Reglugerð
nr. 974/2016, um framsetningu og innihald ársreikninga örfélaga byggt á skattframtölum („Hnappurinn“).
1. gr.
Heimild til að skila inn efnahagsyfirliti og
rekstraryfirliti í stað hefðbundins ársreiknings.
(1) Reglugerð þessi er sett með stoð í 4. málsl. 7. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga.
(2) Samkvæmt 1. málsl. 7. mgr. 3. gr. laga um ársreikninga, er örfélögum heimilt að skila efnahagsyfirliti og rekstraryfirliti, byggðu á skattframtali félagsins, í stað ársreiknings sem saminn er samkvæmt 1. mgr. sömu greinar. Telst slíkur ársreikningur, byggður á skattframtali félagsins, gefa glögga mynd af afkomu og efnahag þess í skilningi 20. tölul. 2. gr. ársreikningalaga og er því fullgildur ársreikningur í skilningi laga um ársreikninga.
(3) Undanþáguheimild samkvæmt 2. mgr. gildir ekki fyrir eftirfarandi félög:
- félög sem falla undir skilgreiningu laga nr. 3/2006, um ársreikninga á einingum tengdum almannahagsmunum,
- önnur félög en fram koma í a-lið og falla undir ákvæði 2. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi,
- félög sem falla undir skilgreiningu laga nr. 3/2006, um ársreikninga á fjárfestingarfélögum,
- félög sem falla undir skilgreiningu laga nr. 3/2006, um ársreikninga á eignarhaldsfélögum,
- félög sem nýta sér undanþáguheimildir IV. kafla laga nr. 3/2006, um ársreikninga frá beitingu kostnaðarverðsreikningsskila.
(4) Aðeins er heimilt að nota rafrænt framtalsform RSK 1.04, við skil á ársreikningi skv. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, til ársreikningaskrár. Ársreikningaskrá skal gera félögum kleift að nota upplýsingar úr framtali, sem búið er að skila til ríkisskattstjóra, til að útbúa ársreikning og skila honum til ársreikningaskrár.
2. gr.
Efnahagsyfirlit.
Efnahagsyfirlit skal setja upp með eftirfarandi hætti:
- Fastafjármunir
- Óefnislegar eignir
- Fasteignir
- Varanlegir rekstrarfjármunir, aðrir en fasteignir
- Eignarhlutir í dóttur- og hlutdeildarfélögum
- Eignarhlutir í öðrum félögum
- Veltufjármunir
- Birgðir
- Viðskiptakröfur
- Kröfur á tengda aðila
- Aðrar skammtímakröfur og fyrirframgreiddur kostnaður
- Verðbréf
- Handbært fé
- Aðrar eignir
- Eigið fé
- Hlutafé og stofnfé
- Yfirverðsreikningur innborgaðs hlutafjár
- Lögbundinn varasjóður
- Óráðstafað eigið fé/(ójafnað tap)
- Aðrir eiginfjárreikningar
- Langtímaskuldir
- Víkjandi lán
- Lífeyrisskuldbindingar
- Tekjuskattsskuldbindingar
- Aðrar langtímaskuldir
- Skammtímaskuldir
- Viðskiptaskuldir
- Vaxtaberandi skuldir
- Skuldir við tengda aðila
- Fyrirframinnheimtar tekjur
- Aðrar skammtímaskuldir
3. gr.
Rekstraryfirlit.
Rekstraryfirlit skal setja upp með eftirfarandi hætti:
- Rekstrartekjur
- Rekstrargjöld
- Afkoma fyrir afskriftir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld
- Afskriftir
- Afkoma fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld
- Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld
- Vaxtatekjur og verðbætur
- Vaxtagjöld og verðbætur
- Gengismunur peningalegra eigna og skulda
- Aðrar tekjur/gjöld
- Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld samtals
- Afkoma fyrir áhrif dóttur- og hlutdeildarfélaga
- Hlutdeild í afkomu dóttur- og hlutdeildarfélaga
- Afkoma fyrir tekjuskatt
- Tekjuskattur ársins
- Hagnaður/tap ársins
4. gr.
Skuldbindingar, ábyrgðir og ábyrgðarskuldbindingar
sem ekki koma fram á efnahagsyfirliti.
(1) Ef til staðar eru skuldbindingar, ábyrgðir og ábyrgðarskuldbindingar sem ekki koma fram á efnahagsyfirliti skulu stjórn og framkvæmdastjóri upplýsa um eftirfarandi:
- Heildarfjárhæðir allra fjárhagsskuldbindinga, ábyrgða eða ófyrirsjáanlegra skuldbindinga sem ekki koma fram á efnahagsreikningi.
- Upplýsingar um eðli og form verðmæta sem hafa verið sett til tryggingar.
- Lífeyrisskuldbindingar og skuldbindingar gagnvart eignatengdum fyrirtækjum skal tiltaka sérstaklega.
(2) Séu engar slíkar skuldbindingar, ábyrgðir eða ábyrgðarskuldbindingar til staðar, skal það staðfest af stjórn og framkvæmdastjóra.
5. gr.
Fyrirframgreiðslur og lánveitingar til stjórnenda og eigenda félagsins.
(1) Ef til staðar eru fyrirframgreiðslur og lánveitingar til stjórnenda og/eða eigenda félagsins skulu stjórn og framkvæmdastjóri upplýsa um eftirfarandi:
- Fjárhæð fyrirframgreiðslna eða lánveitinga ásamt upplýsingum um vexti, helstu skilmála og hvernig endurgreiða eigi fyrirframgreiðsluna eða lánveitinguna.
- Upplýsingar um afskriftir eða niðurfellingar fyrirframgreiðslna og lánveitinga til stjórnenda og eigenda félagsins.
- Upplýsingar um allar skuldbindingar sem félagið hefur gengist við fyrir hönd stjórnenda og eigenda félagsins ásamt upplýsingum um heildarfjárhæðir fyrir hvern flokk.
(2) Séu ekki til staðar slíkar fyrirframgreiðslur eða lánveitingar til stjórnenda eða eigenda félagsins, eða engar slíkar fyrirframgreiðslur eða lánveitingar verið afskrifaðar eða felldar niður á reikningsárinu, skal það staðfest af stjórn og framkvæmdastjóra.
6. gr.
Eignarhald, kaup og sala eigin bréfa.
(1) Ef félagið á, hefur eignast eða hefur selt hlut í sjálfu sér á reikningsárinu skal upplýsa um eftirfarandi atriði:
- Ástæður kaupanna á árinu, heildarfjölda keyptra hluta og hlutfall þeirra af útgefnu hlutafé, ásamt upplýsingum um nafnverð og kaupverð þeirra.
- Heildarfjölda þeirra hluta og hlutfall af útgefnu hlutafé, sem félagið átti í lok reikningsárs, ásamt upplýsingum um nafnverð og kaupverð þeirra.
- Heildarfjölda þeirra hluta og hlutfall af útgefnu hlutafé, sem félagið seldi á reikningsárinu, ásamt upplýsingum um nafnverð og söluverð þeirra.
(2) Eigi félagið ekki hlut í sjálfu sér, eða hafi það ekki keypt eða selt eigin hluti á reikningsárinu, skal það staðfest af stjórn og framkvæmdastjóra.
7. gr.
Skýringar með efnahagsyfirliti og rekstraryfirliti.
Með efnahagsyfirliti og rekstraryfirliti skal upplýsa um eftirfarandi atriði:
- Heiti félagsins, kennitölu þess og lögheimili.
- Hver tilgangur félagsins er samkvæmt samþykktum þess.
- Að ársreikningurinn byggist á skattframtali félagsins í samræmi við heimild í 7. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga.
- Að efnahagsyfirlit, rekstraryfirlit og skýringar sem saman mynda ársreikning félagsins gefi glögga mynd í skilningi laga nr. 3/2006, um ársreikninga.
- Að ársreikningurinn byggist á kostnaðarverðsreikningsskilum.
- Þær upplýsingar sem krafist er, sbr. ákvæði 4. gr.
- Þær upplýsingar sem krafist er, sbr. ákvæði 5. gr.
- Þær upplýsingar sem krafist er, sbr. ákvæði 6. gr.
- Fjárhæð hlutafjár samkvæmt samþykktum félagsins.
8. gr.
Skil til ársreikningaskrár.
(1) Við skil á ársreikningi til ársreikningaskrár skv. 1. gr. skal nota rafrænt framtalsform RSK 1.04. Ársreikningaskrá skal gera félögum kleift að nýta upplýsingar úr framtali, sem búið er að skila til ríkisskattstjóra, við gerð ársreiknings til birtingar hjá ársreikningaskrá.
(2) Við hvern lið í efnahagsyfirliti og rekstraryfirliti skal sýna samsvarandi fjárhæð fyrir fyrra reikningsár og skulu yfirlitin merkt með nafni félagsins og reikningsári.
(3) Með ársreikningnum skal fylgja upplýsingablað þar sem fram kemur nafn félagsins, kennitala þess og póstfang og skal þar gera grein fyrir eftirfarandi:
- Staðfesta skal að fyrir liggi samþykki stjórnar og framkvæmdastjóra fyrir því að ársreikningurinn sé byggður á framtali félagsins.
- Staðfesta skal eftirfarandi:
- að félagið sé ekki eining tengd almannahagsmunum í skilningi 9. tölul. 2. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga,
- að félagið falli ekki undir ákvæði 2. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi,
- að félagið sé ekki eignarhaldsfélag í skilningi 6. tölul. 2. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga,
- að félagið sé ekki fjárfestingarfélag í skilningi 16. tölul. 2. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga,
- að félagið nýti sér ekki heimild í 31. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga til að meta varanlega rekstrarfjármuni á gangvirði,
- að félagið nýti sér ekki heimild í 36. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga til að meta fjáreignir á gangvirði,
- að félagið nýti sér ekki heimild í 39. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga til að meta fjárfestingareignir á gangvirði.
- Færa skal inn kennitölur stjórnarmanna. Ef stjórnarmaður er erlendur, án íslenskrar kennitölu, skal koma fram nafn hans og heimaland.
- Færa skal inn kennitölu framkvæmdastjóra félagsins.
- Færa skal inn kennitölur tíu stærstu hluthafa eða allar ef hluthafar eru færri en tíu og hundraðshluta hlutafjár hvers þeirra í lok reikningsárs. Ef um erlendan aðila er að ræða, án íslenskrar kennitölu, skal koma fram nafn hans og heimaland.
- Færa skal inn nafn, kennitölu og eignarhluta innlendra dótturfélaga en annars nafn, eignarhlut og heimaríki erlendra dótturfélaga.
9. gr.
Refsiákvæði.
Brot gegn reglugerð þessari varðar refsingu samkvæmt 2. tölul. 122. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga.
10. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 7. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga, öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda fyrir ársreikninga 2016.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. reglugerðar þessarar er heimilt að víkja frá samanburðarári fyrir ársreikninga sem gerðir eru fyrir reikningsárið 2016.