Skattalagasafn ríkisskattstjóra 28.3.2024 22:41:52

Lög nr. 94/2019, kafli 9 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=94.2019.9)
Ξ Valmynd

IX. KAFLI

Endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum.

42. gr.

Lögfesting.

Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 537/2014 um sérstakar kröfur í tengsl­um við lögboðna endurskoðun á einingum sem tengjast almannahagsmunum og niðurfellingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2005/909/EB, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópu­sambandsins nr. 31 frá 9. maí 2018, bls. 29–64, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlög­unum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102, frá 27. apríl 2018, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993.

43. gr.

Eftirlit.

Endurskoðendaráð fer með eftirlit samkvæmt þessum kafla og er lögbært yfirvald í samræmi við 20. gr. reglugerðar (ESB) nr. 537/2014.

44. gr.

Heimild til að veita þjónustu sem ekki felur í sér endurskoðun.

Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki getur þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar (ESB) nr. 537/2014 veitt skattaþjónustu skv. i. og iv.–vii. lið a-liðar annarrar undirgreinar 1. mgr. og verðmatsþjónustu skv. f-lið annarrar undirgreinar 1. mgr. að uppfylltum skilyrðum 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.

45. gr.

Skráahald.

Endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki skulu geyma endurskoðunargögn í sjö ár hið minnsta, sbr. 15. gr. reglugerðar (ESB) nr. 537/2014.

46. gr.

Hámarkstími endurskoðunarverkefnis.

Hámarkstímabil verksamnings endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis skal vera tíu ár, sbr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 537/2014. Þó má lengja verksamning í:

  1. Tuttugu ár ef opinbert útboðsferli vegna endurskoðunarinnar fer fram skv. a-lið 4. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 537/2014.
  2. Tuttugu og fjögur ár ef fleiri en eitt endurskoðunarfyrirtæki eru ráðin á sama tíma skv. b-lið 4. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB ) nr. 537/2014.

47. gr.

Útvistun verkefna.

(1) Endurskoðendaráði er heimilt að útvista hluta þeirra verkefna sem því eru falin skv. 24. gr. reglugerðar (ESB) nr. 537/2014. Skilgreining verkefna og skilmálar skulu vera skýrir.

(2) Eftirfarandi verkefnum er þó ekki heimilt að útvista:

  1. gæðaeftirliti endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja á einingum tengdum almanna­hagsmunum,
  2. rannsóknum sem koma til vegna gæðaeftirlits eða tilvísunar af hálfu annars yfirvalds og
  3. ákvörðunum og beitingu viðurlaga sem tengjast gæðaeftirliti eða rannsóknum á endur­skoðun á einingum tengdum almannahagsmunum.
Fara efst á síðuna ⇑