Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.10.2024 20:36:36

Reglugerð nr. 30/2011 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=30.2011.0)
Ξ Valmynd

Reglugerð
nr. 30/2011, um endurmenntun endurskoðenda.

Gildissvið.
1. gr.
 
     Reglugerð þessi tekur til endurmenntunar endurskoðenda samkvæmt 7. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur.
  
Krafa um endurmenntun.
2. gr.
     Endurskoðendur skulu sækja endurmenntun eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari til þess að tryggja að þeir viðhaldi reglulega fræðilegri þekkingu, faglegri hæfni og faglegum gildum.
 
3. gr.
     Endurskoðandi sem óskar eftir endurnýjun rétttinda sinna, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 79/2008, skal sanna að hann hafi uppfyllt endurmenntunarkröfur þriggja ára tímabils áður en honum eru veitt réttindin að nýju.
 
4. gr.

 

(1) Endurmenntun skal að lágmarki svara til 20 klukkustunda á ári og samtals 120 klukkustunda á hverju þriggja ára tímabili.

(2) Endurmenntunin skal miða að því að viðhalda þeim kröfum sem gerðar eru til þess að standast próf til löggildingar til endurskoðunarstarfa samkvæmt reglugerð nr. 589/2009 um próf til löggildingar endurskoðunarstarfa sem sett var á grundvelli laga nr. 79/2008 um endurskoðendur. Fjöldi klukkustunda í endurmenntun sem kveðið er á um í 1. mgr. skal að lágmarki svara til:

  1. 30 klukkustunda á sviði endurskoðunar. Sem dæmi um viðfangsefni eru, alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar og aðrar staðfestingar (IFAC International Assurance Pronouncements), áhættustýring og innra eftirlit, lagakröfur og aðrir faglegir staðlar sem tengjast endurskoðun og endurskoðendum.
  2. 20 klukkustunda á sviði reikningsskila og fjármála. Sem dæmi um viðfangsefni eru lög um ársreikninga og önnur sérlög og reglugerðir um reikningsskil sem og samstæðureikningsskil og settar reikningsskilareglur á grundvelli þeirra, alþjóðlegir reikningsskilastaðlar og greining fjárhagsupplýsinga, kostnaðarbókhald og stjórnendareikningsskil.
  3. 15 klukkustunda á sviði skatta- og félagaréttar. Sem dæmi um viðfangsefni eru skattalög, félagaréttur og stjórnarhættir fyrirtækja.
  4. 10 klukkustunda á sviði siðareglna og faglegra gilda. Sem dæmi um viðfangsefni eru siðareglur Félags löggiltra endurskoðenda.

 (3) Þær 45 klukkustundir sem eru umfram það lágmark sem kveðið er á um í 2. mgr. skulu falla innan stafliða a) til d).

(4) Endurmenntunartímabil endurskoðanda sem fær löggildingu í fyrsta sinn samkvæmt 2. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur hefst 1. janúar árið eftir að löggilding er veitt.

5. gr.

     Endurskoðandi sem hefur lokið endurmenntun umfram 120 klukkustundir á þriggja ára tímabilinu samkvæmt 1. mgr. 4. gr. getur flutt allt að 20 klukkustundir yfir á næsta endurmenntunartímabil.

Hvað telst til endurmenntunar.

6. gr.

     Þátttaka endurskoðanda í faglegum námskeiðum og ráðstefnum telst til endurmenntunar. Námskeið sem fram fer með rafrænum hætti telst til endur­menntunar. Hver klukkustund sem varið er til námskeiðs eða ráðstefnu telst klukkustund í endur­menntun. 

7. gr.

     Þátttaka endurskoðanda í faglegu nefndarstarfi og gæðaeftirliti á vegum Félags löggiltra endurskoðenda, prófnefndar endurskoðenda og endurskoðendaráðs telst til endur­menntunar. Hver klukkustund sem varið er til starfa í fagnefndum telst klukkustund í endur­menntun.

8. gr.

(1) Kennslustörf og fyrirlestrahald endurskoðanda teljast til endurmenntunar ef um er að ræða efni sem fellur undir 4. gr.

(2) Kennslustörf og fyrirlestrahald endurskoðenda þar sem farið er endurtekið yfir sama efni telst ekki til endurmenntunar.

(3) Kennslustörf og fyrirlestrahald endurskoðenda sem varir í 1 klukkustund samsvarar 4 klukkustundum í endurmenntun.

9. gr.

(1) Blaða- og greinaskrif teljast til endurmenntunar ef endurskoðandi:

  1. hefur skrifað sjálfur eða með öðrum faglegt efni til birtingar í blöðum, tímaritum eða bókum;
  2. er höfundur eða meðhöfundur að rannsóknarverkefni sem til dæmis er hluti af framhaldsnámi á háskólastigi.

(2) Ritverk sem telst til endurmenntunar umreiknast þannig að 2340 slög án stafabils teljast sem ein klukkustund í endurmenntun. Ef fleiri höfundar koma að verkinu ásamt endurskoðanda telst endurmenntunartími það hlutfall sem endurskoðandi hefur lagt til ritverksins.

(3) Lestur faglegs efnis samkvæmt stafliðum a) til d) í 2. mgr. 4. gr. telst til endurmenntunar, þó að hámarki 7 klukkustundir á ári.

10. gr.

     Það er á ábyrgð hvers endurskoðanda að meta hvort endurmenntun stenst þær faglegu kröfur sem fram koma í 4. gr.

Skjölun og staðfesting.

11. gr.

     Endurskoðandi skal skrá endurmenntun sína jafnóðum í rafræna gagnaskrá sem Félag löggiltra endurskoðenda hefur útbúið og með þeim hætti sem félagið ákveður.

12. gr.

     Endurskoðendaráð hefur eftirlit með því að endurskoðandi uppfylli kröfur um endur­menntun. Árlega fær endurskoðendaráð yfirlit úr rafrænni gagnaskrá Félags lög­giltra endurskoðenda um endurmenntun endurskoðenda.

13. gr.

     Endurskoðandi skal leggja fram staðfestingu á að hann hafi fullnægt endurmenntun sem svarar til 60 klukkustunda af þeim 120 klukkustundum sem krafist er á hverju þriggja ára tímabili, óski endurskoðendaráð þess. Að lágmarki skulu 10 klukkustundir í endur­menntun hvers árs vera staðfestanlegar.

Önnur ákvæði.

14. gr.

     Endurskoðendaráð getur við sérstakar aðstæður veitt endurskoðanda sem ekki hefur lokið tilskildum fjölda klukkustunda í endurmenntun í lok þriggja ára tímabilsins frest til þess að ljúka þeirri endurmenntun sem á vantar. Slík heimild skal þó ekki veitt vanti meira en 40 klukkustundir af þeim 120 klukkustundum sem krafist er samkvæmt 4. gr.

15. gr.

     Hafi endurskoðandi ekki lokið endurmenntun í samræmi við reglugerð þessa telst hann ekki hafa fullnægt skilyrðum til að viðhalda réttindum sínum sem endurskoðandi og fer með mál hans samkvæmt 17. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur.

Gildistaka og brottfall eldri reglugerða.

 16. gr.

(1) Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 79 frá 12. júní 2008 um endurskoðendur, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um endur­menntun endurskoðenda nr. 949 frá 3. desember 2003.

(2) Fyrsta þriggja ára endurmenntunartímabil skv. 7. gr. laga nr. 79/2008 hófst 1. janúar 2010, sbr. ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 79/2008.

Fara efst á síðuna ⇑