Skattalagasafn ríkisskattstjóra 23.11.2024 11:55:51

Reglugerð nr. 436/1998, kafli 6 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=436.1998.6)
Ξ Valmynd

VI. KAFLI
Bókhald o.fl.

19. gr.
Vörugjald sem stofn til virðisaukaskatts.

     Vörugjald myndar stofn til virðisaukaskatts hvort sem vara er flutt inn eða keypt innanlands.

20. gr.
Bókhald.

(1) Gjaldskyldir aðilar, sbr. 7. gr., aðrir en þeir sem flytja inn gjaldskyldar vörur til eigin nota, skulu haga bókhaldi sínu þannig að skattyfirvöld geti á hverjum tíma gengið úr skugga um réttmæti skýrslna um vörugjald.

(2) Sala og önnur afhending gjaldskyldra aðila skv. 2. og 3. tölul. 7. gr. á gjaldskyldum vörum er gjaldskyld að því marki sem þeir geta ekki sýnt fram á með bókhaldi og gögnum þess að hún sé undanþegin. Vanræki aðili að leggja vörugjald á gjaldskylda vöru ber honum eigi að síður að standa skil á gjaldinu.

(3) Í bókhaldi gjaldskyldra aðila skv. 2. og 3. tölul. 7. gr. skal færa sérstaka reikninga fyrir innkaup og sölu gjaldskyldrar vöru. Reikninga þessa má færa í lok hvers uppgjörstímabils, enda sé á grundvelli þeirra hægt að reikna með beinum hætti fjárhæðir vörugjalds. Þeir sem selja bæði gjaldskyldar og gjaldfrjálsar vörur skulu halda sölu gjaldskyldra vara greinilega aðgreindri í bókhaldi sínu. Jafnframt skal aðgreina gjaldskylda sölu frá undanþeginni samkvæmt 1. og 2. mgr. 2. gr. Loks skal aðgreina sölu og innkaup gjaldsskyldrar starfsemi eftir gjaldtegund og gjaldflokkum, sbr. 3. og 4. gr. Auk framangreinds ber sérstaklega skráðum heildsölum að haga bókhaldi sínu eftir reglum, sem ríkisskattstjóri setur.

(4) Ríkisskattstjóri getur sett nánari reglur um færslur bókhalds samkvæmt þessari grein.a)

a)Reglur nr. 358/1996, um birgðabókhald o.fl. vegna sérstakrar skráningar skv. 11. gr. reglugerðar um vörugjald nr. 356/1996 (nú 9. gr. reglugerðar nr. 436/1998).

21. gr.
Útgáfa sölureikninga.

(1) Gjaldskyldur aðili skv. 2. og 3. tölul. 7. gr. skal færa sölu og aðra afhendingu á sölureikning þannig að magn, tegund og heildarverð vöru ásamt fjárhæð vörugjalds komi fram.

(2) Sé fallið frá innheimtu vörugjalds vegna undanþágu skv. 2. mgr. 2. gr., sbr. 15. eða 17. gr., skal tilgreina á sölureikningi númer og gildistíma vörugjaldsskírteinis sem kaupandi framvísar.

(3) Til sönnunar á undanþágu vegna sölu úr landi skal seljandi varðveita útflutningsskýrslur eða sambærileg útflutningsgögn með viðkomandi sölureikningi. Til sönnunar á undanþágu vegna sölu til varnarliðsins skal varðveita pöntunarseðla eða önnur sambærileg gögn frá varnarliðinu með viðkomandi sölureikningi.

(4) Þegar heildsali sem fengið hefur sérstaka skráningu skv. 9. gr. kaupir gjaldskyldar vörur án vörugjalds skal tilgreina á sölureikningi það magn eða það verð sem myndar gjaldstofn vörugjalds.

(5) Seljendum vöru, sem ekki er vörugjaldsskyld, er óheimilt að tilgreina vörugjald á sölureikning. Geri þeir það skulu þeir skila gjaldinu í ríkissjóð, nema leiðréttingu verði komið við gagnvart kaupanda vörunnar. Sama gildir um gjaldskylda aðila, sbr. 7. gr., sem tilgreina á reikningum sínum of hátt vörugjald eða vörugjald af viðskiptum sem ekki eru gjaldskyld. Til sönnunar á leiðréttingu skal gefa út kreditreikning til kaupanda.
 

Fara efst á síðuna ⇑