ.e. [greiðslukvittun sjóðvélar]3). Strimillinn skal sýna sundurgreiningu viðskiptanna ásamt sérstöku auðkenni vegna sölu í hverju skatthlutfalli og dagsetningu viðskiptanna.]1)
 2. Innri strimli [eða rafrænni dagbók]3) sem á lesanlegan hátt sýni hverja innstimplun.
 3. Sérstökum dagsöluteljara sem sýni sölu hvers dags aðgreinda eftir skatthlutföllum ásamt dagsetningu og hve oft hann hefur verið endurstilltur.
 4. Sérstökum uppsöfnunarteljara sem sýni þá heildarfjárhæð sem skráð hefur verið í vélina (grand total) [og stöðu teljarans við hvert söluuppgjör]2).

(2) Sjóðvél skal koma þannig fyrir að viðskiptamaður geti óhindrað fylgst með skráningu í hana og gengið úr skugga um að viðskiptin séu rétt skráð. Viðskiptamaður skal fá í hendur [greiðslukvittun sjóðvélar]4) við hverja afgreiðslu.

(3) Óheimilt er að endurstilla uppsöfnunarteljara, sbr. 4. tölul. 1. mgr., nema skráningarrými hans hafi verið nýtt að fullu eða vegna viðgerðar og viðhalds á vélinni. Við endurstillingu skal skrá stöðu teljarans ásamt dagsetningu. Upplýsingar þessar skulu staðfestar af verslunarstjóra eða öðrum ábyrgðarmanni og geymast eins og önnur bókhaldsgögn.

(4) Séu sjóðvélar samtengdar eða tengdar tölvum sem liður í víðtækara skráningar- eða bókhaldskerfi skal liggja fyrir nákvæm lýsing á skipulagi kerfisins. Slíkt skráningarkerfi verður að veita þær upplýsingar um sölu hvers dags og heildarsölu er um ræðir í 1. mgr. þessarar greinar [og þannig útbúið að ekki sé hægt að breyta einstökum færslum er áður hafa farið fram].2)

(5) Notkun sjóðvéla, sem hægt er að nota sjálfstætt sem reiknivélar, án þess að skráning eigi sér stað um leið, er óheimil.

(6) [Öryggisafrit af rafrænni skráningu dagbókar, sbr. 2. tölul. 1. mgr., skal tekið í lok hvers starfsdags.]3)

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 539/1993. 2)Sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 136/1997. 3)Sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 599/1999. 4)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 16/2001.

[Sérstakt auðkenni vöru eða vörupakkningar.
9. gr. A.

     Smásöluverslunum skv. 8. gr. er skylt að auðkenna sérstaklega vörur sem um getur í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, með rauðri merkingu á viðkomandi vöru eða vörupakkningu eða sundurliða viðskiptin á reikningi eða fram komi á kassakvittun viðskiptamanns sambærileg sundurliðun og um ræðir í 5. gr., sbr. 3. og 4. tölul. 2. mgr. 4. gr.]1)

1)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 539/1993.

Annað söluskráningarkerfi.
10. gr.

(1) [Ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, sem valda aðila verulegum vandkvæðum eða óhagræði af að skrá sölu sína í sjóðvél eða á fyrirfram tölusetta sölureikninga, getur ríkisskattstjóri heimilað honum að nota annað söluskráningarkerfi en kveðið er á um í 3.-9. gr. eða að víkja frá einstökum ákvæðum þessara greina, enda sýni aðili fram á notkun á skýru og öruggu kerfi sem tryggir að unnt sé að sannreyna að allar tekjur komi fram. Meðal annars getur ríkisskattstjóri heimilað aðila að færa sölu sína eftir sérstökum söluyfirlitum greiðslukortafyrirtækja [---]2), eftir staðgreiðslusölulistum eða staðgreiðslusöluyfirlitum, sbr. nánar 2. og 3. mgr.]1)

(2) Staðgreiðslusölulistar skulu vera fyrir fram tölusettir í samfelldri töluröð. Á þá skal skrá sérhverja innborgun vegna staðgreiðslusölu jafnóðum og hún fer fram og samtölu innborgana hvers dags. Jafnframt skal færa sölu gegn greiðslukortum á listana. Listi yfir sölu hvers dags skal áritaður af verslunarstjóra eða öðrum ábyrgum starfsmanni og geymdur eins og önnur bókhaldsgögn.

(3) Staðgreiðslusöluyfirlit skal færa daglega í fyrir fram innbundna, tölusetta bók í því formi sem ríkisskattstjóri samþykkir.

1)Sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 136/1997. 2)Sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 599/1999.

Úttekt eiganda og sala til starfsmanna.
11. gr.

(1) Þrátt fyrir ákvæði 3.-9. gr. skal færa úttekt eigenda, framkvæmdarstjóra og annarra starfsmanna í stjórnunarstöðum á vöru og þjónustu sem skattaðili framleiðir eða selur, í sérstaka undirbók, hvort sem afhent er án endurgjalds, gegn staðgreiðslu eða gegn greiðslufresti.

(2) Undirbók samkvæmt þessari grein skal vera innbundin og blaðsíður tölusettar fyrir fram. Við sérhverja afhendingu skv. 1. mgr. skal skrá í bókina dagsetningu afhendingar, lýsingu á hinu afhenta, magn, einingarverð og heildarverð eftir því sem við verður komið.

Uppgjör sölu.
12. gr.

(1) Sala sem skráð er í sjóðvél skal daglega gerð upp samkvæmt [dagsöluyfirliti sjóðvélar]2), sbr. 3. tölul. 1. mgr. 9. gr., og færð á sérstakt [söluuppgjörsyfirlit]2). Sama gildir um sölu þeirra sem fengið hafa heimild til að nota annað söluskráningarkerfi, sbr. 10. gr. Á [söluuppgjörsyfirliti]2) skal a.m.k. koma fram (1) staðgreiðslusala, (2) sala gegn greiðslukorti, [(3) lánssala og (4) mismunur á skráðri sölu á uppgjörsstrimli sjóðvélar og talningar úr sjóðvél ásamt skýringum á þeim mismun.]1) [Þá skal einnig koma fram á dagsöluyfirliti sjóðvélar eða á söluuppgjörsyfirliti:

 1. Dagsetning.
 2. Fjöldi opnana fjárhirslu sjóðvélar án skráningar sölu.
 3. Heildarfjöldi afgreiðslna úr sjóðvél.
 4. Heildarsala samkvæmt hverjum teljara fyrir sig.
 5. Uppsöfnuð fjárhæð sem sýnir heildarsölu þá sem slegin hefur verið inn frá upphafi (grand total) og stöðu teljarans við hvert söluuppgjör.]2)

(2) Fylgiskjöl fyrir sölu hvers dags skulu [[staðfest]2)]3) af verslunarstjóra eða öðrum ábyrgum starfsmanni og geymd eins og önnur bókhaldsgögn.

(3) [Komi fram mismunur á skráðri sölu á uppgjörsstrimli sjóðvélar og talningar úr sjóðvél, sbr. 1. mgr., skal miða skatthlutfall fjárhæðarinnar við meðaltalshlutfall innheimts virðisaukaskatts viðkomandi dags, enda sé ekki vitað til hvaða skatthlutfalls fjárhæðin tilheyrir. Ef mismunur er óvenju mikill og verður til vegna sérstakra aðstæðna skal miða skatthlutfall fjárhæðarinnar við meðaltalshlutfall síðasta uppgjörstímabils.]1)

1)Sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 136/1997. 2)Sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 599/1999. 3)Sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 16/2001.
 

III. KAFLI

Sameiginlegar reglur um bókhald virðisaukaskattsskyldra aðila.
13. gr.

(1) Færa skal bókhald samkvæmt reglugerð þessari á skýran og aðgengilegan hátt og haga því þannig að þar komi fram þær fjárhæðir sem skattaðili skal gefa upp á virðisaukaskattsskýrslu í lok hvers uppgjörstímabils. Ávallt skal vera hægt að rekja einstakar fjárhæðir í uppgjörsgögnum til þeirra færslna og fylgiskjala sem á er byggt í bókhaldi. Þannig skulu skattyfirvöld jafnan geta gengið úr skugga um réttmæti virðisaukaskattsskýrslna og þeirra fylgiskjala og uppgjörsgagna sem að baki liggja.

(2) Skattaðilar skulu færa bókhald samkvæmt reglugerð þessari fyrir hvert uppgjörstímabil áður en virðisaukaskattsskýrsla tímabilsins er send.

Kaup.
14. gr.

     Í bókhaldi skal skrá vegna hvers uppgjörstímabils þau kaup vöru og skattskyldrar þjónustu sem innlendir seljendur hafa gert skattaðila reikning fyrir á tímabilinu, svo og þann innflutning hans sem hefur verið tollafgreiddur á tímabilinu. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort greiðsla vegna kaupanna hefur verið innt af hendi.

15. gr.

(1) Skjöl, sem færsla innskatts í bókhald er byggð á, skulu uppfylla skilyrði II. kafla reglugerðar þessarar um form og efni. Önnur skjöl en frumrit sölureikninga, frumrit móttekinna kreditreikninga, [[frumrit gíróseðla]1), afreikningar og rafrænir sölureikningar]2), sbr. 3.-6. gr. og [5. mgr. 8. gr.]3), teljast ekki fullnægjandi til sönnunar innskatti. [Frumrit kvittunar eða sölureiknings eða rafrænn reikningur skal liggja til grundvallar færslu á innskatti vegna innborgunar á viðskipti, sbr. 7. gr.]4) Greiðsluskjal frá tollyfirvöldum þar sem virðisaukaskattur kemur sérstaklega fram skal liggja til grundvallar innskatti vegna eigin innflutnings skattaðila.

(2) Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má færsla á innskatti vegna sameiginlegra innkaupa tveggja eða fleiri rekstraraðila, sem einn sölureikningur er gefinn út fyrir, byggjast á sameiginlegri greinargerð þar sem fram komi nafn og kennitala allra kaupenda, svo og skipting verðs og virðisaukaskatts. Árita skal á frumrit sölureiknings hver varðveitir það. Ljósrit áritaðs sölureiknings skal liggja fyrir í bókhaldi allra aðila ásamt greinargerð ef hún er gerð á sérstöku skjali. [Þegar um er að ræða rafrænan sölureikning skal ákvæðið um áritað frumrit teljast uppfyllt ef áritað prentað eintak reikningsins liggur fyrir hjá hverjum aðila kaupanna ásamt greinargerðinni.]2) [[Þá geta samrekstraraðilar sem halda sameiginlegt bókhald skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, fært innskatt eftir sérstakri sundurliðun að réttri tiltölu í viðeigandi reikninga í bókhaldi hvers aðila.]1)]3) *1)

(3) [Skjöl úr tekjuskráningarkerfi, sem fengið hafa samþykkt ríkisskattstjóra skv. 10. gr. geta legið til grundvallar færslu á innskatti í bókhaldi, önnur en greiðsluyfirlit greiðslukortafyrirtækja [, enda beri skjalið með sér tilvísun í samþykkt ríkisskattstjóra (TS-númer).]3)]1)

(4) [Ef seljandi gefur út rafrænan reikning og kaupandi er ekki með rafrænt bókhaldskerfi er prentað eintak rafræna reikningsins skv. III. kafla reglugerðar nr. 505/2013 innskattsskjal hans. Auk þeirra form- og efniskrafna sem gerðar eru í 1. mgr. skal á prentuðu eintaki rafræns reiknings koma fram að hann uppfylli kröfur reglugerðar nr. 505/2013.]3)4)

(5) [Að form- og efnisskilyrðum 4. og 5. gr. uppfylltum getur greiðslukvittun sjóðvélar, sem á uppruna sinn í rafrænu bókhaldskerfi í skilningi 5. málsl. 5. mgr. 8. gr., legið til grundvallar innskatti enda komi sá uppruni fram við prentun hennar, sbr. 2. málsl. 4. mgr.]3)

(6) [Ákvæði 2. málsl. 4. mgr., eða eftir atvikum 5. mgr., taka einnig til prentaðs eintaks rafræns [reiknings]4) vegna sameiginlegra innkaupa, sbr. 2. mgr.]3)

1)Sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 136/1997. 2)Sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 599/1999. 3)Sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 16/2001. 4)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 615/2013. *1)Efnislega hefur þessi málsliður ekki breyst. Hér er einungis um tilfærslu að ræða, þ.e. málsliður þessi var 4. málsl. 2. mgr. 15. gr. en verður 5. málsl.

16. gr.

     Færa skal til lækkunar á innskatti uppgjörstímabilsins þann virðisaukaskatt sem fram kemur á kreditreikningi seljenda vegna endursendrar vöru eða afsláttar frá verði áður keyptrar skattskyldrar vöru eða þjónustu, þar á meðal vegna skilyrts afsláttar sem verður virkur eftir afhendingu.

17. gr.

(1) Bókhaldi skal hagað þannig að skattyfirvöld geti haft eftirlit með því að aðili leiðrétti innskatt sinn ef breyting verður á forsendum frádráttar innskatts af keyptum varanlegum rekstrarfjármunum, sbr. IV. kafla reglugerðar um innskatt.a)

(2) Skattaðili skal færa upplýsingar um breytingar á forsendum frádráttar innskatts í bókhald sitt eða varðveita þær með bókhaldsgögnum.

(3) Ef starfsemi aðila er að hluta skattskyld en að hluta undanþegin skattskyldu (blönduð starfsemi) skal hann halda sérstakt yfirlit um kaup varanlegra rekstrarfjármuna. Sama gildir ef aðili notar varanlega rekstrarfjármuni þannig að innskattsfrádráttur vegna öflunar þeirra er aðeins heimill að hluta. Á yfirliti þessu skal sundurliða kaupverð án virðisaukaskatts, virðisaukaskatt sem greiddur var af kaupunum, virðisaukaskatt sem aðili getur talið til innskatts, svo og þær leiðréttingar á innskatti sem gerðar eru vegna viðkomandi rekstrarfjármunar. Hafi aðili yfirtekið leiðréttingarskyldu, sbr. 15. gr. reglugerðar um innskatt, skulu upplýsingar um fjárhæð þess innskatts, sem leiðréttingarskyldan tekur til, færðar á yfirlitið.

a)Sbr. reglugerð nr. 192/1993.

Sala.
18. gr.

     Til skattskyldrar veltu hvers uppgjörstímabils skal í bókhaldi telja hvers kyns afhendingu skattskyldrar vöru og þjónustu á tímabilinu, úttekt eiganda til eigin nota, svo og aðra afhendingu á tímabilinu sem telst til skattskyldrar veltu skv. 11. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 12. gr. sömu laga. Innborganir, sbr. 3. mgr. 13. gr. laganna, skal telja til skattskyldrar veltu þess tímabils þegar þær eru mótteknar.

19. gr.

(1) [Tekjufærsla skal byggð á samritum af útgefnum sölureikningum, sbr. 3.-5. gr. og/eða [söluuppgjörsyfirliti]2) skv. 3. mgr. 4. gr., 2. mgr. 5. gr. A og 1. mgr. 12. gr., eða gögnum úr tekjuskráningarkerfi sem aðili hefur fengið heimild fyrir, skv. 10. gr., svo og færslum í undirbók skv. 11. gr.]1)

(2) Þeir sem afhenda framleiðslu sína til vinnslu eða endursölu geta lagt afreikninga, sem samlög, samvinnufélög og aðrir slíkir aðilar gefa út, sbr. 6. gr., til grundvallar tekjufærslu sinni.

1)Sbr. 10. gr. reglugerðar 136/1997. 2)Sbr. 9. gr. reglugerðar 599/1999.

20. gr.

     Til sönnunar því að sala sé undanþegin skattskyldri veltu skv. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 skal seljandi varðveita útflutningsskýrslu eða önnur sambærileg gögn með viðkomandi sölureikningum. Ríkisskattstjóri setur nánari reglur um hvaða gögn hér um ræðir.

Útlagður kostnaður.
21. gr.

(1) Kostnaður, sem seljandi hefur lagt út fyrir kaupanda, þarf ekki að teljast hluti skattverðs seljanda, enda endurkrefji hann kaupanda um kostnaðinn án nokkurs álags eða þóknunar, sölureikningur vegna kostnaðarins sé skráður á nafn kaupanda sem fái í hendur frumrit reikningsins [[eða prentað eintak [rafræns reiknings áritað um að hann sé úr rafrænu reikningakerfi]4)]2)]3) ásamt uppgjöri. Virðisaukaskattur vegna þessara innkaupa er ekki hluti innskatts seljanda.

(2) Í uppgjöri aðila skal tilgreina fjárhæðir allra reikninga vegna útlagðs kostnaðar, ásamt tegundum kostnaðar og nöfnum seljenda. Áritað eintak uppgjörsins (samrit) skal vera bókhaldsskjal seljanda.

(3) [Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að halda opinberum þjónustugjöldum, sem greidd eru í tengslum við sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu, fyrir utan skattverð sem útlögðum kostnaði, þótt frumrit reiknings sé skráð á seljanda og kaupandi fái ekki frumrit reiknings í hendur, enda sé kaupandi endurkrafinn um kostnaðinn án nokkurs álags eða þóknunar.]1)

1)Sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 136/1997. 2)Sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 599/1999. 3)Sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 16/2001. 4)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 615/2013.

IV. KAFLI
Um bókhald þeirra sem halda skulu tvíhliða bókhald.

Almennt.
22. gr.

(1) Skattaðili sem fellur undir ákvæði þessa kafla skal hafa í fjárhagsbókhaldi sínu sérstaka reikninga fyrir þær fjárhæðir er færa skal á virðisaukaskattsskýrslu, sbr. nánar 23.-27. gr.

(2) Skattaðila er heimilt að færa fjárhæðir skv. 1. mgr. í sérstakar undirbækur eða yfirlit sem byggð eru á reikningaskipan fjárhagsbókhalds, enda séu niðurstöðutölur vegna hvers uppgjörstímabils færðar á viðeigandi bókhaldsreikninga fyrir lok skilafrests virðisaukaskattsskýrslu tímabilsins. Ávallt skal vera hægt að rekja færslur í fjárhagsbókhaldi til færslna í undirbækur sem kunna að vera haldnar samkvæmt þessari málsgrein.

Aðgreining í bókhaldi.
23. gr.

(1) Ef starfsemi aðila er að hluta skattskyld en að hluta undanþegin skattskyldu, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, skal hann í bókhaldi sínu aðgreina hin skattskyldu viðskipti frá undanþegnum viðskiptum, bæði hvað varðar tekjur og gjöld.

(2) [Tekjur og gjöld skal aðgreina í bókhaldi á aðskilda reikninga eftir skatthlutföllum.]1)

(3) Færa skal á sérstaka teknareikninga í bókhaldi sölu vöru og þjónustu sem ekki telst til skattskyldrar veltu, sbr. 12. gr. laga nr. 50/1988. Jafnframt skal færa á sérstaka gjaldareikninga þau kaup á vöru og þjónustu sem ekki bera frádráttarbæran virðisaukaskatt, sbr. 16. gr. laganna, eða bera ekki virðisaukaskatt.

(4) Í bókhaldi skal aðgreina innlend og erlend vörukaup með því að færa þau á sérstaka gjaldareikninga.

1)Sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 599/1999.

Skattreikningar og færslur á þá.
24. gr.

     Skattaðili skal hafa meðal efnahagsliða í fjárhagsbókhaldi sínu sérstaka bókhaldsreikninga (skattreikninga) sem eru eftirfarandi:

 1. Innskattsreikningur (virðisaukaskattur af innkaupum).
 2. Útskattsreikningur (virðisaukaskattur af sölu).
 3. Uppgjörsreikningur virðisaukaskatts.
 4. Biðreikningur vegna útskatts af innborgunum.

25. gr.

(1) Á innskattsreikning skal færa þann virðisaukaskatt sem heimilt er skv. 16. gr. laga nr. 50/1988 að telja til frádráttar við uppgjör á virðisaukaskatti, sbr. einnig 14.-17. gr. reglugerðar þessarar.

(2) Á útskattsreikning skal færa þann virðisaukaskatt sem fellur á skattskylda veltu skattaðila, þ.m.t. vegna úttektar eiganda á skattskyldri vöru og þjónustu.

(3) Uppgjörsreikningur er notaður við uppgjör og skil á virðisaukaskatti.

(4) Reikna skal sérstaklega útskatt vegna innborgana á viðskipti, sem teljast hluti skattskyldrar veltu á uppgjörstímabili, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, og tilgreina hann sérstaklega í uppgjörsgögnum tímabilsins. Útskattur vegna slíkra innborgana skal bókaður á kredit-hlið útskattsreiknings og debet á biðreikning skv. 4. tölul. 24. gr. reglugerðar þessarar. Þegar sölureikningur vegna viðskiptanna er gefinn út við afhendingu og hann bókaður skal útskattur vegna innborgunarinnar færður kredit á biðreikninginn og á debet-hlið útskattsreiknings.

26. gr.

(1) Að jafnaði skal færa skattfjárhæðir á innskatts- eða útskattsreikning samtímis færslum á viðkomandi gjalda- eða teknareikning í fjárhagsbókhaldi.

(2) Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má færa á skattreikningana í lok hvers uppgjörstímabils eða með öðrum reglulegum hætti, enda sé hægt að reikna skattfjárhæðirnar beint út frá reikningum bókhaldsins yfir kaup og sölu skattskyldrar vöru og þjónustu. Í þessu tilviki skal færa kaupverð eða söluandvirði að meðtöldum virðisaukaskatti á viðkomandi gjalda- eða teknareikninga. Fjárhæð skattsins er síðan reiknuð í lok tímabils sem [19,35%]2)3) af samtölu innkaupa eða sölu á tímabilinu að meðtöldum skatti eða [9,91%]1)3) þegar um er að ræða innkaup eða sölu vöru eða þjónustu skv. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988. Því næst skal færa skattfjárhæðina á innskatts- eða útskattsreikning af viðkomandi gjalda- eða teknareikningum.

(3) Ávallt skal nota þá aðferð sem um ræðir í 1. mgr. við færslu þess virðisaukaskatts sem tollyfirvöld innheimta við innflutning vöru.

(4) Gjöldum og skattfjárhæð skal skipta strax við bókfærsluna ef aðeins er heimilt að reikna skatt af innkaupum að hluta til innskatts skattaðila.

1)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 176/2008. 2)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1071/2009.3)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1144/2014.

Afstemming og jöfnun skattreikninga.
27. gr.

     Skattreikninga í bókhaldi og aðra reikninga, bækur eða yfirlit, sem færslur á virðisaukaskattsskýrslu byggjast á, skal stemma af og loka að liðnu hverju uppgjörstímabili. Innskattsreikningur er jafnaður með færslu niðurstöðu hans yfir debet-hlið uppgjörsreiknings virðisaukaskatts, en niðurstaða útskattsreiknings færist yfir kredit-hlið uppgjörsreiknings. Staða hans sýnir þannig skilaskylda fjárhæð eða þá fjárhæð sem ríkissjóður skal endurgreiða skattaðila. Við skil á skattinum eða móttöku endurgreiðslu er fjárhæðin færð á uppgjörsreikninginn sem þar með jafnast.
 

V. KAFLI

Um bókhald þeirra sem undanþegnir eru skyldu til að halda tvíhliða bókhald.
28. gr.

     Skattaðilar, [sem undanþegnir eru skyldu til færslu tvíhliða bókhalds]1), skulu færa innkaup sín og sölu á skattskyldri vöru og þjónustu í sérstök bókhaldshefti í því formi sem ríkisskattstjóri samþykkir. [---]1) Þeir sem færa tvíhliða bókhald, án þess að þeim sé það skylt, skulu haga færslu bókhalds síns eftir ákvæðum IV. kafla reglugerðar þessarar.

1)Sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 136/1997.

29. gr.

     Skattaðilar, sem undanþegnir eru skyldu til færslu tvíhliða bókhalds, skulu í lok hvers uppgjörstímabils stemma færslur í sjóðbók á tímabilinu af við færslur í bókhaldshefti skv. 28. gr. með því að taka tillit til útistandandi sölu og ógreiddra innkaupa við upphaf og lok uppgjörstímabilsins. Í þessu sambandi skal taka tillit til skattskyldra innborgana í viðskiptum skv. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988.

30. gr.

(1) Í bókhaldshefti, sbr. 28. gr., skal færa sérstaklega sérhverja sölu eða afhendingu skattskyldrar vöru eða þjónustu, svo og sérhver kaup á skattskyldum vörum eða þjónustu til nota í rekstrinum, sbr. nánar III. kafla reglugerðar þessarar. Þó er heimilt að færa í einu lagi niðurstöðutölur sjóðbóka og undirbóka í sjálf bókhaldsheftin.

(2) Ríkisskattstjóri getur sett nánari reglur um hvernig færslum í bókhaldshefti skuli hagað.
 

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.
31. gr.

     Í lok hvers reikningsárs skal telja vörubirgðir og reikna út verðmæti þeirra. Á vörutalningarlista skal koma fram magn, einingarverð og útreiknað verðmæti hverrar einstakrar vörutegundar, ásamt samtölu. Ef tilgreint einingarverð á vörutalningarlista er söluverð vöru skal skilmerkilega skýrt og rökstutt hvernig kostnaðarverð vörubirgða alls er reiknað út.

32. gr.

(1) [Skattaðilar skulu geyma bókhald sitt, bókhaldsfylgiskjöl og önnur bókhaldsgögn í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs. Þeim sem nota sjóðvélar er þó ekki skylt að varðveita innri strimla lengur en þrjú ár frá lokum viðkomandi reikningsárs enda liggi fyrir fullfrágengið bókhald og undirritaður ársreikningur. Þó skal ávallt varðveita bókhaldsgögn vegna byggingar, viðhalds og endurbóta fasteigna jafnlengi og leiðréttingarskylda varir, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

(2) Ákvæði í lögum og reglugerð um bókhald varðandi geymslu gagna sem varðveitt eru á tölvutæku formi, á örfilmu eða annan sambærilegan hátt, gilda um bókhald virðisaukaskattsskyldra aðila eftir því sem við getur átt.]1)

(3) [Um öryggisafrit rafræns bókhalds og rafrænna bókhaldsgagna fer skv. 11. gr. reglugerðar nr. 505/2013.]2)3)

1)Sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 136/1997. 2)Sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 599/1999. 3)Sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 615/2013.

[33. gr.]1)

1)Sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 599/1999.

34. gr.

     Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu skv. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

35. gr.

     Reglugerð þessi er sett með stoð í 23. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 5. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 21. gr. laganna, og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 501/1989, með áorðnum breytingum, og reglugerð nr. 531/1989, um sjóðvélar.

Fylgiskjal.

Eftirtaldar verslanir og þjónustuaðilar falla undir ákvæði 8. gr. reglugerðar þessarar:

 1. Bakarí
  Bensínstöðvar
  Blómaverslanir
  Bóka- og ritfangaverslanir
  Búsáhaldaverslanir
  Byggingavöruverslanir
  Fiskverslanir
  Frímerkjaverslanir
  Gjafavöruverslanir
  Hannyrðaverslanir
  Heimilistækjaverslanir
  Hljóðfæraverslanir
  Hljómplötuverslanir
  Húsgagnaverslanir
  Leikfangaverslanir
  Ljósmyndavöruverslanir
  Lyfjaverslanir
  Matvöruverslanir
  Mjólkurvöruverslanir
  Raftækjaverslanir
  Skóverslanir
  Torgverslanir, sem slíka starfsemi stunda að staðaldri
  Tóbaks- og sælgætisverslanir
  Úra- og skartgripaverslanir
  Vefnaðarvöruverslanir
  Véla- og varahlutaverslanir

 2. Efnalaugar
  Fjölritunar- og ljósritunarstofur
  Gistihús
  Hárgreiðslu- og rakarastofur
  Kaffihús
  Ljósmyndastofur
  Pylsuvagnar
  Skyndibitastaðir
  Smurbrauðstofur
  Snyrtistofur
  Sundstaðir, heilsuræktar-, gufubaðs- og nuddstofur
  Veitingahús

 3. Aðilar sem stunda eftirfarandi starfsemi:
  Dún- og fiðurhreinsun
  Glerslípun, ásamt gler- og speglasölu
  Hjólbarðaviðgerðir og hjólbarðasala
  Leirsmíði og postulínssala
  Skóviðgerðir
  Viðgerðir á úrum, klukkum og skartgripum

 4. Aðrir aðilar sem stunda hliðstæða eða sambærilega starfsemi og getið er um í a- til c-lið hér að framan.
   

Fara efst á síðuna ⇑