Skattalagasafn ríkisskattstjóra 23.11.2024 14:55:47

Reglugerð nr. 436/1998, kafli 5 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=436.1998.5)
Ξ Valmynd

V. KAFLI
Vörugjaldsskírteini og endurgreiðslur.

15. gr.
Skírteini framleiðenda sem nota vörugjaldsskylt hráefni eða efnivöru.

(1) Framleiðendur vöru, sem nota í framleiðslu sína hráefni eða efnivöru sem ber vörugjald, geta fengið heimild hjá skattstjóranum í Reykjavík til að kaupa slíkt hráefni eða efnivöru án vörugjalds, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 2. gr.

(2) Framleiðandi sem óskar eftir heimild skv. 1. mgr. skal sækja um hana til skattstjórans í Reykjavík í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Í umsókn skal m.a. tilgreina heiti og tollflokkun hráefnis eða efnivöru sem nýtt er til framleiðslunnar.

(3) Telji skattstjórinn í Reykjavík að fullnægjandi upplýsingar séu fram komnar gefur hann út sérstakt skírteini til framleiðanda. Skírteinið heimilar viðkomandi framleiðanda að kaupa innanlands án vörugjalds hráefni eða efnivöru til nota í eigin framleiðslu. Skírteinið veitir framleiðanda jafnframt rétt til niðurfellingar eða endurgreiðslu vörugjalds af innflutningi á hráefni eða efnivöru til nota í eigin framleiðslu. Tilgreina skal í skírteinið til hvaða vörutegunda það tekur.

(4) Heimild til undanþágu og réttur til endurgreiðslu samkvæmt þessari grein nær einungis til hráefnis eða efnivöru sem verður hluti af hinni endanlegu framleiðsluvöru. Heimildin nær hins vegar hvorki til kaupa eða innflutnings á efnivörum til byggingar eða viðhalds á fasteignum né til nýsmíði eða viðgerðar á ökutækjum.

16. gr.
Niðurfelling eða endurgreiðsla vörugjalds af innfluttu hráefni eða efnivöru.

(1) Innflytjandi getur á gjalddaga hvers uppgjörstímabils fengið fellt niður eða endurgreitt vörugjald af vöru sem hann hefur flutt til landsins og vörugjald reiknaðist af við innflutning, hafi hann á uppgjörstímabilinu selt vöruna sem hráefni eða efnivöru til handhafa vörugjaldsskírteinis skv. 15. gr. Sama gildir um innflutning handhafa vörugjaldsskírteinis skv. 15. gr. á hráefni eða efnivöru til nota í eigin framleiðslu.

(2) Skilyrði niðurfellingar eða endurgreiðslu samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. er að kaupandi framvísi vörugjaldsskírteini skv. 15. gr. við kaupin og innflytjandi skrái númer þess og gildistíma á sölureikninginn.

(3) Sækja skal um niðurfellingu eða endurgreiðslu skv. 1. mgr. í sérstakri skýrslu til skattstjórans í Reykjavík, sem vera skal í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Í endurgreiðsluskýrslu skulu m.a. koma fram upplýsingar um sölu eða nýtingu þess hráefnis eða efnivöru sem endurgreiðslubeiðnin snertir, þar með talið heiti kaupenda, heiti vöru, heildarmagn hennar og fjárhæð vörugjalds sem óskað er endurgreiðslu á. Innflytjanda er heimilt að láta skattstjóra í té yfirlit yfir þá viðskiptavini sem kaupa af honum hráefni eða efnivöru án vörugjalds á grundvelli vörugjaldsskírteinis skv. 15. gr. og þarf hann þá ekki að tilgreina nöfn kaupenda á skýrslu hverju sinni. Skýrslu skal skilað eigi síðar en 15 dögum fyrir gjalddaga uppgjörstímabils.

(4) Fallist skattstjórinn í Reykjavík á skýrsluna án frekari skýringa skal niðurfelling eða endurgreiðsla fara fram á gjalddaga. Sé endurgreiðsluskýrslu ekki skilað fyrr en að loknum tilgreindum tímafresti skal endurgreiðsla fara fram að liðnum 15 dögum frá skilum hennar.

(5) Flytji handhafi vörugjaldsskírteinis skv. 15. gr. inn hráefni eða efnivörur eingöngu til nota í eigin framleiðslu getur hann fengið sjálfkrafa niðurfellingu samkvæmt þessari grein, þ.e. án umsóknar skv. 3. mgr., enda óski hann þess við skattstjórann í Reykjavík.

(6) Niðurfelling eða endurgreiðsla vörugjalds samkvæmt þessari grein er kæranleg skv. 23. gr. Kæru skal þó beint til skattstjórans í Reykjavík.

17. gr.
Skírteini heildsala.

     Fái heildsali sérstaka skráningu skv. 9. gr. gefur skattstjóri út viðeigandi skírteini honum til handa, sbr. 3. mgr. 9. gr.

18. gr.
Gildistími vörugjaldsskírteina o.fl.

(1) Gildistími skírteina skv. 15. og 17. gr. skal [vera að hámarki 24 mánuðir í senn]1).

(2) Noti skírteinishafi skv. 15. gr. vöru, sem hann hefur keypt gegn framvísun skírteinis, á annan hátt en til framleiðslu skal hann innheimta og standa skil á vörugjaldi af heildarandvirði vörunnar við afhendingu hennar til annars aðila eða við úttekt til eigin nota. Jafnframt getur skattstjóri þá afturkallað samþykki til sjálfkrafa endurgreiðslu skv. 5. mgr. 16. gr.

(3) Brjóti sérstaklega skráður heildsali gegn reglum, sem ríkisskattstóri*1) setur, getur skattstjóri afturkallað skírteini skv. 17. gr. og eftir atvikum endurákvarðað vörugjald frá og með þeim tíma sem aðili telst hafa brotið gegn reglunum.

1)Skv. 1. gr. reglugerðar nr. 52/2000. *1)Svo birt í Stjórnartíðindum en á að vera ,,ríkisskattstjóri".

Fara efst á síðuna ⇑